Mynd: Everton FC.
Everton tók á móti Wigan í dag á Goodison Park. Eina breytingin á liðinu var sú að Hitzlsperger kom inn á fyrir Heitinga og því fékk Jagielka miðvarðarstöðuna sína aftur (frá Heitinga) og Neville var færður í hægri bakvörðinn (Hitzlsperger byrjaði því á miðjunni við hlið Gibson). Uppstillingin því: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Neville. Hitzlsperger og Gibon á miðjunni með Pienaar og Osman sér við hlið. Anichebe og Jelavic frammi. Bekkurinn: Mucha, Heitinga, Oviedo, Naismith, Gueye, Barkley og Vellios. Neville náði þeim áfanga í þessum leik að spila 500. leikinn í Úrvalsdeildinni og kemst í hóp aðeins 6 manns sem hafa náð því.
Dómari leiksins var Lee Mason og átti hann frekar slakan dag á heildina litið (mörg vafaatriði sem féllu rangt en bitnaði þó jafnt á báðum liðum og voru leikmenn sýnilega frústreraðir). Hann má þó eiga það að hann náði stóru vafaatriðunum réttum (bæði lið hefðu t.d. ranglega — að mínu mati — getað fengið vítaspyrnu í leiknum).
Fyrri hálfleikur var heldur bragðdaufur, Everton með boltann tæplega 60% leiks og áttu 5 skot sem rötuðu á rammann gegn tveimur frá Wigan. Wigan liðið var sterkara en maður átti kannski von á, svona miðað við stöðu þeirra í deildinni allavega og náðu að halda Everton liðinu niðri í fyrri hálfleik á Goodison, sem ekki mörgum liðum hefur tekist á tímabilinu. Hvorugt liðið átti almennileg færi, Everton þó sýnu hættulegra — Wigan liðið náði einu skoti á markið beint úr aukaspyrnu (á 23. mín) sem Howard varði vel og svo skot utan við teig, að mig minnir, sem Howard átti ekki í neinum vandræðum með.
Distin fékk fyrsta almennilega færið upp úr horni þegar fyrirgjöfin barst milli nokkurra manna og svo óvænt til Distins sem áttaði sig ekki á því nógu snemma og fékk boltann í lærið og framhjá.
Pienaar átti hættulegt skot á 13. mínútu, eftir að Baines fann hann á auðum sjó vinstra megin í vítateig Wigan, en bjargað af varnarmanni Wigan í horn. Everton átti eftir að fá töluvert af hornum í leiknum (ein 11 ef ég man rétt) þar af 5 í röð í fyrri hálfleik. Upp úr einu fór boltinn að því er virtist í hönd Wigan manns innan teigs en endursýning sýndi að það var í öxl (ekkert víti). Anichebe átti skot utarlega í teignum fyrir framan markið þegar boltinn barst skyndilega til hans á 38. mínútu eftir pinball leik varnarmanna Wigan í eigin teig. Skotið fór þó í varnarmann Wigan og í horn.
Dauðafærin létu ekki á sér kræla í fyrri hálfleik en Everton liðið hættulegra og Wigan ekki að nýta skyndisóknir sínar vel. 0-0 sanngjarnt í hálfleik. Gibson út af í hálfleik, Naismith inn á hægri kantinn og Osman færði sig á miðjuna. Menn veltu fyrir sér hvort Gibson hafi meiðst aftur á læri þegar hann tók eina aukaspyrnuna í leiknum.
Moyes hefur lesið yfir sínum mönnum í hléi því leikur Everton batnaði þó nokkuð í byrjun seinni hálfleik og Everton menn áttu nokkur hættuleg færi. Til dæmis þegar Hitzlsperger „klobbaði“ James McCarthy hjá Wigan á miðjum vellinum, brunaði fram völlinn óáreittur og átti þrumuskot af löngu færi (á 47. mínútu) en boltinn í slána og yfir. Markvörðurinn hefði ekki átt neinn séns í þann bolta ef hann hefði verið aðeins neðar.
Tvö stórgóð færi fóru forgörðum hjá Everton á stuttum tíma. Osman og Jelavic sekir í þeim tilvikum, of kærulausir.
Á 51. mínútu kom mark Everton þegar Osman fékk boltann fyrir utan teig, lék á varnarmann, tók boltann í teiginn og skaut að marki. Boltinn fór í hendina á varnarmanni Wigan (inni í teig) og breytti við það aðeins um stefnu, nógu mikið til að fífla markvörð Wigan sem skutlaði sér í hornið en boltinn endaði við mitt markið. 1-0 fyrir Everton.
Níu mínútum síðar vildu Wigan menn fá víti þegar Osman virðist fella Maloney, besta mann Wigan í kvöld, inni í teig. Menn voru ekki á einu máli eftir að hafa séð endursýning en Mason var viss í sinni sök.
