Leicester – Everton 2-2

Mynd: Everton FC.

Það var risaleikur í dag á King Power vellinum þegar Everton mætti í heimsókn til Leicester í algjörum 6 stiga leik í botnbaráttunni! Staðan á tölfræðinni fyrir leik var eftirfarandi:

Umræðan fyrir leik var sú að það lið sem tekur þrjú stig úr þessum leik væri að gera risastórt tilkall til áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni, þó að náttúrulega væri ekkert tryggt í framhaldinu. Hvert einasta stig skiptir gríðarlega miklu máli á lokasprettinum og fyrirfram var maður sæmilega ánægður með eitt stig.

Á fallstuðli Paddy Power sást að þau telji að baráttan um að forðast fall væri á milli Everton, Forest og Leeds, og meta það því svo að Leicester væru í mun betri málum, þrátt fyrir að vera með færri stig en bæði Forest og Leeds. Þess má geta að Southampton og Nottingham Forest eiga innbyrðis leik í næstu umferð — sá leikur verður eiginlega (út frá sjónarhóli Everton) að enda með jafntefli (eða allavega ekki með sigri Forest). En sjáum hvað setur. Flautað var til leiks kl. 19:00 í okkar leik.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Doucouré, Garner, Iwobi, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Coady, Mina, Patterson, Onana, Davies, Gray, Maupay, Simms.

Sem sagt, Coleman kom inn en Gray aftur settur á bekkinn, annan leikinn í röð. Onana er hins vegar ekki í byrjunarliðinu, heldur á bekknum, sem kemur pínu á óvart og kemur Garner inn fyrir hann.

Fjörugur og skemmtilegur fyrri hálfleikur. Flott byrjun hjá Everton á leiknum og voru með ágætis tök á leiknum allan fyrri hálfleik. Iwobi fékk algjört dauðafæri á 8. mínútu, var á auðum sjó hægra megin í teignum og fékk frítt skot á mark. Reyndi skot uppi í vinstri vinkil, en markvörður með geggjaða vörslu í horn. Leicester menn stálheppnir þar.

Á 14. mínútu fékk Calvert-Lewin vítaspyrnu eftir háa sendingu inn í teig frá Coleman. Varnarmaður Leicester með glórulausa bakhrindingu inni í teig. Augljóst og alltaf viti. Calvert-Lewin á punktinn og skoraði örugglega. 0-1 fyrir Everton. Ekkert minna en Everton átti skilið.

En allt í einu kviknaði á Leicester, sem náðu að jafna á 22. mínútu, eftir smá darraðadans inni í teig. Boltinn smávegis að berast út um allt, en endaði vinstra megin í teig þar sem þeir náðu skoti og tókst að koma boltanum í netið, þrátt fyrir að Pickford hefði náð að slengja fingrum í boltann. 1-1.

Everton samt enn betra liðið og McNeil fékk skotfæri stutu síðar, en skotið yfir.

En Leicester, hafa til margra ára sérhæft sig í að vera verra liðið og nýta sér skyndisóknir og það gerði þeir svo sannarlega á 34. mínútu. Iwobi átti slaka sendingu yfir á miðsvæðið, sem Leicester menn komust inn í. Ein sending fram á Vardy sem komst einn á móti Pickford og skoraði. 2-1 og aftur skorar Leicester þvert gegn gangi leiksins.

Everton risti upp vörn Leicester á 41. mínútu þegar Iwobi fann Coleman inni í teig hægra megin, og hann sendi lágan bolta aftur í teig. Dauðafæri til að skjóta en varið.

Calvert-Lewin komst í dauðafæri alveg upp við mark, stuttu síðar. Fékk frábæra sendingu frá McNeil og þurfti bara að stýra boltanum framhjá markverði, en markvörður náði að verja með löppunum.

Einhverjum sekúndum síðar var Vardy næstum búinn að refsa Everton hinum megin. Sneri Keane á röngunni og náði að chippa yfir Pickford. Boltinn samt sem betur fer í ofanverða slá og yfir.

Rétt undir lok fyrir hálfleiks fengu Leicester viti, réttilega, þegar Keane fékk boltann í hendina eftir skot, en Pickford sá við Madison á vítapunktinum. Þóttist ætla að kasta sér en stóð svo bara kyrr og varði þegar Madison ætlaði að reyna að lauma boltanum í mitt markið.

2-1 í hálfleik, en Everton búið að vera betra liðið.

Hasar í seinni, innan vallar og ekki síður hjá okkur á Ölveri þegar allt í einu voru fjórar löggur mættar til að handtaka einhvern gutta inni í billiard sal. Spes.

Calvert-Lewin aftur með geggjað skotfæri á 52. nálægt marki, eftir sendingu frá Iwobi, en markvörður rétt náði að verja. Allt annað að sjá til Everton þegar Calvert-Lewin er með.

