Burnley – Everton 1-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Burnley á útivelli í dag og tóku öll þrjú stigin sem í boði voru, og það nokkuð öruggt þó spilamennskan hefði ekki náð miklum hæðum og oft virkað þunglamalega. Það hjálpaði okkur mönnum að Burnley náðu varla skoti á rammann og þegar það gerðist var það yfirleitt beint á Howard.

Uppstillingin: Howard, Baines, Jagielka, Alcaraz, Coleman, Barry, McCarthy, Osman, Naismith, Eto’o, Lukaku. Bekkurinn: Robles, Hibbert, Gibson, McGeady, Barkley, Pienaar, Besic.

Hefðbundin 4-2-3-1 uppstilling hjá okkur en með þrjá framherja inn á, Lukaku fremstur með Eto’o fyrir aftan sig og Naismith á kantinum. Barkley á bekknum.

Everton fékk óskabyrjun í leiknum en strax á þriðju mínútu spiluðu þeir sig upp miðjuna og sendu á vinstri kantinn sem endaði með því að Baines sendi háan bolta fyrir og Eto’o skallaði í slá og inn. Ekkert að gerast hjá Burnley fyrstu 15 mínúturnar og þeir litu út fyrir að vera tveimur númerum of litlir fyrir Everton sem fóru léttilega framhjá þeim með einföldu þríhyrningaspili. Burnley efldust þó þegar leið á og þeir fóru að fá færi, eitt slíkt kom á 19. þegar Lukaku sótti boltann á miðjuna en átti arfaslaka sendingu aftur — beint á sóknarmann Burnley sem sneri sér og sendi frábæra stungusendingu inn fyrir vörn Everton á Ings sem kom á hlaupinu, fór framhjá Howard hægra megin og setti hann í netið. Staðan orðin 1-1.

En Lukaku bætti fyrir mistökin 8 mínútum síðar eftir frábæran undirbúning hjá Naismith sem með flottu samspili komst í gegn um vörn Burnley, sendi á Lukaku til hægri í teig sem skaut. Skotið blokkerað en barst til hans aftur og hann gerði engin mistök í seinni tilraun, skaut í hliðarnetið fjær. Naismith auk þess mættur fremstur, tilbúinn að taka frákastið ef til kæmi. 1-2 fyrir Everton.

Alcaraz átti brokkgengan leik í vörninni hjá okkur og á 34. mínútu var hann skilinn eftir þegar sóknarmaður sneri sér við og losaði sig við Alcaraz (eins og flugu hafði einhver á orði) og komst einn á móti Howard en skotið langt framhjá. Þeir áttu svo ákjósanlegt færi úr aukaspyrnu rétt utan teigs en beint í vegginn. Ekki grætur maður þegar andstæðingurinn sólundar færum sínum.

Everton svaraði með fyrirgjöf frá Osman af stuttu færi sem Naismith skallaði í slána.

Rétt fyrir hálfleik reyndu Burnley skot af löngu, en framhjá og því 1-2 í hálfleik.

Engin breyting í hálfleik en Alcaraz hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik, allavega framan af — þó hann skánaði eftir því sem leið á en á 47. mínútu ákvað hann að hreinsa ekki háan bolta frá sem aftasti maður, heldur halda honum á lofti sem gaf færi fyrir sóknarmann Burnley. Sem betur fer kom ekkert úr því.

Eto’o tók því næst tvö afar slök skot á markið af löngu færi, fyrst á 58. mínútu og svo þremur mínútum síðar. Við vissum það þó ekki þá en hann var bara að stilla miðið fyrir fallbyssuskot síðar.

Baines var næstum búinn að skora af löngu færi beint úr aukaspyrnu. Allir létu boltann fara og boltinn stefndi í hliðarnetið fjær en markvörður í nauðvörn sló hann í horn.

Barkley inn fyrir Lukaku á 63. mínútu og Pienaar inn fyrir Osman á 81. en í millitíðinni hafði Naismith reynt skot af löngu en boltinn í varnarmann sem hægði á boltanum og markvörður sópaði honum auðveldlega upp.

Pienaar lagði svo upp færi fyrir Eto’o rétt utan teigs á 85. mínútu, Eto’o hlóð fallbyssuna og skoraði þetta líka glæsimarkið — óverjandi skot utan af teig, nálægt samskeytunum. Markvörður kastaði sér en náði ekki til boltans.

