Everton – Southampton 1-2

Mynd: Everton FC.

Það er 6 stiga leikur í dag þegar Everton tekur á móti Southampton á heimavelli kl. 15:00. Bæði lið eru í bullandi botnbaráttu, Southampton menn á botninum og Everton í þriðja neðsta sæti — jafnt á við West Ham en með lakari markatölu. Þetta er leikur sem má. alls. ekki. tapast…

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Godfrey, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Gana, Iwobi, Onana, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, McNeil, Gordon, Mina, Doucoure, Maupay, Davies, Simms.

Óvæntu fréttir dagsins voru þær að Iwobi var orðinn nægilega góður til að spila leikinn, eftir að hafa verið borinn út af á börum í síðasta leik. Ef hann er ekki fullur af verkjalyfjum þá gætum við þurft að fara að kalla hann Iron-man Iwobi. 

Það leið hins vegar ekki mínúta þar til fyrsti leikmaður Everton var lagstur í grasið með meiðsli (Godfrey) en hann hélt sem betur fer áfram. Skipting á fyrstu mínútu er alls ekki það sem maður vill sjá í neinum leik.

Fyrsta færið kom á 14. mínútu, þegar Gray tók aukaspyrnu langt utan af velli hægra megin, beint á skallann á Calvert-Lewin en hann var nokkuð frá marki og náði engum krafti í skallann.

Gray komst sjálfur í færi nokkrum mínútum síðar eftir góðan undirbúning frá Onana og Mykolenko en færið endaði á að vera of þröngt fyrir Gray sem skaut framhjá.

Southampton voru næstum því búnir að skora óvænt á 27. mínútu. Þeir náðu skoti á mark sem fór í neðanvert lærið á Mykolenko og breytti um stefnu og fór niður í jörðina. Boltinn skoppaði svo þaðan rétt framhjá vinstri stöng. Pickford hefði ekki átt neinn séns en boltinn fór sem betur fer rétt framhjá stönginni. Þar skall hurð nærri hælum! Hornið frá Southampton ekki slæmt, en skallinn frá þeim beint á Pickford.

Á 38. mínútu vann Gray hornspyrnu og tók hana sjálfur. Hár bolti frá hægri og Onana vann skallaeinvígið og náði að skalla boltann í netið. 1-0 fyrir Everton!

Southampton menn voru heppnir að fá ekki á sig annað mark strax á eftir. Gray vann aukaspyrnu og sendi háan bolta á Onana sem skallaði fyrir frá fjærstöng. Markvörður Southampton kastaði sér á boltann og greip hann en rak boltann í hnéð á varnarmanni og missti boltann. Þar var bara spurning um hver myndi vera næstur bolta og því miður var það ekki sóknarmaður Everton svo að vörnin náði að hreinsa. Everton með undirtökin í leiknum. Brjáluð stemning á pöllunum, sem sungu Spirit of the Blues hástöfum.

Iwobi átti skot utan teigs, rétt á eftir en boltinn sigldi framhjá markverði en einnig rétt framhjá stönginni.

Southampton minntu á hvað þeir geta verið hættulegir rétt fyrir lok hálfleiks þegar Ward-Prowse komst upp að vítateig og reyndi fast lágt skot út við stöng vinstra megin. Pickford kastaði sér hins vegar á boltann og varði hann í innanverða stöng og út aftur. Coady sem betur fer mættur á staðinn og hreinsaði og tryggði það að leikmenn Southampton næðu ekki að jafna í það skiptið.

1-0 fyrir Everton í hálfleik!

Það tók Southampton innan við mínútu að jafna leikinn. Þeir náðu snöggu, flottu spili sem endaði með sendingu inn í teig á Ward-Prowse. Hann lék á Godfrey með nettri snertingu og setti boltann óáreittur framhjá Pickford. 1-1.

Á 53. mínútu hefðu Everton átt að komast yfir aftur. Godfrey vann boltann á miðjunni hægra megin og brunaði í átt að D-inu við vítateiginn. Þar gaf hann á Calvert-Lewin sem náði flottu skoti sem fór í varnarmann Southampton og í sveig yfir markvörð þeirra… en því miður í neðanverða slána og út aftur. Hversu nálægt er hægt að komast í skoti og skora ekki, veltir maður fyrir sér? Þetta var spurning um einhverja millimetra.

Southampton menn gerðu tvöfalda skiptingu eftir þetta og það fór smá um mann því þeir náðu sterkum kafla í kjölfarið. Godfrey lokaði vel á Armstrong í dauðafæri og Pickford tók fast langskot frá Ward-Prowse. 

Coleman var skipt út af fyrir Gordon á 69. mínútu (Godfrey þar með í bakvarðarstöðuna) og það reyndist örlagaríkt. En ekki af því að Everton var næstum búið að komast yfir strax í kjölfarið þegar hár bolti kom fyrir mark eftir aukaspyrnu, sem markvörður Southampton rétt náði að slengja hendi í og breyta stefnu. Það var eins gott fyrir hann, því Godfray var við fjærstöng, tilbúinn að pota í autt netið en af því að boltinn breytti stefnu fékk Godfrey boltann í lærið og færið fór forgörðum.

