Mynd: Everton FC.
Everton og Leicester skildu jöfn í kaflaskiptum leik þar sem Everton liðið skapaði betri færi en Lukaku var fyrirmunað að skora þrátt fyrir nokkur dauðafæri. Leicester voru vel skipulagðir og kraftur í þeim, enda að berjast fyrir lífi sínu í deildinni, þó maður klóri sér í kollinum yfir þeirri stöðu miðað við þá frammistöðu sem maður hefur séð frá þeim hingað til.
Uppstillingin fyrir leikinn: Howard, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, McCarthy, Besic, Barkley, Naismith, Lennon, Lukaku. Bekkurinn: Joel, Gibson, Kone, Mirallas, Atsu, Garbutt, Alcaraz.
Leicester byrjuðu betur í leiknum og Everton virkuðu hálf þunglamalegir framan af en bötnuðu mikið þegar á leið. Leicester vörðust á vel skipulagðri fimm varnarmanna línu með fjóra miðjumenn fyrir framan sig sem gerði Everton erfitt fyrir að brjótast í gegn og komast í færi.
Leicester áttu fyrsta skot á mark úr þröngu færi hægra megin á 2. mínútu en Howard búinn að loka markinu og varði lágt skot í horn.
Þrjú hálffæri Everton litu dagsins ljós í kjölfarið en vantaði herslumun að koma boltanum á mann í dauðafæri.
Besic átti svo skot af löngu færi á 17. mínútu en beint á markvörð Leicester.
Lukaku komst í dauðafæri einn á móti markverði eftir stungusendingu frá Naismith en dæmdur (réttilega) rangstæður á 20. mínútu.
Besta færi hálfleiksins kom þegar Naismith setti Coleman inn fyrir vinstri bakvörð Leicester með glæsilegri stungu á 24. mínútu. Coleman tóḱ sprettinn inn í teig og sendi flottan bolta á Lukaku — í dauðafæri — en hann setti boltann upp í stúku. Illa farið með mjög gott færi. Staðan hefði í raun átt að vera 1-0 þar.
Leicester svöruðu að bragði með skoti rétt yfir mark af löngu færi á 27. mínútu og nokkuð hærra yfir markið úr betra færi innan teigs tíu mínútum síðar. Þeir pressuðu vel á leikmenn Everton og náðu oft að riðla leikskipulagi Everton. Enduðu fyrri hálfleikinn með pressu á mark Everton en vörnin hélt. Stones með glæsilega blokkeringu alveg í lokin, kastaði sér fyrir skot úr ákjósanlegu færi.
0-0 í hálfleik.
Leicester byrjuðu seinni hálfleik af gríðarlega miklum krafti og sköpuðu dauðafæri strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks. Howard sýndi frábæra takta þegar hann varði skot utan teigs með því að kasta sér niður hornið og slengja hendi í boltann. Frákastið barst hins vegar beint á sóknarmann Leicester inni í teig sem setti hann framhjá fjærstöng þegar Howard var rétt að stíga upp aftur. Þar hefði Leicester getað (og í raun átt að) komast yfir.
Tvöföld skipting hjá Everton: Gibson inn á fyrir Barkley og Atsu inn á fyrir Besic á 55. mínútu.
En Everton komust loks yfir á 57. mínútu. Gibson, nýkominn inn á, sendi á Lukaku sem framlengdi á Naismith inni í teig vinstra megin. Sá stoppaði, tók skrefið til hliðar (nær miðju vítateigs) og virtist ætla að hlaða skotið á samskeytin fjær uppi en tók í staðinn lágt skot alveg niðri við nærstöng, gegnum klofið á varnarmanni með markvörð Leicester alveg strand, sá gat ekkert annað en horft á boltann fara í netið. 1-0 Everton.
