Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Nottingham Forest 2-0 - Everton.is

Everton – Nottingham Forest 2-0

Mynd: Everton FC.

Það er risa leikur á dagskrá í dag klukkan 12:30 þegar Everton tekur hressilega á móti Nottingham Forest í 33. leik Everton í ensku úrvalsdeildinni. Þetta er leikur sem hvorugt liðið má við að tapa og eiginlega er jafntefli ekki góð úrslit því Luton, sem eru í fallsæti, eru mjög skammt undan.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Young, Gana, McNeil, Gomes, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Godfrey, Garner, Onana, Warrington, Danjuma, Chermiti, Beto. 

Sem sagt, Calvert-Lewin kominn aftur í liðið, sem er mikill léttir og þetta lítur út fyrir að vera hefðbundin 4-4-1-1 uppstilling, með Doucouré í holunni. Hvorki Coleman né Patterson (sem verður líklega frá það sem eftir lifir tímabils, ef ég man rétt) eru í hóp og því er Young í hægri bakverði.

Ég kíkti snöggvast á veðbankann Bet 365 til að sjá hvaða líkur þeir setja (fyrir leik) á að liðin falli og sú lesning er ekki falleg fyrir botnliðin: Sheff Utd 99.95% líkur á falli — enda geta þeir mest náð 31 stigi ef þeir vinna alla leikina sem eftir eru. Burnley eru næstir með 92.31% líkur (max 35 stig), Luton 77.78% (max 37 stig), Nottingham Forest 26.67% (max 41 stig) og Everton 15.38% (max 45 stig). Sheffield Utd og Burnley eru í mjög slæmri stöðu, enda eiga þau lið mjög fáa leiki eftir og þeir leikir eru mjög strembnir (bæði lið eiga þrjá leiki við lið í efstu sjö sætunum, og aðeins einn af þeim leikjum er á heimavelli hjá hvoru liði). Baráttan um fallsætið stendur því líklega á milli Luton, Nottingham Forest og Everton, eins og þetta stendur í dag.

Luton menn geta ekki náð meira en 37 stigum (ef þeir vinna alla) og eru auk þess með afleitt markahlutfall (mínus 28 mörk) sem þýðir að Everton og Nottingham Forest (sem bæði eru með mun betra markahlutfall) nægir 37 stig til að fella þau lið sem eru núna á botninum. Það gerir 10 stig fyrir Everton í 6 tilraunum. Þá gæti hjálpað að helmingur leikja sem Everton á eftir er við lið í botnbaráttunni (Sheffield United, Luton og Nottingham Forest nú á eftir).

Málið er hins vegar að það er ekki augljóst hvernig Luton getur náð 37 stigum, svona í ljósi þess að árangur þeirra er afleitur undanfarna mánuði: bara fengið 6 stig samtals síðustu þrjá mánuði og þurfa allt í einu að vinna alla sem eftir. Það eru bara fjórir leikir eftir af tímabilinu hjá þeim þannig að mig grunar því að svigrúmið hjá Everton sé mun meira (þurfi ekki að ná 37 stigum).

Everton er því í nokkuð góðri stöðu miðað við áðurnefnd lið, enda með flest stig af þessum liðum, með fleiri leiki eftir og á léttara prógram eftir en öll hin liðin. En, eins og sagt er, það getur allt gerst.

En þá að leiknum…

Lítið um færi til að byrja með, Everton örlítið lengur af stað og Forest áttu fyrsta skotið á mark, en ekki mikil hætta. Pickford vandanum vaxinn. Fín pressa frá Everton á lið Forest og fínt tempó í leiknum en lítið um færi alveg fyrsta hálftímann eða svo.

Næsta færi (og fyrsta færi Everton) kom ekki fyrr en á 27. mínútu, skallafæri eftir háa fyrirgjöf frá vinstri, Calvert-Lewin var óvaldaður inni í teig en náði ekki krafti í skallann anda þurfti hann að bakka til að ná til hans. Forest menn svöruðu með skoti á marki strax í næstu sókn, en skotið beint á Pickford, sem missti hann aðeins frá sér en náði stjórn á boltanum aftur áður en Chris Woods komst í boltann.