Clavert-Lewin átti stuttu síðar lága sendingu fyrir mark frá vinstri á Gordon sem var í dauðafæri, en aftur náði markvörður að breyta stefnu boltans og eyðileggja færið.

Á 78. mínútu gaf Gordon Southampton aukaspyrnu á stórhættulegum stað, með afar barnalegum varnarleik. Keyrði aftan í bakið á manninum rétt utan teigs. Akkúrat það sem má ekki gefa liði sem er með mann eins og James Ward-Prowse innan sinna raða. Sá mundaði skotfótinn og setti boltann beint í netið vinstra megin, í sveig yfir vegginn og í vinstra hornið hjá Pickford. 1-2 fyrir Southampton. Og þar með varð andrúmsloftið ansi súrt.

Lampard blés til sóknar og setti Ellis Simms inn á fyrir Gana Gyeue á 82. mínútu, en Southampton menn vörðust vel og náðu alltaf á síðustu stundu að redda sér fyrir horn. En það verður að segjast að Ellis náði ekki að gera neinn skapaðan hlut það sem eftir lifði leiks…

1-2 niðurstaðan fyrir Southampton og nú er erfitt að sjá hvernig Lampard á að ná að halda starfi sínu, brottreksturinn blasir því miður við, eins mikið og ég hata að segja það.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfært mörgum dögum síðar: Enn bólar ekkert á einkunnum, þannig að það lítur ekki út fyrir að Sky Sports ætli að gefa þær út fyrir þennan leik.

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta fer 1-3 fyrir Southampton.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gordon er algjör helvítis bjáni!!
    Að brjóta af sér þarna þegar besti spyrnumaður deildarinnar er í liði andstæðinganna er ekkert nema heimska.
    Annars var þetta ekki svo voðalegt, Everton hefði alveg getað skorað fleiri mörk en voru óheppnir.

  3. Gestur skrifar:

    Já nú er orða vant

  4. Ari S skrifar:

    Það er svo mikil vitleysa í gangi hjá stjórninni, og hefur í raun verið allt frá því að Moshiri kom, að það hálfa væri nóg. Ég væri ekki hissa þó að Frank Lampard myndi sjálfur segja upp. Skipulögð friðsamleg mótmæli eftir leikinn í gær runnu út í sandinn vegna þess að stjórnin gaf út yfirlýsingu um að ráðist hefði megið á einn meðlim stjórnar og því hefðu lögregluyfirvöld bannað þeim að mæta á völlinn. Samt eru aðilar sem að segja það vera tilbúning (með árásina) Til þess að losna við að mæta friðsamlegum mótmælandi stuðningsmönnum eftir leik. Það er ljóst að það verður eitthvað mikið að gerast í þessum mánuði þar sem þetta er síðasti glugginn okkar fyrir mögulegt fall í Championship League.

    • Ari S skrifar:

      Þaðer allt að verða vitlaust þarna úti hjá félaginu okkar. Og er nú víst komið í ljós að það hefur ekki borist kæra til lögreglu útaf meintri árás á stjórnarmeðlim hjá Everton, Denise Barrett-Baxendale en sagt var að hún hefði verið tekin hálstaki eftir leik Everton og Brighton þann 3. jan. Sem sagt engin kæra hefur borist lögreglu sem að þýðir að það voru BBC og Sky News sem að sögðu stjórnarmeðlimum að mæta ekki á leikinn gegn Southampton.

      Allt bendir til þess að þetta hafi verið tilbúningur…

      Svo er það sama sagan frá stjórninni, þögn og aftur þögn.

      Áfram Everton,

      kær kveðja,Ari.

      • Ingvar Bæringsson skrifar:

        Þetta meinta hálstak átti víst að hafa átt sér stað eftir leikinn gegn Brighton. Ég er nokkuð viss um að ef það hefði gerst þá hefði það nú verið löngu búið að kvisast út, auk þess hefði örugglega einhver náð myndum eða myndskeiði af því og það hefði verið á öllum samfélagsmiðlum. Ég ætla að leyfa mér að halda því fram að þetta sé algjört kjaftæði og lygaþvættingur runninn undan rifjum Bill Kenwright, það væri ekki í fyrsta skipti sem sá aumi skíthæll skáldar upp einhverja vitleysu.
        Stjórnin veit að stuðningsmennirnir hafa snúist gegn þeim og þá reyna þau að gera það sem þau geta til að sverta þá og koma því inn hjá fjölmiðlum að það séu stuðningsmennirnir sem eru vondu kallarnir.
        Þetta fólk sem er hægt en örugglega að drepa félagið með vanhæfni sinni, á ekkert gott skilið.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Veit ekki hvort þetta hefur einhver áhrif en það má reyna og svo sem ekki mikið annað sem maður getur gert.
    https://chng.it/q7Mypgk7LZ