Íslendingaferð: Everton – Tottenham 2013

Mynd: FBÞ

Fimmtán ferðalangar frá Íslandi lögðu af stað til Englands í fjögurra daga pílagrímsferð fyrstu helgina í nóvember 2013 til að sjá tvo leiki í ensku úrvalsdeildinni (Everton – Tottenham og Chelsea – Newcastle). Fimm af þeim lögðu af stað að kvöldi fimmtudags til að gista í Newcastle (með viðkomu í Edinborg) en við hinir (tíu) eldsnemma að morgni föstudags í áttina til Everton borgar.

Við áttum flug til Manchester frá Keflavíkurflugvelli kl. 8 þannig að við vöknuðum eldsnemma um morguninn og keyrðum á völlinn. Biðraðirnar í öryggisgæslunni í Leifsstöð voru all-svakalegar, náðu út allan ganginn, niður stigann og niður á hæðina fyrir neðan (aldrei séð það svo slæmt). En þær gengu þó merkilega vel fyrir sig og áður en varði vorum við komnir í gegn! Einn ferðalangur (nefni engin nöfn) sagði að hann hefði ekki þorað að taka táfýluspreyið með í þetta skiptið, þar sem það var gert upptækt í öryggisleitinni síðast en sagðist hafa tekið extra púst á skóna um morguninn, svona til öryggis.

Eftir þetta tóku við smá innkaup í fríhöfn, síðan gjaldeyrisúttekt í banka og skjótar verslunarferðir í búðirnar í nágrenni við fríhöfnina en að lokum náðum við að smala hópnum öllum saman (nema feðgunum Eiríki og Agli, sem fóru á mis við okkur til að byrja með). Við sátum því saman í kaffiteríunni og borðuðum morgunmat og skáluðum saman í einum bjór og kynntumst betur — en fyrir utan kjarnann í hópnum sem hefur farið nokkuð reglulega (Finnur, Baldvin og Haraldur Örn) voru þar Birgir (sem hefur farið einu sinni áður) og nokkrir sem hafa ekki farið áður á okkar vegum (Halldór, Haraldur Gísla, Jón Ingi, Hörður og áðurnefndir Eiríkur og Egill).

_MG_1366
Hópurinn samankominn: Jón Ingi, Baldvin, Haraldur Örn, Birgir,
Haraldur Gísla, Halldór, Hörður, Egill og Eiríkur.

Þegar nær dró brottför fluttum við okkur niður, nær hliðinu (sjá mynd hér að ofan) og náðum að klára hálfan bjór áður en flugfreyjan kom og sótti okkur (þó nokkuð væri enn í brottför). Greinilega vön svona fótboltabullum. 🙂 Vélin síður en svo fullbókuð þannig að við gátum dreift svolítið úr okkur og látið fara vel um okkur.

Röðin í öryggistékkinu í Manchester var, líkt og heima, svolítið brjáluð, en gekk nokkuð hægar en í Leifsstöð. Við komumst þó að lokum í gegn og Halli fór og náði í 15 miða á Newcastle leikinn en hann hafði mælt sér mót við mann með miða á bensínstöð til móts við flugvallarbygginguna.

 

_MG_1377


 

Síðan var hoppað upp í rútuna (sjá hér að ofan) sem flutti okkur beint á hótelið í Everton borg: Jury’s Inn við Albert’s Dock. Þegar þangað var komið var farangrinum hent inn á herbergi og skroppið á síðbúinn hádegismat á Pizza Express matsölustaðinn til móts við hótelið.

_MG_1381

Yfirmaðurinn kvaddi okkur með virktum, sagði að það væri komin nýir eigendur brýndi fyrir okkur að við ættum að hafa samband við hann í næstu ferð til að kanna með afslátt á næstu máltíð fyrir hópinn.

