Ipswich – Everton 0-2

Mynd: Everton FC.

Stórleikur áttundu umferðar ensku úrvalsdeildarinnar er viðureign Everton við Ipswich á þeirra heimavelli sem skv. plani átti að hefjast klukkan 14:00. Einhver tæknivandamál voru hins vegar að plaga gestgjafana fyrir leik, sem olli því að stuðningsmenn voru í vandræðum með að koma inn á leikvanginn og því var leiknum frestað um 15 mínútur til að reyna að leysa úr því.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, Doucouré, Ndiaye, McNeil, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, O’Brien, Coleman, Patterson, Dixon, Armstrong, Mangala, Beto.

Sem sagt, tvær breytingar frá leiknum við Newcastle, en Mykolenko kemur inn í liðið í stað Garner og fer í vinstri bakvarðarstöðuna og Gana kemur inn sem djúpur miðjumaður í stað Mangala. Þessar breytingar eru líklega vegna meiðsla, því hvorki Garner né Mangala eru í hóp. Branthwaite hvergi sjáanlegur heldur.

Leikurinn hófst kl. 14:17, Everton í svörtu og hvítu — heimaliðið Ipswich í bláu.

Ágætis byrjun frá Everton, létu boltann ganga vel og náðu fljótt að setja pressu á Ipswich. En það var Ipswich menn sem áttu fyrsta færið og það kom eftir eftir skyndisókn. Þeir gerðu vel í að ná að losna undan þungri pressu Everton og bruna hratt upp völlinn og koma boltanum á mann á auðum sjó inni í miðjum teig. Þurfti bara að setja boltann á rammann en lúðraði honum langt upp í stúku.

Everton fékk dauðafæri á 7. mínútu þegar Calvert-Lewin náði að stela boltanum af aftasta varnarmanni og komst einn á móti markverði — sem varði meistaralega frá honum. Bæði lið búin að fara illa með dauðafæri á upphafsmínútunum. Ipswich staðráðnir í að spila bolta alltaf út úr teig — án þess að vera með réttan mannskap í það, og það kom þeim næstum í koll þar. Það er fullt af mistökum að finna í vörn þeirra.

Og áður en 10 mínútur voru liðnar bættist annað dauðafæri við, þegar Ndiaye fann McNeil óvaldaðan inni í teig, nálægt D-inu, en, í stað þess að skjóta í fyrstu snertingu, reyndi McNeil að leggja boltann fyrir sig, sem hleypti Ipswich manni fyrir skotið og sótti þar með brot á McNeil.

En Everton náði að komast yfir á 18. mínútu eftir að tveir varnarmenn Ipswich afgreiddu ekki út úr teig háa fyrirgjöf frá Harrison af hægri kanti yfir á fjærstöng. Einn varnarmaður þeirra skallaði á samherja í eigin teig og sá einfaldlega lagði boltann snyrtilega fyrir Ndiaye sem þakkaði fyrir sig með því að þruma boltanum í netið. 0-1 fyrir Everton! 

Á 22. mínútu náðu miðjumenn Everton að finna Calvert-Lewin inni í teig með langri hárri sendingu og hann náði að snúa og skjóta, af sæmilega stuttu færi, lágum bolta á mark, en markvörður Ipswich kom þeim aftur til bjargar. McNeil var svo nálægt því að skora beint úr hornspyrnu eftir að markvörður var að gera sig kláran í eitthvað skógarhlaup út í teig. Markvörðurinn náði hins vegar að redda sér þar.

En á 28. mínútu dæmdi Michael Oliver, dómari leiksins, víti á McNeil þegar leikmaður Ipswich náði að þræða sig í gegnum vörnina og reyndi skot en sparkaði í legginn á McNeil í stað boltans. Við sáum þetta gerast í síðasta leik, gegn Newcastle — þegar Calvert-Lewin fékk ekki víti og VAR komst að réttri niðurstöðu í þetta skiptið (enda steig McNeil ekki á ökklann á sóknarmanni áður en hann plantaði fæti fyrir skotið, líkt og varnarmaður Newcastle í síðasta leik). 

Leikurinn var svolítið flatur í kjölfar vítaspyrnunnar sem var tekin aftur en á 40. mínútu komst Everton í 0-2 eftir horn! Smá fram og til baka inni í teig en á endanum datt boltinn fyrir McNeil, við D-ið, sem sneri á varnarmann og fann Keane með stungusendingu vinstra megin í teig. Sendingin var aðeins of utarlega í teignum og maður átti ekki von á að Keane næði að gera sér mat úr þessu — en það gerði hann með stæl. Brá sér í gervi Erling Haaland og þrumaði á nærstöng upp í þaknetið! Staðan orðin 0-2!

