Everton – Swansea 3-1 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Everton mætti Swansea á heimavelli í 16 liða úrslitum FA bikarsins.  Uppstillingin fyrir bikarleikinn vakti nokkra athygli: Robles, Baines, Distin, Jagielka og Coleman í vörn, Barry og McCarthy á miðjunni, Pienaar og Mirallas á köntunum, Barkley fyrir aftan Traore frammi. Bekkurinn: Howard, Stones, Hibbert, McGeady, Deulofeu, Osman, Naismith. Sem sagt: Howard hvíldur og Lacina Traore að byrja sinn fyrsta leik fyrir Everton.

Fyrri hálfleikur var nokkuð fjörugur og spilaðist svolítið endanna á milli. Swansea voru duglegir að pressa og náðu nokkrum sinnum að þvinga mistök úr Everton vörninni sem virkaði á köflum pínulítið kærulaus. Everton meira með boltann í leiknum og sköpuðu sér mun fleiri hættuleg færi og úrslitin eftir því.

Swansea fengu þó næstum því óskabyrjun strax á 2. mínútu þegar sóknarmaður þeirra komst einn inn fyrir vörnina og framhjá Robles en fór aðeins of langt til hliðar og varnarmenn Everton fljótir til baka til að eyða hættunni. En Swansea menn fengu það strax í andlitið aftur því Everton komust yfir á 5. mínútu. Barkley tók aukaspyrnu sem hann sótti sjálfur á vinstri kanti, sendi inn í teig þar sem Distin tók á móti en missti hann of langt frá sér. Hann fékk boltann þó til baka á silfurfati frá varnarmanni Swansea, reyndi að fara til hliðar nær miðju marki en ákvað að senda á Traore sem einhvern veginn skóflaði boltanum í netið með hælnum. Þetta var líklega eitthvert klunnalegasta mark sem maður hefur séð í langan tíma en þau telja jafnt. Það sem vakti þó meiri athygli er að þetta var ekki bara fyrsta mark Traore fyrir Everton heldur skoraði hann í sinni fyrstu snertingu í sínum fyrsta leik! Frábær byrjun hjá þeim pilti!

Everton hélt áfram að ógna og Mirallas var næstum sloppinn í gegn á 10. mínútu. En það voru þó Swansea menn sem náðu að skora næst. Á 15. mínútu kom mark eftir fyrirgjöf frá vinstri kanti. Það vantaði Distin ekki nema millimetra að ná að skalla boltann frá en Guzman hjá Swanse kom á hlaupinu inn í teig, alveg óvaldaður og skallaði framhjá Robles.

Pienaar átti skot í samskeytin innanverð á 22. mínútu og Traore með skalla í frákastinu sem var varinn. Swansea náðu fínni sókn sem rann út í sandinn stuttu síðar og Mirallas átti skot framhjá hinum megin. Boltinn gekk markanna á milli, eins og áður sagði. Pienaar átti bæði skot alveg við markið og skalla utar í teignum — í báðum tilfellum vel varið.

Mirallas átti flott skot úr aukaspyrnu sem hann sótti sjálfur á 39. mínútu rétt utan miðs teigs en vel varið hjá markverði. Maður hefði reyndar viljað sjá Baines taka þá aukaspyrnu því markvörðurinn var kominn alltof langt í hægra hornið (frá Mirallas séð) þegar aukaspyrnan var tekin.

Swansea svaraði með skoti af löngu færi á 41. mínútu en Robles með það auðveldlega. Barkley svaraði með skoti utan teigs á 43. en rétt framhjá.

Staðan 1-1 eftir nokkuð fjörugan hálfleik.

Seinni hálfleikur var mun tíðindaminni, allavega framan af. Barkley átti eitt skot rétt utan teigs í upphafi hálfleiks en svo gerðist eiginlega voðalega lítið þangað til Naismith og Osman komu inn á á 59. mínútu (fyrir Traore og Barkley) en innkoma Naismith átti aldeilis eftir að breyta gangi leiksins.

Aðeins nokkrum mínútum síðar náði Coleman flottri sendingu á Pienaar sem skallaði rétt framhjá stönginni vinstra megin. Markvörður Swansea prísaði sig sælan því hann og varnarmenn hans hefðu ekki átt neinn séns á að verjast því. Þarna átti staðan að vera orðin 2-1 fyrir Everton.

En það kom ekki að sök því Naismith nýtti sér slæma sendingu aftur frá varnarmanni Swansea yfir á markvörð og afgreiddi þann bolta auðveldlega í netið. 2-1 fyrir Everton. Naismith að skora fjórða mark sitt í fimm leikjum!

Coleman sendi aðra frábæra sendingu af hægri kanti fyrir markið, í þetta skiptið yfir á Mirallas sem var á auðum sjó í vítateignum en skaut hátt yfir.