_MG_1436

Við félagarnir héldum svo í humátt að Everton búðinni í Liverpool klasanum þar sem verslað var líkt og enginn væri morgundagurinn. Ég gekk út með varning fyrir vel yfir 100þ krónur en langstærstur hluti þess þó fyrir aðra. Hópurinn hittist á Bierkellar barnum að því loknu, sem er beint fyrir ofan gamla Jamie Carragher barinn, en Bierkellar ku víst hafa tekið yfir allan business-inn þegar hann opnaði, enda stór og mikill bar og mun betri að mörgu leyti. Stutt stopp á hótelinu að því loknu til að skila af sér varningnum (og sumir lögðu sig eftir ferðalagið) en svo (með viðkomu á hótelbarnum) var haldið á hinn sögufræga Cavern Club (sjá Wikipedia) um kvöldið þar sem bjórinn var sötraður og hlustað á bítlatónlist fram eftir nóttu.

Laugardagur 2. nóvember

Fimm úr hópnum kusu að vera eftir í Everton borg á laugardeginum á meðan við hinir fórum að horfa á Newcastle-Chelsea leikinn en meðal þeirra sem eftir voru var Hörður, Liverpool-maðurinn með sálfspyntingarhvötina, sem vildi horfa á Arsenal leggja sína menn 2-0 á Emirates. Við hinir vöknuðum snemma og borðuðum morgunmat á hótelinu en fórum svo út og biðum eftir rútunni sem átti að flytja okkur til Newcastle. Þegar rútan kom kom í ljós af hverju verðið var svona lágt, því rútan var eldgamall skrjóður! Rútuferðin var um fjórir tímar (!), sem var nokkuð meira en við höfðum áætlað en kom svo sem ekki að sök þar sem flestir sváfu sig í gegnum það ferðalag, enda mikið djammað kvöldið áður. Það vakti mikla hrifningu allra í rútunni þegar farsíminn hjá rútubílstjóranum hringdi og þar hljómaði Everton lagið Z-Cars en það er (eins og alltaf þegar maður ferðast til Everton borgar) að meirihluti almennings sem við hittum styðja Everton en ekki litla bróður okkar (þmt. þjónustufólk, leigubílstjórar og iðnaðarmennirnir sem voru að dytta að á hótelinu — þeir voru í Everton treyjunni við vinnuna undir gallanum). 🙂 Enda lítið af aðfluttum Norsurum í borginni.

_MG_1478
Biggi og Halli fyrir utan St. James’ Park í Newcastle
Við höfðum mælt okkur mót við ferðalangana fimm (sem fóru til Edinborgar) á The Strawberry barnum (sjá StreetView) rétt fyrir utan St. James’s Park í Newcastle (sjá StreetView). Þar hittum við Everton mennina Hadda og Hall ásamt þremur félögum þeirra. Þetta var annars smekkfullur bar af Newcastle mönnum og við stóðum úti á svölunum uppi (sem var að sjálfsögðu með prívat bar svo ekki þyrfti að troðast í gegnum þvöguna niðri að ná sér í bjór). Drukkum þar einn bjór með strákunum en í lokinn gerðist Baddi ævintýragjarn og pantaði einhvern dökkann bjór á línuna sem reyndist vera einhver versti bjór sem við höfum nokkurn tímann smakkað! 🙂 Hefði ekkert haft á móti því að skipta honum út fyrir Chang bjórinn! Þar sem þetta var hádegisleikur og við ekki stoppað rútuna til að borða á leiðinni þá komum við við á sölustandi fyrir utan leikvanginn og gleyptum í okkur einhvern svakalega sóðalegan hamborgara áður en við héldum inn á leikvanginn.

_MG_1493
Newcastle leikurinn var annars bráðskemmtilegur og við fengum fín sæti, í Leazes Stand stúkunni, nokkuð hátt uppi og með góða yfirsýn yfir völlinn. Newcastle menn voru nokkuð í vörn í fyrri hálfleik og Chelsea með fín færi en sóknarlína þeirra bitlaus með öllu enda þeirra besti sóknarmaður Chelsea að spila fyrir Everton þessa dagana — og Torres myndi ekki hitta belju þó hann héldi í halann á henni. Í seinni hálfleik gerðu Newcastle menn Everton ágætis greiða með því að setja tvö flott mörk á Chelsea og lifnaði aldeilis yfir stemmingunni á vellinum þá.