En á 54. mínútu náði Everton að jafna og þar var Iwobi að verki. Fékk boltann inni í teig og þrumaði inn. 2-2. Game on!

Vardy fékk fínt skallafæri á 58. mínútu , nálægt marki, en Tarkowski bjargaði á línu með skalla. Líf og fjör.

Calvert-Lewin var nálægt því að komast í dauðafæri á 78. mínútu, þegar hann fékk 50/50 á móti markverði, en markvörður var rétt svo á undan í bolta. Hugrakkur að slá boltann frá áður en Calvert-Lewin náði að stýra boltanum framhjá sér. Fékk högg á hendurnar fyrir vikið.

Pickford fór í smá skógarhlaup á 79. mínútu alveg út við hægri kant og missti boltann. Vardy reyndi skot í autt markið en hitti ekki. Tarkowski reyndar mættur á réttan stað.

Á 86. mínútu hefði Everton getað komist yfir þegar Doucouré reyndi skot utan teigs, vel í átt að hliðarneti hægra megin, frá markverði séð, en aftur kom markvörður Leicester þeim til bjargar. Stálheppnir þar.

Nokkrum mínútum bætt við en hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum. 2-2 niðurstaðan og maður hefði viljað að minnsta kosti eitt stig fyrir leik, en eins og þetta spilaðist finnst manni eins og þrjú stig úr þessum leik hefði ekkert verið ósanngjarnt fyrir Everton. Leicester menn fengu samt sín færi, þannig að stig kannski sanngjarnt.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Keane (6), Tarkowski (7), Mykolenko (6), Iwobi (7), Doucoure (7), Gueye (6), Garner (6), McNeil (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Patterson (6).

Markvörður Leicester var valinn maður leiksins, sem segir ákveðna sögu líka…

Lítum á tölfræðina eftir leik…

Southampton menn eru í bullandi vandræðum, sem fyrr, og Leicester náðu ekki að slíta sig frá botnbaráttunni, sem eru góðar fréttir fyrir liðin í kring. Fyrir utan Southampton eru hin botnliðin fjögur öll í svipuðum málum, mega ekki tapa tveimur ef miðað er við 38 stig og þetta ræðst líklega á óvæntum úrslitum í lokin.

En skoðum aðeins leikina sem eftir eru. Mynduð þið vilja skipta við eitthvað af þessum liðum þegar kemur að mótherjum Everton í næstu leikjum? Ég myndi segja nei.

Southampton menn eiga þrjá leiki við lið í efri hluta deildar, sem er ekki góð staða til að vera í þegar maður getur ekki keypt sér stig, eins og Bretinn orðar það. Kannski helst leikjaplanið hjá Leicester líti ágætlega út, en það er samt í besta falli svipað og hjá Everton, og varla meira en það. Mig grunar að baráttan um að forðast fall muni á endanum vera á milli Everton, Forest og Leeds og þar getur maður ekki horft framhjá því að leikjaplan Leeds lítur algjörlega skelfilega út, svo ekki sé meira sagt. Ég myndi síst vilja skipta við þá.

Ég hef smá áhyggjur af Nottingham Forest, því þeir eiga heimaleik gegn botnliði Southampton og svo eru Chelsea auk þess búnir að vera í ruglinu undanfarið. Nottingham Forest eru hins vegar með lélegasta leikjaform allra Úrvalsdeildarfélaga í síðustu 10 leikjum (já, lélegra en Southampton!) þannig að þessi sigur þeirra á Brighton virðist í augnablikinu vera undantekningin sem sannaði regluna. Við vonum allavega að svo sé og fylgjumst örugglega spennt með leik þeirra gegn Southampton.

Ef Nottingham Forest tekst ekki að vinna Southampton, þá fer ég að hallast að því að Nottingham Forest og Leeds fylgi Southampton niður, en það má samt ekkert út af bera til að Everton sleppi.

Við höldum áfram að naga neglurnar! 🙂

15 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta byrjaði bara nokkuð vel en um leið og Leicester jafnaði datt botninn úr leik Everton og nú bíð ég bara eftir hruninu sem er óumflýjanlegt. Af hverju er maður að pína sig á þessu??

  2. Eirikur skrifar:

    Komumst í 0-1 afhverju ekki að verja það? Spila þetta upp í hendurnar á Leicester sem vill spilla skyndisóknir.
    Ekki nokkur séns að við höngum uppi. Sóknarleikurinn algjörlega galinn eina og venjulega og við ekki að fara að skora 3 mörk.

  3. Eirikur skrifar:

    Iwobi útaf í hálfleik, er að gefa Leicester boltan aftur og aftur á miðsvæðinu.

