Mynd: Everton FC.
Leikmenn eru þessa dagana á fullu á undirbúningstímabili í sumarbúðunum í Austurríki (Bad Erlach, sjá vídeó). Sumir fengu að fresta mætingu vegna þátttöku í HM en væntanlega eru allir leikmenn til staðar, þar með taldir Arouna Kone og Darron Gibson sem ættu að ná fullu undirbúningstímabili eftir að hafa misst af lunganu af síðasta tímabili vegna meiðsla. Bryan Oviedo mun þó ekki ná fullu undirbúningstímabili, en hann verður ekki klár fyrr en í lok september eftir að hafa tvífótbrotnað í FA bikarleik á síðasta tímabili.
Við bíðum öll eftir því hvort einhverjir bætist við hópinn og hafa margir verið nefndir en ekki gott að segja hvað er rétt í slúðrinu. Sagt var að Demba Ba, sem gerði úti um titilvonir Liverpool á síðasta tímabili, hafi verið hársbreidd frá því að ganga til liðs við Everton en fór til Besiktas í staðinn. Umboðsmaður hans staðfesti þetta. Enn er því beðið eftir hvernig staða sóknarmanns leysist (og ekkert ráðið með Lukaku enn). Martinez lét hafa það eftir sér að hann vilji bæta við einum miðjumanni og þremur sókndjörfum leikmönnum, líklega tveimur framherjum og einum á kantinn. Hvorki þurfi, aftur á móti, að fjölga markvörðum né varnarmönnum. Martinez sagðist vera tilbúinn að vera þolinmóður til að tryggja sér réttan leikmann og er alltaf opinn fyrir hentugum lánssamningum líka, ef svo ber undir. Einnig er ekki ólíklegt að sumar stöðurnar verði leystar með lánssamningum, eins og á síðasta tímabili.
Í síðasta mánuði var greint frá því að Joe Royle, sem gerði Everton að FA bikarmeisturum 1995, hefði tekið starfi sem knattspyrnulegur ráðgjafi nýja stjóra Norwich, Neil Adams, en nú aðeins nokkrum vikum seinna er hann kominn aftur til Everton til að taka við akademíunni. Hann var að vonum kátur með heimkomuna í viðtali. Gárungar sögðu náttúrulega strax: Loksins náði Everton að landa sóknarmanni! 🙂 Hægt er að sjá feril Joe Royle með Everton í myndum á þessari síðu.
Listinn yfir æfingaleiki á undirbúningstímabilinu er orðinn ljós. Leikið verður við Tranmere þann 22. júlí, Leicester 27. júlí, Porto (heima) 3. ágúst, Celta Vigo 6. ágúst, og SC Paderborn 07 þann 9. ágúst. Tímabilið hefst svo þann 16. ágúst, á leik við nýliða Leicester á útivelli. Rétt er að minnast á að hægt er að kaupa aðgang yfir Internetið að öllum þessum leikjum (nema leiknum gegn Porto sem er testimonial leikur Leon Osman). Hver leikur kostar £3.99 og hægt er að kaupa alla fjóra í einum pakka á £14.99 og veitir það aðgang að bæði leiknum í beinni útsendingu sem og on-demand eftir leik.
Nýi búningurinn er kominn í almenna sölu en forsalan hefur gengið vonum framar: 150% aukning frá því í fyrra og jafnframt einhverjar bestu sölutölur á búninginum sem sést hafa undanfarin ár (miðað við sama tímabil).
En þá að ungliðunum… Eins og við þekkjum fengu John Stones og Luke Garbutt að spreyta sig í fyrsta skipti með aðalliðinu á síðasta tímabili og Barkley hélt náttúrulega áfram að láta ljós sitt skína. Martinez sagði í viðtali að nokkrir aðrir ungliðar myndu á þessu tímabili eiga séns á því að fylgja í kjölfar Barkley, Stones og Garbutt og nefndi þar varnarmanninn Tyias Browning, miðjumanninn John Lundstram, kantmanninn Matthew Kennedy og sóknarmennina Conor McAleny og Chris Long. Allir þessir leikmenn, að Matthew Kennedy undanskildum (keyptur frá Skotlandi), komu upp í gegnum öflugt ungliðastarf félagsins. Alltaf gaman að sjá þegar ekki er farið yfir lækinn að sækja vatnið. Leikjafjöldinn á þessu tímabili er jafnframt slíkur að töluvert góðar líkur eru á að við fáum að sjá einhverja þeirra í aðalliðinu — til dæmis í einhverjum Evrópuleiknum.
Og klúbburinn heldur áfram að byggja til framtíðar en samningar voru undirritaðir við sjö af nýkrýndum U18 ára Englandsmeisturum Everton: Jonjoe Kenny, Joe Williams, Calum Dyson, Russell Griffiths, Curtis Langton, Harry Charsley og Gethin Jones. Sá fyrstnefndi, Jonoe Kenny, er jafnframt nýkrýndur Evrópumeistari U17 ára liða ásamt félaga sínum: Ryan Ledson.
Einnig var staðfest að Everton hefði fengið sóknarmann til sín úr akademíu United að nafni Sam Byrne og kom hann á free transfer. Hann hefur verið duglegur að skora fyrir U19 ára landsliði Íra, lék til dæmis 10 leiki með þeim á síðasta tímabili og skoraði 7 mörk. Hann hefur nú skrifað undir atvinnumannasamning við Everton og mun væntanlega leika með U21 árs liði Everton.
Æfingatímabil yngri liðanna er líka hafið og U18 ára Englandsmeistararnir okkar byrjuðu með miklum látum; unnu Bury U18 6-1 og tveimur dögum síðar einnig Preston U18 6-3!! Þeir gerðu svo 1-1 jafntefli við Crewe U18 en hægt er að sjá allt leikjaplan þeirra hér. U21 árs liðið hefur aðeins leikið einn leik hingað til, við Southport U21 en sá leikur tapaðist 1-2. Leikjaplan U21 árs liðsins er hér.
Í lokin má svo geta þess að lán Francisco Junior hjá Stromsgodet var framlengt um einn mánuð.
Ég held að þetta sé nákvæmleg málið að vera ekkert með eitthvað panik í leikmannakaupum. Vanda valið og fá einhvern sem hentar liðinu vel. Hópurinn er nokkuð þéttur og það virðist vera að við séum ekki að fara selja neinn frá okkur. Þannig að þá er ekkert drama í gangi sem skemmir bara stemmarann.
Nákvæmlega.