Everton – Leicester 2-2 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Leicester í kvöld í fjórðungsúrslitum enska deildarbikarins.

Nokkuð var um meiðsli í herbúðum okkar manna, eins og sást á uppstillingunni í jafnteflisleiknum á Old Trafford, og Gylfi og Sidibé greinilega ekki búnir að jafna sig af flensunni sem kom í veg fyrir að þeir næðu United leiknum. Gomes, Gbamin, Delph og Luca Digne voru jafnframt einnig frá.

Uppstillingin (4-4-2): Pickford, Baines, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Holgate, Bernard, Davies, Iwobi, Calwert-Lewin, Richarlison.

Varamenn: Stekelenburg, Kean, Martina, Adeniran, Gordon, Tosun, Niasse.

Leicester menn áttu fyrsta alvöru færið á 17. mínútu þegar kantmaður þeirra komst framhjá Coleman (sem var staðsettur í vinstri bakverði einhverra hluta vegna) og sendi lágan bolta fyrir mark út í teig en Perez skaut rétt yfir slána. Þetta reyndist viðvörun sem Everton tók því miður ekki mark á.

Á 25. mínútu komust Leicester aftur upp með sama hætti, upp hægri kantinn og sendu fyrir á Maddison sem var á auðum sjó úti í teig og þrumaði í netið. 0-1 fyrir Leicester.

Leicester fengu svo örskömmu síðar horn, sem þeir náðu að framlengja með skalla fyrir markið, þar sem Evans var mættur til að pota inn. Michael Keane hafði átt að dekka hann en leit af honum og fór að fylgjast með boltanum og á meðan læddist Evans á fjærstöng og kom sér í ákjósanlegt færi. Óvaldaður og potaði inn. Staðan orðin 0-2 fyrir Leicester.

Everton fékk fín færi eftir tvær aukaspyrnur með aðeins um mínútu millibili. Í fyrra skiptið sendi Bernard háan bolta yfir varnarmúr Leicester, beint á kollinn á Mina sem enginn var að dekka. Mina náði góðum skalla að marki (hefði í raun átt að skora) en Schmeichel varði vel. Seinni aukaspyrnan var tekin snöggt, stunga á Richarlison sem komst þannig inn fyrir vinstra megin í teig en hann setti boltann utan við fjærstöng.

Töluverð barátta í Everton liðinu en höfðu ekki erindi sem erfiði.

0-2 í hálfleik.

Ein breyting í hálfleik. Moise Kean inn á fyrir Bernard. 

Mina fékk annað dauðafæri á 57. mínútu eftir hornspyrnu frá Baines. Fékk frían skalla en setti boltann framhjá fjærstöng. Leicester svöruðu með skyndisókn og komust einn á móti markverði en Pickford varði glæsilega og hélt Everton inni í leiknum.

Leicester voru svo óheppnir að skora ekki þriðja markið á 65. mínútu þegar þeir náðu að stela boltanum af aftasta manni en skutu í ofanverða þverslána.

Everton tókst hins vegar loksins (loksins!) að brjóta stífluna á 69. mínútu þegar Richarlison sendi háan bolta fyrir frá hægri, utan teigs. Davies kom á siglingu inni í teig og þrumaði viðstöðulaust í netið. Staðan orðin 1-2. Game on! Allt varð náttúrulega vitlaust á Goodison Park og stemmingin rafmögnuð.

Aðeins þremur mínútum síðar komst Calvert-Lewin í dauðafæri upp við mark, eftir flotta fyrirgjöf frá Moise Kean — en skallaði því miður yfir. Everton að ná undirtökunum.

Tosun kom svo inn á fyrir Iwobi á 78. mínútu og Anthony Gordon fyrir Richarlison á 84. mínútu.