    • Ari S skrifar:

      …þá hefði hann ekki skorað markið og við sennilega tapað.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Flest önnur úrslit voru okkur hagstæð í þessari umferð og er það að ég held í þriðja skiptið síðustu fjórar eða fimm vikurnar, en það virðist ekki skipta neinu máli, þetta lið er staðráðið í að falla.
    Það ætti að vera liðinu hvatning til að berjast eins og brjálæðingar, en það virðist bara ekki vera þannig nema bara í stutta stund, stundum.
    Og hvað í ósköpunum þarf Mina, sem reyndar er okkar besti varnarmaður, að gera til að fá að spila???
    Það er líka fáránleg staðreynd að þegar Everton er búið að skíttapa þessum leik, þá er samt ennþá tölfræðilegur möguleiki fyrir liðið að hanga uppi. Ef Everton gæti bara náð í 2 eða þrjú stig og þannig klifrað úr fallsæti, þá gæti liðið hangið uppi á markamun, ef mér skjátlast ekki, ef öll úrslit hjá okkar helstu keppinautum fara eftir bókinni.
    Það er eina vonin. Að önnur lið hjálpi okkur að hanga uppi því þetta lið getur ekki hjálpað sér sjálft.

  5. Kiddi skrifar:

    Iwobi er með allt of slaka sendingargetu til að geta spilað í efstu deild.
    Ættum að vera marki yfir, ekki vantar færin en eins og venjulega þá eru það mörkin sem telja.

    • Ari S skrifar:

      Já rétt mörkin telja, Iwobi að þakka að við fengum stig í gær.

  6. Gestur skrifar:

    Það er alveg ástæðulaust að nota bekkinn!!!

  7. Gestur skrifar:

    Þarna klikkaði Dyche, hann átti að setja inná ferska fætur

  8. Finnur skrifar:

    Flott stig og flott jöfnunarmark hjá Iwobi. Af hverju gat Calvert-Lewin ekki bara skorað úr þessu algjöru tap-in færi. Oh well…

    Mjög sáttur við hvernig leikurinn spilaðist og eiginlega hálf fúlt að fá ekki öll stigin þrjú, sem er smá spes því ég hélt fyrirfram að maður yrði sáttur við bara eitt stig úr þessum leik.

    En þessi leikur lofar góðu fyrir framhaldið. Nú þarf Southampton bara að ná stigi gegn Forest og þá fer maður að geta andað aðeins léttar, vonandi.

  9. AriG skrifar:

    Frábær leikur. Everton áttu fullt af færum og Leicester líka. Allavega mun betri frammistaða en í síðustu leikjum. Everton óheppnir að vinna ekki. Auðvitað voru mörk Leicester frekar klaufaleg annars frábær frammistaða. Calvert Lewin er langbesti sóknarmaður Everton var frábær í þessum leik en samt klaufi að skora ekki úr dauðafærinu.
    Sendingar voru stundum misheppnaðar en Everton lagði allt í leikinn til að vinna hann. Bæði þessi lið eiga alls ekki að falla mun betri en Nottingham og Leeds.

  10. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er ekki nóg. Við þurftum þrjú stig úr þessum leik til að eiga séns á að hanga uppi.
    Ég get ekki séð neitt jákvætt við þessi úrslit, því miður en hins vegar voru okkar menn óheppnir að vinna ekki leikinn miðað við færin sem liðið fékk. Ekki það að stuðningsmenn Leicester geta svo sem sagt það sama.
    Maður leiksins var sennilega markvörður Leicester.

    Ég er hundúll út í Dyche fyrir að gera ekki neinar skiptingar aðra en þá sem hann neyddist til að gera.
    Mér fannst mjög dregið af Doucoure og Garner um miðjan seinni hálfleik enda voru þeir búnir að hlaupa mikið, sérstaklega sýndist mér Garner vera alveg bensínlaus. Ég skil þess vegna ekkert í af hverju hann setti ekki Onana inn á í staðinn, eða jafnvel bara Davies.

    Það var gleðiefni að Coleman skyldi vera mættur aftur, ég held að liðið hafi saknað hans, vonandi getur hann spilað aftur en þessi „tækling“ sem hann varð fyrir leit skelfilega út. Ég er ekki læknir en ég verð hissa ef hann spilar meira á tímabilinu.

    Sem betur fer var hvorki Godfrey né Holgate á bekknum svo Dyche neyddist til að setja Patterson inn á í stað Coleman og merkilegt nokk, hann stóð sig bara vel, amk betur en hinir tveir trúðarnir sem Dyche hefur tekið fram fyrir hann hingað til. Hver veit nema liðinu hefði gengið betur í síðustu leikjum ef hann hefði ekki verið að þrjóskast við að spila mönnum út úr stöðu.

    Brighton í næsta leik. Við eigum ekki séns á móti þeim, það verður rúst.