Á 29. mínútu komst Everton yfir með flottu marki af löngu færi. Varnarmenn Forest höfðu hreinsað bolta út úr teig, beint til Idrissa Gana Gueye, sem stillti upp í skot nokkuð vel utan teigs, eins og við höfum séð hann gera þó nokkru sinni í leikjum, en alltaf hefur boltinn endað framhjá eða yfir. En ekki í dag! Hann svoleiðis smellthitti boltann og setti hann vinstra megin alveg út við stöng. Skotið ekki fast en í sveig og fór alveg út við stöng. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton!!!

Chris Wood fékk algjört dauðafæri á 40. mínútu eftir háa sendingu inn í teig. Náði skoti á mark en Pickford varði með ótrúlegum hætti. Maður hafði áhyggjur af því að boltinn myndi fara þaðan í bakið á Tarkowski og inn, en sem betur fer fór hann bara aftur sem lét Tarkowski stela honum af sér. Og Pickford fagnaði eins og hann hefði verið að setja mark sjálfur!

Forest menn gerðu harða hríð að marki Everton undir lok fyrri hálfleiks, en uppskáru bara hvert hornið á fætur öðru, sem vörn Everton var ekki í vandræðum með.

1-0 í hálfleik.

Á 50. mínútu komst leikmaður Forest einn inn fyrir vörnina upp vinstri kant (frá þeim séð). Leit út fyrir að hann kæmist einn á móti einum gegn Pickford inni í teig en Mykolenko vann aldeilis fyrir kaupinu sínu með því að hlaupa hann uppi og loka á hann. Afar mikilvæg blokkering!

Calvert-Lewin fékk svo hálffæri á 55. mínútu eftir horn, þegar boltinn barst óvænt til hana. En hann hafði lítinn tíma til að hugsa og setti boltann framhjá marki.

Forest menn vildu fá víti á 57. mínútu og manni sýndist þeir hafa pínu til síns máls. En dómarinn alveg viss í sinni sök: ekkert víti og VAR sammála.

Forest menn voru hins vegar á þessum tímapunkti farnir að færa sig upp á skaftið. Þeir fengu algjört dauðafæri á 60. mínútu þegar þeir sendu háan bolta yfir vörn Everton sem Tarkowski reyndi að skalla frá. Boltinn hins vegar fór upp í sveig og lagði hann fyrir Hudson-Odoi, sem komst einn á móti Pickford og setti boltann sem betur fer nokkuð vel framhjá marki. Sá á eftir að sofa illa í nótt. Beto og Garner komu svo inn á fyrir Calvert-Lewin og Gomes á 67. mínútu.

Á 76. mínútu rifjaðist upp fyrir McNeil að Gana Gueye hefði skorað flott mark með langskoti í fyrri hálfleik og hann rétti Harrison bjórinn sinn og bað hann að halda aðeins á honum. Hlóð svo í langskot af svipuðu færi og Gueye en setti boltann alveg út við stöng hægra megin. Maður hélt að varla væri hægt að koma boltanum mikið nær stöng en hjá Gana Gueye í fyrri hálfleik, en McNeil tókst það. Óverjandi fyrir markvörð Forest!

McNeil átti aðra tilraun af löngu færi á 78. mínútu, en skaut beint á markvörðinn. Hann hafði svo sem ekki mikið val, aðrir voru dekkaðir, alveg þess virði að reyna langskot.

9 mínútum bætt við en tímavörðurinn var varla búinn að leggja frá sér spjaldið þegar Beto lenti í samstuði við einn Forest manninn og lá eftir. Fékk mjög langa aðhlynningu (allar 9 mínúturnar eiginlega) og fór svo út af á börum. Vonandi í lagi með Beto — Chermiti skipt inn á fyrir hann á 100. mínútu.