Eftirlitsdómarinn hafði varla lyft upp skiltinu til merkis um að fjórum mínútum yrði bætt við þegar Baines tók til sinna ráða, fékk boltann nokkuð utan við teig, sá að varnarmenn voru seinir út á móti honum, lagði hann fyrir sig og tók algjöra neglu upp í samskeytin vinstra megin. „Beint í frímerkið“, eins og þulurinn orðaði það. Staðan orðin 2-2 og allt vitlaust á pöllunum á Goodison Park! Fjórum mínútum síðar flautaði dómarinn svo til vítaspyrnukeppni.

Ensku landsliðsmennirnir í fyrsta vítinu: Maddison á punktinn, Pickford á línunni. Fast skot frá Maddison vinstra megin við Pickford en Pickford las hann vel og sá við honum með flottri vörslu. Tosun mættur á punktinn og tók eins víti en Schmeichel sá við honum. Staðan enn 0-0.

Chillwell með næsta víti — sendi Pickford í rangt horn og skoraði niðri hægra megin. 0-1 fyrir Leicester. Baines á punktinn og skaut niðri vinstra megin en aftur var Schmeichel mættur á réttan stað og varði. Leicester komnir með yfirhöndina.

Ferera öruggur með sitt víti í vinstra hornið hjá Pickford. 0-2 Leicester. Holgate næstur með öruggt víti uppi við slána. Staðan 1-2.

Pickford var alls ekki langt frá því að verja frá Gray í næsta víti, en boltinn slapp inn. Staðan orðin 1-3. Mjög erfitt því Calvert-Lewin varð þar með að skora — og það gerði hann. Frábær spyrna sem Schmeichel náði ekki til alveg við stöng vinstra megin. Staðan orðin 2-3 og Everton þurfti að treysta á að næsta vítaskytta klikkaði.

Það var því engin gleði að sjá Jamie Vardy stilla boltanum upp á punktinum og skora örugglega — og koma þannig Leicester í undanúrslit deildarbikarsins.

Leikmenn Everton gáfu allt sem þeir áttu til að komast áfram og áttu frábæran seinni hálfleik þar sem þeir unnu upp tveggja marka forskot með tveimur algjörum glæsimörkum. En þeir eru því miður úr leik í þessari bikarkeppni sem hefur alltaf reynst Everton erfiður ljár í þúfu.

Nú er að sjá hvort Carlo Ancelloti verði tilkynntur sem næsti stjóri Everton fyrir deildarleikinn um helgina, eins og fjölmiðlar hafa haldið fram.

14 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Flottasti seinni hálfleikur sem ég hef séð lengi, þvílík baráttan í liðinu. Leikurinn endar 2-2 og það fer strax í vító!

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ég hata vítaspyrnukeppni!!

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og ég ætla að leyfa mér að segja að Iwobi er algjörlega gagnslaus. Hann er þungur, klaufskur og virðist á köflum hreinlega vera heimskur. Vonandi er skilamiði á honum. Þeir hjá Arsenal hljóta ennþá að vera að hlægja að Everton fyrir að kaupa hann.

    • Ari S skrifar:

      Voðaleg minnimáttarkennd er þetta í þér Ingvar. Þú getur nú skammast yfir öllu. 🙂 🙂 🙂

      Arsenal eru búnir að vera álíka lélegir og við þannig að þeir hlæja nú ekki mikið.

      Gleðileg Jól Ingvar.

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Skil ekki alveg hvað þú meinar með minnimáttarkennd og ég skammast ekki yfir öllu, bara því sem þarf að skammast yfir.

        • Ari S skrifar:

          Þú segir að Arsenal séu að hlæja að okkur eins og þeir séu eitthvað betri og meiri en við. Sem þeir eru ekki. Þó að fjölmiðlar utanhafs keppist um að segja öllum það. En þetta er bara það sem mér finnst Ingvar minn og ekkert meira um það að segja.

          Málið með Iwobi í síðustu leikjum og reyndar allt liði er að þetta hefur allt saman verið hreint ótrúlegt og leikmenn gefið mikið frá sér. Baráttan gífurleg og mikið hlaupið og pressað. Það kæmi mér ekki á óvart að Iwobi hafi hlaupið manna mest af öllum í síðustu leikjum.

