Everton vs. Stevenage

Mynd: Everton FC.

Uppfært: Leikurinn er ekki í beinni á Stöð 2 þannig að við ætlum að reyna að ná honum með einhverjum hætti á Blásteini uppi í Árbæ.

Deildarbikarinn er næstur á dagskrá og eins erfitt og það var að horfa upp á fyrstu tvo leikina (sem Everton hefði að öllu jöfnu unnið) enda með jafntefli verður vonandi hægt að gleðjast yfir næsta leik. Everton mætir þá Stevenage á Goodison Park á morgun (mið), kl. 18:45, í annarri umferð deildarbikarsins en þetta er í fyrsta skipti sem þessi lið mætast í keppnisleik. Stevenage eru, eins og stendur, í 18. sæti í League One (ensku C deildinni) með þrjú stig eftir fjóra leiki en þeir töpuðu fyrstu þremur leikjum sínum í C deildinni. Þeir náðu þó þremur stigum um síðustu helgi eftir 1-0 sigur á Notts County í síðasta leik en Notts County er í fallsæti eftir þá viðureign. Þess má þó geta að Stevenage hafa sýnt það að þeir geta sigrað lið í efri deildum eins og þeir gerðu þegar þeir slógu út Ipswich í fyrstu umferð deildarbikarsins. Það verður því ekkert gefið í þessum leik og alltaf möguleiki á stíga á bananahýðið. Upphitunin frá klúbbnum er hér og hér og Martinez ræddi um leikinn hér.

Martinez hefur gefið það til kynna að leikmenn á jaðrinum fái að spila deildarbikarleikinn. Ég ætla að giska á 3-5-2: Robles í markinu, Baines, Jagielka og Stones í vörninni, Oviedo, og Deulofeu á köntunum, Osman og Fellaini á miðjunni, Barkley framliggjandi og Kone og Anichebe fremstir. Það er reyndar ómögulegt að spá til um leikaðferðina því svo margir koma til greina og bara spurning hvern hann vill hvíla. Hibbert gæti tekið hægri bakvörðinn í stað Stones, Naismith gæti látið sjá sig á öðrum hvorum kantinum og einhver úr aðalliðinu gæti dottið inn líka. Ómögulegt að segja — en það verður fróðlegt að sjá hversu alvarlega hann tekur þennan leik. Ljóst er þó að Gibson og Alcaraz eru líklega ekki tilbúnir. 

Stóru fréttirnar eru þó þær (ótrúlegt að ég skyldi bíða með þetta svona lengi) að Ross Barkley var valinn í landsliðshópinn fyrir leiki Englands í undankeppni heimsmeistaramótsins við Moldóvu og Úkraínu en leikið verður í byrjun september. Barkley hefur leikið með unglingaliðum Englands en þetta er í fyrsta skipti sem hann fær kallið frá A-landsliðinu og er það vel verðskuldað enda hefur hann staðið sig frábærlega í fyrstu tveimur deildarleikjunum sem Everton hefur leikið. Leighton Baines og Phil Jagielka eru að sjálfsögðu einnig í landsliðshópnum og John Stones var valinn í hópinn sem mætir Moldóvum og Finnum fyrir hönd U21 árs liðs Englands.

En það voru þó ekki eingöngu jákvæðar fréttir sem bárust í vikunni því ungliðarnir áttu erfiða viku. Everton U21 tapaði fyrir Man City U21 3-0 og U18 ára liðið tapaði 1-0 fyrir Liverpool U18 á útivelli en bæði lið fengu vítaspyrnu í hvorum hálfleik, Liverpool undir lok fyrri hálfleiks (og skoruðu) og Everton í þeim seinni (sem því miður misfórst) og því endaði leikurinn 1-0. Og eins og það væri ekki nóg þá fótbrotnaði ungliðinn Conor McAleny í leik með Brentford.

Í öðrum fréttum er það helst að stuðningsmenn fá segja sitt þegar nýtt merki (crest) verður valið en hægt er að fylla út spurningalista og hvetjum við ykkur öll, sem lýst hafa skoðun á merkinu (og ykkur hinum líka), að láta í ykkur heyra.

Og ekki má gleyma slúðurdeildinni en þessi nöfn hafa verið orðuð við klúbbinn á dögunum (tökum því öllu með fyrirvara, eins og áður): Momo Sissoko (frjáls sala), James McCarthy, Aiden McGeady, Pablo Piatti, Luca Marrone, Zdravko Kuzmanovic, Andre Ayew, Ki Sung-Yeung (lán) og Gareth Barry.

8 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Hmmm, Crystal Palace duttu út, Fulham áfram á vítaspyrnukeppni, Liverpool ekki langt frá því að stíga á bananahýðið gegn fall-liði Notts County í C deildinni (og það á Tannfield!). Southampton, Norwich, Sunderland, West Ham og West Brom hins vegar áfram. Gaman að þessu. 🙂

  2. Halli skrifar:

    Ég fylgi þessari spá þinni á liðinu Finnur nema að ég ætla að skjóta á að Heitinga komi inn fyrir Baines og Naismith fyrir Barkley. Leikurinn fer 3-1 Kone með 2 og Vellios kemur inn af bekknum með 1.

    Svo fór Tranmere áfram eftir sigur í vító við Bolton

  3. Finnur skrifar:

    Nú er spurning hvort leikurinn verður sýndur í beinni… Stöð 2 er bara með einn leik af sjö í beinni (og það er ekki okkar leikur). Er nokkur með link á dagskrána fyrir gervihnettina?

  4. Finnur skrifar:

    Hmmm, sýnist hann vera listaður hér.
    http://www.en.aljazeerasport.tv/Live

  5. Sigurjón Sigurðsson skrifar:

    líka oft fínt að fara á þessa síðu, ég nota hana mest: http://www.messi2day.com/football/

  6. Einar G skrifar:

    og svo er þessi síða líka fín 🙂 http://firstrownow.eu/

  7. Finnur skrifar:

    Vissulega. Ég var hins vegar að spyrja um gervihnattastöðvarnar ef vera skyldi að pöbbinn sem við færum á næði útsendingunni — það er ekki jafn gaman að horfa á þetta gegnum Internetið en það má láta sig hafa það ef þörf krefur.

    Við ætlum annars að hittast á Blásteini uppi í Árbæ og reyna að ná leiknum (kl. 18:45).