Jagielka gerði ein af fáum mistökum sínum í leiknum á 86. mínútu þegar hann beygði sig fram og reyndi að skalla lágan bolta en sóknarmaður stal af honum knettinum og komst í færi en — já, þú giskaðir á það — hitti ekki markið.

Naismith gerði vel á 89. mínútu með því að prjóna sig í gegnum vörnina, næstum dottinn en náði að halda jafnvægi og komast upp að marki vinstra megin og skjóta en vel varið í horn. Hefði auðveldlega getað verið 1-4 þar.

Burnley náðu skot á mark á 89. mínútu en beint á Howard, sem átti ekki í nokkrum erfiðleikum með að verja.

Rétt fyrir lok leiks birtist á skjánum að Eto’o væri maður leiksins og það var eins og við manninn mælt; hann tók sprettinn og komst inn í sendingu aftur á varnarmann, náði að komast framhjá markverði og skjóta úr þröngu færi á opið markið en í innanverða stöngina og út. Hefði vel átt skilið að skora þrennuna í þessum leik enda búinn að vera frábær. 1-3 því lokastaðan og Everton komið upp í 9. sæti eftir slaka byrjun. Ef United tapa á eftir verða Everton í 8. sæti eftir umferðina.

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 7, Jagielka 6, Alcaraz 5, Coleman 6, McCarthy 6, Barry 5, Osman 6, Naismith 7, Eto’o 9, Lukaku 7. Varamenn: Barkley 7 og Pienaar 6. Burnley menn fengu 6 á línuna — fyrir utan tvær fimmur og tvær sjöur.

Þetta er allt að koma.

47 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Burnley samþykkir þetta nú ekki nema þeir fái líka að vera tólf 🙂

  2. Diddi skrifar:

    það er McGeady sem er ofaukið, þú reynir auðvitað að troða honum í liðið en Martinez var búinn að segja mér að hann yrði ekki í byrjunarliðinu 🙂

  3. Finnur skrifar:

    Takk fyrir það, Diddi. Ég tók þetta beint frá Everton sem voru óvart með McGeady inni líka en hafa nú tekið hann út. Ég verð því að uppfæra til samræmis. 🙂

  4. Ari S skrifar:

    Alcaraz maður leiksins…

  5. Ari S skrifar:

    Ég meinti Eto’o…

  6. Diddi skrifar:

    mér fannst reyndar Barry vera hrikalega góður í þessum leik en Etoo er frábært vopn og hann hlýtur að fá auka banana eftir svona leik, (ljótt djók) en nú er bara að vona að Chelsea taki manutd og þá erum við í 8. sæti, ekki slæmt það…….þetta er allt að koma 🙂

  7. Gunni D skrifar:

    Þá verður skellt í pönnukökur!!

  8. Gunnþór skrifar:

    Flottur sigur Etoo illa góður í fótbolta.Maður leiksins á Sky.

  9. Ari G skrifar:

    Flottur sigur hjá Everton. Vörnin alls ekki nógu sannfærandi vill að Alcaraz verði seldur í janúar. Mistök að selja Duffy. Eto´o maður leiksins ekki spurning. Baines er núna orðinn miklu betri en í fyrstu leikjunum. Naismith er aðeins í öldudal núna mætti alveg hvíla hann í næsta leik í stað Eto´o og svo vill ég ekki hafa Osman í byrjunarliðinu má spila síðustu 20 mín ekki meir.

  10. Finnur skrifar:

    Skýrslan komin.

  11. Diddi skrifar:

    Sammála Ari G með Osman, var étinn hvað eftir annað á miðjunni og ég var að spá á 75. mín hvort Martinez hefði haft hann mínútu of lengi á vellinum, hefði viljað sjá honum skipt útaf á 60. min.

  12. halli skrifar:

    Mér fannst vörnin ekki beint slök í dag Jagielka og Baines mjög góðir Alcaras mistækur og Coleman á pari. Mín skoðun á varnarleiknum er að nota Barry í miðverðinum með Jagielka og Gibson á miðjunni fyrst Martinez hefur eitthvað misst trúna á Dustin. Osman á ekki að starta leikjum en er fínn að koma inná og leysa menn af. Gaman að sjá Martinez henda inn 3 framherjum og fá mörk frá 2. Eto’ó flottur í leiknum en er klárlega betri uppi á topp en í holunni

  13. Ari S skrifar:

    Er ekki óþarfi að gera lítið úr Alcaraz? Hann var alls ekki svona slakur eins og fram kemur í þessari umsögn hjá þér Finnur.