_MG_1525
 

Baddi og Halli Örn kynntust tveimur Líbíumönnum sem sátu við hliðina á þeim (en hvorugur studdi reyndar Newcastle — annar studdi Chelsea og hinn Arsenal) en þeir voru hinir hressastir og voru mættir með banana og kex og buðu þeim. Baddi og Halli voru líka í hollustunni og buðu koníakið á móti. 🙂

Allir kátir í hópnum með 2-0 sigur Newcastle á Chelsea því með þeim gæti Everton með sigri á Tottenham náð öðru sætinu í deildinni. Ferðalangarnir fimm, sem við köllum hér eftir „Newcastle mennina“ þó aðeins einn þeirra haldi með Newcastle (tveir með Everton), fóru með okkur í rútunni heim á leið og var mikið spjallað og hlegið á leiðinni til baka. Kom þá í ljós að einn í hópnum var kjaftforari en (meira að segja) Baddi (!) og voru þeir titlaðir feðgar þar eftir. Eggið kenndi þar hænunni ýmsa takta, sem verða ekki hafðir hér eftir, reytti af sér brandara og stóð fyrir myndasýningu. Hallur lét líka ekki sitt eftir liggja og skaut látlaust á Badda alla ferðina, enda orðheppinn með eindæmum, og allt stytti þetta ferðina til muna — sem var ágætt því það var lélegt skyggni sökum hellirigningar á leiðinni (maður varla séð aðra eins rigningu) og meira að segja rigndi svolítið inn um gluggana á rútunni.

Eitt stutt pissustopp á leiðinni var haldið aftur á hótelið þar sem við náðum okkur í smá lúr. “Newcastle mennirnir” fóru á sitt hótel en við hinir tókum okkur nokkrir saman og fóru á Blue Bar í djúsí nautasteik og tilheyrandi. Þeir úthaldsmestu tóku skemmtistaðina í nágrenninu en einhverjir fóru heim á hótel til að vera vel stemmdir fyrir aðal-leikinn daginn eftir: Everton-Tottenham.

Sunnudagur 3. nóvember

Við tókum morgunmatinn á hótelinu á sunnudegi og héldum svo á Goodison Park og fyrsta stopp náttúrulega í Everton One búðinni þar sem frekari lagertæming átti sér stað. Síðan héldum við á Royal Oak barinn (sjá StreetView) í nágrenninu þar sem við sötruðum bjór og könnuðum stemminguna meðal innfæddra.

_MG_1535
Allt fullt af Everton stuðningsmönnum á barnum náttúrulega og létt yfir mannskapnum. Halli Örn spjallaði við heildsala sem vildi að við hefðum samband við sig næst og þá myndi hann bjóða okkur heim til sín! 🙂

_MG_1568

Síðan var haldið á hinn fornfræga leikvang Goodison Park en þar áttum við miða í Gwladys Street stúkunni þar sem samankomnir eru um hverja helgi (sem leikið er) hörðustu stuðningsmenn Everton — sem létu vel í sér heyra, stóðu reglulega upp og kölluðu leiðbeiningar til leikmanna Everton á ögurstundu, líkt og herforingjar. Stemmingin þar var afskaplega góð og menn létu vel í sér heyra þegar þeim mislíkaði dómgæslan, sem var nokkuð oft (enda Kevin no-Friend-of-Everton að dæma) eða þegar andstæðingur reyndi að læðast aftan að leikmönnum Everton. Við létum vel í okkur heyra líka og ekki laust við að maður missti svolítið röddina það sem eftir lifði helgar. Meistari Georg gerði leiknum góð skil í færslu og læt ég því nægja að segja að fyrri hálfleikur hafi verið arfaslakur hjá okkar mönnum og maður mjög smeykur við að fá á sig mark, þó vörnin hafi haldið allan tímann og tiltölulega lítið bit í sóknarleik Tottenham. Seinni hálfleikur mun betri hjá okkar mönnum enda búnir að girða sig í brók, sneru leiknum sér í vil og hefðu hæglega getað tekið öll þrjú stigin. Jafntefli þó alls ekki ósanngjörn úrslit þegar á heildina er litið. Gylfi Sigurðsson kom inn á í seinni hálfleik og tók Eiríkur þá upp íslenska fánann og við reyndum að syngja eitthvað til heiðurs Gylfa en það var allsnögglega kæft af stúkunni með miklu háværari Everton söng. 🙂

