Everton mætti á Old Trafford eftir tapleik í bikarnum og var mikið í mun að sýna fram á að bæði væri tímabilið ekki búið hjá okkur né að United ætti titilinn vísan. Tvisvar í leiknum lenti Everton tveimur mörkum undir en sýndi það enn og aftur að aldrei er gefist upp. Við höfum ekki riðið feitum hesti úr þessum viðureignum á Old Trafford gegnum tíðina (frekar en flest önnur lið), og maður hefði fyrirfram verið sáttur við jafntefli. United var á þessum tímapunkti ekki búnir að fá á sig mark þar í fjórum leikjum í röð og ekki tapað stigum heima á árinu.
Distin var settur í vinstri bakvörðinn og skilaði því hlutverki bara ágætlega á móti Valencia. Hibbo í hægri bakverði og Neville lék á miðjunni, rétt fyrir utan vörn okkar, sem gaf Fellaini færi á að sækja upp völlinn og vera varnarmönnum United almennt þyrnir í síðu. Hann nýttist þar ágætlega og það var unun að horfa á hann taka niður langar sendingar með bringunni (með United mennina hangandi utan í sér).
Það var hálfgerð lágdeyða yfir bæði Manchester liðinu og áhorfundum þeirra á pöllunum frá upphafi og eins og væri eitthvað slen í gangi. Everton liðið byrjaði mun betur, barðist um hvern bolta, sendi vel manna á milli og átti tvær stungusendingar upp hægri kantinn sem gáfu færi. Jelavic komst inn fyrir vörnina eftir flotta sendingu Gibson (eða var það Pienaar) sem splundraði United vörninni með sendingunni en Jelavic náði ekki nógu góðu skoti og De Gea varði. Osman átti skalla framhjá og síðar komst hann í skotfæri upp við vítateiginn en skotið slakt. United var ekki að komast í nein færi á þessum tíma, helst að reyna skot utan við teiginn. Þetta gaf manni von um að við gætum átt stig í vændum. Distin átti skalla en of hár. Gibson átti skot af löngu færi en framhjá hægra megin.
Everton liðið betra og á 33. mínútu uppskárum við svo loks árangur erfiðisins þegar sókn okkar færðist af vinstri kanti yfir á þann hægri þar sem Hibbert var mættur upp við kantlínuna og sendir fyrir markið. Þar var Jelavic mættur á fjærstöngina vinstra megin, nánast kominn upp að endalínu vinstra megin við markið en nær skalla úr mjög þröngu færi. Yfir De Gea á fjærstöngina hægri og inn. Ensku þulirnir í sjónvarpinu héldu vart vatni yfir þessum skalla enda er mjög erfitt að koma boltanum í markið úr svona þröngu færi. 0-1 fyrir Everton. Fullkomlega verðskuldað enda sofandaháttur á United. Fjörugur leikur í vændum og Ferguson sauðkindin farin að jórtra á tvöföldum hraða.
Það var eins og lifnaði loksins yfir Man United við markið og þeir fóru að sækja af meiri ákafa og skapa sér færi. Osman var næstum búinn að gefa víti þegar hann sparkar aftan í Rafael sem mér sýndist reyndar vera á vítateigslínunni. Dómarinn sá þó ekkert. En í einni sókninni nær Nani að senda fyrir af vinstri kantinum á 41. mínútu og Neville reynir að hreinsa með skalla en boltinn rétt yfir hausinn á honum og til Rooney sem er óvaldaður og skallar framhjá Howard. 1-1 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Á 56. mínútu fer Pienaar í tæklingu og liggur við eftir hana og ef dómarinn hefði verið sjálfum sér samkvæmur hefði hann stöðvað leikinn eins og hann gerði þegar United maðurinn Evans var í sömu stöðu nokkru áður og Everton í sókn. Það gerði hann samt ekki og United brunar í sókn. Allt í lagi með það en tvisvar brjótum við sóknina á bak aftur en United nær boltanum aftur. Sóknin endar svo á því að Wellbeck fær boltann við D-ið á vítateignum og leggur hann upp í hornið vinstra megin frá Howard séð. Glæsimark. 2-1 fyrir United.
