
Mynd: Everton FC.
Í kvöld var komið að allra síðasta derby leiknum á Goodison Park þegar Liverpool kom í heimsókn í leik sem upphaflega átti að fara fram í desember en var frestað vegna veðurs.
Sú frestun kom sér ágætlega fyrir Everton því að gengi liðsins í desember var ekki upp á marga fiska, en algjör viðsnúningur hafði átt sér stað með endurkomu David Moyes og liðið hafði unnið síðustu þrjá úrvalsdeildarleiki í röð.
Bæði lið voru þó svolítið að sleikja sárin eftir að hafa dottið út úr FA bikarnum um síðustu helgi. Everton tapaði 2-0 gegn Bournemouth, sem voru búnir að vera á töluverðri siglingu í úrvalsdeildinni, á meðan Liverpool fengu háðulega útreið gegn botnliði ensku B-deildarinnar, Plymouth Argyle.
Nokkuð var um meiðsli í herbúðum okkar manna, en þeir Nathan Patterson, Seamus Coleman, Dwight McNeil, Dominic Calvert-Lewin, Armando Broja og Youssef Chermiti voru allir meiddir. Auk þess var óljóst með Vitaly Mykolenko, sem var hvíldur í FA bikarleiknum vegna minniháttar meiðsla á kálfa, en hann var þó orðinn heill fyrir leik. Nýi leikmaður okkar, Charly Alcaraz, byrjaði á bekknum.
Hvað Liverpool varðar þá voru þeir að spila sínu sterkasta liði en ég heyrði að varnarmaðurinn Joe Gomez hefði spilað á ný eftir meiðsli í FA bikarleiknum — en aðeins enst í 11 mínútur og haltraði þá út af.
Pressan var öll á Liverpool sem þurftu sigur í kvöld til að reyna að slíta sig frá liðunum sem eru að anda ofan í hálsmálið á þeim, en Goodison Park hefur ekki reynst þeim gjöful mið undanfarið, eins og við þekkjum, því þeir höfðu aðeins unnið tvo af síðustu 12 leikjum á okkar ástsæla heimavelli — og þurftu að auki að þola 2-0 tap á síðasta tímabili, sem gerði út um titilvonir þeirra, eins og kunnugt er. Gaman að rifja það upp hér…
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, O’Brien, Gana, Garner, Ndiaye, Doucouré, Lindström, Beto.
Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Young, Harrison, Alcaraz, Iroegbunam, Sherif, Heath.
Sem sagt, svipað upplegg og síðast, nema hvað Mykolenko kom inn í liðið í vinstri bakvörðinn, sem er mjög gott að sjá. Þetta er auk þess ekki alveg jafn þunnskipaður bekkur og í síðasta leik, en maður hefði kannski viljað sjá einn markvörð þar, frekar en tvo.
Leikmenn beggja liða virkuðu hálf taugaveiklaðir fyrstu tíu mínúturnar en það lagaðist þegar Everton fékk aukaspyrnu á 11. mínútu og skoruðu í kjölfarið.
Markið var einfalt, lág stunga frá Branthwaite í gegnum vörn Liverpool, beint í hlaupaleiðina hjá Beto. Hægri bakvörður þeirra spilaði Beto réttstæðan og hann setti boltann snyrtilega framhjá Allison. 1-0 fyrir Everton!
En Mac Allister náði að jafna með skalla á 15. mínútu eftir háa fyrirgjöf inn í teig. Hálfgert grísamark – skallaði aftur fyrir sig einhvern veginn og hitti rétt innfyrir stöng. Tvö mörk eftir samtals tvær tilraunir hjá liðunum.
En svo reið ógæfan aftur yfir þegar Ndiaye fór meiddur út af á 25. mínútu og Harrison kom inn á.
Liverpool fengu eitt færi í lok uppbótartíma, en Diaz var hvort eð er rangstæður. Ennþá bara eitt skot á mark hjá hvoru liði (ef löglegar sóknir eru taldar).
1-1 í hálfleik.
Everton fékk fínt færi á 53. mínútu þegar há sending kom inn í teig, beint á Doucouré, sem skallaði framhjá. Harrison átti svo skot að marki eftir að Doucouré og Beto náðu að fífla Van Dick, en skotið frá Harrison fór rétt framhjá stöng.