Ipswich höfðu á þessum tímapunkti enn ekki náð skoti á rammann, og það breyttist ekki fram að hálfleik. Everton hins vegar komið með fjórar tilraunir á rammann eftir mark númer tvö! Everton náði svo fimmtu tilraun á rammann á 48. mínútu, þegar Young reyndi skot beint út aukaspyrnu, en ekki mikil hætta.

0-2 í hálfleik. Everton mun betra liðið í fyrri hálfleik.

Á 55. mínútu tók miðvörður Ipswich sig til og nánast bara rétti Ndiaye boltann á miðsvæðinu. Ndiaye þakkaði pent fyrir sig og brunaði í skyndisókn sem endað með skoti á mark af nokkuð löngu færi, en markvörður varði. Sömuleiðis nokkru síðar þegar McNeil reyndi skot hægra megin í teig, utarlega, eftir horn á 61. mínútu.

Leikur Ipswich var hálf flatur í seinni hálfleik og lítil ógnun. Þeir reyndu tvær tvöfaldar skiptingar, sú fyrra hjálpaði þeim ekkert en þeir náðu smá pressu eftir þá síðari á 70. mínútu. En það skilaði sér ekki í almennilegum færum. Þeir náðu sínu fyrsta skoti á rammann á 80. mínútu (eftir tæpar 90 mínútur af fótbolta, ef aukamínúturnar 6 í fyrri hálfleik eru meðtaldar). Sú tilraun var hins vegar beint á Pickford og engin hætta. Mangala kom svo inn á fyrir Ndiaye á 82. mínútu — Ipswich þá búnir að skipta út helming af sínum útileikmönnum.

Ipswich menn náðu annarri tilraun á mark á 89. mínútu — það var langskot utan af velli en Pickford vel á verði og sló það til hliðar.

Everton fékk svo eitt dauðafæri í blálokin, þegar Harrison setti Calvert-Lewin inn fyrir vörnina með glæsilegri stungusendingu á síðustu sekúndum leiksins, þar sem Calvert-Lewin komst einn á móti markverði, en aftur sá markvörður við honum. Það reyndist það síðasta markverða sem gerðist í leiknum. 

Fyrsti útisigurinn þar með í höfn og hann var aldrei í hættu. Þetta var fjórði leikur Everton án taps í röð, með tvö stig að meðaltali í þeim leikjum. Fín frammistaða í dag frá Everton, sem voru mun betri aðilinn í leiknum og sáu til þess að eitt gult spjald væri það eina sem Ipswich tóku með sér úr leiknum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (8), Tarkowski (7), Keane (8), Mykolenko (8), Gueye (7), Doucoure (7), Ndiaye (8), Harrison (7), McNeil (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Mangala (6).

Hjá Ipswich náði enginn yfir 6 í einkunn og meirihluti byrjunarliðs þeirra fékk 5.

Maður leiksins að mati Sky var Michael Keane.

6 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ipswich hefur enn ekki unnið leik, þarf að segja eitthvað meira?
    Þetta fer 3-1 fyrir Ipswich og Ed Sheeran semur örugglega lag um það.

  2. Odinn skrifar:

    Þetta lítur allt betur út hjá okkar mönnum, svo þegar við mætum á Goodison á Everton vs Brentford erum við komin á síðu 1

  3. Ari S skrifar:

    Eins og við var að búast, sigur hjá okkar mönnum og lítið sem ekkert skrifað hérna á síðuna. Það er nokkuð ljóst að Sean Dyche verður áfram hjá okkur allavega fram að eigendaskptum.

    Sá bara seinni hálfleikinn og fannst við vera nokkuð góðir. Michael Keane maður leiksins, það sem ég sá. Miðað við meiðslin okkar þá var þetta vel valið hjá Sean Dyche og menn að standa sig nokkuð vel. Við höfum áður verið að keppa við lið sem á papírunum eru lakari en við og það á ekki að draga neitt úr afrekinu í dag að Ipswich er fyrir neðan okkur. Sigur er sigur og þrjú stig eru þrjú stig. Og clean sheet er clean sheet, vel gert Pickford og vörnin

    Vel gert Everton!

  4. Tryggvi Már Ingvarsson skrifar:

    Virkilega flottur leikur hjá okkur – forspil fyrir Eve-Bre 🙂

Leave a Reply