Nani bætti svo við þriðja markinu á 60. mínútu eftir nett þríhyrningsspil inn í teig okkar sem sendi hann einan inn fyrir á móti Howard og Nani lyfti boltanum yfir hann og skorar. 3-1 United. Við höfum séð þessa stöðu gegn United áður og náð að vinna það upp en maður sá það einhvern veginn ekki fara að gerast á Old Trafford.
McFadden inn á fyrir Osman sem hafði ekki fundið sig almennilega í leiknum og 6 mínútum eftir mark United sendi McFadden á Hibbert sem er aftur kominn framarlega á hægri kantinn og sendir flotta sendingu fyrir markið þar sem Fellaini er mættur, tekur skotið í fyrstu snertingu og hamrar boltann í netið. De Gea nær að koma hönd á boltann en skotið of fast og boltinn inn. 3-2 fyrir United. Varnarmenn United út á þekju í dekkuninni og allt í einu komin spenna í þetta aftur.
United var þó ekki á því að hleypa Everton inn í leikinn aftur en 9 mínútum síðar, á 69. mínútu, nær Rooney góðu þríhyrningaspili með Valencia (að ég held) sem endar með því að Valencia sendir fyrir markið utan úr teig hægra megin þar sem Rooney er mættur fremstur og skorar. 4-2 United.
Hér hélt maður að þetta væri búið en við vorum samt að sækja. Einhver United maðurinn skallaði boltann í innanverða stöngina og út aftur og í þeirri sókn hélt maður að þetta væri með öllu búið. En aftur kviknaði von þegar Neville (á 82. mínútu) á sendingu inn í teig, Fellaini stekkur upp í boltann með varnarmann í sér. Boltinn berst fyrir markið þar sem Jelavic er hárrétt staðsettur og er ekki í neinum vandræðum með að setja boltann í netið. 4-3 United. Ennþá séns. Jelavic að setja sjöunda markið sitt í jafn mörgum leikjum (!!). Hvar var þessi maður á fyrri hluta tímabilsins!?!!
Moyes setti inn Cahill fyrir Distin og Neville flutti sig yfir í vinstri bakvörðinn og það leið ekki nema mínúta (tveimur mínútum eftir síðasta mark, eða á 84. mínútu) þá er Pienaar búinn að jafna. Fellaini fékk boltann inni í teig frá Neville, hleypur upp í átt að endalínu en stoppar og snýr sér (leikur þar með á Evans) og sendir boltann fyrir á Pienaar fyrir framan markið sem stingur sér á boltann og setur hann inn í markið niðri í vinstra hornið (hægra frá De Gea séð). Everton liðið búið að jafna og taugatrekkjandi mínúturnar liðu ein af annarri. Fimm mínútum bætt við og United lagði allt kapp á að skora en tókst ekki. Howard varði frábærlega skot frá Ferdinand undir lokin en Everton stóð þetta af sér. Lokatölur: 4-4. Man United leikmenn niðurlútir eftir leikinn enda gott tækifæri til að auka á forskotið á toppnum farið forgörðum.
Þetta var fjörugur leikur og fín úrslit fyrir okkur. Ekki mörg lið sem hafa náð að taka stig af United á Old Trafford en það tókst okkur með því að skora fjögur mörk á móti þeim. Annar deildarleikurinn í röð þar sem við skorum fjögur mörk, merkilegt nokk.
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Distin 6, Jagielka 5, Heitinga 5, Hibbert 6, Neville 6, Pienaar 8, Gibson 6, Fellaini 7, Osman 7, Jelavic 8. Varamenn: Cahill 4, McFadden 5. Mikil dreifing á einkunnum hjá United, allt frá 5 upp í 9 (Wellbeck). Mér fannst Fellaini, Pienaar og Jelavic frábærir í leiknum og allir eiga skilið 8 í einkunn. Hibbert með tvær stoðsendingar sem gáfu mark og ekki við hann að sakast í mörkum United. Hann átti (mun) meira en 6 skilið. Osman fannst mér ekki ná upp í sjöu í einkunn. Varnir beggja liða fengju slæma útreið í umsögn Sky sem er kannski ekki skrýtið því þetta var mikill markaleikur. Fulham á heimavelli um næstu helgi.
Comments are closed.