  14. Ari S skrifar:

    Mér er sama þó að SKY news hafi gefið honum 5, hann á að minnsta kosti skilið að fá 6. 🙂

  15. Finnur skrifar:

    Það eru nokkur dæmi þar sem hann var ekki nægilega sterkur eða var að leika sér að eldinum. En þetta er náttúrulega alltaf huglægt mat og svo kannski litast maður stundum af félögunum (ég held að Alcaraz eigi eftir að reynast okkur vel longer term).

  16. Ari S skrifar:

    Mér fannst hann betri en hann hefur verið áður. Á köflum gerði hann mistök, kannski mistök sem skrifast á hann (þeir lenda oftast í þessu miðverðirnir) en hefðu alveg eins átt skrifast á aðra. (eftir að hafa misst boltann) Mér fannst hann á köflum gera fína hluti og annað……. mér finnst alls ekki góð hugmynd að setja Barry í miðvörðinn, (Halli mér finnst þetta fáránleg hugmynd) hann er góður þar sem hann er og alls ekkert víst að hann myndi geta eitthvað í miðverðinum.

    kær kveðja,

    Ari

    Ég held að Alcaraz sé að koma til.

    • Halli skrifar:

      Menn hafa oft verið færðir aftur í miðvörðinn með frábærum árangri eftir því sem árin færast yfir þá. Sem dæmi þá nefni ég Dion Dublin og Eyólf Sverrisson. Mín skoðun er sú að Alcaraz er ekki næginlega góður leikmaður og þar fyrir utan þá þarf Jagielka alltaf að fara í vinstri miðvörðinn þegar hann spilar með honum sem hann þyrfti ekki að gera með Barry.

      • Ari S skrifar:

        Halli minn, þessi Barry-hugmynd er ekkert fáránleg og vonandi afsakar þú mig með þau ummæli? 🙂 Ég fór aðeins framúr mér þarna.

        Jagielka hefur verið frábær að undanförnu og er að koma til eftir slæma byrjun. Val númer eitt (í miðverðinum) hjá öllum held ég alveg örugglega.

        Distin að koma til baka eftir fýluna.

        Alcaraz hefur verð að bæta sig og þetta var með hans betri leikjum gegn Burnley (að mínu mati). Virkaði öruggari en oft áður. Gefum honum einn til tvo leiki í viðbót. Eða skellum Distin í liðið.

        Ef við tökum miðverðina sem ein pakka þá er þetta allt saman að smella hjá þeim samanber eitt mark fengið á sig í síðustu þremur leikjum. Og það skrifast á Lukaku.

        Eftir umhugsun (held meira að segja að þú hafi nefnt þetta við mig áður) þá finnst mér Barry ekki vera miðvörður í sér. En sennilega hef ég vitlaust fyrir mér… hehe. Barry er líka svo góður þar sem hann er.

        Ástæðan fyrir þessum mörgu mörkum sem við höfum fengið á okkur hingað til er ekki síst slæmri byrjun Jagielka að kenna, ekki bara slökum félögum í miðverðinum. Núna er hann kominn í lag.

        Reyndar er að mínu mati eitt mjög jákvætt við þessa hugmynd og það er að í henni felst að Gibson fær pláss í liðinu 🙂

        Kannski er hún ekki svo slæm þessi Barry-hugmynd. 🙂 (Ragnar Reykás hérna hehe)

        • Finnur skrifar:

          Hahaha! Góður Ari… Reykás! LOL. 🙂

          Ég er alveg til í að gefa Alcaraz meiri tíma. Hann er búinn að byrja tvo síðustu deildarleiki Everton og liðið hefur fengið á sig eitt mark í þeim — og markið skrifast eiginlega helst á Lukaku, eins og þú bentir á.

          En ég hef engar áhyggjur af Barry heldur ef við þurfum að nota hann í miðverðinum. Hann er með næga reynslu af þeirri stöðu og getur staðið sig vel fyrir okkur þar, ef á þarf að halda. Ég held þó við séum ekki komnir á þann punkt ennþá.

  17. Diddi skrifar:

    Sammála Ara S varðandi Barry, hann er frábær í þeirri stöðu sem hann er í og hann hefur í gegnum tíðina leyst af í stöðu vinstri bakvarðar í algerri neyð í þeim liðum sem hann hefur spilað með. En hann á ekki að spila miðvörð 🙂

  18. Ari S skrifar:

    Þessa einkunn gefur Everton aðdándi í Englandi.

    Howard 6 – rarely called upon to make a save, punching was wise today, glad he didn’t bring Ings down.

