West Ham – Everton 2-0

Mynd: Everton FC.

Það er háspennuleikur í boði í dag þegar Everton mætir til Lundúna til að eigast við West Ham kl. 15, en þeir eru, eins og kunnugt er, í fallbaráttunni, líkt og okkar lið. Stjórar beggja liða, Lampard og David Moyes, undir afar mikilli pressu, enda þurfa bæði lið nauðsynlega að komast á sigurbrautina til að snúa við afleitu gengi undanfarið.

Lampard sagði fyrir leik að Godfrey væri meiddur og myndi því missa af þessum leik. Að öðru leyti er þetta svipuð uppstilling og í síðasta leik. Grunar að þetta verði 5-4-1 eða eitthvað svipað. Varnarsinnað, enda á útivelli en spekúlantar vildu meina að West Ham menn væru oft seinir af stað í leikjum, sem gæti hjálpað Everton, þar sem andrúmsloftið á heimavelli West Ham yrði oft ansi súrt þegar líður á án sýnilegs árangurs.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Mina, Coady, Tarkowski, Coleman, Gana, Onana, Iwobi, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Davies, Price, McNeil, Gordon, Maupay, Simms.

Róleg byrjun á leiknum. Smá lífsmark á 3. mínútu þegar Bowen var næstum kominn í gegn eftir langa sendingu fram, en náði ekki að nýta sér það og leikurinn róaðist aftur í kjölfarið. Bæði lið að þreifa sig áfram í leiknum og West Ham menn mun meira með boltann til að byrja með. En Everton óx inn í leikinn og náðu á köflum ágætis stjórn á leiknum, en yfirleitt var spilið alltaf svolítið hægt og fyrirsjáanlegt. Áhangendur West Ham greinilega sífellt pirraðari eftir því sem Everton komst betur inn í leikinn.

En West Ham menn snöggskánuðu eftir um hálftíma leik. Benrahma fékk boltann á 28. mínútu utan teigs og hann reyndi strax skot sem stefndi rétt undir slána en Pickford varði vel í horn. Á 35. mínútu náðu þeir hins vegar að skora og það var eins tæpt og það gat verið. Hár bolti inn í teig, skallaður í átt að marki og að Jarod Bowen sem var réttstæður eingöngu út af ökkla á varnarmanni Everton sem var nóg. Hefði varla getað verið tæpara þar sem hann var að koma á hlaupinu í átt að marki og stýrði boltanum í netið. Spurning um sekúndubrot.

Everton færði sig framar á vellinum í leit að færum og West Ham menn refsuðu fyrir það, komust í skyndisókn upp hægri kant þar sem Antonio náði að finna Bowen fyrir framan markið og honum brást ekki bogalistin. 2-0 fyrir West Ham.

West Ham menn voru stálheppnir að fá ekki á sig mark rétt fyrir lok hálfleiks eftir horn frá Everton. Iwobi náði skoti á mark sem breytti um stefnu af varnarmanni og í utanverða stöngina. 2-0 í hálfleik.

Lampard breytti um aðferð með því að skipta út bakvörðunum (sem eiginlega eru hálfgerðir kantmenn í þessari fimm manna vörn) fyrir McNeil og Tom Davies. Iwobi þar með kominn út á hægri kantinn, sýndist mér, McNeil á vinstri og Tom Davies tók stöðu Iwobi. Og það virtist vera að virka svona framan af.

Iwobi skapaði til dæmis dauðafæri fyrir Calvert-Lewin á 55. mínútu með frábærri stungusendingu sem Calvert-Lewin reyndi að renna sér á við fjærstöng en rétt missti af. Gana Gueye átti svo skot á mark, rétt utan teigs, sem Fabianski sló rétt framhjá stöng.

Everton setti fína pressu á vörn West Ham og unnu þó nokkrar hornspyrnur og aukaspyrnur, en ekki mikið meira. West Ham menn minntu stöðugt á sig með skyndisóknum, eins og á 65. mínútu þegar Benrahma þvingaði Pickford til að verja í slána og yfir. Rice komst einnig í skyndisókn á 74. mínútu en setti boltann framhjá bæði Pickford og fjærstöng.

Leikmenn Everton reyndu allt hvað þeir gátu en þetta var allt saman svo hugmyndasnautt og fyrirsjáanlegt. Menn stöðugt að reyna háa bolta inn í teig fyrir Calvert-Lewin — eitthvað sem hafði ekki virkað allan leikinn.

2-0 fyrir West Ham niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Tarkowski (6), Mina (6), Coady (6), Coleman (6), Onana (7), Gueye (6), Mykolenko (5), Iwobi (7), Calvert-Lewin (6), Gray (6). Varamenn: Davies (6), McNeil (6).

8 Athugasemdir

  1. albert skrifar:

    Alveg skelfileg hvernig gengið hefur verið í mörg ár! Vonandi verður viðsnúningur.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Eigum við einhvern séns? Ég held ekki. Þetta fer 4-0 fyrir West Ham og þeirra tímabil hrekkur í gang, enda eiga þeir alls ekki að vera í þessum vandræðum miðað við mannskap.

  3. albert skrifar:

    Já Ingvar Það vantar einhvern neista og marka skorara!

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Game over

  5. Gestur skrifar:

    Hvenær er nóg, nóg. Lampard hefði átt að fara fyrir HM.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Það er hárrétt hjá þér Gestur. Ég hef verið tregur til að taka afstöðu með eða á móti Lampard en ég hef nú endanlega gefist upp á honum. Ekkert plan a, b eða c, alltaf sömu skítsokkarnir í liðinu og algjörlega hugmyndasnauður sóknarleikur, hann verður að fara.
      Það hefði verið gáfulegt að láta hann fara eftir Bournemouth klúðrið en það hefði auðvitað þýtt að Moshiri/stjórnin hefði þurft að hugsa hálfa hugsun, svo auðvitað var það ekki gert.

      Ég held, eða nei annars, ég er alveg 1000% viss um að Everton verður ekki bjargað úr þessu, frá falli þ.e.a.s. en framtíð félagsins gæti verið betri ef Moshiri drullar sér og tekur þessa ömurlegustu stjórn heims með sér.

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað gerir Coady annað en að bakka endalaust og spila alla réttstæða?
    Ég er alveg búinn að fá meira en nóg af honum og vona að hann verði sendur til baka til Wolves eftir tímabilið, helst fyrr.

  7. Gestur skrifar:

    Jæja, nú verður fróðlegt að sjá hver tekur við.