Mynd: Everton FC.
Everton tekur á móti Wigan á Goodison Park í hádegisleik á morgun (laugardegi kl. 12:45) í 6. umferð FA bikarsins en leikurinn verður í fertugasta og þriðja skipti frá upphafi sem Everton tekur þátt í fjórðungsúrslitum FA bikarsins. Þessi tvö lið hafa þegar spilað innbyrðis deildarleiki sína tvo á tímabilinu og Everton tekið fjögur stig úr þeim viðureignum, 2-2 jafntefli á útivelli og 2-1 sigur á heimavelli.
Everton hefur aðeins 17 sinnum frá upphafi mætt Wigan (heima og heiman) en Everton vann þá 3-0 í FA bikarnum árið 1980 og svo mættust liðin ekki aftur fyrr en í deildinni árið 2005 og hefur Everton sigrað samtals níu sinnum, gert 6 jafntefli og aðeins tapað tvisvar (einu sinni á heimavelli og einu sinni á útivelli). Eini tapleikur Everton á Goodison gegn Wigan var þegar Wigan kom fyrst upp í Úrvalsdeildina árið 2005. Síðan þá er árangur Everton gegn þeim á heimvelli: 2-2 jafntefli, 2-1 sigur, 4-0 (sjá vídeó), 2-1, 0-0, 3-1 og nú síðast 2-1. Sem sagt, Everton taplausir í sjö leikjum — 5 sigrar og tvö jafntefli. Að auki má geta þess að í síðustu 12 leikjum í fjórðungsúrslitum FA bikarsins á Goodison Park hefur Everton unnið 7 leiki, gert fjögur jafntefli og tapað aðeins einum (Aston Villa árið 2000).
Það er erfitt að segja hvort Wigan tefli fram sínu sterkasta liði í keppninni þar sem þeir hafa róterað mannskapnum hingað til í bikarnum (gegn „minni“ liðum) enda eru þeir í bullandi fallbaráttu í deildinni, einu sæti fyrir ofan Aston Villa (sem eru í fallsæti) — og það á markatölu einni saman. Það er því aldrei að vita nema litli bróðir Everton hafi gert okkar mönnum mikinn greiða með því að rótbursta Wigan í síðasta deildarleik og minna þá á að það er ekkert gefið í deildinni, ekki einu sinni leikir gegn Liverpool og að Wigan menn hafi ærið verkefni fyrir höndum að koma í veg fyrir að þeir falli í lok tímabils. Það var auk þess á Martinez, stjóra Wigan, að skilja að hann ætlaði að prófa leikmenn á jaðrinum til að sjá hvort þeir gætu nýst á lokasprettinum í deildinni með aðalliðinu. Ljóst er að pressan er farin að segja til sín (enda meira í húfi næsta tímabil en venjulega), en það sást greinilega (sjá vídeó) þegar lá við slagsmálum milli tveggja leikmanna Wigan í síðasta leik.
Hvort sem sterkasta liðið þeirra mætir eða ekki verður sú tilhugsun að vera 90 mínútur frá því að spila á Wembley þó þeim (sem og vonandi okkar mönnum) mikil hvatning að gera vel. Ljóst er að Moyes vill alla leið í keppninni, eins og hann hefur sýnt með liðsuppstillingu gegn liðum úr neðri deildum og kemur til með að stilla upp sterkasta liðinu sem völ er á.
Úr meiðsladeildinni er það að frétta að greint var frá því að Jagielka yrði frá til loka mars og hann missir því af þessum leik sem og líklega næstu tveimur leikjum Everton (City og Stoke) og landsleikjum Englands að auki. Hibbert missir einnig af leiknum en Howard ætti vonandi að verða orðinn góður eftir bakmeiðslin sem hann hlaut í síðasta bikarleik (gegn Oldham) — ef ekki verður Mucha á milli stanganna. Uppfært kl. 11:47: Howard er sagður vera með brotin bein í baki og verður því frá næstu vikurnar.
Líkleg uppstilling: Howard Mucha, Baines, Distin, Heitinga, Coleman. Pienaar á vinstri kanti, Mirallas á hægri, Gibson og Osman á miðjunni. Fellaini fyrir aftan Jelavic frammi.
Og talandi um Jelavic: Þeir hjá Executioner’s Bong reyndu að átta sig á því af hverju Jelavic er ekki að skora jafn mikið og á síðasta tímabili og vildu meina að það væri vegna breyttrar áherslu í sóknarleiknum en Moyes leggur nú meiri áherslu á að menn finni Fellaini í teignum (meira af háum sendingum heldur en meðfram jörðinni). Þeir bentu þó jafnframt á að Jelavic er enn yfir meðaltali deildarinnar í markaskorun í síðustu 40 leikjum sem hann hefur spilað.