Það kom þó ekki að sök því Naismith gulltryggði þetta fyrir Everton þegar hann tók sprettinn inn í teig og var felldur. Ekkert annað en víti kom til greina og Baines afgreiddi það auðveldlega í netið. 3-1 fyrir Everton.

Deulofeu inn fyrir Mirallas stuttu síðar en ekki löngu síðar fór Naismith út af meiddur. Hann hafði lent í slæmri tæklingu frá Swansea manni og fengið högg á andlitið en hélt áfram (eftir að búið var að bóka hvorki fleiri né færri en tvo leikmenn Swansea fyrir vikið. Everton gátu þó ekki skipt manni inn á þar sem þriðja skiptingin var komin þannig að þetta var bara spurning um að klára þetta út 90 mínútur plús uppbótartíma (4 mínútur). Það gerðu þeir með sóma.

Sky gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleiki en mitt mat er eftirfarandi: Robles 6, Baines 7, Distin 6, Jagielka 6, Coleman 9, Barry 7, McCarthy 6, Mirallas 7, Pienaar 6, Barkley 6, Traore 6. Varamenn: Deulofeu 6, Osman 6, Naismith 8. Hver er ykkar skoðun?

Einnig er búið að draga í átta liða úrslitum FA bikarsins:

Manchester City vs Wigan
Sheffield United eða Nottingham Forest vs Sheffield Wednesday eða Charlton
Brighton eða Hull vs Sunderland
Arsenal eða Liverpool vs Everton

Ekki besta útkoman (sterkur útivöllur hvernig sem fer) en allar líkur á að það verði Emirates, þar sem Arsenal eru 1-0 yfir eins og er.

24 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    líst vel á þessa uppstillingu, hefði þó haft Howard í markinu í svona mikilvægum leik en Robles hefur gott af pressunni og er búinn að standa sig vel í þeim leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Það er helst markið frá Southampton………….. en koma svo Bláir !!!!

  2. Halli skrifar:

    Ég er spenntur fyrir Traore það verður gaman að sjà hvað kemur frà honum

  3. Orri skrifar:

    Þetta er flott uppstilling.Það verður gaman að fylgjast með þeim stóra.

  4. Diddi skrifar:

    hálfleikur, vörnin er hrikalega opin hjá okkur og alveg úti að skíta. Við verðum að auka hraðann og byrja að tala saman og gera þetta saman sem lið……ótrúlega andlausir vinir okkar í dag. Þetta getur ekki annað en lagast 🙂

  5. Ari S skrifar:

    59:00 Barkley með boltann, átti að gefa út á kantinn… það vantar soldið upp á team work hjá honum. Damn…….!

    kær kveðja,

    Ari

  6. Diddi skrifar:

    NAISMITH!!!!!!!!!

  7. Ari S skrifar:

    Steven Naismith gjörsamlega frábær í dag, gefum honum kredit fyrir það!

    🙂

  8. Elvar Örn skrifar:

    Djöfulli er Naismith að stinga sokki upp í efasemdamenn, þar á meðal mig. Hann virðist þó oft standa sig gegn „minni“ liðum en jafnan ósýnilegur í stórleikjum.
    Flottur sigur í dag, hefði þó viljað sjá Deulofeu fá meiri tíma og til að hvíla Mirallas.

    Komnir í 8 liða úrslit en þar mætum við sigurvegurum í leik Arsenal og LIverpool sem nú stendur yfir. Ekki nóg með að Everton mæti erfiðum andstæðingi heldur spilum við leikinn á útivelli. Hvenær sigruðum við annaðhvort þessara liða á útivelli?

    Hvort vilja menn fara á Emirates eða Anfield?

  9. Diddi skrifar:

    ég vil auðvitað að liverpool tapi í dag, en á móti kemur að það væri sætt að hefna ófaranna í síðasta leik gegn þeim því ég er viss um að við myndum (með okkar sterkasta lið) taka þá í þarmreið!!

  10. Ari G skrifar:

    Naismith maður leiksins. Hann er góður varamaður fyrir Triore. Alls ekki sammála með einkuna fyrir Pianeer fannst hann einn besti maðurinn á vellinum. Vörnin var alls ekki sannfarandi gef Everton svona 6 af 10 í einkunn.

  11. Finnur skrifar:

    Þá er það ljóst. Arsenal úti í átta liða úrslitum. Hefði kosið heimaleik en við áttum flottan leik gegn þeim á útivelli fyrr á tímabilinu. Getum alveg endurtekið hann.

  12. Elvar Örn skrifar:

    Flott amk að vera komnir í 8 liða úrslit. Auðvitað erfitt að mæta Arsenal á Emirates en alveg rétt hjá þér Finnur að Everton átti magnaða spilamennsku þar fyrr á tímabilinu.
    Er Everton ekki bara að fara að taka þessa dollu (FA bikarinn)? Jú ég held það.

