Tim Howard átti 33 ára afmæli um daginn (6. mars) og fagnaði afmælisdegi sínum með því að framlengja samning sinn við Everton um 4 ár, eða til ársins 2016. Hann kom, eins og kunnugt er, frá Man United árið 2006 að láni og stóð sig svo vel að hann var keyptur árið 2007. Síðan þá hefur hann verið fastamaður með Everton, leikið 250 leiki og skoraði meira að segja sitt fyrsta mark á dögunum gegn Bolton, í janúar. Howard sagði að samningaviðræður hefðu gengið mjög vel enda báðir aðilar mjög spenntir fyrir áframhaldandi samstarfi.
En þá að öðrum leikmannamálum en Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, var orðaður við Everton, að sögn mbl.is, en hann leikur með Verona sem á í fjárhagsvandræðum og er sagt þurfa að selja lykilmenn. Skemmtilegar pælingar, enda aldrei leiðinlegt að sjá Íslendinga í Everton treyju. 🙂
Og þar sem rætt var um samninga hér að framan er rétt að geta þess að Everton samdi á dögunum við bandaríska stórfyrirtækið Nike um að hanna heima- og útibúninga Everton fyrir næsta tímabil og næstu þrjú árin. Nike taka þar með við af Le Coq Sportif sem hafa undanfarin ár séð um búningamálin. Vonir standa til að þetta leiði til aukinnar dreifingar á Everton búningnum í íþróttavöru-búðum þar sem Nike er með ítök víða um heim, en erfitt hefur verið að fá núverandi búning utan Liverpool, nema bara á netinu.
Comments are closed.