Everton – Tottenham 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik við Tottenham í kvöld, klukkan 19.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Keane, Tarkowski, Coleman, Gana, McNeil, Doucouré, Onana, Iwobi, Gray.

Varamenn: Begovic, Mykolenko, Mina, Coady, Holgate, Davies, Garner, Maupay, Simms.

Ritari missti af megninu af fyrri hálfleik en að sögn varamanns var fyrri hálfleikur nokkuð jafn, bæði lið áttu sínar sóknir, en Tottenham meira með boltann. Everton átti fjögur skot á markið á móti tveimur frá Tottenham en eina skotið á rammann kom frá Everton.

0-0 eftir fyrri hálfleik, en ritari fékk að upplifa fjörið í seinni hálfleik. 🙂

Everton byrjaði hann af krafti þegar þeir unnu boltann með góðri pressu framarlega á vellinum, eins og svo oft áður í leiknum. Gana komst í færi rétt utan teigs, með bæði Gray sér til vinstri og Doucouré til hægri en ákvað að skjóta frekar á markið í stað þess að leggja upp upplagt færi fyrir þá. Gray hoppandi vitlaus (og ritari sömuleiðis) því þarna var illa farið með gott færi.

Líflegur leikur annars þó að færin í seinni hálfleik hafi ekki verið mörg framan af. Það fór þó aldeilis að draga til tíðinda eftir um klukkutíma leik, þegar Harry Kane braut af sér við hliðarlínu og lenti í einhverju samstuði við Doucouré í kjölfarið. Doucouré tapaði sér við það og reyndi að ýta við Harry Kane sem fann snertinguna á andlitinu og var snöggur að henda sér í grasið. En Doucouré gaf þar með dómaranum nákvæmlega ekkert val og fékk beint rautt spjald. Væntanlega þýðir það, sem verra er, þriggja leikja bann. Ensku þulirnir ræddu reyndar um það í kjölfarið hvort það hefði ekki verið nóg að gefa gult og láta VAR sjá um að meta það hvort þetta væri rautt. Get ekki verið ósammála þar. 

Mörk breyta leikjum, eins og sagt er, og það gera rauð spjöld svo sannarlega líka og nú voru Tottenham menn allt í einu komnir með yfirhöndina. Þeir náðu svo að fiska víti á 66. mínútu þegar Keane var of seinn í hreinsun út úr teig og sparkaði í fótinn á Romero. Harry Kane á punktinn og skoraði örugglega. 0-1 fyrir Tottenham.

Hyldýpið blasti við, enda Everton nú manni færri og lent marki undir en hélt samt einhvern veginn áfram að skapa færi. Til dæmis á 75. mínútu þegar Gana átti frábært skot utan teigs, sem Lloris þurfti að hafa sig allan við að verja, með því að slá boltann yfir slána. Úr horninu náði Keane skalla að marki en varið. Everton klárlega að banka á dyrnar, manni færri. 

Dyche skipti inn Mykolenko og Simms í kjölfarið inn á fyrir Coleman og Gray og stuttu síðar komu Davies og Garner inn á fyrir Onana og Gueye. Aukinn kraftur færðist í liðið við þessar skiptingar en svo skemmdi það ekki fyrir að Lucas Mora plantaði tökkunum í sköflunginn á Michael Keane og fékk rautt fyrir vikið, rétt fyrir lok leiks. Aftur jafnt í liðum og aukin spenna að færast í leikinn. Ekki að maður ætti von á miklu samt, eftir að hafa verið manni færri í hálftíma. 

En annað átti eftir að koma á daginn því — hver annar en — Michael Keane, sem hafði boðið Lucas Mora betri sköflunginn nokkru áður, fékk boltann rétt utan teigs og náði bylmingsföstu skoti beint í netið hægra megin, alveg út við stöng og án þess að Lloris kæmi nokkrum vörnum við. Staðan orðin 1-1 allt í einu — nokkuð sem maður átti ekki von á. Og það reyndist síðasta markverða atvikið í leiknum.

Maður vonaðist fyrir leik eftir sigri úr leiknum til að létta verulega á pressunni í botnbaráttunni, en eins og leikurinn þróaðist er maður mjög sáttur við stig. Liðið hoppaði upp úr fallsæti við þetta og upp í 15. sæti, sem segir ýmislegt um hversu mörg lið eru að ströggla á botninum. Ef litið er til baráttunnar hjá Everton og frammistöðu — ekki bara í þessum leik — heldur undanfarna leiki, þá stendur maður sig að því að hugsa að þetta sé ekki lið sem lítur út fyrir að vera í botnbaráttu, enda með eitt besta stigahlutfall af liðum í botninum frá því að Dyche tók við. Búið að taka þrjú stig af toppliðinu og núna eitt stig (manni færri) af liðinu sem var að reyna að komast í þriðja sætið. En sjáum hvað setur.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6); Coleman (6), Tarkowski (7), Keane (8), Godfrey (6); Gueye (5), Doucoure (5), Onana (8); McNeil (6), Gray (6), Iwobi (6). Varamenn: Mykolenko (7), Simms (6). 

Tottenham menn með fimmur og sexur á línuna, fyrir utan einstaka sjöur. Michael Keane hins vegar maður leiksins.

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  2. Finnur skrifar:

    Algjör rússíbani! 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Það hefði verið auðvelt að loka sig inni í skelinni, og láta sig hverfa, eftir að hafa gefið viti á silfurfati. En í staðinn skorar Michael Keane jöfnunarmarkið með glæsibrag og er í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/65170383?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA

  4. Georg skrifar:

    Alvöru karakter í liðinu að koma til baka og þurfa að spila um 30 mínútur manni færri. Það er allt annað að sjá baráttuna í liðinu eftir að Dyche tók við liðinu. Doucoure ansi klaufalegur að láta fiska sig út af, Kane bjó algjörlega til þetta moment.
    Everton var ansi flott varnarlega í dag og gáfu ekki mikið af færum á sig, þess vegna var ansi svekkjandi að fá þetta klaufalega víti á sig, en alvöru svar hjá Keane með þessu marki.

  5. Finnur skrifar:

    Ég skil ekki alveg ósamræmið í einu… Ímyndum okkur að Coleman sé út við hliðarlínu, undir pressu, að reyna að hreinsa boltann fram á við. Sóknarmaður setur fótinn fyrir boltann og fær í sig spark við hreinsunina.

    Á hvern er dæmt? Jú, á sóknarmanninn — þó svo að það sé varnarmaðurinn sem sparkaði í hann. En svo gerist þetta sama inni í teig og þá er þetta allt í einu víti (eins og á Keane). Af hverju?