    Baines 8 – thought he was very good again today and his corners were much better

    Jags 8 – such a dramatic upturn in form from him lately. Good tackling and interceptions

    Alcaraz 7 – generally solid and composed, prone to the odd gaffe Distin/Yobo

    Coleman 7 – explosive for short spells, covered well for Alcaraz when needed

    Osman 6 – quietly effective, involved in first goal and nearly created another but not as involved as he could be

    Barry 7 – passing good, looked better than he did midweek and full of energy

    Mc Carthy 7 – did well today and worked some good balls into space moving forward

    Lukaku 6 – erratic with some good and bad decisions but popped up with a goal

    Naismith 6 – not at his best today, looked a little lost with so many strikers on the pitch, looked better when Lukaku went off and still fashioned two decent chances

    Eto’o 9 – thought he was sublime at times today, passing excellent, control superb and should have had a hat trick.

    Subs

    Barkley 5 – thought he looked poor when he came on, lost possession a lot

    Pienaar – didn’t get much time to influence although supplied Eto’o

  19. Gunnþór skrifar:

    Sammála mönnum með Osman,og við skulum gefa Alcaraz smá tíma hann er ekki búinn að spila mikið undanfarið og er því ekki í leikæfingu þannig að það er ekki sangjarnt að dæma hann út alveg strax.

  20. Gestur skrifar:

    fannst þetta ekkert frábær frammi staða. Það vantar mikið þegar er engir kantmenn eru og bakverðirnir eru alveg lost.
    Ég er sammála að það kemur ekki mikið úr Osman og gaman að sjá hvað Edo´o var frískur. Lukaku var algjör klaufi í jöfnunarmarkinu er náði að kvítta fyrir sig.

  21. Finnur skrifar:

    Þeir hjá GrandOldTeam bentu á að Lukaku er nú kominn með 36 mörk í Úrvalsdeildinni síðan tímabilið 2012/13. Þeir einu sem hafa skorað meira á sama tímabili eru: Suarez (54), Van Persie (42 — markið í dag meðtalið) og Sergio Aguero (38).

    Finnst frábært að hann sé búinn að skora fjögur mörk í níu deildarleikjum — þrátt fyrir að vera greinilega enn ekki í sama formi og í fyrra.

  22. Finnur skrifar:

    Og eitt að auki — greining Executioner’s Bong á leiknum:
    http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/10/26/tactical-deconstruction-burnley-1-3-everton/

  23. Orri skrifar:

    Ég var ekkert yfir mig hrifinn af leik minna manna í dag,þó svo að stigin 3 séu í húsi.Burnley var á köflum ekki lagara liðið,það var ekki fyrr en að þriðja markið kom sem sigurinn varí höfn.Við verðum að gera betur en í dag ef við ætlum okkur titilinn í vor.

  24. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott að ná tveimur sigrum í röð í deildinni. Vonandi heldur þetta svona àfram.

  25. Finnur skrifar:

    Baines og Eto’o í liði vikunnar að mati BBC:
    http://www.bbc.com/sport/0/football/29778540

  26. Finnur skrifar:

    Einnig er hér mjög skemmtileg grein sem ég rakst á hjá Daily Mail:
    http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2808467/Burnley-1-3-Everton-Samuel-Eto-o-scores-twice-Toffees-signs-improvement-Turf-Moor.html
    … en fyrir utan margar skemmtilegar myndir úr leiknum sýnir hún einnig „hitamynd“ af Eto’o (hann kom alls staðar við, greinilega) og hvernig mark Lukaku bar að (25 sendingar samtals).

  27. Gestur skrifar:

    gaman að eiga fljótasta leikmann deildarinnar

  28. Finnur skrifar:

    Já, og ekki má gleyma — til hamingju með fimmtugsafmælið, Diddi. Þú lítur ekki út fyrir að vera deginum eldri en þrettán vetra! 🙂

  29. Diddi skrifar:

    Takk fyrir það Finnur, mér finnst ég ekki ennþá vera fimmtugur enda á ég ekki afmæli fyrr en 27 nóv. 🙂

  30. Finnur skrifar:

    Heyrðu, vertu ekki að rengja mig, kallinn minn!

    En svona grínlaust. Sorry, ég las þetta vitlaust. Er mánuði of snemma. :/ Þú kemur þá til með að líta út fyrir að vera loksins aðeins eldri en þrettán vetra (þegar að afmælinu kemur).