Á 57. mínútu átti Conor Bradley að fá sitt seinna gula spjald, fyrir að stoppa skyndisókn í fæðingu, og Michael Oliver fór í vasann… og hætti svo við. Týpískt. Slot kippti Bradley að sjálfsögðu strax út af. Guilty as charged. Alltaf þarf Liverpool hjálp frá dómurunum.
Og til að bæta gráu ofan á svart átti Everton að fá viti á 61. mínútu, þegar varnarmaður Liverpool sló boltann frá (innan teigs) þegar Beto var að komast í gegn. Ó. Þol. Andi.
Everton kom svo boltanum í netið á 67. mínútu, en O’Brien var réttilega dæmdur rangstæður í aðdragandanum.
Everton skapaði glundroða í vörn Liverpool á 70. mínútu, þegar Van Dick sendi boltann beint á Tarkowski, sem var við D-ið, en hann hikaði og sendi svo á Doucouré sem átti slakt skot.
Liverpool, sem ekki búið að geta rassgat í öllum seinni hálfleiknum, náðu að sjálfsögðu setja annað grísamark á 75. mínútu. Óverðskuldað mark og hver var þar að verki, annar en Salah, sem potaði inn eftir pinball í teignum? Fyrir utan eina háa stoðsendingu inn í teig hafði Salah ekki sést allan leikinn, sem við verðum að gefa Mykolenko hrós fyrir — hann virðist hafa ágætis tök á honum.
Gueye og Lindström fóru út af fyrir Alcaraz og Iroegbunam á 75. mínútu og Garner var svo skipt út af fyrir Young á 87. mínútu.
Ég verð líka að minnast á það að í lokin fékk Liverpool að klára skyndisókn þegar ekki færri en TVEIR leikmenn Everton lágu í grasinu með höfuðmeiðsli. Hvernig réttlætir maður svoleiðis?!?
En, sem betur fer var réttlætinu fullnægt þegar Everton jafnaði í blálokin — sem var ekkert nema sanngjarnt, þar sem Everton hafði verið betra liðið í seinni hálfleik. Everton fékk aukaspyrnu og náðu hárri sendingu fyrir mark frá vinstri kanti. Á leið sinni í gegnum teiginn fékk boltinn að skoppa milli manna, þangað til Iroegbunam framlengdi með skalla á Tarkowski sem þrumaði inn hægra megin í teig. Og það varð allt vitlaust.
YNDISLEGT!!
VAR reyndi sitt besta til að finna eitthvað til að bjarga Liverpool. Fyrst var rangstaða athuguð og útilokuð. Svo var einhver minniháttar snerting skoðuð en einnig útilokuð og þá fengum við að öskra úr okkur lungun aftur!
Áhorfendur sungu hástöfum annað árið í röð „You lost the league at Goodison Park!“. Vonandi reynist það rétt en allir góðir menn fögnuðu allavega innilega á Ölveri.
En þetta var ekki búið því í kjölfarið fylgdi yndisleg dramatík eftir að dómarinn flautaði til leiksloka, því Liverpool liðið gjörsamlega missti hausinn! Curtis Jokes fékk rautt spjald fyrir slagsmál, og Arne Slot og aðstoðarstjóri þeirra, Spike Hasselhöff, eða hvað hann nú heitir, fengu sömu meðferð fyrir mótmæli. Fyrir okkur Everton (og reyndar Arsenal stuðningsmenn líka) var þetta bara aukabónus fyrir kvöldið! Meira svona! It’s the gift that keeps on giving!
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Mykolenko (6), Tarkowski (8), Branthwaite (7), O’Brien (6), Garner (7), Gueye (6), Doucoure (6), Ndiaye (6), Lindstrom (6), Beto (7). Varamenn: Harrison (6), Alcaraz (6), Iroegbunam (6).
Maður leiksins að mati Sky: James Tarkowski.
Ef ég á að segja alveg eins og er þá — miðað við hvernig seinni hálfleikur þróaðist — voru Liverpool menn heppnir að fara með jafntefli úr þessum leik.