En ekkert markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og 2-0 sigur Everton staðreynd. Geggjuð úrslit!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (9), Young (7), Tarkowski (7), Branthwaite (9), Mykolenko (7), Gana (8), Gomes (6), Doucoure (7), Harrison (6), McNeil (8), Calvert-Lewin (6) Varamenn: Beto (6), Garner (6), Chermiti (6).

Branthwaite var valinn maður leiksins.

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Young??? Þetta gæti orðið ljótt.
    Einhverjir gætu sagt að ég sé neikvæður og svartsýnn fyrir hvern leik, en er það einhver furða eins og liðið er búið að vera?
    Það er ekkert minna en kraftaverk ef Everton vinnur annan leik á þessu tímabili og okkar eina von er að Luton, Burnley og Forest geri það ekki heldur.
    Ég spái 0-4 sigri fyrir Forest í dag, ég get ekki séð neitt sem gefur tilefni til snefils af bjartsýni.

  2. Ari S skrifar:

    3-0 fyrir Everton, Dominic með þrennu!

  3. Eirikur skrifar:

    Held að 4 stig í viðbót dugi.
    Hef verulegar áhyggjur af Doucoure virðist bara heillum horfinn. Reyndar eins og fleirri 🫣. Bara að tapa ekki í dag er það sem ég bið um.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað er að gerast? Young er búinn að reyna að gefa þrjú víti en ekkert dæmt. Skil ekkert í þessu.

  5. Ari S skrifar:

    McNeil 2-0 vonum það besta

  6. Eirikur skrifar:

    1 sig í viðbót og þá þarf Luton að ná í 7 sem þeir gera ekki.Góður dagur í dag💪

  7. Finnur skrifar:

    Flottur og gríðarlega mikilvægur sigur!

  8. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Flottur sigur. Mikið væri maður pirraður ef maður væri stuðningsmaður Nottinghams að hafa engu náð úr leiknum og ekki fengið neitt víti. Vonandi fer þessi taugaspenna að taka enda, staðan væri alls ekkert voðalegt ef ekki hefði komið til að taka þessi stig af liðinu.

  9. Finnur skrifar:

    Kíkti á tölfræðina aðeins og þetta lítur ekkert spes út fyrir Forest núna. Þeir geta mest náð 38 stigum og ég held að raunhæft séu 6 stig það allra mesta sem þeir geta átt von á héðan af (þeas. sigrar gegn Sheffield Utd og Burnley) plús 1 stig ef þeir eru heppnir gegn Chelsea og þeir fá ekkert stig gegn City (bókað). Þá enda þeir með 33 stig, sem er… ekkert spes. Til samanburðar er Everton með 30 stig núna og eiga 5 leiki eftir. Fimm!

    Luton eru í augnablikinu meira wildcard, þó þeir séu bara með 25 stig í deild, því þeir eiga auðveldara prógram eftir en Forest — þeas. Úlfana, okkar menn, West Ham og Fulham. Luton vinna samt ekki marga leiki að staðaldri og þó þeir myndu vinna þá alla (sem er ekki að fara að gerast) enda þeir bara með 37 stig.

    Þannig að: Ég myndi segja að eins og þetta lítur út núna sýnist mér sem það gæti stefnt í að það fari eftir því hversu mörg stig Forest fær til baka í áfrýjuninni hvort Forest eða Luton falli. Sheffield United eru hins vegar dauðadæmdir og Burnley sömuleiðis. Bæði lið eiga mjög stíft prógram eftir (og fáa leiki) og ég sé ekki að þeir bjargi sér frá falli heldur.

    En ég held við getum allavega farið að anda mun léttar eftir þessi úrslit.

  10. Finnur skrifar:

    Pickford í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/68871256

  11. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott að fá þessi þrjú stig en þau hefðu nú sennilega ekki komið í hús ef menn hefðu ekki látið vaða fyrir utan teig. Everton leit annars aldrei út fyrir að skora hvorki úr opnum leik eða föstum leikatriðum, enda hefur liðið enga hugmynd um hvað það á að gera þegar það er með boltann.