Mynd: Everton FC.
David Moyes og lærisveinar hans í West Ham mæta á Goodison Park í dag kl. 13:00. Þeir byrjuðu tímabilið með látum með markatölu upp á 8-3 eftir tvo sigra og náðu að haldast taplausir fram undir lok september. En svo fór þetta að dala aðeins hjá þeim í deildinni og síðustu fimm leikir hafa verið sigurlausir, að einum undanskildum (2-1 sigur gegn Leeds).
Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Townsend, Iwobi, Gray, Rondon.
Varamenn: Begovic, Tyrer, Kenny, Holgate, Mina, Gordon, Gbamin, Davies, Dobbin.
Enn vantar Richarlison og Calvert-Lewin og því leiðir Rondon línuna. Annars er þetta sama uppstilling og í leiknum gegn United úti, nema hvað Mina fer á bekkinn og Coleman kemur inn í staðinn. Godfrey þar með færður úr hægri bakverði í miðvörðinn.
Það tók Everton heilan stundarfjórðung að komast í færi en það kom þegar Coleman tók sprett upp hægri kantinn með bolta og sendi á Townsend, sem sendi háa stórhættulega sendingu fyrir mark utan af hægri kanti en Iwobi náði ekki skoti við fjærstöng. Fram að því hafði fyrri hálfleikur algjörlega snúist um West Ham sem dómineruðu boltann, stjórnuðu spili og litu mjög frísklega út.
Liðsmenn Everton sátu djúpt og varnarlínan virkaði ekki alltof traust á köflum en West Ham mönnum tókst ekki að skapa sér dauðafæri. Lið Everton ekki með bestu varnarvinnu utan teigs, en innan hans náði leikmaður Everton alltaf að blokkera skot eða hættulega sendingu, skalla frá eða koma með tæklingu á réttum tíma.
Lið Everton sat djúpt og beitti skyndisóknum og fengu betri færin, þrátt fyrir að vera ekki betri aðilinn í leiknum. Í einu slíku komst Gray upp hægri kantinn á 28. mínútu, beið eftir liðsauka og þegar hann barst lék Gray varnarmann West Ham illa og sendi lágan bolta á Iwobi sem kom á hlaupinu inn í teig. Iwobi þar með dauðafrír eiginlega beint fyrir framan markið en hitti einfaldlega ekki tuðruna. Besta færi leiksins fram að því.
West Ham menn náðu að skora á 34. mínútu eftir flott samspil þar sem þeir náðu loks að opna vörn Everton. Brutu reyndar á Doucouré í aðdragandanum en dómarinn sá ekkert athugavert. Sem betur fer var línuvörður vel staðsettur og sá að markaskorarinn var rangstæður.
Spurning hvort VAR hefði ekki gripið inn í líka vegna brotsins á Doucouré.
0-0 í hálfleik.
Það var allt annað að sjá til Everton í seinni hálfleik sem hófu leika eftir hlé af krafti.
Gray átti, mjög snemma í hálfleiknum, fullkomna lága sendingu inn í teig frá vinstri kanti, aftur fyrir varnarlínu en akkúrat nógu langt frá markverði til að sigla framhjá honum. Enginn hins vegar mættur á fjærstöng til að pota inn.
Iwobi fékk færi upp við mark örskömmu síðar. Fékk boltann inni í teig með bakið í markið. Tók snúninginn og reyndi lágt skot niðri í vinstra horn, en boltinn í varnarmann og út af.
Rondon fékk næsta dauðafæri þegar Townsend sendi háan bolta inn af hægri kanti. Rondon náði að skalla áfram en boltinn sigldi rétt framhjá fjærstöng.
West Ham menn skiptu aðeins um gír þegar um klukkutími var liðinn af leiknum og sköpuðu sér skotfæri fyrir Antonio, sem náði að losa sig við Godfrey. Michael Keane hins vegar mættur að bakka hann upp og náði að loka vel á skotið.
