Everton vs. Stoke

Mynd: Everton FC.

Næsti leikur er á heimavelli gegn Stoke í deildinni en flautað verður til leiks kl. 14:00 á laugardaginn. Bæði lið settu fjögur mörk á auðvelda mótherja í EFL bikarnum í vikunni og stilltu upp nokkuð sterkum liðum þannig að liðin ættu að koma svipað frísk til leiks.

Byrjun Stoke á tímabilinu hefur ekki verið sannfærandi, ef deildarbikarinn er undanskilinn. Þeir gerðu jafntefli við nýliða Middlesbrough í fyrstu umferð en töpuðu svo 1-4 á heimavelli gegn Man City þar sem sérstaka athygli vakti að dómarar eru loksins (loksins!!) farnir að taka á því þegar varnarmaður hangir í sóknarmanni í föstum leikatriðum. Nokkuð sem Shawcross, fyrirliði Stoke, og fleiri hafa stundað um árabil og komist upp með. Þessari breytingu ber að fagna (sama hver á í hlut) og það verður fróðlegt að sjá hvort að Shawcross standist freistinguna um helgina en hann gaf City mönnum vítaspyrnu í síðasta leik.

Everton er sem stendur í 5. sæti deildar, tveir sigrar í þremur leikjum og eitt jafntefli en Stoke menn eru í 17. sæti með aðeins 1 stig.

Hjá Everton missir Coleman af leiknum vegna meiðsla og Tom Cleverley, Darron Gibson og James McCarthy eru allir metnir tæpir. Besic sem og ungliðarnir Pennington og Tyias Browning eru, sem kunnugt er, frá til lengri tíma. Líkleg uppstilling: Stekelenburg, Baines, Funes Mori/Williams, Jagielka, Holgate, Gueye, Barry, Mirallas, Deulofeo, Barkley, Lukaku. Hjá Stoke er Xherdan Shaqiri tæpur (hefur nú misst af síðustu tveimur leikjum þeirra) en markvörðurinn Jack Butland og Glen Johnson eru báðir frá vegna meiðsla.

Í öðrum fréttum var það helst að:

  • Koeman blés á sögusagnir um að Everton væri að fara að kaupa Joe Hart; sagði að félagið hefði ekki áhuga á að fá hann til liðs við félagið, hvorki nú né áður.
  • Ungliðinn Ryan Ledson var á dögunum seldur til Oxford. Söluverðið var ekki gefið upp en hann lék aðeins einn leik með aðalliðinu en það var marklaus Europa League leikur gegn Krasnodar.
  • Dregið var í deildarbikarnum í gærkvöldi og fékk Everton heimaleik gegn Norwich í 32ja liða úrslitum deildarbikarsins.
  • Ashley Williams (Wales), Seamus Coleman, James McCarthy og Aiden McGeady (allt Írar) eru í hópnum fyrir undankeppni HM.
  • Og Everton U23 liðið heldur áfram sigurgöngu sinni í Úrvalsdeild U23 ára liða, sem kölluð er Úrvalsdeild 2 en liðið situr á toppi deildarinnar með þrjá sigra í þremur leikjum eftir sigur þeirra gegn Leicester 1-4. Mörk Everton skoruðu Dowell, Duffus, Evans og Dyson en Leicester náðu að minnka muninn í blálokin.

Einnig er rétt að minnast á nýjan flipa hér að ofan — flipann ‘Leikmenn’ en hann sýnir alla leikmenn liðsins og helstu upplýsingar um þá sem ættu að uppfærast sjálfkrafa. Við þökkum Þórarni kærlega fyrir þetta flotta framtak.

Við Þórarinn ætlum að leggja hausinn í bleyti varðandi viðbætur á everton.is. Ef ykkur dettur eitthvað í hug sem þið vilduð sjá, þá endilega látið vita. Lofum engu en tökum allar athugasemdir til greina. 🙂

Til gamans er hér í lokin staðan í ensku Úrvalsdeildinni U23. Alls er um að ræða 12 lið og Everton á toppnum og við hljótum að bíða spennt að sjá hvað ungliðarnir okkar gera á tímabilinu!

U23

Mynd: Skjáskot af www.premierleague.com

4 Athugasemdir

  1. Orri skrifar:

    Við verðum bara að vinna Stoke það er ekkert annað í boði hjá okkar mönnum.

  2. Ari G skrifar:

    Skil ekki eru með 7 sóknarmenn á launaskrá og notum bara 2 af þeim reglulega Lukaku og Bolasie ef hann er sóknarmaður en 4 ekkert og 1 Kone mjög lítið. Furðulegt t.d. með Suður-Ameríku kappann af hverju var hann keyptur til að sitja á bekknum.

  3. Finnur skrifar:

    Ef Bolasie er titlaður sóknarmaður þá ætti Mirallas að vera það líka og þá erum við að tala um að þeir séu allavega 8 sóknarmennirnir, þar af 3-4 sem fá að spila reglulega. 🙂

    Lukaku, Mirallas og Bolasie fá líklega mikinn tíma á velli. Kone er svo varaskeifa fyrir Lukaku.

    Niasse er aftur á móti á leið frá félaginu en þá eru bara eftir þrír ungir (Rodriguez, McAleny og Tarashaj) sem eru nú örugglega ekki á mjög háum launum.

    Rodriguez (Suður-Ameríku kappinn sem þú nefnir) var lánaður til Brentford á síðasta tímabili og meiddist snemma illa þannig að við sjáum hann fyrst í Everton U23 áður en við förum að sjá hann mikið á bekknum hjá aðalliðinu.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Flott viðtal við Mirallas þar sem hann segir Lukaku fókusaðan á Everton.

    http://www.skysports.com/football/news/11671/10553191/romelu-lukaku-focused-on-everton-says-team-mate-kevin-mirallas

    Já og svo er Martinez að velja Mirallas í Belgíska hópinn, áhugavert.

    Á morgun þarf maður svo að finna stream á Everton – Stoke.
    Mæli með að menn sækja Kodi forritið í PC og nái í sportdevil addon. Þannig er hægt að opna alla linka án þess að ýta á litla krossa út um allt til að sjá stream.