          Talandi um síðustu leiki, sigur gegn Chelsea, jafntefli gegn Manchester United og jafntefli gegn Leicester er miklu miklu betri árangur en ég bjóst við. Á venjulegum degi miðað við spilamennsku okkar í haust/ vetur þá hefðum við skíttapað öllum þremur leikjunum. Að vera næstum því með alla miðjumennina meidda eða veika er mjög mikil blóðtaka og miðað við það finnst mér Iwobi verið bara allt í lagi. Ég er sammála hann var ekkert sérstaklega góður gegn Leicester og það er bara allt í lagi að segja það og gagnrýna. En hann barðist og hljóp og pressaði og það var nóg fyrir mig.

          Kær kveðja og Gleðileg Jól… Ari S

    • Orri skrifar:

      Sæll ingvar.Hann mætti fara mín vegna þá leiki sem ég hef séð með hann í liðinu finnst mér ekkert hafa komið frá honum því miður,en það sjá ekki allir hlutina eins og það er bara gott.

      • Ari S skrifar:

        Orri af hverju í ósköpunum ætti hann að fara. Þvílíkt og annað eins bull í þér kæri vinur.

        • Orri skrifar:

          Sæll félagi.Mér finnst hann vera farþegi í liðinu eins og fleirri í okkar annars ágæta liði við svoleiðis menn höfum ekkert að gera með punktur.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Ömurlegur fyrri, góður seinni. Geggjað mark hjá Baines, halló sko geggjað. Daprar vítaspyrnu hjá Tosun og Baines því miður.
    Duncan stýrir nslta leik gegn Arsenal heima og Ancelotti og Arteta munu horfa á hliðarlinunni sem komandi stjórar.
    Ef af verður þá er fyrsti leikur Ancelotti heima gegn Burnley.
    Iwobi a að vera á vinstri kanti en ekki út um allan völl.
    Richarlison á hægri og Kean frammi með Calwert Lewin.
    Er samt sáttur við 4-4-2 en guð hvað okkur vantar heila miðjumenn, 4 fyrstu kostir fjarverandi, Gomez, Gabbamin, Delph og Gylfi.
    Tökum Arsenal heima.

    • Ari S skrifar:

      En hvar ætlum við að hafa Ibrahimovich? Og Gareth Bale sem kemur í Janúar, hvar á hann að vera?

  5. Elvar Örn skrifar:

    En af hverju spiluðum við fyrri svona hægt og passíft ólíkt seinustu tveimur leikjum og það á heimavelli. Duncans fault.
    Ég menn eru ekki sáttir að fá Ancelotti þá er bara eitthvað að.

    • Ari S skrifar:

      Áfram Ancelotti alla leið.

      Duncan segir sjálfur á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Arsenal að hann vilji mennta sig meira til að verað þjálfari. Hann sagði það meira að segja þrisvar eða fjórum sinnum á þessum fundi. Hann veit sín takmörk og mun án efa verða góður stjóri í framtíðinni. Ekki mun það skemma fyrir honum ef að Ancelotti vill leyfa honum að vera á bekknum með sér sem ég hef fulla trú á að mun gerast.

  6. Ari G skrifar:

    Sá ekki alveg allan leikinn. Fyrri hálfleikur lélegur það sem ég sá. Sá seinni hálfleikinn var mun betri og góð barátta en hræðilegur varnarleikur kostaði Everton næstum mark. Viti er oftast heppni og erfitt að gagnrýna þær. Iwobi hefur aldrei heillað mig nema hann er duglegur en hefur ekki það sem Gylfi hefur að búa til nóg af færum má fara mín vegna. Skil ekki þá sem vilja ekki Ancelotti hvað vilja menn þá Moyes aftur hvar er þá metnaðurinn flott að fá Ancelotti sennilega besti kosturinn sem Everton hafði kost á þótt hann sé mjög dýr. Hvað finnst ykkur að fá Zlatan flottur leikmaður en frekar latur að hreyfa sig en maður með ótrúlega hæfileika vill prófa hann fram á næsta sumar.