Mynd: Everton FC.
Ekki gleyma Íslendingaferðinni á Burnley leikinn. Allar upplýsingar hér.
Everton sigraði Sunderland með tveimur mörkum í dag, þar af einu marki frá Gana Gueye sem skoraði þar með sitt fyrsta mark fyrir félagið og Lukaku sem skoraði sitt 18. mark á tímabilinu.
Uppstillingin: Joel, Baines (fyrirliði), Funes Mori, Williams, Coleman, Gana, Schneiderlin, Davies, Lookman, Barkley, Lukaku. Varamenn: Stekelenburg, Jagielka, Mirallas, McCarthy, Barry, Valencia, Holgate.
Gibson og Oviedo í byrjunarliðinu hjá Sunderland.
Everton liðið var með undirtökin frá upphafi og náði góðri pressu á Sunderland sem sátu mjög djúpt og ætluðu greinilega nýta sér skyndisóknir til að fá eitthvað úr leiknum. Defoe mjög einangraður hjá þeim frammi við fyrir vikið.
Lookman átti fyrsta almennilega færið í leiknum þegar hann náði flottu skot innan teigs á 4. mínútu sem Pickford í marki Sunderland varði en náði ekki að halda. Boltinn virtist ætla að rúlla yfir línuna en Pickford fljótur á fætur og rétt náði að kasta sér á hann áður en boltinn fór yfir línuna. Hefði verið vandræðalegt fyrir Pickford sem er nýtekinn við í marki Sunderland aftur eftir meiðsli.
Lukaku var svo hársbreidd frá því að pota boltanum inn við fjærstöng eftir horn á 11. mínútu sem fékk að sigla fyrir mark Sunderland.
Gueye komst í ágætis færi á 19. mínútu eftir að hann og Lookman pressuðu á hægri bakvörð Sunderland og þvinguðu hann til að gera mistök. Gueye stal svo af honum boltanum, komst framhjá miðverði einnig og alveg upp að marki þar sem hann reyndi að skjóta milli fóta Pickford en sá var fljótur að loka því gati og varði í horn.
Sunderland óx ásmegin eftir þetta og meira jafnvægi var milli liðanna en Sunderland sköpuðu sér engin færi í fyrri hálfleiknum. Man reyndar varla eftir því að Robles hafi þurft að koma við boltann.
En hinum megin fékk Lukaku stungu inn fyrir vörn Sunderland á 38. mínútu, komst einn upp að marki með varnarmann í bakinu en var ranglega dæmdur rangstæður þegar hann átti aðeins eftir að koma boltanum framhjá markverði.
En aðeins mínútu síðar var Everton komið yfir. Coleman fékk langa og algjörlega frábæra sendingu frá Tom Davies vinstra megin við miðju og hátt upp hægri kantinn, komst inn í teig og sendi lágan bolta fyrir þar sem Gana Gyeue kom aðvífandi, óvaldaður og þrumaði inn. Staðan orðin 1-0 Everton og Gana Gueye kominn með sitt fyrsta mark fyrir Everton.
Sunderland menn voru síðan stálheppnir að vera ekki tveimur mörkum undir í hálfleik þegar Tom Davies fékk óvænt frákast úr vörninni mínútu fyrir lok hálfleiks og hann hlóð í fast skotið með utanverðum hægri fætinum en í stöngina og út.
1-0 í hálfleik. Everton með boltann yfir 70% tímans með nokkur skot á móti engu skoti frá Sunderland.
Everton liðið virkaði algjörlega á hælunum í byrjun seinni hálfleiks og voru hálf værukærir. Sunderland menn mun beittari í sínum aðgerðum en náðu þó ekki að skapa sér nein færi að viti. Seinni hálfleikur varð svolítið scrappy fyrir vikið og þar sem Sunderland menn náðu að loka meira á færin frá Everton varð lítið að gerast framan af.
Það fyrsta markverða var þegar Lookman var skipt út af fyrir Mirallas á 60. mínútu og Valencia inn á fyrir Davies og í kjölfarið fengu bæði Barkley og Lukaku tækifæri til að skora en Barkley, sem var upp við mark, skaut hátt yfir slána. Færi Lukaku skapaði hann sér sjálfur með því að nýta sér styrkinn til að komast framhjá varnarmanni en Pickford varði skotið frá honum.