Tvöföld skipting hjá Leicester á 62. mínútu og þeir félagar sem komu inn á fyrir Leicester voru búnir að jafna innan við mínútu síðar. Þó nokkur heppnisstimpill á markinu, sending frá hægri fyrir mark sem Howard slær frá en beint í fæturna á Stones. Boltinn breytti því um stefnu þannig að hann datt fyrir Nugent. Skotið frá honum í Coleman, breytti um stefnu og í netið. Staðan orðin 1-1.
McCarthy setti Lukaku einan inn fyrir vörn Leicester með frábærri hælspyrnu en Lukaku — einn á móti markverði — setti boltann rétt yfir samskeytin. Aftur mjög illa farið með gott færi.
Og Leicester refsuðu fyrir það grimmilega með því að setja mark í andlitið á okkar mönnum. Aftur sending frá hægri, hár bolti sem Howard náði rétt að slá frá marki. Boltinn fór beint á leikmann Leicester sem sendi fyrir þar sem Cambriosso þrumaði inn af stuttu færi. 1-2 Leicester.
Naismith setti Lukaku einan inn fyrir hægra megin með frábærri sendingu yfir vörn Leicester, og setti þannig Lukaku einan á móti markverði í algjörlega frábæru færi en… hann hitti ekki markið. Ótrúlega frústrerandi að horfa á hann sóa svona dauðafærum.
Naismith endurtók svo leikinn með því að setja Atsu einan inn fyrir hægra megin (eiginlega nákvæmlega eins og hann gerði fyrir Lukaku örskömmu fyrr) en fyrsta snerting Atsu arfaslök og ekkert kom úr því, náði ekki einu sinni skoti.
Naismith út af fyrir Mirallas á 84. mínútu.
Lukaku var næstum búinn að jafna þegar hann breytti stefnu skots frá einhverjum Everton manninum (sá ekki hver) en boltinn rétt framhjá stönginni. Lukaku var duglegur að koma sér í færi en virtist algjörlega fyrirmunað að skora. Ekki hans dagur.
Við fögnuðum þó vel þegar Lukaku virtist ná loks að koma tuðrunni í netið á 87. mínútu en endursýning sýndi að markið var sjálfsmark (skalli frá Upson í eigið net). Það telur þó jafn mikið og staðan orðin 2-2.
Bæði lið reyndu sitt ítrasta til að taka þrjú stig en liðin skildu jöfn — með sömu markatölu og í fyrri leiknum: 2-2.
Einkunnir Sky Sports: Howard 4, Baines 5, Stones 6, Jagielka 5, Coleman 6, Besic 6, McCarthy 5, Barkley 5, Lennon 6, Naismith 7, Lukaku 5. Varamenn: Gibson 6, Mirallas 5, Atsu 6. Svipaðar einkunnir hjá Leicester, mestmegnis fimmur en einstaka sexa/sjöa.
ég vil að Martinez geri breytingu um leið og Lukaku er búinn að ná þrennunni og gefi Kone séns í svona 35 mín. eða svo 🙂
hlakka til að sjá Lennon og svo er parið Besic/McCarthy mjög spennandi. Leiðinlegt samt fyrir þá að það er alveg sama hvernig þeir standa sig í dag, Barry tekur plássið af Besic í næsta leik 🙂
Ég vill hafa Mirallas og Atsu á köntunum. Vill ekki sjá Lennon í byrjunarliðinu og svo má hvíla Naismith þótt hann hafi staðið sig vel í vetur. Atsu var valinn besti leikmaður Afríkukeppninnar skil ekki ef hann er ekki nógu góður fyrir Everton.
Lukaku hlýtur að vera með klístur á skónum 🙂
Er ekki komin tími á að skora á goodison.
Djöfull erum við lélegir.
Þessi skoti er ótrúlegur í alla staði.
Tímabilið í hnotskurn.
Howard að kosta okkur stigin.
Að við skulum ekki vera búnir að klára þennan leik er með ólíkindum,getur einhver sagt mér hvað er í gangi hjá okkar klúbbi?
