Mynd: Everton FC.
Everton tekur á móti Peterborough á heimavelli í kvöld, klukkan 19:45, í þriðju umferð FA bikarsins en stóru fréttu dagsins eru þær að Everton lét Sean Dyche taka pokann sinn í dag. Óvæntar en nýskeðar fréttir. Baines og Coleman koma því til með að stýra liðinu í dag.
Uppstillingin: Virginia, Mykolenko, Branthwaite, O’Brien, Keane, Patterson, Gana (fyrirliði), Mangala, Armstrong, Ndiaye, Beto.
Varamenn: Begovic, Young, Leban, Butterfield, Harrison, Doucouré, Lindström, Broja.
Everton stillti upp í nokkurs konar 3-4-3 aðferð (ef með bolta) en féllu niður í fimm manna varnarlínu án bolta. Virginia í markinu, Branthwaite, O’Brien og Keane í öftustu línu, Gana og Mangala á miðjunni, með bakverðina Mykolenko og Patterson á köntunum — jafnvel nokkuð hátt uppi. Fremstir voru svo Ndiaye, Beto og Armstrong. Maður tók eftir því að stundum voru Mykolenko og Patterson svo hátt uppi að það voru 5 Everton menn í framlínunni!
Everton mun meira með boltann (60/40) en Peterborough menn voru líflegir og sprækir, allavega framan af. Fyrsta skotið á rammann var hins vegar frá Beto, snemma leiks, rétt utan teigs, en beint á markvörð. Engin hætta. Gana átti svo skot 20. mínútu, en markvörður sló boltann frá. Ekki mikil hætta þar heldur. En Peterborough voru hins vegar heppnir að fá ekki á sig mark örskömmu síðar, þegar Mangala tók skot í fyrstu snertingu, eftir hreinsun út úr teig. Frábær tækni hjá Mangala, en boltinn í þverslána.
Peterborough svöruðu á 34. mínútu með skoti eftir skyndisókn, þar sem Mykolenko var fyrst skúrkur en svo hetja þegar hann varð valdur að skyndisókn, þegar hann skallaði hreinsun fram á sóknarmann Peterborough, en kom svo í veg fyrir hættulegt færi með því að skriðtækla fyrir skot á mark og ná þannig að koma boltanum í horn. En Peterborough náðu skoti á mark upp úr horninu, sem stefndi á mark en endaði í bakhlutanum á O’Brien.
Lauk þar með að mestu þætti Peterborough í fyrri hálfleik, en Everton hélt áfram pressunni.
Á 40. mínútu átti Branthwaite háa sendingu fyrir mark, beint á kollinn á Beto, sem skallaði í átt að marki, en beint á markvörð. En Beto gerði mun betur stuttu síðar, þegar hann fékk stungusendingu frá Armstrong á 42. mínútu, fór með boltann í sveig framhjá markverði og setti boltann í autt netið. 1-0 fyrir Everton!
Og þannig var það í hálfleik!
Það var nokkuð lítið að frétta í seinni hálfleik, sem var ágætt. Peterborough ógnuðu ekki mikið og Everton liðið sátt við stöðuna.
Það fyrsta sem var þess virði að hripa niður var tvöföld skipting hjá Everton á 68. mínútu: Beto og Armstrong út af fyrir Harrison og Broja.
Á 85. mínútu komst Everton í skyndisókn þar sem markvörður Peterborough fór í svakalegt skógarhlaup langt úti á velli. Broja gerði vel í að komast með bolta framhjá honum en var svo tæklaður af síðasta varnarmanni örskömmu síðar. Í því samstuði meiddist Broja aftur (að sjálfsögðu) og þurfti að fara út af á börum. Greyið kallinn bara virðist ekki eiga séns á að halda sér heilum. Doucouré kom inn á fyrir hann og Lindström var skipt inn á í leiðinni fyrir Mangala.
10 mínútum var bætt við og rétt fyrir lok leiks fékk Everton víti. Íslenski þulurinn vildi reyndar meina að það væri tvöföld ástæða fyrir vítinu, þar sem togað hefði verið í treyjuna á O’Brien og stuttu síðar var Branthwaite snúinn niður í teignum. Ein eða tvær ástæður — það skiptir ekki máli, því Ndiaye fór á punktinn og sendi markvörðinn í vitlaust horn og skoraði örugglega.
Öruggur 2-0 sigur Everton í höfn.
Sky Sport gefa ekki út einkunnir fyrir FA bikarinn, svo ég muni, þannig að þetta verða lokaorðin. Everton er í pottinum fyrir næstu umferð.
Ég var tilbúinn með spá byggða á þeirri staðreynd að þetta verður fyrsta og síðasta heimsókn Peterborough á Goodison og þar af leiðandi óhjákvæmilegt að Everton myndi „gera Everton“ og tapa. Ég var meira að segja alveg viss um hver í þeirra liði væri að fara að skora sigurmarkið. Ég sá það alveg fyrir mér að sonur Ashley Young (man ekki hvað hann heitir og er drullusama), fengi boltann, klobbaði pabba sinn og lúðraði honum svo í samskeytin. En núna, nú eygi ég von um betri tíð, ég ætla að vera bjartsýnn og spá Everton 4-1 sigri, Beto með þrennu. Furðulegt hvað það er gott fyrir geðheilsuna hjá manni að einhver kall í útlöndum missi vinnuna. UTFT
Þeir leyfa Beto ekki að spila nema smá í seinni
Broja hlítur að vera með óheppnari leikmönnum.
Væntanlega ekki meira með.
Enn slappur seinni hálfleikur hjá okkur.
Jæja, ekki varð þetta nein flugeldasýning en Everton er amk komið áfram í keppninni og það er það sem skiptir mestu máli.
Nú verður spennandi að sjá hver verður næsti stjóri og hvort hann verði kominn fyrir næsta leik. Hver finnst ykkur líklegastur og hvern viljið þið fá?
Ég veit ekki alveg hvern ég vil fá en mér finnst Moyes líklegastur til að verða ráðinn.
Ég vil bara alls ekki fá David Moyes aftur! Ég efast ekkert um að hann geti gert ágætis hluti og þekkir til. En að ráða hann núna er svipað og að ráða Sam Allardyce á sínum tíma. Finnst mér. Ég mundi vilja einhvern sem að þekkir félagið akkúrat ekki neitt. Ef ég á að nefna nafn þá segi ég Paolo Fonseca. En þetta er bara óskhyggja sem er ekkert endilega byggt á kunnáttu.
Frábært að losna við Diche. Býst við að Moyes verði ráðinn meðal við síðustu fréttir. Vill þá gera samning við hann fram í sumar og þá endurnýja hann ef hann stendur sig vel. Núna þurfum nauðsynlega 2 góða vængmenn það ætti að duga til að halda sig uppi. Bjartir tímar framundan hjá Everton.
Vonandi eru þessar fréttir um Moyes slður með fullri virðingu hann gerði frábæra hluti með okkur hér í den en er ekki fram tíðar stjóri.