    • Diddi skrifar:

      ég held að þetta sé örugglega rétt hjá mér 🙂 En takk fyrir engu að síður, þetta er náttúrulega afmæli, 49 og 11 mán. er þakkki 🙂

    • Finnur skrifar:

      Jú, ég verð að játa mig sigraðan. 🙂

  31. Elvar Örn skrifar:

    Flott að vinna þennan leik og svakalega var Eto’o nálægt því að ná þrennunni.

    Eto’o var klárlega maður leiksins að mínu mati og ógnandi að hafa Eto’o, Lukaku og Naismith inná á sama tíma, væri gaman ef Mirallas væri þarna einnig já og Barkley (ok skal róa mig).

    Fannst Osman ekkert sérstakur og var arfaslakur eftir c.a. 65 mínútur og ótrúlegt að honum hafi ekki verið skipt útaf á þeim tímapunkti.
    Ekki alveg sammála með Alcaraz, fannst hann shaky í fyrri hálfleik en boy oh boy, hann var gríðarlega sterkur í þeim seinni og ef grannt er skoðað eru staðsetningar hans oft á tíðum magnaðar þar sem kantmenn Burnley voru hvað eftir annað að reyna sendingu innfyrir vörn Everton en þar var Alcaraz oftast sá sem stoppaði þær tilraunir. Hann var einnig yfirvegaður (oftast) og fór vaxandi þegar á leið leikinn.
    Er alls ekki sammála að það eigi að henda honum út um áramót (eru þetta kannski þeir sömu sem það vilja og þeir sem vildu losna við Coleman á sínum tíma, nei bara pæling).

    Nú er Everton komið í 9 sæti og alveg klárt að leiðin liggur uppávið. Það er hrikalegt að byrja svona skelfilega en margoft hefur Everton ekki verið að ná þeim úrslitum sem það hefur átt skilið en sóknarlega er klúbburinn greinilega á réttri leið. Ef við höldum þessu Rönni áfram þá erum við til alls líklegir. Ekki má gleyma því að við erum búnir að spila við Liverpool, United, Chelsea og Arsenal svo prógrammið hefur ekki verið létt. Áttum skilið skigur gegn Arsenal og jafntefli gegn United amk,, veit ekki hvað skal segja um Chelsea leikinn þar sem þeir skoruðu 6 í 8 tilraunum á mark ef ég man rétt.

    Well, sigur í næsta leik í deild og þá erum við að fara að tala saman.

  32. Diddi skrifar:

    ég er algjörlega sammála þér Elvar varðandi Alcaraz, hann batnaði þegar leið á leikinn og klárt að Martinez veit hvaða leikmann hann hefur þar sem hann spilaði áður undir hans stjórn hjá Wigan. Þar eins og hjá okkur voru meiðsli að hrjá hann en þegar hann er í lagi þá er hann flottur leikmaður og losar boltann nánast alltaf á samherja 🙂

  33. Orri skrifar:

    Ég er hjartanlega sammála Elvari.Alcaraz var ekki góður í fyrri halfleik en góður í þeim seinni,Við erum á réttri leið,en sammt vantar örlítið meiri ákveðni í liðið,en það er vonandi að koma.Við verðum eins ég hef áður sagt á mjög góðum stað í vor.

  34. halli skrifar:

    Gaman að sjá að John Stones er tilnefndur til Golden Boy verðlaunanna og í raun eigum við kannski 2 menn því að Gérard Deulofeu er tilnefndur líka er þetta fyrir tímabilið í fyrra og þá spilaði hann með okkur. En Rooney vann þessi verðlaun með okkur 2004

  35. Ari S skrifar:

    Góður pistill Elvar… 🙂

    Orri og Diddi, þið eruð þá sammála mér líka? Með Alcaraz.

    • Finnur skrifar:

      Alacaraz átti slakar 50 mínútur í leiknum en ég hafði lítið út á hann að setja eftir það. Held hann eigi heilmikið inni ef hann fær að spila reglulega.

  36. Diddi skrifar:

    Það er ekki hægt annað en að vera sammála þér Ari, þú ert búinn að fara í tvo hringi í áliti þínu um manninn þannig að það er erfitt að hitta á að vera ekki sammála 🙂

    • Diddi skrifar:

      nei fyrirgefðu, það var víst um Barry, auðvitað erum við sammála um Alcaraz eins og flest annað Ari minn 🙂

      • Ari S skrifar:

        Þú ert nú sjálfur að fara í hringi Diddi minn eða tala við sjálfan þig hehe… ruglast á Barry og Alcaraz… það hefði ég aldrei gert hihi 🙂