Barkley getur ekki neitt lengur 🙁
ég er ekki búinn að gefast upp en djöfull er þetta hrikalega pirrandi ástand
Við gátum ekki einu sinni skorað sjálfir.
svakalega erum við lélegir í deildinni
En við erum besta lið í heimi… á gervigrasi. 😀
Ég var ekki mikill aðdáandi Robles en hann var að standa sig vel á meðan Howard var meiddur. Svo vel að ég er algjörlega búinn að skipta um skoðun á honum. Hann hélt hreinu í þessum leikjum sem hann spilaði í deildinni og var frábær gegn West Ham. Þess vegna skil ég ekki af hverju Howard labbaði beint í byrjunarliði eftir meiðslin. Howard er búinn að vera frábær fyrir okkur síðan hann kom þar til á þessu tímabili og kominn tími á að hann fari á bekkinn. En Martinez hefur sína gulldrengi og Howard er einn þeirra sem virðast ekki þurfa að berjast fyrir sæti sínu í liðinu sem er fáránlegt enda kostaði það okkur sigur í dag. Annars var allt liðið drullulélegt í dag nema kannski Stones og Jagielka og Naismith var ágætur. Kannski voru menn svona þreyttir eftir Evrópuleikinn annars finnst mér það vera fáránlega léleg afsökun. Tímabilið 2007-2008 vorum við líka í Evrópukeppni og þá var aldrei talað um þreytu eftir Evrópuleikina enda kláruðum við það tímabil í fimmta sæti í deildinni og komumst í sextán liða úrslit í Evrópukeppninni með mun minni hóp og minni gæði í honum líka.
Eini munurinn er að þá vorum við með þjálfara sem vissi hvað hann var að gera.
MARTINEZ BURT!!!!!
Ekki góður leikur í dag. Er þetta sama lið og lék seinasta fimmtudag í evrópukeppninni? Af hverju fær Mirallas ekki að spila meira, af hverju fær Kone ekki séns? Drauma blandan á miðjuna sem allir hafa beðið eftir, Besic og McCarthy voru daprir. Fannst Gibson kona feykilega sterkur inn með hnitmiðaðar og hættulegar sendingar.
Helvíti pirrandi season.
Eina sem getur bjargað vetrinum er Evrópu deildin en ég er ekki að missa mig í bjartsýni en maður vonar samt.
Auðveldur útileikur eftir viku á Emirates 🙂
Huggun að vera svo til öruggir í 16 líða í Evrópu deildinni, vil að Kone, Robles, Gibson og Atsu fái séns þar.
Það er eitthvað mikið að í liðinu hlýtur að vera. Menn spila ekkert upp á vinstri vænginn á Baines, hann er búinn held ég. Það þarf að kveikja eitthvað í liðinu, ég held að stærstu mistökin væru að láta Martinez fara. Það er maður sem á eftir að koma með dollu í hús. Hann verður bara að fara að þora að breyta meira. Ég held að Mirallas, Lukaku og Baines séu eitthvað að skemma út frá sér. Mirallas lætur út úr sér að hann vilji fara, Lukaku segist vilja spila fyrir stórklúbb (hvað er Everton?) og Baines er í ruglinu.
Fyrir utan snillingana þrjá Distin, Barry og Howard þá finnst mér Coleman hafa verið hræðilegur. Miðað við hversu góður hann var í fyrra þá hefur hann ekki verið að standa sig á þessu tímabili. Selja hann á meðan peningur fæst fyrir hann.
Allt tal um að Lukaku segist vilja þetta og hitt er vitleysa held ég. Fréttamennirnir taka viðtal og skrifa það sem þeir vilja, skiptir nánast engu hvað leikmenn segja í svona viðtölum.
Það má líka mín vegna selja Baines á meðan fæst peningur fyrir hann. Og Mirallas líka.
Love you all 🙂
Þrátt fyrir að okkur vegni ekki vel nú um stundir skulum við hafa jákvæðnina að leiðarljósi.