Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Luton – Everton 1-1 - Everton.is

Luton – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Luton á útivelli kl. 19:00 og eftir fjóra sigurleiki í síðustu fimm leikjum geta stuðningsmenn Everton nú aftur horft upp á við (upp töfluna), því Everton hefur nú þegar tryggt veru sína í úrvalsdeild að ári. Verð samt að viðurkenna að það gerir mann smá smeykan við þennan leik við Luton, sem eru í bullandi fallbaráttu við Burnley og Nottingham Forest.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, McNeil, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Coleman, Onana, Gomes, Danjuma, Dobbin, Chermiti, Beto.

Young í vinstri bakverðinum, restin af uppstillingunni hefðbundin.

Luton menn byrjuðu leikinn betur — mun meiri ákefð í þeirra nálgun á leiknum. Everton með fyrsta færið samt. McNeil átti flotta fyrirgjöf frá vinstri sem varnarmaður Luton var næstum búinn að setja í eigið net. Boltinn barst svo til Garner sem átti fast skot og boltinn sigldi í gegnum vörnina en síðasti varnarmaður rétt náði að hreinsa áður en boltinn rataði á rammann.

Örskömmu síðar átti Everton horn og þar reyndi Mengi hjá Luton fjölbragðaglímu á Branthwaite innan teigs — virtist meira að segja lyfta honum upp. Dómarinn sá ekki atvikið en VAR fór yfir málið og komst að réttri niðurstöðu. Augljóst víti, sem Calvert-Lewin skoraði úr. Setti boltann í mitt markið en markvörður kastaði sér í hornið sem Calvert-Lewin skýtur oftast í.

En Luton menn náðu að jafna á 31. mínútu eftir langa og háa sendingingu inn í teig hægra megin (frá þeim séð). Þar var sóknarmaður þeirra, Adebayo, einn á móti Ashley Young, vann skallaeinvígi, togaði svo í Young, sem var úr jafnvægi og féll því við. Ekkert dæmt og sóknarmaður þeirra setti boltann framhjá Pickford. Fannst þetta jöfnunarmark lykta pínulítið en VAR leyfði því að standa. Fyrsta markið sem Everton fær á sig í rétt yfir fimm klukkutíma af fótbolta.

Engar almennilegar tilraunir á mark fram að lok hálfleiks, en Luton fengu einhver hálffæri. Vinstri bakvörður þeirra reyndi skot á mark utarlega í teig vinstra megin (frá þeim séð) en skotið arfaslakt og beint á Pickford. Sóknarmaður þeirra reyndi svo skot utan teigs hinum megin sem fór vel framhjá. Þeir áttu eitt skot sem manni sýndist vera hreinsað á línu (af Godfrey) en endursýning sýndi að boltinn var á leið framhjá marki.

Tvöföld skipting á 55. mínútu: Garner og Doucouré út af fyrir Onana og Gomes. Young fór svo út af fyrir Coleman á 67. mínútu. Ekki mikið búið að gerast í millitíðinni sem vert er að fjalla um. En ég verð að viðurkenna að mikið er nú samt gott að geta slakað á yfir leik þó Everton sé ekki að vinna. Luton menn líklega algjörlega á taugum og eiginlega urðu að vinna. Þurftu því að taka sénsa og það gæti skapað tækifæri fyrir Everton hugsaði maður.

Harrison reyndi skot utan teigs á 69. mínútu og boltinn breytti um stefnu af varnarmanni og fór í ótrúlegan sveig í átt að samskeytunum uppi vinstra megin. Markvörður þeirra hins vegar tók á honum stóra sínum og varði í horn. Hefði verið ansi glæsilegt mark.

Everton fékk svo algjört dauðafæri á 77. mínútu. Há sending inn í teig vinstra megin sem leikmaður Everton (sá ekki hver?) náði að skalla boltanum fyrir mark og á Calvert-Lewin, sem var aðþrengdur, en náði samt algjörum heimsklassa skalla á mark, rétt undir slána sem markvörður Luton varði með ótrúlegum hætti yfir slána. 

Beto og Chermiti komu svo inn á á 80. mínútu fyrir Calvert-Lewin og Gana.

Barkley átti fast skot af mjög löngu færi á 83. mínútu, en beint á Pickford. Engin hætta.

Á 84. mínútu átti Beto að fá víti þegar hann komst framhjá varnarmanni Luton sem togaði í treyjuna hans. Dómarinn sá ekkert athugavert við það og VAR sagði að þeir hefðu báðir togað. Sá það ekki í endursýningu, en það er að myndast nokkuð hár þröskuldur til að snúa við dómum, sem ég held að sé rétt ákvörðun dómara-samtökunum, þannig að við látum það „slæda“.

Aftur var 6 mínútum bætt við og þetta voru spennuþrungnar lokamínútur en færin létu á sér standa. Luton menn gerðu harða hríð að marki Everton, enda þurftu þeir mun meira á stigunum að halda.

Luton menn reyndu skot af mjög löngu færi stuttu síðar en beint á Pickford. Þeir fengu svo betra færi þegar há sending var framlengd með skalla á fjærstöng, en Pickford varði í horn. Markvörður Luton mættur í eða við teiginn, en hornið varð að hjólhestaspyrnu af stuttu færi, sem fór í Harrison og út af. Annað horn, sem ekkert kom úr. Everton þurfti bara að vinna boltann og þá var markið óvarið hinum megin.

En dómarinn flautaði leikinn af stuttu síðar. Jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (5), Branthwaite (7), Tarkowski (7), Godfrey (6), McNeil (6), Garner (5), Gueye (6), Harrison (6), Doucoure (6), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Gomes (5), Onana (6), Coleman (6), Beto (6), Chermiti (6).

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er leikurinn þar sem fall Everton átti að vera staðfest, eða það var líklega von einhverra þegar ákveðið var að færa þennan leik á föstudagskvöld. Leitt fyrir þá að Everton skyldi eyðileggja partýið þeirra.
    Ég held að það sé tvennt í stöðunni, annaðhvort steindautt jafntefli eða stærsti heimasigur Luton í sögu félagsins…..en þeir falla samt.
    Vonum það besta.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það liggur Lutonmark í loftinu.

  3. Eirikur skrifar:

    Óttast þriðja 2-1 tapið gegn Luton