Ég gapti þegar ég sá liðsuppstillinguna fyrir leikinn gegn Liverpool enda trúði ég einfaldlega ekki eigin augum. Hvorki fleiri né færri en sex (!) breytingar voru gerðar á liðinu sem vann Tottenham á dögunum! Af hverju voru Jagielka, Rodwell og Anichebe settir inn á eftir að hafa rétt komist í gegnum einn leik með varaliðinu á dögunum, hugsaði ég? Af hverju að skipta Stracqualursi aftur inn á eftir (reyndar bara einn) slakan leik frammi gegn QPR — sem var leikurinn sem olli því að Jelavic fékk færi í byrjunarliðinu gegn Tottenham og skoraði sigurmarkið?
En, svo allt í einu áttaði ég mig á því… Þessi leikur skiptir engu máli á heildina litið (nema upp á stoltið). Það var ekki að miklu að keppa í deildinni lengur fyrir okkur hvort eð er og Moyes er að spara leikmenn fyrir FA bikarinn á laugardaginn. Hann er þegar búinn að lýsa því yfir að stefnt er á topp 10 sæti í deildinni og gott gengi í FA bikarnum en það er bikarleikur gegn Sunderland strax á laugardaginn og mjög mikilvægt að aðalliðið sé ekki þreytt í þeirri viðureign. Við vorum taplausir í 9 leikjum fyrir þennan leik og einhvers staðar hlaut tapið að koma. Ég vil frekar að það komi gegn Liverpool (sem á engan séns á topp 4 sæti í deildinni) heldur en að tapa FA bikarleiknum gegn Sunderland og missa af leik á Wembley.
Innáskiptingarnar voru:
Jagielka (nýstiginn úr meiðslum) inn á fyrir Heitinga — sem er búinn að vera stórkostlegur undanfarið í stöðu miðvarðar.
Rodwell (nýstiginn úr meiðslum) inn á fyrir Osman — sem skóp sigurmarkið gegn Tottenham.
Stracqualursi inn á fyrir Jelavic — sem skoraði sigurmarkið gegn Tottenham.
Anichebe (nýstiginn úr meiðslum) inn á fyrir Drenthe — sem er búinn að vera mjög líflegur og skora 2 mörk í síðustu þremur leikjum.
Hibbert inn á fyrir Neville (sem ásamt Coleman jarðaði Gareth Bale, fjórða leikinn í röð).
Pienaar og inn fyrir Cahill.
Mér sýndist auk þess Anichebe spila á vinstri kanti, sem mér hefur aldrei fundist hann virka á og Pienaar sýndist mér vera fljótandi í sókninni (m.a. í holunni fyrir aftan Stracqualursi), sem er frekar óvenjulegt (nema mér skjátlist hrapallega). Uppstillingin var því: Howard, Baines, Jagielka, Distin, Hibbert. Miðjan: Anichebe vinstra megin, Coleman hægra megin. Fellaini og Rodwell á miðjunni, og Pienaar fyrir aftan Stracqualursi.
Leikurinn fór annars rólega af stað og var óvenju „herramannslegur“ af þessum tveimur liðum að vera (engin rauð spjöld og lítið um ljótar tæklingar). Suarez hrasaði auk þess óvenju lítið um grasstráin á vellinum en Andy Carroll var að venju eins og hross, sífellt hrasandi um sjálfan sig og vissi varla hvar markið var. Kelly var líflegur hjá Liverpool og Gerrard ávallt hættulegur.
Liverpool hafði yfirhöndina mestan part leiks og náði að skapa sér betri færi og voru vel að sigrinum komnir svona á heildinga litið. Við vorum aftur á móti mjög ólíkir Everton liðinu sem ég hef séð undanfarið (enda ekki liðið sem hefur verið að hala inn stigin) — og virtumst ætla að velja alltaf flóknum leiðina í átt að marki. Howard fannst mér eiga ágætis leik, sem og Distin, Hibbert og Baines. Fellaini var fínn á miðjunni. Aðrir fannst mér leika undir getu.
Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Distin 6, Jagielka 6, Hibbert 6, Anichebe 6, Fellaini 6, Rodwell 5, Coleman 5, Pienaar 6, Stracqualursi 5. Varamenn: Drenthe 6, Osman 5, Jelavic 6.
3-0 tap gegn Liverpool staðreynd og Gerrard með öll mörkin. Einhvers staðar verður Liverpool jú að fá stigin sín en það var orðið pínlegt að horfa upp á hvert stigið á fætur öðru fara forgörðum hjá þeim í deildinni og Everton virðist halda í gjafmildu hefðina að gefa stig til liða sem virðist varla kunna að sækja þau sjálf (sbr. QPR um þar síðustu helgi). Hvað um það.
Bikarinn um næstu helgi. Sunderland á Goodison Park. Áfram veginn.
Comments are closed.