Man City – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Síðasti leikur ársins er gegn Manchester City á þeirra heimavelli en flautað verður til leiks kl. 15:00. Því verður ekki neitað að þetta er eins erfitt verkefni og þau gerast, en City eru nú taplausir í 11 leikjum á heimavelli gegn Everton. Þeim hefur hins vegar aldrei tekist að sigra Everton á gamlársdag frá því Úrvalsdeildin hófst (í fjórum tilraunum).

Stóru fréttir dagsins eru þær að Calvert-Lewin er orðinn heill af sínum meiðslum og er í byrjunarliðinu. Það gefur manni auknar vonir, ekki bara fyrir þennan leik heldur fyrir framhaldið, en markaskorun er það sem hefur sárlega vantað undanfarið. Við megum samt eiga von á því að Everton sitji djúpt og verjist af hörku, eins og flest lið sem mæta á þennan völl og ef Everton tekst að halda hreinu fram í seinni hálfleik er aldrei að vita hvað gerist.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Godfrey, Patterson, Gana, Iwobi, Onana, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Keane, Coleman, Davies, Price, Doucouré, McNeil, Maupay.

5-4-1 uppstilling með Calvert-Lewin fremstan. Keane átti jafnframt að vera á bekknum í þessum leik en þurfti að drga sig í hlé vegna minniháttar meiðsla. Hans sæti á bekknum tók Isaac Price.

Leikurinn hófst á samstuði Haaland og Godfrey þar sem þeir fóru báðir í skallabolta en Godfrey affelgaði hann óvart í aðdraganda stökksins með því að stíga aftan á skóinn hans. Að öðru leyti þróaðist þetta eins og maður átti von á, Everton sátu djúpt og vörðust vel, voru skipulagðir í vörninni og lokuðu vel á City. 

En City menn juku pressuna er leið á og á 24. mínútu náðu City að brjóta ísinn. Mahrez náði að snúa á Mykolenko inni í teig hægra megin og fann Haaland á auðum sjó. Skotið frá Haaland ekki það besta en Pickford náði rétt svo fingurgómum í skotið, nóg til að breyta stefnunni sem gerði það að verkum að boltinn fór framhjá Coady sem hefði annars verið á réttum stað til að bjarga á línu. Staðan orðin 1-0 fyrir City.

Everton átti ágætis kafla nokkrum mínútum seinna og færðu sig aðeins upp á skaftið en náðu mest að skapa smá usla í vítateig City.

John Stones átti frábæran skalla á mark eftir aukaspyrnu utan af velli en beint í stöngina og út. Þetta var aðeins seinna færi City í leiknum sem verður að teljast ágætt varnarlega séð, gegn fyrnasterku liði City á útivelli. 

1-0 í hálfleik. 

Rólegra yfir hlutunum í seinni hálfleik en nokkuð betra að sjá til Everton sóknarlega í seinni hálfleik. Væri gaman að heyra hvað Lampard sagði við þá í hálfleik.

Hlutirnir fóru svo aldeilis að gerast eftir rúman klukkutíma leik. Onana komst þá inn í slaka sendingu þegar hann var á vinstri kanti við miðju, sendi fram á Gray sem brunaði upp völlinn með boltann, eins og hann gerir svo vel. Mykolenko fylgdi fast á hæla honum og hljóp framhjá þegar Gray stoppaði skyndilega við hornið á vítateignum vinstra megin. Allir bjuggust við því að Gray myndi nýta hlaupið hjá Mykolenko, en í staðinn tók Gray skrefið með boltann, mundaði skotfótinn og smellti boltanum upp í samskeytin hægra megin. Sláin inn og algjörlega óverjandi fyrir Ederson í markinu! 1-1 eftir 64 mínútur! Game on! 

Tvöföld skipting á 69. mínútu: Coleman og Maupay komu inn á fyrir Patterson og Calvert-Lewin. Davies kom svo inn á fyrir Gana á 78. mínútu.