Á 78. mínútu virtist vendipunkturinn vera kominn fyrir Sunderland þegar hurð skall nærri hælum marki Everton. Fyrsta almennilega færi Sunderland í leiknum en þulirnir voru einmitt búnir að segja að Defoe gæti þurft að vera í því hlutverki að bíða fram til loka leiks og skora jöfnunarmarkið. Og hann var hársbreidd frá því þegar skot hans fór í neðanvarða slá og niður nógu nálægt marklínu til að marklínutæknin væri notuð til að sýna að ekki væri um mark að ræða. Everton náði hins vegar að hreinsa boltann í horn og upp úr horninu komust þeir í skyndisókn með langri sendingu upp hægri kant á Lukaku sem komst alla leið upp að marki, með Oviedo að djöflast í bakinu á sér á löngum kafla, en náði að setja boltann framhjá Pickford.
Í staðinn fyrir að vera 1-1 var staðan orðin 2-0 fyrir Everton. Algjört lykilmóment í leiknum. Koeman skipti svo Barkley út af fyrir McCarthy á 82. mínútu.
Valencia hefði átt að bæta við þriðja markinu á 87. mínútu þegar Lukaku sendi hann inn fyrir með frábærri stungusendingu en skotið frá Valencia glæsilega varið hjá Pickford. Sunderland menn hefðu ekki getað kvartað þó þeir hefðu fengið á sig eins og fjögur til fimm mörk í leiknum.
Lokaniðurstaðan þó 2-0 fyrir Everton sem eru nú ósigraðir í níu leikjum í deild (og búnir að vinna 6 þeirra).
Einkunnir Sky Sports: Robles (6), Coleman (7), Ashley Williams (6), Funes Mori (6), Baines (6), Davies (7), Schneiderlin (8), Gueye (8), Barkley (5), Lukaku (6), Lookman (5). Varamenn: Mirallas (5), McCarthy (5), Valencia (5). Gana Gueye maður leiksins en Sunderland menn með 5 á línuna, fyrir utan einn með 6. Man vart eftir verri einkunn hjá mótherja, en eins og sagt er: andstæðingurinn spilar bara eins vel og maður leyfir.
Jæja, sigur og hreint mark, mjög jákvætt að fá 3 stig þar sem WBA er í baráttu um 7unda sætið.
Flottur sigur hjá okkar mönnum.
já félagar góður sigur
Schneiderlin frábær í dag og Gana líka, stóðu uppúr að mínu mati en flottur sigur 🙂 oooooooooooooooog gott jinx hjá mér 🙂
Enginn glæsibragur á þessu í dag en 3 stig í húsi og það er það sem skiptir öllu máli.
Góðan daginn Ingvar. Víst var glæsibragur á þessu í dag. Liðið er að spila af miklu öryggi í dag og síðan að Lookman og Davies komu í liðið ásamt nýlega Morgan Schneiderlin þá finnst mér að loksins séum við komnir með fínt lið og erum stöðugt hættulegir. Að ég tali nú ekki um endurkomu Idrissa Gana Gueye.
En þetta er nú bara mitt álit.
Kær kveðja, Ari
Lukaku má sko alltaf sleppa liðsferðum í sólina til að leika við kærustuna ef hann skorar líka inni á vellinum. http://www.90min.in/posts/4335139-everton-star-romelu-lukaku-continues-to-score-after-netting-stunning-daughter-of-dutch-tv-presenter?a_aid=35449
Coleman og Gana Gueye í liði vikunnar að mati BBC:
http://www.bbc.com/sport/football/39098821
Skemmtileg lesning um Lukaku:
http://www.skysports.com/football/news/11671/10782405/romelu-lukakus-everton-record-could-be-just-the-start-for-him
Flott úrslit fyrir Everton en Koeman var ekki sáttur við seinni hálfleikinn. Þetta er að koma hægt og sígandi.
Það er frábært að tryggja stigin 3 í þessum leik.Ég held að næsti leikur sé góður mælikvarði á getu okkar manna vonandi skila þeir 3 stigum í hús.
Það eru taldar stórauknar líkur á því að Rooney muni snúa aftur til Everton í sumar þrátt fyrir Risaboð frá Kína, áhugavert.
Og ekki minnkar viðtal Sky Sports við Koeman líkurnar á því að að þessu gæti orðið.
http://www.skysports.com/football/news/11667/10787267/wayne-rooney-will-consider-return-to-everton-at-end-of-season
Ég hef engan áhuga að fá Rooney aftur til Everton. Hann er með 300000 pund núna á viku og bjóða honum kannski 150000-200000 er bull kemur bara óánægðu af stað hjá hinum leikmönnunum. Hámark að bjóða honum 80000 á viku ef hann vill það ekki þá bless. Everton á að halda áfram að byggja upp stórveldi með kaupum á leikmönnum 18-25 ára aðallega allt í lagi að fá einn og einn eldri ef þeir kosta ekki mikið eða of launadýrir.