Við sem styðjum Everton höldum okkar striki, lítum björtum augum til framtíðar með nýjum velli og nýjum sigrum þar — og kætumst enn á ný með þessu frábæra lagi frá Elton John!
I Guess That’s Why They Call It The Blues!
Áfram veginn!
Það lið sem vinnur hefur unnið fleiri leiki á Goodison, svo það er algjörlega öruggt að Everton vinnur ekki í kvöld, en ég vona auðvitað það besta.
Ég yrði sáttur með jafntefli.
Eigum við fulltrúa á leiknum í kvöld?
Já, fjórir á okkar vegum á pöllunum! Þar á meðal varamaður í stjórn, Róbert Eyþórsson. 🙂
spái að Róbert skelli í mcdonalds að leik loknum
Frábært! Þetta hefur verið geggjað!
Hahaha, Diddi! 😀 Klárlega — og mjög líklega tekur hann allavega einn með í nesti fyrir flugvélina.
Það er bara orðið gaman að horfa á okkar menn eftir að það kom alvöru maður í brúna að eigendurnir skuli hafa séð þetta fyrir löngu síðan að steingervingurinn Dyche var vandamálið.
Þvílíkur munur að vera með þjálfara sem veit eitthvað um fótbolta og uppsetningu á liði. Og Beto eitthvað annað enn DCL. Slæmt að missa Ndiaye af velli. Koma svo og setja tvö í seinni 🫣
Rosalegur leikur og mikilvægt stig fyrir okkur.
Tarkowski WOW þvílíkt draumamark.
Frábær barátta hjá okkar mönnum allan leikinn, bíð spenntur eftir næsta leik 💙💙💙
Geggjað að jafna í restina enn fúlt að leyfa LFC áhorfendum að eiga seinustu mínútum fyrir jöfnunar markið. Everton var betra fram að marki LFC enn náði litlum takti eftir það. Athyglisvert hvað VAR reyndi að finna allt að góðu jöfnunarmarkið Everton og LFC menn voru svekktir í leikslok 🤣🤗
Þetta var stórkostlegt að ná stigi úr þessum leik, við hefðum ekki náð því ef hann hefði farið fram þegar hann átti að vera. Maður var alveg búinn að afskrifa stigið, en það kom eftir þetta flotta skot frá fyrirliðanum á loka sekúndunni. Nú þarf bara að halda áfram á sömu braut.
Eitt stig niðurstaðan en manni líður eins og þau hafi verið þrjú. Liverpool menn greinilega ekki vanir mótlæti og misstu alveg hausinn í lokin. Tvö rauð á þau og eitt á Doucouré fyrir fagn, skildist mér. Kannski er það færi fyrir Alcaraz að láta ljós sitt skína?
púl 3rauð
Það var svolítið erfitt að horfa á fyrri hálfleikinn í bikarnum gegn Bournemouth, þar sem Tarkowski átti afleitan leik (sem er óvenjulegt). En það yljaði mér smá um hjartarætur að vita að hann svarar yfirleitt alltaf fyrir svoleiðis strax í næsta leik, eins og kom glögglega í ljós.
Svo má heldur ekki horfa framhjá því að Liverpool byrjaði leikinn ekki langt frá sínu sterkasta liði og hefðu getað sett tvo nýja sóknarmenn á toppinn til að breyta leiknum. Eða, tja… allavega einn, því hinn var Darwin Nunez (hóst). Til samanburðar þá var Everton með tvo markverði á bekknum, tvo kjúklinga, tvo varnarmenn og restin voru miðjumenn. Það var enginn „senior“ sóknarmaður á bekknum hjá Everton.
Úff… andrúmsloftið á vellinum eftir þennan leik…
https://www.youtube.com/watch?v=e6jSElL3xIQ
Ótrúleg stemming á vellinum í lok leiks og lengi á eftir. Frábær endir á þessum leik og hefði verið súrt sérstaklega fyrir heimafólk ef að þessi leikur hefði tapast. Það verður vonandi frábær stemning á seinast heimaleiknum á Goodison í Maí á móti Sothampton, maður er þegar orðinn spenntur að fá að upplifa það.
Frábær leikskýrsla. Takk takk. Ótrúleg dramatík í lokin. ehehehheh.