Mynd: Everton FC.
Senn líður að fyrsta leik á undirbúningstímabilinu, en hann er næsta laugardag kl. 13:00 gegn Morecambe. Líkur eru á að nokkrir af leikmönnum „á jaðrinum“ (að komast í liðið) fái að spila þann leik þar sem góður hluti úr aðalliðinu hefur undanfarið verið á ferðalagi með landsliðum sínum í Evrópukeppninni (og undankeppni heimsmeistarakeppninnar) og eru því enn í sumarfríi. Aðrir úr Everton hópnum eru þessa stundina í æfingabúðum í austurísku Ölpunum undir strangri þjálfun Moyes, Steve Round og Jimmy Lumsden. Bæði Rodwell og Naismith eru þar í þjálfun en þeir segjast vera orðnir góðir af meiðslum og hlakka til að taka þátt með aðalliðinu. Hægt er að sjá alla leiki undirbúningstímabilsins í beinni á netinu, með því að kaupa aðgang í gegnum Everton síðuna. Hver leikur kostar 3,99 pund en hægt er að kaupa alla leikina 6 fyrir 18,99 pund (um 20% afsláttur).
Evrópukeppni U19 ára liða stendur enn og hafa Luke Garbutt og Ross Barkley verið að gera það gott en þeir voru báðir í byrjunarliðinu enska í leiknum við Króatíu en Garbutt og Hope voru á bekknum. Leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli. Liðið lék svo við Serbíu þar sem Englendingar unnu 2-1 en allir fjórir Everton leikmennirnir komu við sögu, Garbutt og Barkley voru í byrjunarliðinu en Hope og Lundstram komu inn á sem varamenn. Englendingar eru þar með í öðru sæti í sínum riðli á eftir Frakklandi en England og Frakkland mætast í næsta leik. Englendingar náðu með sigrinum að tryggja sér sæti á heimsmeistaramóti U20 ára liða næsta sumar og með jafntefli í næsta leik komast Englendingar í undanúrslit í Evrópukeppninni.
Í öðrum fréttum er það helst að Jimmy Tansey lést á dögunum, 83 ára að aldri. Hann var einn af máttarstólpum Everton liðins upp úr 1950, lék í vinstri bakverðinum og spilaði 142 leiki fyrir Everton.
En í lokin víkjum við aðeins að vefsíðu Everton.is. Eins og glöggir lesendur hafa væntanlega tekið eftir þá hefur útlit vefsíðunnar tekið þó nokkrum breytingum en við hjá Everton.is tókum í notkun nýtt vefumsjónarkerfi sem auðveldar okkur alla umsýslu, eykur öryggi kerfisins og hefur í för með sér nokkra kosti fyrir lesendur. Til dæmis ætti nýi vefurinn að vera nokkuð hraðvirkari en sá gamli og kommentakerfið mun betra. Til dæmis þarf ekki að stofna notanda í kerfinu áður en maður getur kommentað, heldur er hægt að skrá komment beint á færsluna og gefa bara upp tölvupóstfang og nafn. Við vonum að þessar breytingar allar falli í góðan jarðveg.
Við viljum endilega heyra hvað ykkur finnst um nýja vefinn. Látið vita í kommentunum hér að neðan.
Varðandi RSS: (ef þú notar ekki/veist ekki hvað RSS er þarftu ekki að lesa lengra) 🙂
Þau ykkar sem notuðu RSS til að fá tilkynningar um uppfærslur á Everton.is vinsamlegast athugið að RSS linkarnir hafa breyst með tilkomu nýja vefumsýslukerfisins. RSS fyrir vefinn er hér (http://everton.is/?feed=rss2) og RSS fyrir kommentin eru hér (http://everton.is/?feed=comments-rss2).
ég er að fíla þetta ! haha
Hvað, nákvæmlega? 🙂
var bara að testa commentakerfið 😉
Brilliant félagar, brilliant