Frank Lampard rekinn

Mynd: Everton FC.

Samkvæmt fréttum á BBC, Sky Sports og Twitter var Frank Lampard rekinn í dag eftir arfaslakt gengi á tímabilinu en liðið hefur eingöngu náð sigri í þremur leikjum, nú þegar tímabilið er hálfnað.

Við þökkum Lampard fyrir veitta þjónustu en við eigum honum það að þakka að félagið féll ekki á síðasta tímabili, því hann rétt svo náði að rétta skútuna af á lokametrunum eftir Benitez. Lampard beið hins vegar ekki öfundsvert hlutverk á þessu tímabili, eftir að liðið hafði selt markahæsta manninn frá félaginu, sem hafði átt stóran þátt í að halda liðinu uppi. Eða eins og ljóðskáldið benti á varðandi spilamennskuna í lífinu: „það var hvort eð er vitlaust gefið“.

Lampard yfirgefur félagið með lakasta árangur nokkurs fastráðna stjóra Everton frá því að Úrvalsdeildin var stofnuð en hann var kominn undir 1 stig að meðaltali per leik frá því hann tók við.

Klúbburinn á enn eftir að staðfesta fregnirnar og örugglega svolítið í það að við vitum hver næsti fastráðni stjóri verður, en hann verður sá sjötti á fimm árum.

3 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Það pínu sárt að sjá þetta ekki ganga hjá Lampard því maður sá ákveðin batamerki í innkaupastefnunni, hvað bargain kaup allavega varðar (Tarkowski frítt, Gueye 2M, Coady á láni) en það eru ennþá stórar viðvörunarbjöllur að klingja varðandi dýru mennina sem keyptir voru fyrir tímabilið. Mér sýnist þetta því hafa verið fyrirfram dæmt til að mistakast.

    Ég sé ekki hvernig í ósköpunum Neal Maupay átti að fylla í skarðið fyrir Calvert-Lewin eða Richarlison. Hann er komið með eitt mark á tímabilinu? Ég veit að sóknarmenn eru almennt dýrir, en samt finnst mér 15M punda vera yfirverð þar. Og er McNeil 20M punda kantmaður eða James Garner 15M punda virði? Ég get ekki séð það. Gef reyndar Garner smá sens þangað til hann hefur jafnað sig af meiðslunum (við höfum svo lítið séð af honum).

    Það er helst að Onana hafi verið að gera eitthvað.

    Ég sé heldur ekki hvernig hægt er að styrkja liðið í janúarglugganum nema með lánssamningum, því Maupay+McNeil+Garner+Onana kostuðu samtals 83M punda.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hann átti auðvitað að fara fyrir löngu síðan, eftir Bournemouth leikina í nóvember hefði verið skynsamlegt, en þannig vinnur stjórn félagsins ekki.
    Nú þurfum við að treysta á að þessi fávitaflokkur sem stjórnar félaginu ráði rétta manninn í staðinn og ég er ekki í nokkrum vafa um að eftir heilmikið japl, jaml og fuður, sem mun standa til amk loka mánaðarins, þá klúðra þessi fífl því eins og öllu öðru og félagið verður í nákvæmlega sömu stöðu eftir nokkra mánuði.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þröngsýnu helvítis fífl!!
    Alveg dæmigert fyrir þessa trúða að vera að spá í tvo stjóra sem gætu ekki verið ólíkari þótt þeir reyndu.
    https://www.goodisonnews.com/2023/01/26/everton-hierarchy-wowed-by-sean-dyche-and-marcelo-bielsa-talks-further-talks-on-thursday/
    Ég vil ekki Dyche og þó mér finnist Bielsa spila skemmtilegan fótbolta, þá væru allir leikmennirnir búnir að slíta hásin eða með hjartaáfall eftir hálfa æfingu.
    Hvernig væri nú að athuga með menn eins og Marcelino, Gallardo eða Tedesco? Eins held ég að Lucien Favre sé á lausu, hann hefur reynslu af að taka við liðum í þessari stöðu og gera þau betri.