_MG_1576
 

Eftir leikinn fórum við aftur á sama pöbb þar sem Hörður, Liverpool maðurinn í hópnum, sýndi hvað hann gat í Karaókí en hann söng Hey Jude við mikinn fögnuð gesta og starfsmanna sem dilluðu sér og sungu með.

_MG_1640
 

Það skemmdi ekki fyrir að síðasti maður með hljóðnemann á undan Herði var svo hrikalega skrækraddaður að helmingur salsins fór að hlægja um leið og hann byrjaði að syngja.

_MG_1647
Hörður sýndi honum hvernig á að gera þetta. 🙂
Við vorum með pantað borð fyrir allan hópinn um kvöldið á Bem Brazil, sem er brasilískt steikhús þar sem þú setur smá meðlæti á diskinn og þjónarnir mæta svo með alls konar kjöt sem þeir eru búnir að steikja (villibráð og hefðbundið kjöt) og skera á borðinu fyrir framan þig.

IMG_20131103_210425
Þjónarnir mættir með grillaðan og hrikalega gómsætan ananas. 🙂
Eiríkur pantað röð af brasilískum Mojito á línuna (hrikalega góður) sem við nutum vel en eftir matinn skildust leiðir. “Newcastle mennirnir” fóru á skemmtistað en við hinir á Bierkellar þar sem sungið var, dansað og drukkið þangað til kominn var tími til að halda heim á leið. Og “Nátthúfan” tekinn fyrir svefninn á hótelbarnum áður en lagst var í fletið.

Rútan til baka á flugvöllinn lenti í umferðatöfum áður en við vorum sóttir (og var því hálftíma of sein) en það hafðist að mæta á flugvöllinn innan skynsamlegra marka en tíu ferðalangar fóru með flugi heim frá Manchester á mánudeginum en “Newcastle mennirnir” fóru á annað hótel í Manchester og náðu Evrópuleik Man City við CSKA Moskvu (sínum þriðja leik í ferðinni).

Lítið markvert gerðist svo sem á leiðinni til baka, menn misþreyttir eftir skemmtun helgarinnar og sumir unnu sér upp tapaðan svefn á leiðinni. Menn kvöddust þó með virktum á Keflavíkurflugvelli og héldu til síns heima eftir vel heppnað og bráðskemmtilegt ferðalag.

Þetta (hér að ofan) er náttúrulega bara lítill hluti myndanna sem teknar voru í ferðinni en sjá má fleiri myndir á Google+ síðu Everton klúbbsins á Íslandi og hvet ég alla ferðalanga til að hafa samband við okkur til að koma myndum á framfæri.

7 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Flottur Finnur

  2. Finnur skrifar:

    66 myndir komnar inn á Google+ síðuna:
    https://plus.google.com/112748004040041987934/photos
    (endilega bætið síðunni í hring til að sjá myndirnar)

  3. albert gunnlaugsson skrifar:

    Frábær ferðasaga. Dauð öfunda ykkur 😉

  4. Hallur j skrifar:

    Stórkostleg ferð

  5. Gestur skrifar:

    skemmtileg ferðasaga, greinilega mikið stuð

  6. Biggi skrifar:

    Vert er að taka fram að líbíumennirnir voru múslimar þannig ekki viss Baddi hafi alveg lesið þá rétt að bjóða þeim koníak eða aðrar guðsveigar sem hann hafði hjá sér

  7. Finnur skrifar:

    Hvenær hafa svoleiðis smáatriði stoppað Badda? 🙂