City menn héldu þungri pressu áfram og leituðu að marki en vörn Everton varðist mjög vel. City menn náðu reyndar að skapa mikinn usla á 83. mínútu inni í vítateig Everton. Tvö skot í röð voru þá blokkeruð af varnarmönnum Everton og eitt varið hjá Pickford. Eina sem City menn fengu úr því var horn sem ekkert kom úr. En það fór um mann.

Heilum 11 mínútum bætt við vegna tafa og þetta voru taugtrekkjandi mínútur. Pickford átti flotta vörslu eftir skot af löngu færi á 94. mínútu — ekkert of erfitt fyrir hann en City menn voru að banka á dyrnar. Stuttu áður hafði Doucouré komið inn á fyrir Godfrey sem virtist lítillega meiddur og Gray var auk þess farinn að haltra undir lokin, enda búinn að gefa allt í þennan leik. En manni fannst svolítið erfitt að horfa upp á þetta því Everton var búið að nota þriðju skiptingu sína og þetta virkaði svolítið eins og liðið væri því manni færri. Ekki á það bætandi.

Ellefu mínútur af uppbótartíma komu og fóru en dómarinn bætti við tveimur mínútum í viðbót, bara… svona… af því bara. Kannski vildi hann gefa City eitt lokafæri í blálokin og það fengu þeir þegar þeir misstu af skalla alveg upp við mark í síðasta atviki seinni hálfleiks.

Við gátum því andað léttar þar sem 1-1 jafntefli reyndist niðurstaðan! Ekki mörg lið sem fara með stig heim af þessu velli.

Fín frammistaða hjá Everton í dag og gott að sjá þá halda einbeitingu í þennan langa leik til enda. Gott stig inn í áramótin! Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir þau gömlu!

Einkunnir Sky Sport: Pickford (8), Patterson (8), Godfrey (7), Coady (7), Tarkowski (9), Mykolenko (7), Iwobi (7), Gueye (8), Onana (7), Gray (8), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Doucoure (6), Maupay (5), Coleman (7).

Maður leiksins að mati Sky var James Tarkowski.

9 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki mjög slæmt.
    Ég verð sáttur ef menn leggja sig fram og gefast ekki upp fyrirfram.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Haaland er algjör drullupeli. Rosalega varð ég hissa þegar Silva fékk gult spjald fyrir leikaraskap, við Evertonmenn eigum ekki því að venjast að andstæðingar okkar fái gult fyrir slíkt.
    Þetta var ekki hræðilegur fyrri hálfleikur og vonandi verður þetta ekki mikið verra.

  3. Finnur skrifar:

    Ekki átti ég von á þessu eftir fyrri hálfleikinn, svo mikið er víst! 🙂

    Fín barátta í dag og flott stig.

    Farið varlega um áramótin!

    • Finnur skrifar:

      Gott að draga sig aðeins fjær botnbaráttunni þó þetta hafi bara verið eitt stig. Ég sé nefnilega ekki betur en að átta neðstu liðin hafi tapað í þessari umferð, fyrir utan Everton og Leeds. Villa spila á morgun (gæti því breyst í níu neðstu liðin).

      • Finnur skrifar:

        Ah, reyndar. Forest spila á morgun líka (minnti að þeir hefðu tapað í gær en það er aðeins lengra síðan).

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vel gert Everton. Flott barátta og vonandi gefur þetta liðinu boost fyrir næstu leiki.
    Gleðilegt ár allt Evertonfólk.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Ps
      Megi næsta ár verða betra en það sem er að líða, því það var algjör skita

  5. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Flott mark hjá Gray, ekki átti maður von á að fá stig úr þessum leik en allt getur gerst.
    Vonandi gengur betur eftir áramót.
    Gleðilegt nýár.

  6. Finnur skrifar:

    Gray er í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/64139811