Ef Baines skorar úr víti í keppninni verður hann markahæstur Everton manna frá upphafi af vítapunktinum í FA bikarnum en hann er nú til jafns á við Kevin Sheedy með 4 mörk úr fjórum vítaspyrnum. Ef einhver var að velta því fyrir sér hver er markahæstur Everton manna í FA bikarnum (hvort sem um víti er að ræða eða ekki) þá er það að sjálfsögðu Dixie Dean, með 28 mörk í 30 leikjum (!!). Baines er góður í því sem hann gerir (sá besti í Evrópu, eins og ESPN benti á) en hann á nokkuð í land með að ná Dixie, skiljanlega. 🙂
Og þá að ungliðunum en U21 árs liðið átti slakan leik gegn Blackburn U21 á dögunum, lenti 0-2 undir en náði á ótrúlegan hátt að jafna og vinna svo leikinn með samtals þremur mörkum á 14 mínútum (frá Barkley, Vellios og McAleny). Niðurstaðan því 3-2 (sjá mörkin). Sigurganga U21 árs liðsins heldur því áfram en þeir taplausir á árinu 2013 (eftir 8 leiki) og eru efstir í Group 1 riðlinum eftir 5 leiki (þó sum liðin hafi leikið einum til tveimur leikjum fleiri).
George Green var valinn í U17 ára hóp Englands sem mæta Portúgal, Rússlandi og Slóveníu um laust sæti í úrslitum Evrópukeppni U17 ára liða í maí. Einnig voru Ryan Ledson og Jonjoe Kenny valdir í 18 manna hóp Englendinga U16 ára sem tekur þátt í Montaigu mótinu síðar í mánuðinum.
Einnig hafa Nikica Jelavic, Seamus Coleman og Steven Naismith verið valdir í hóp landsliða sinna til að spila leiki síðar í mánuðinum fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins.
Vinstri bakvörðurinn Jake Bidwell fékk lán sitt hjá Brentford framlengt um annan mánuð en hann hefur leikið 38 leiki fyrir þá í C deildinni og eru þeir í 5. sæti, aðeins fjórum stigum á eftir efsta liði.
Og í lokin, smá slúðurfréttir sem ekki er víst að sé nokkuð mark takandi á en Everton var orðað við Alfreð Finnbogason á dögunum. Líklega bara hugarórar blaðamanna, eins og venjulega þegar slúðrið á í hlut, en skemmtilegar pælingar engu að síður.
En, Wigan er næst. Mikilvægt að klára þann leik áður en hugsað er um annað. Ég hef enn trú á þeim ótrúlega fáu leikmönnum sem hafa ekki skorað fyrir Everton í FA bikarnum á tímabilinu (aðeins Howard, Distin og Gibson). Spái 2-1 sigri, Wigan kemst yfir og svo jafnar Distin með skalla og Gibson tryggir Everton leik á Wembley. Hver er ykkar spá?
Þessi leikur er ekkert gefin það er að hreinu!
Svo eins gott að menn verði lausir við dramb!
1-1 og replayið fer 2-1 fyrir Wigan 🙁
Meiðslauppfærsla: Howard er með tvö brákuð bein í baki og missir því af leiknum við Wigan, sem og leikjunum við City og Stoke.
http://www.evertonfc.com/news/archive/2013/03/08/howard-out-with-broken-bones
Þetta eru víst svipuð meiðsli og Coloccini hjá Newcastle hlaut og sá var sagður verða frá í 7 vikur. Ef það er raunin með Howard líka þá missir hann af næstu þremur leikjum þar á eftir einnig (Tottenham, QPR og Arsenal).
Það væri ekkert verra ef Mucha gripi þetta tækifæri með báðum höndum og sýndi hvað í honum býr.
Ég má ekki við fleiri bikarvonbrigðum þessa helgi svo ég set 2-0 á þennan leik
Osman og Fellani skora mörkin okkar.
Ég set 3-0, Mirallas með sína fyrstu þrennu í úrvalsdeildinni. Veit ekki hvað það er en ég hef ofurtrú á þessum leikmanni.
Phil Neville átti fallegustu sendingu sem hann hefur nokkurn tímann getað ímyndað sér…..stungusendinguna sem gaf þeim mark nr. 2 . Ég hefði tekið hann af leikvelli strax þar á eftir en ekki beðið í 15 mín fram að hálfleik. Annars var þetta alveg skelfilega lélegt hjá okkur og mín tilfinning að leikmönnum liði fullt eins vel með sementspoka í markinu eins og þennan Mucha. En þá einbeitum við okkur bara að deildinni, segja þeir þetta ekki alltaf þegar bikarinn er úti 🙂
Mucha var reyndar okkar besti maður auk Mirallas, hann bjargaði okkur frá stærra tapi hann Mucha.