  11. Ingvar Bæringsson skrifar:

    VARÚÐ!! Hér fyrir neðan er langt og mögulega á köflum samhengislaust rant.

    Merkilegt nokk þá á Everton ennþá möguleika á að halda sér uppi, en þá þarf Dyche að átta sig á því að Michael Keane er ekki besti varnarmaður norðan miðbaugs eins og hann virðist halda.

    https://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/sean-dyche-doubles-down-detailed-26849297

    Því miður virðist hann vera alveg sannfærður um að maður sem er búinn að kosta liðið stig og búinn að gefa tvær vítaspyrnur síðan hann kom inn í liðið, sé okkar besti varnarmaður.

    Everton fékk á sig fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjunum eftir að Dyche tók við með Coady og Tarkowski í miðri vörninni þar sem Coady átti sök á amk tveimur þeirra, en unnu tvo og töpuðu tveimur.
    Honum var kippt út úr liðinu og Keane, sem varla hafði spilað allt tímabilið settur í staðinn og eins og allir vita er hann búinn að vera þar síðan.
    Í þeim tíu leikjum sem búnir eru síðan hann kom inn hefur liðið fengið á sig 20 mörk og náð í sjö stig, einn sigur og fjögur jafntefli. Tilviljun?? Ég held ekki.
    Keane gaf víti þegar hann sparkaði í blindni út í loftið gegn Tottenham, ok hann skoraði svo jöfnunarmarkið en það hefði getað orðið sigurmarkið, eða leikurinn endað markalaus.
    Hann gaf Leicester víti í síðasta leik og svona eins og til að tryggja að þeir fengju örugglega vítið þá benti hann dómaranum á hvar í hendina boltinn fór. Við getum þakkað Pickford og vatnsflöskunni hans að við fengum stig úr þeim leik.
    Keane gaf Leicester jöfnunarmarkið en sá sem skoraði var maðurinn sem hann var að, eða átti að vera að dekka.

    Hann gaf Chelsea mark þegar hann lagði boltann út á Felix sem þakkaði fyrir sig og kom þeim í 1-0.

    Hann skynjar aldrei hættu, t.d í síðasta leik þegar Iwobi gaf boltann frá sér á miðjunni og Vardy slapp inn fyrir, hann hefði átt að vera nógu nálægt honum til að stoppa hann (Mina hefði stoppað hann), reyndar var ég að vonast til að hann tæki hann niður, þá hefði hann fengið rautt og við ekki þurft að horfa upp á þennan trúð í næstu þremur leikjum.

    Hann er mjög óöruggur í sínum leik og það virðist smita út frá sér því bæði Tarkowski og Pickford hafa virkað stressaðir í síðustu leikjum, enda þarf Tarkowski sífellt að vera að hreinsa upp eftir hann.

    Ef Everton heldur sér uppi þá verður það þrátt fyrir að Keane sé í liðinu en ekki af því að hann er þar.

    Þessi tilraun Dyche með Keane hlýtur nú að vera fullreynd og kominn tími til að leyfa Mina, sem er okkar besti miðvörður, eða Coady að spreyta sig.

    Mér finnst augljóst að Dyche velur ekki alltaf bestu mennina sem hann hefur í allar stöður eins og þessi þráhyggja hans með Keane sýnir.

    Dyche var spurður um daginn hvort að Mina væri ennþá inni í myndinni hjá honum og svarið sem hann gaf var eitthvað á þá leið að það væri áhætta að setja menn sem ekki hefðu spilað lengi beint í byrjunarliðinu.

    Þetta er auðvitað ekkert nema hræsni.

    Hann gat ekki beðið eftir að koma Keane, sem varla hefur spilað á tímabilinu, í byrjunarliðið og það virðist engu máli skipta hve illa hann spilar, hann velur hann alltaf og það mun verða Dyche og Everton að falli.

    Ég vildi ekki fá Dyche þegar Lampard var rekinn en í fyrstu leikjunum virtist þetta ætla að virka og ég tók hann í sátt.
    Núna er ég hins vegar kominn á þá skoðun að hann sé ekki rétti maðurinn fyrir Everton, hvorki til að halda liðinu uppi né til að koma því upp aftur ef allt fer á versta veg.
    Ég vona þess vegna að hann taki pokann sinn og snáfi burt eftir tímabilið.

    Ég horfði á Brighton spila gegn united á fimmtudaginn og ég er ennþá á þeirri skoðun að þeir rústi Everton á mánudaginn.
    Mig hreinlega hryllir við tilhugsuninni um Michael Keane að reyna að verjast mönnum eins og Mitoma og Enciso.

  12. Eirikur skrifar:

    Sendi þennan pistil þinn á Dyche og hann sá að þetta var allt satt og rétt og tók Keane út og setti Mína inn🤪