Tvöföld skipting hjá Everton á 70. mínútu: Heitinga inn á fyrir Hitzlsperger og Oviedo inn á fyrir Anichebe.
Á 76. mínútu tekur Oviedo stutt horn hægra megin til Neville sem sendir boltann fyrir þar sem Jagielka er mættur og skallar boltann í netið með viðkomu í neðanverðri slánni. 2-0 fyrir Everton. Enski þulurinn sagði að þetta væri ekkert minna en Everton ætti skilið. Jagielka grínaðist með það nokkru fyrir leik að Moyes væri að atast í þeim varnarmönnunum fyrir að hafa ekki skorað nóg af mörkum á tímabilinu og hann svaraði kallinu með sigurmarkinu í þessum leik.
Maður hefur beðið eftir því nokkuð lengi að Everton næði tveggja marka forystu í leik á tímabilinu, kominn með nóg af háspennuleikjum sem Everton missir svo niður í jafntefli en það fór ekki svo að maður gæti andað rólega lengi því Everton fékk á sig mark aðeins 5 mínútum síðar sem hleypti spennu aftur í leikinn. Maður nagaði neglurnar yfir því að enn einu sinn væri Everton kannski að missa unninn leik niður í jafntefli.
Markið sem Wigan skoraði var tragekómískt. Skot utan af teig blokkerað af Jagielka en boltinn fór hátt upp í loft og þar með hélt maður að sóknin væri búin. Distin nær ekki að skalla frá — kannski brotið á honum í stökkinu, en með snúningi endaði boltinn á að skoppa einu sinni inni í teig án þess að neinn næði til hans. Boltinn nálgaðist mark Everton þar sem þrír varnarmenn umkringja eina sóknarmann Wigan, Arune Kone, sem kýlir Baines í hamaganginum og böðlar boltanum í gegnum þvöguna. Margir ná að snerta boltann og hann breytir margoft um stefnu á þessum tveimur sekúndum sem líða og allt í einu endar það með því að Kone potar boltanum framhjá Howard. Líklega ljótasta markið sem ég hef séð á tímabilinu en þau telja líka. Wigan búið að minnka muninn. Stórt andvarp!
Everton hélt þó í stigin þrjú og áfram í toppbaráttunni! Fellaini hvað? 🙂
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 6, Distin 6, Jagielka 7, Neville 6, Pienaar 6, Gibson 6, Hitzlsperger 5, Osman 7, Anichebe 6, Jelavic 6. Varamenn: Naismith 7, Heitinga 6, Oviedo 6. Wigan með svipaðar tölur, 5 sjöur og 6 sexur.
Mikilvægur sigur þar sem vantaði nokkra sterka menn í okkar hóp. Tveir sigrar í röð án Fellaini, væri magnað að sigra Chelsea í næsta leik án hans. Eru menn að átta sig á því að Everton er bara 6 stigum frá Man City í öðrum sæti, sakar ekki að láta sig dreyma.
Góð úrslit en enginn glæsibragur á spilamennskunni en gott að fá stigin. Verðum að spila mikið betur gegn Chelski ef við ætlum að fá eitthvað úr þeim leik.
Hinir sem náð hafa 500 leikjum í Úrvalsdeildinni: Frank Lampard, David James, Gary Speed, Sol Campbell, Ryan Giggs og Emile Heskey.
Úrslitin eru góð,en leikur okkar manna kanski oft verið betri.En það eru mörkin sem telja.
Já þetta var góður sigur í dag. Flottur áfangi hjá Neville sem er kominn á síðasta snúning á ferlinum en hey…. 500 leikir eru virkilega flott framtak og gott að hafa Neville með okkur í þessum leikjum yfir hátíðarnar.
Við áttum skilið að vinna gegn Wigan í dag en við vorum kannski ekki neitt svakalega góðir en gerðum þó það sem þurfti að gera…. 2-1 og 3 stig. Fellini hvað? Gott að standa sig svona vel án hans. Chelsea í næsta leik og þessi 6 stig sm við höfum fengið á undanförnum dögum styrkir mig enn frekar í trúnni á góðan árangur gegn þeim og ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn fyrir laugardaginn.
Áfram Everton!
Þú meinar bjartsýnn fyrir _sunnudaginn_, Ari. 🙂
Já ég var ekki viss… en ákvað samt að setja þetta inn án þess að tékka….. en sunudagurin er það 🙂
Aðstæður voru nú ekki neitt frábærar þar sem það míg-rigndi. Einnig tel ég að skemmtanagildi Everton sé mikið háð Fellaini, Mirallas og Coleman já og í reynd verð ég að segja Hibbert líka (flottustu tæklingar í deildinni). Uppstillingin var mikið betri en í seinasta leik og þá helst á ég við vörnina. Ég væri til í að sjá B.Oviedo spila meira og langar enn og aftur að óska eftir R.Barkley, það er nú alveg í lagi að leyfa honum að spila aðeins þar sem Fellaini er enn í banni og líklega verður Gibson fjarri góðu gamni einnig (meðsli eða bann).