West Ham menn fengu svo hornspyrnu sem þeir áttu ekki að fá á 72. mínútu þegar Antonio braut á Pickford inni í teig sem gerði það að verkum að Pickford missti boltann út af. Pickford brjálaður yfir þeirri ákvörðun og að sjálfsögðu skoruðu þeir úr hornspyrnunni með skalla. 0-1 fyrir West Ham.
Gordon kom svo inn á fyrir Iwobi á 79. mínútu.
Everton fékk tvo sénsa til að jafna metin undir lokin. Í fyrra skiptið þegar boltinn barst til Gray inni í teig og hann náði fínu skoti á mark. Því miður náði Kurt Zouma að kasta sér fyrir það og blokkera.
Það seinna var skallafæri frá Godfrey eftir horn sem kom aðeins andartaki frá lokaflautunni. En boltinn rataði ekki á markið.
Fyrsta skipti á tímabilinu sem Everton vinnur ekki á heimavelli.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Digne (6), Coleman (6), Keane (7), Godfrey (5), Allan (7), Doucoure (6), Iwobi (5), Gray (7), Townsend (6), Rondon (5). Varamenn: Gordon (5).
Af hverju í ósköpunum er Iwobi í byrjunarliðinu en ekki Gordon? Ég hefði haldið að hann ætti skilið að fá að halda sæti sínu í liðinu.
Og enn einu sinni tveir markverðir á bekknum, ég hef aldrei séð tilganginn með því. Það hlýtur að vera einhver ungur útileikmaður sem gæti setið þarna í staðinn.
Þetta verður rosalega erfiður leikur gegn góðu liði og það kæmi ekki á óvart þó einhver stig tapist í dag.
Ég spái 1-2, en vonum það besta.
Nú finnst mér kominn tími á skiptingu, Iwobi út og Gordon inn.
Rondon er drasl!! Það er staðfest. Hversu lengi er hægt að afsaka hann með því að hann hafi ekki spilað í x marga mánuði og sé þess vegna ekki í formi?
Hann er búinn að vera hjá Everton í rúmlega sex vikur og búinn að spila slatta af leikjum svo hann ætti að vera kominn í gott líkamlegt form og leikjum., en hann er það bara ekki. Hann er bara aumingi og drasl og því fyrr sem DCL eða Richarlison koma aftur, því betra.
Iwobi er líka drasl. Maður hélt að hann hefði eitthvað lagast eftir fyrstu leikina en hann hefur sýnt sitt rétta andlit upp á síðkastið.
Gordon gerði meira á korteri heldur en Iwobi var búinn að gera allan leikinn.
Mikið er ég sammála Ingvari. Rondon er versti leikmaðurinn sem ég hef séð í Evertonbúningi í langan tíma. Iwobi getur ekkert klaufi að skora ekki í dauðafæri. Af hverju er Dobbin ekki notaður örugglega 10 sinnum betri en Rondon. Af hverju byrjaði Gordon ekki var mjög góður á móti utd. Annars voru Everton frekar lélegir í dag en ef þessir 2 hefðu ekki verið í liðinu hefði leikurinn aldrei tapast.
Rondon er að skila inn helling af vinnu sjáið hreyfingar hans án bolta sem opna fyrir aðra
Auðvitað skoraði King, það var skrifað í skýin, það er líka skrifað í skýin að Moussa Sissoko muni skora. Hann hefur ekki skorað eða lagt upp mark síðan í desember 2019 og ég er hræddur um að hann skori sigurmarkið í dag.
Annars fannst mér fyrri hálfleikurinn aðallega einkennast af lélegum sendingum og slæmum ákvörðunum, sérstaklega hjá okkar mönnum. Eins fannst mér Godfrey og Keane ekki traustvekjandi í fyrri hálfleik, sendingarnar frá Pickford hræðilegar, yfirleitt bara beint útaf Davies ekkert spes fyrir utan markið, Townsend ekki jafn góður og hann hefur verið, Rondon skárri en síðast (samt drasl) og dómarinn lélegur svo ekki sé meira sagt.