Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Norwich – Everton 2-2 - Everton.is

Norwich – Everton 2-2

Everton mætti Norwich í líflegum og opnum leik sem hefði getað farið á hvorn veginn sem er en endaði með jafntefli.

Moyes gerði þrjár breytingar á liðinu sem sigrað West Brom: Heitinga og Fellaini voru hvíldir og Leon Osman einnig (kannski enn að jafna sig af sparkinu sem hann fékk gegn West Brom?). Inn á komu Neville (fyrir Felli), Gueye (fyrir Osman) og Distin (fyrir Heitinga). Uppstillingin því 4-4-1-1 að venju: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Hibbert. Miðjan: Gibson og Neville. Pienaar á vinstri kanti og Gueye á hægri kanti en Cahill fyrir aftan Jelavic frammi. Coleman kominn aftur á bekkinn eftir meiðsli.

Við byrjuðum ágætlega, sóttum af festu og áttum einhver hálf-færi. Gueye átti flotta sendingu fyrir markið en aðeins of há fyrir Jelavic sem hefði líklega auðveldlega skorað skallamark ef boltinn hefði verið aðeins neðar. Gibson komst í skotfæri rétt utan við teig en skotið ekki nógu gott. Norwich átti aukaspyrnu á hættulegum stað en boltinn í varnarmúrinn.

Á 22. mínútu var Baines með boltann á vinstri kanti, sendir á Pienaar, fær boltann aftur og brunar upp að vítateig þar sem Jagielka (af öllum mönnum!) stingur sér gegnum vörn Norwich. Pienaar sér hann og sendir glæsisendingu inn í teiginn á hann, Jagielka stoppar, snýr sér og sendir fyrir, beint á Jelavic sem smellir honum auðveldlega í netið með eins konar hælspyrnu. 0-1 fyrir Everton. Ég sagði eftir West Brom leikinn þegar Jelavic skoraði ekki að hann hlyti hann að skora á móti Norwich þar sem hann skorar í öðrum hverjum leik. Það reyndist rétt og greinilega meira á leiðinni. Hann verður væntanlega hvíldur gegn Sunderland og skorar þá á móti Liverpool í bikarnum.

Aðeins mínútu síðar brunar Hibbert upp hægri kantinn og fær boltann frá Gueye. Hibbert, hvattur til að skjóta af Everton stuðningsmönnum, er staddur alveg upp við hliðarlínuna, sendir fyrir en boltinn yfir Ruddy í markinu og endar í ofanverðri stönginni og út aftur (eins gott að boltinn fór ekki inn því það hefði allt orðið brjálað ef Hibbo hefði skorað). Boltinn barst til Cahill sem stendur fyrir opnu marki en áttar sig ekki nógu fljótt og skotið slakt. Ruddy varði en hvort eð er búið að dæma rangstöðu á Jelavic.

Ekkert að gerast hjá Norwich og um tíma hugsuðum við okkur gott til glóðarinnar og héldum að við værum að fara að afgreiða þá eins og Sunderland en það hafðist því miður ekki. Það tók Norwich 35 mínútur að vakna til lífsins almennilega og fá sitt fyrsta færi í leiknum, langskot utan af velli sem átti að fara í hægra hornið niðri en skotið fyrirsjáanlega og Howard löngu mættur í hornið. Skipti hvort eð er engu því boltinn hitti ekki einu sinni markið. Það var svo lítið að gera í vörninni upp að þeim tímapunkti að það var eins og hún væri sofandi á verðinum loksins þegar almennileg sókn kom frá Norwich, sem gerðist á 39. mínútu. Sending inn í teig vinstra megin á Norwich mann sem sendir fyrir markið, gegnum klofið á Jagielka, á Howson sem var einn og óvaldaður í teignum og skoraði auðveldlega framhjá Howard. Bæði Distin og Baines úti á þekju, hvorugur að dekka manninn. Staðan 1-1 og breyttist ekki í fyrri hálfleik. Það helsta markverða var að Baines var stálheppinn að fá ekki sitt annað gula spjald fyrir tæklingu með takkana á lofti. Óvenjulegt af þessum annars dagfarsprúða manni. Everton annars betra liðið í fyrri hálfleik þó við kannski dómineruðum ekki jafn mikið og til dæmis á móti Sunderland. Kannski vegna þess að Fellaini var hvíldur. Coleman inn á fyrir Gueye í byrjun þess seinni.

Norwich vildi fá vítaspyrnu þegar þeir spörkuðu boltanum í Pienaar en endursýning sýndi að boltinn fór í brjóstkassann á honum. Holt átti síðar slakan skalla að marki Howard á 49. mínútu. Engin hætta. Jelavic átti fyrirgjöf á Coleman en vörn Norwich vel á verði. Howsen átti skot að marki á 55. mín, utan teigs og beint á Howard. Skotið var þó fast og Howard náði ekki að halda honum en nær að hreinsa í innkast áður en Holt komst í boltann. Hefði viljað fá spjald á Holt, reyndar, því ég sá ekki betur en að hann væri með takkana á undan sér í boltann. Hvað um það.