Það var líka alveg í lagi að sjá Stoke valta yfir Liverpool í dag sérstaklega í ljósi þess að Gerrard lýsti því yfir fyrir rúmum mánuði að Stoke væri að spila ömurlega.
Sigur gegn Chelsea kemur okkur í þriðja sætið en þeir munu eiga leik inni og svo geta 3 önnur lið náð okkur að stigum, Tott, Ars og Wbibbi.
Flott 3 stig í dag og 2 sigrar í jólatörninni þá er bara Chelsea næst og eingin ástæða til að hræðast þá
Osman í liði vikunnar að mati Goal tímaritsins.
http://www.goal.com/en-gb/news/2874/team-of-the-week/2012/12/27/3630736/premier-league-team-of-the-week-hat-trick-hero-bale-stars-as
Mikilvæg 3 stig í hús, kannski ekki okkar besti leikur í vetur en fínir kaflar í leiknum. Aðrar góðar fréttir eru þær að það er búið að samþykkja áfrýjun Everton á banninu á Gibbson svo hann mun geta spilað með okkur, ekki nema að meiðslin sem hann fékk í Wigan leiknum verði til þess að hann verði ekki leikfær.
Við höfum ekki verið mjög heppin á tímabilinu með þá sem finna fyrir meiðslum og er skipt út af í hálfleik en við skulum vona það besta. En gott að rauða spjaldið var dregið til baka.
Duncan Ferguson á afmæli í dag en „Duncan Disorderly“, eins og hann var stundum kallaður, er fjörutíu og eins árs í dag. Þar hafið þið það… fróðleiksmoli dagsins.
Sæmilegur leikur hjá Everton of miklar sveiflur á leik þeirra. Spilaðu mjög vel í byrjun seinni hálfleiks. Hvað er að frétta af Miralles hvenær kemur hann aftur.? Finnst vanta meiri gæði framávið eins og í byrjun timabils en vörnin hefur stórlagast síðan þá.
Engar fréttir af Miracles ennþá… :/
Hér eru ekki góðar fréttir.. http://www.mbl.is/sport/enski/2012/12/28/tekst_everton_ad_halda_baines/
Þessi frétt birtist í hverjum leikmannaskiptaglugga og er bara til merkis um það að Baines er að gera það gott. Independent blaðið, sem birti fréttina, er bara að reyna að fá fólk til að kaupa blaðið.
Hvernig spá menn leiknum á morgun? Ég tel ólíklegt að Everton haldi hreinu en vörnin er samt sterk hjá okkur. 2-1 verður lokastaðan Everton í vil og Jelavic kemur með bombu.
Leikurinn er á sunnudaginn og fer 1-0. Distin með skalla – getur ekki verið minni maður en Jagielka. 🙂
Jelavić mun gera eitt mark, Hitzlsperger (þurfti að copy/paste bæði nöfnin hehe) gerir eitt og við vinnum þá 2-1.
Chel$ki eyðileggja áramótin og jafna í blálokin.
1-1 Baines og Torres.
Já rétt leikurinn er víst á Sunnudaginn.
En hvað segja menn með leikmannakaup eða sölu í janúar?
Ég væri til í að láta Heitinga fara og fá Belgann sem við vorum næstum búnir að kaupa í sumar. Ég held að Belginn væri betri sem varnarsinnaður miðjumaður heldur en Heitinga. Ég held einnig að Duffy sé betri varnarmaður heldur en Heitinga og hann hefur sýnt að hann getur verið sterkur upp við mark andstæðinganna einnig, t.d. í hornspyrnum.
Okkur vantar klárlega sóknarmann því það er ekki nóg að hafa Jelavic,Anichebe og Vellios. Veit ekki hvern ég sé í boði þar.
Ég væri líka til í að fá Donovan í þrjú ár en ekki að láni held ég í þetta sinn.
En forgangsröðin finnst mér þessi.
1.Annan Topp sóknarmann (já mér finnst Jelavic enn frábær)
2.Kantmann, Mirallas hefur alveg sýnt hvað það er gríðarlega mikilvægt að hafa fljótann kantmann. Mirallas er frábær, Pienaar fer miklu meira um miðjuna og ég er hrifinn af Colemann en vil sjá hann í bakverði frekar eins og Baines (tveir fljótir upp kantinn).
3. Varnarmann, það er agalega stutt í að Distin verði of gamall en hann hefur spilað frábærlega, vildi helst fá Lescott aftur þar (nei ég er ekki að grínast), væri ekki slæmt að vera með þrjá leikmenn í vörn sem væru einnig að spila saman í Enska landssliðinu.
Held að miðjan í heild sé orðin mjög sterk og eigum enn Barkley inni.
Nóg í bili.