  13. Finnur skrifar:

    BBC birtu þetta áðan:

    Martinez was pleased with Naismith’s impact off the bench, but was also happy with Traore’s contribution. He said: „Steven took a knock and had delayed concussion. He felt fine initially and was then dizzy. He couldn’t remember that he scored – so I told him he scored from 40 yards.

    😀 Flottur!

    Hann bætti svo við: „Steven is a gem of a boy. He has an incredible attitude and I’m so pleased he is enjoying his football. He was instinctive and a real threat when he came on.

  14. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott mál!! Feginn að ég hafði rangt fyrir mér.
    Fannst vörnin ekki traust í dag en sem betur fer reyndi ekki mikið á hana, eins fannst mér Joel ekki traustvekjandi þegar hann þurfti að eiga við sendingar til baka. Hefðum við átt að skora fleiri mörk t.d. þegar Pienaar skallaði framhjá eða þegar Mirallas lúðraði hátt yfir eftir góðann undirbúning hjá Coleman. En þetta er FA bikarinn og það skiptir víst ekki máli hvort maður vinnur með einu marki eða tíu.
    Aðeins að Traore. Hann þarf greinilega fleiri leiki til að virkilega láta til sín taka, fannst hann vera meira áhorfandi en leikmaður. Auk þess verð ég að segja að hann hefur fyrstu snertingu eins og skurðgrafa.
    Flott mark hjá honum þó.

  15. Orri skrifar:

    Ég er mjög sáttur við úrslitin í dag,kanski ekki besti leikur okkar manna í vetur.Ég brosti nú ekki út að eyrum þegar Naismith kom inná en sagði sammt að hann myndi trúlega skora eitt sem hann og gerði og gott betur.Það er ekki bein braut að þessari dollu,en það verður því meiri gleði þegar að hún verður í húsi.

  16. Haddi skrifar:

    Það var nú aldeilis bein braut í úrslitin í fyrra þegar Everton dróst heima gegn Wigan í 8 liða úrslitum, við vitum hvernig það fór. Það verður gaman að sjá hvernig Arsenal stillir upp sínu liði þegar að þessum leik kemur, hann verður væntanlega laugardaginn 8. mars og síðan á Arsenal útileik gegn Bayern þriðjudaginn 11. mars.

  17. Finnur skrifar:

    Það er eins gott að Arsenal sýni flottan leik á miðvikudaginn gegn Bayern því það getur ekki annað en hjálpað okkur ef þeir eiga séns á að komast áfram í Meistaradeildinni nokkrum dögum eftir FA bikarleikinn gegn okkur. 🙂

  18. Orri skrifar:

    Sæll Finnur.Við förum óhræddir í þennan bikarleik við Arsenal hvernig sem leikur þeirra í meistardeildini fer.Ef við ætlu alla leið þá verðum við að bjartsýnir,en ekki að velta okkur upp úr úrslitum annara leikja.

  19. Finnur skrifar:

    Við gerum það vissulega en það er ekkert verra að gefa leikmönnum Arsenal nóg annað um að hugsa en FA bikarinn þegar á hólminn er komið. Hef annars engar áhyggjur; við eigum eftir að ganga stolt frá þessum leik. Efast ekki um það.

  20. Orri skrifar:

    Sæll aftur.Það er ekki spurning við verðum vonandi ánægðir eftir leikinn við Arsenal.

  21. Elvar Örn skrifar:

    Hér er skemmtilegt myndskeið af Bryan Oviedo þremur vikum eftir ljótt fótleggsbrot hjólandi á þrekhjóli.
    http://www.101greatgoals.com/blog/amazing-evertons-bryan-oviedo-posts-video-on-exercise-bike-3-weeks-after-horrific-double-leg-break/

  22. Elvar Örn skrifar:

    Gríðarlega áhugavert að sjá frammistöðu Naismith í vetur í tölum og í samanburði við aðra Everton kappa. Þarna eru ýmsar staðreyndir sem koma á óvart verð ég að segja, en kannski ekki þegar maður hugsar þetta aðeins.
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/steven-naismith-stats-everton-fc-6720168

  23. Finnur skrifar:

    Hver þarf á Lukaku að halda þegar hann hefur Steven Naismith?! 😉 Frábært að sjá Oviedo kominn á ról aftur (ef þetta er þá tekið eftir fótbrotið, en ekki fyrir…) 🙂

    En að öðru: Baines var valinn í liði FA bikar-umferðarinnar að mati Goal.com:
    http://www.goal.com/en-gb/news/2900/fa-cup/2014/02/18/4625996/fa-cup-team-of-the-round-jovetic-joined-by-dzeko-nasri-silva

  24. þorri skrifar:

    Þetta var ágætis leikur. Mér fannst vörnin ekki vera traustvekjandi í leiknum. Sóknin gekk mjög vel. Eigum ekki segja að við komust alla leið í úrslitaleikinn?