Við vorum á þeim tímapunkti aðeins að gefa eftir í miðjuslagnum og Moyes skipti því Neville út af og Fellaini inn á. Lifnaði nokkuð yfir okkur við þá skiptingu. Á 61. mínútu er Pienaar felldur rétt utan við teig Norwich en ekkert dæmt. Einhver reikistefna í gangi með boltann, Pienaar með hann milli fóta um tíma (ekkert dæmt) og Norwich menn og Fellaini í kringum hann. Felli dembir sér í hrúguna og vinnur boltann af harðfylgi. Leikmenn Norwich hlaupa að dómaranum og kvarta en fá ekkert. Á meðan Norwich menn eru tuðandi í dómaranum sendir Fellaini á Baines, þeir spila með hann aðeins sín á milli þangað til Baines fer að leiðast þófið og brunar upp vinstri kantinn með boltann (sumir Norwich menn enn tuðandi). Sendir upp kantinn á Pienaar sem er óvaldaður rétt utan við teig og sér Jelavic sem er búinn að koma sér fyrir í ákjósanlegt færi inn í teig, sendir á hann og Jelavic í sinni fyrstu snertingu þrumar honum inn með vinstri fæti í fjærhornið. 1- 2 og Everton aftur marki yfir. Leikmenn Norwich brjálaðir yfir að fá ekki aukaspyrnu en ég segi fyrir mitt leyti að Pienaar hefði þá alveg eins átt rétt á aukaspyrnu fyrir að vera klipptur niður að aftan frá. Fáránlegt að hætta að spila og fara að tuða í dómaranum þegar leikurinn er enn í gangi. Þeirra mistök.

Annað mark Jelavic í leiknum og mikið er gaman að sjá framherja sem ekki bara skorar mörk heldur býður upp á svo margt annað. Alltaf virðist hann á réttum stað í teignum. Hann getur skallað, haldið boltanum og á fínar sendingar. Fyrsta snerting góð. Góður „finisher“. Enn einn óslípaður demantur sem Moyes finnur. Hvar værum við í deildinni nú ef hann hefði komið á undirbúningstímanum??

Stuttu síðar átti Fellaini glórulausa tæklingu og hefði vel geta fengið spjald, jafnvel rautt hjá sumum dómurum. Honum virðist vera mikið í mun að vera í banni í bikarleiknum og ætti líklega að hvíla á mánudaginn… :/

Tvöföld skipting hjá Norwich en á 76. mínútu átti Holt aukaspyrnu á hættulegum stað en boltinn yfir. Holt sendi síðar fallega sendingu inn Willbraham (sóknarmann Norwich) sem brunar upp með Hibbert og Distin á hælum sér. Hann skýtur áður en hann kemst inn í teig (Norwich því enn aðeins einu sinni búnir að ná að skjóta á mark okkar innan teigsins). Skotið lágt og til hægri frá Howard séð en hann ver skotið vel. Distin fellur við í baráttunni um frákastið sem Willbraham nær og sendir á Holt sem er algjörlega óvaldaður í teignum. Distin þá staðinn upp en ekki nógu fljótt til að ná að valda Holt, sem á því ekki í neinum vandræðum með að skora framhjá Distin og Howard. Howard mótmælti e-u sem hann taldi vera brot, líklega á Distin (sá það ekki) en það breytti engu. Norwich aftur búið að jafna, af harðfylgi, eftir að hafa lent undir. Staðan orðin 2-2. Ég vona bara að Heitinga fái að spila bikarleikinn því vörnin hefur virkað hvað traustust þegar hann er inn á.

Á 77. mínútu hefðu Norwich komist aftur með mann í gegn en Hibbo vandanum vaxinn og hreinsaði frá. Naughton tók frákastið og átti skot langt utan af teig. Beint á Howard. Engin hætta. Stuttu síðar átti Coleman sendingu fyrir af vinstri kanti, Fellaini átti skalla í fjærhornið (mögulega rétt framhjá) en Ruddy tók enga sénsa og varði vel.

Anichebe inn á þegar 10 mín voru eftir en hann passaði sig á því að skora ekki, enda að reyna sitt besta að hrista af sér „súpersöbb“ merkimiðann. 😉 Fellaini átti ágætan skalla eftir fyrirgjöf en Ruddy vel á verði. Anichebe átti færi en náði ekki að skora. Norwich maður skaut í hliðanetið. Bæði lið greinilega staðráðin í að vinna leikinn en hvorugu liðinu tókst þó að skora og jafntefli því staðreynd. Stjóri Norwich var kampakátur með stigið en þeir eru þar með nær öruggir um að falla ekki; sagði að þetta hefði verið frammistaða tímabilsins á heimavelli hjá þeim en ég klóraði mér eiginlega í hausnum yfir því. Veit ekki hvar þeir væru án Grant Holt.

Maður var hálf svekktur að sjá varnarvinnuna í mörkunum, en að því undanskyldu var vörnin í ágætum málum og hélt Norwich frá því að komast inn í teig og skjóta. Bæði lið með eitt stig en við þurfum að fara að bæta okkur gegn Norwich; við eigum að vinna svona lið og hefðum líklega gert það ef við hefðum ekki hvílt lykilmenn. Gibson enn ekki upplifað tapleik með Everton, sem er gott mál, og enn betra að Jelavic er farinn að nýta færin sín betur (ekki að maður þurfi að kvarta yfir markahlutfallinu hjá honum). Liverpool náði ekki að vinna Aston Villa á heimavelli og Sunderland gerði jafntefli þannig að staðan er óbreytt og við í 7. sæti eftir leikinn.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 7, Jagielka 7, Hibbert 6, Pienaar 7, Gibson 7, Neville 6, Gueye 6, Cahill 6, Jelavic 8. Varamenn: Coleman 6, Fellaini 6, Anichebe 6. Norwich að mestu með sjöur, nokkrar sexur og Holt og Hoolahan með 8.

Í öðrum fréttum er það helst að U19 ára liðið komst í undanúrslit í Dallas Cup (eins og komið hefur fram) en tapaði 2-0 fyrir Man United, eftir hafa misst sóknarmanninn Hallam Hope út af með rautt spjald.

Comments are closed.