Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Liverpool vs. Everton - Everton.is

Liverpool vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að derby leiknum, Liverpool – Everton, á morgun (sun) á útivelli (Tannfield) kl. 12:30. Í upphafi leiks munu áhorfendur á vellinum mynda mósaík-mynd með lituðum spjöldum til að þakka þeim bláu fyrir stuðninginn til handa þeim rauðu sem sýndur hefur verið í gegnum tíðina í Hillsborough málinu öllu. Gott mál. En svo í kjölfarið verður náttúrulega ekkert gefið eftir inni á vellinum, enda heiðurinn að veði fyrir bæði lið.

Þetta hefur verið erfiður útivöllur fyrir Everton liðið undanfarið en miðað við frammistöðuna á útivelli á móti bæði Man City og Tottenham (þar sem heimaliðið var heppið með jafntefli) að ég tali nú ekki um ef við fáum að sjá bara baráttuna sem Arsene Wenger kvartaði sáran undan á Emirates á dögunum þá þarf ekki að óttast tap, frekar en í þeim leikjum. Það er ekki ýkja langt síðan Moyes sagði að það væri eins og að fara með hníf í byssubardaga að mæta með Everton liðið á heimavöll City en á þessu tímabili er maður ósáttur við að ná *bara* fjórum stigum á móti þeim — eins undarlega og það hefði hljómað fyrir ekki svo löngu. Sama gildir um Tottenham.

Enda hafa leikmenn Everton náð mjög vel saman á tímabilinu og sýnt að þeir geta unnið núverandi og fyrrverandi meistara til jafns við aðra. Mirallas hefur til dæmis komið með ferska vinda í sóknarleikinn og verið algjör unun að horfa á. Hann sneri oft bakverði Liverpool á röngunni í síðasta leik og olli miklum usla (enda sáu þeir sér þann kost vænstan að traðka á ristinni á honum til að ná honum út af, sem tókst því miður). Sá sem það gerði er hins vegar í löngu banni, þannig að Mirallas ætti vonandi að fá frið til að athafna sig í heilan leik í þetta skiptið og ég fæ einfaldlega vatn í munninn við tilhugsunina að sjá hann taka sprettinn á móti vörn Liverpool, sem hefur verið ansi brothætt í vetur.

Moyes sagði að Gibson ætti möguleika í leikinn og þar sem Hibbert er orðinn heill eru engir leikmenn í banni fyrir leikinn né á meiðslalistanum — svo vitað sé allavega. Mig grunar að Gibson verði á bekknum til að byrja með og á fastlega von á því að uppstillingin verði svipuð og mætti (og yfirspilaði) Fulham í síðasta leik: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Osman og Fellaini á miðjunni. Pienaar og Mirallas á köntunum. Barkley fyrir aftan Anichebe frammi. Jelavic og Gibson geymdir á bekknum til að breyta leiknum ef þarf.

Þessir leikir eru jafnan suðupottur og mestu skiptir að halda ellefu leikmönnum inn á. Við erum með líkamlega sterkt lið og eigum að nýta okkur það enda hefur Liverpool ekki gengið vel á móti slíkum liðum á tímabilinu. Þeir eru svolítið eins og Arsenal, vilja helst fá frið til að gæla endalaust við boltann og senda 600 snertingar á milli manna í hverri sókn, líkt og eini tilgangurinn með fótbolta sé að halda knettinum kantanna á milli. Ég horfði á hluta leiks þeirra við Chelsea á dögunum og fannst áberandi hvað þurfti litla pressu frá Chelsea á manninn með boltann til að þeir stigju feilspor og töpuðu boltanum. Ég á fastlega von á því að Moyes hafi tekið eftir því líka og vil sjá stöðuga pressu frá Everton frá fyrstu mínútu — alveg upp að markverði ef því er að skipta.

Miðað við heimaleikjaform Liverpool og útileikjaform Everton sýnist mér að rétt sé að spá jafntefli. Annaðhvort 0-0 eða 1-1. Ég ætla að leyfa mér að spá scouser drengnum Barkley einu flottu „Remember-the-name!!“ marki en hann hefur verið ótrúlega nálægt því að setja hann í undanförnum leikjum og væri ekki ónýtt ef unglingurinn setti hann á móti þeim rauðklæddu.

Sigur í leiknum tryggir að Everton endi fyrir ofan Liverpool í ár og heldur á lífi voninni um Evrópusætið. Jafntefli myndi enda von Everton um Evrópusæti en líklega samt tryggja að við verðum fyrir ofan þá í deild annað árið í röð því við þyrftum bara að komast hjá því að tapa í síðustu tveimur leikjunum (eða t.d. sigra West Ham á heimavelli) til að Liverpool nái ekki ofar. Tap hleypir spennu í þá baráttu en Liverpool hefur að engu að keppa öðru en að vera fyrir ofan Everton. Ekki grátum við það.

Brendan Rodgers, stjóri þeirra, reyndi að tempra væntingar stuðningsmanna um að komast í Evrópukeppnina þegar hann sagði á dögunum að kannski væri best að missa bara af henni (refurinn og súru berin og allt það). Mér sýnist jafnframt að fyrirliði þeirra sé með sínu síðasta útspili að tempra væntingarnar stuðningsmanna um að Liverpool endi fyrir ofan Everton. Hvað sem verður, þetta verður spennandi morgundagur og minni ég stuðningsmenn beggja liða á að reyna að njóta dagsins, sýna samtöðu í Hillsborough málinu og muna — hver svo sem úrslitin verða — að þetta er eftir sem áður bara fótbolti.

Koma svo Everton! Áfram bláir!

10 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Ég ætla að spá 1-2 og Jelavic setur bæði COYB

  2. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Eins og segir í 3. grein, 4. kafla laga klúbbsins:

    Hlutverk félagsins er:

    4. Að stuðla að háttvísi, félagslyndi, góðri framkomu meðal félagsmanna og kurteisi við aðdáendur annarra knattspyrnuliða.

  3. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

    ég treysti því að þið Ölversmenn þjappið ykkur saman eins og ég geri hér heima og stuðlið að öruggum sigri okkar manna:-)

  4. þorri skrifar:

    auðvitað verður stuð á morgun á ölveri.Þetta verður mjög skemtilegur leikur.Og við verðum að berjast frá fyrstu mínotu til síðustumínutu,Við þjopum okkur saman allir Everton menn og berjumst til sigur allir sem einn.Og Everton vinnur 3-2.kveðja Þorri everton maður

  5. Halli skrifar:

    COYB

  6. Halli skrifar:

    Mér var bent á að í hópnum hjá Liverpool í dag væri aðeins einn leikmaður sem hefur skorað gegn Everton og það væri Gerrard

  7. þorri skrifar:

    ókey er þá ekki meiri möguleiki að við vinnum leikinn eru allir heilir hjá okkur í dag eru ekki annars allir í stuði með guði hahaha.

  8. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

    En þessi téði Gerrard sá algjörlega einn um okkur í fyrra var það ekki, með þrennu??

  9. Finnur skrifar:

    Kláraði kvótann þá. 🙂