Everton – Wolves 1-2

Mynd: Everton FC.

Nú hefst enska Úrvalsdeildin á ný eftir vetrarfrí vegna HM og í dag eru það Úlfarnir sem mæta á Goodison Park kl. 15:00.

Það verður fróðlegt að sjá hvernig holningin á liðinu okkar verður og hvort hléið hafi gert þeim gott. Þessi leikur er nefnilega gríðarlega mikilvægur fyrir Lampard sérstaklega og er tækifæri til að snúa við gengi liðsins, sem var orðið afar slakt í aðdraganda frísins. Næstu tveir leikir á eftir þessum eru við Manchester City á útivelli og Brighton, sem eru ekki beint leikir sem maður býst við mörgum stigum úr. Það er því mikilvægt að ná í þrjá punkta í dag, svo að liðið endi ekki í fallsæti eftir umferðina.

Það er nokkuð óheppilegt að Coady getur ekki leikið þennan leik þar sem hann er enn leikmaður Wolves en Mina tekur hans stöðu. Gray er jafnframt á bekknum og tekur McNeil kemur því inn í staðinn en Calvert-Lewin er enn fjarri góðu gamni og nær ekki einu sinni á bekkinn.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Mina, Tarkowski, Patterson, Gana, Onana, Iwobi, McNeil, Gordon, Maupay.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Godfrey, Coleman, Davies, Doucouré, Gray, Cannon.

Everton voru ekki sannfærandi í byrjun leiks og lentu snemma undir pressu frá Úlfunum en það breyttist á 7. mínútu þegar Everton fengu horn, sem McNeil tók og Mina skallaði inn. Úlfarnir virtust ekki átta sig á hversu öflugur Mina getur verið í hornspyrnum og hefðu eins getað látið garðálf fá það hlutverk að dekka hann.

Úlfarnir náðu hins vegar að jafna á 22. mínútu og ég eiginlega verð bara að viðurkenna að ég missti af því marki. Var upptekinn við að gefa hákörlunum mínum að borða.

Á 33. mínútu fékk Anthony Gordon algjört dauðafæri einn á móti markverði. Sóknin hafði pressað vörn Úlfanna og þvingað þá til að gera mistök og unnu boltann af þeim. Gagnsóknin var hröð, einfaldir þríhyrningar og áður en maður vissi af var Gordon kominn upp að marki en markvörður varði frá honum. Þar hefði staðan átt að vera 2-1.

Maupay fékk óvænt tækifæri á 41. mínútu þegar varnarmaður Úlfanna reyndi sendingu á aftasta varnarmann en boltinn fór í hælana á honum og beint á Maupay sem fór nær marki og reyndi skot en beint á markvörð. 

Everton meira með boltann (um 60%) í fyrri hálfleik og með fjögur á rammann, Wolves með tvö.

Everton byrjaði seinni hálfleik af krafti og fengu tvö hálffæri en náðu ekki að nýta sér það. Úlfarnir svöruðu með skoti á 55. mínútu sem Pickford varði. Gray inn á fyrir McNeil í kjölfarið.

Ekki eins mikið um færi í seinni hálfleik þó og minna fjör enda reyndu Úlfarnir hvað þeir gátu til að hægja á leiknum. Úlfarnir misstu leikmann af velli vegna meiðsla (Podence) og Mina lagðist á völlinn á 75. mínútu (kunnuleg sjón) og var skipt út af fyrir Godfrey, þrátt fyrir að vilja halda áfram.

Gray átti frábæra aukaspyrnu á 82. mínútu sem fór rétt framhjá stöng vinstra megin. Cannon og Doucouré inn á fyrir Maupay og Gana í kjölfarið og það lifnaði yfir Everton í kjölfarið. Gordon náði skoti á mark eftir aukaspyrnu en skotið blokkerað. Boltinn barst til Godfrey sem náði skoti á mark en bjargað á marklínu!
90 mínútur kláruðust og fimm mínútum bætt við. Everton virtist ekkert umhugað um að koma sér í færi, dóluðu með boltann á miðjunni og loksins þegar þeir reyndu eitthvað komust Úlfarnir í skyndisókn og skoruðu á lokamínútu uppbótartíma. Köld blauta tuska í andlitið.

1-2 sigur Wolves niðurstaðan. Erfiðar vikur framundan hjá Lampard líklega.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Patterson (7), Mina (7), Tarkowski (6), Mykolenko (6), Iwobi (6), Gueye (7), Onana (6), Gordon (7), McNeil (5), Maupay (5). Varamenn: Gray (5), Doucoure (5), Godfrey (6), Cannon (6).

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Sex vikna hlé og EKKERT hefur breyst. Allt of mikið af feilsendingum og öðrum klaufaskap og ráðleysislegur sóknarleikur. Það er kannski jákvætt að Everton hefur nú loksins náð að skora eftir hornspyrnu, því miður á það líka við um Wolves. Svo er auðvitað einn leikmaður Wolves sem enn hefur ekki skorað fyrir þá á tímabilinu, Diego Costa, ætli hann skori þá ekki sigurmarkið, það kæmi því miður ekki á óvart.
    Ég vonast til að sjá Cannon koma inn á í seinni hálfleik, hvort sem það verður í staðinn fyrir Maupay eða ekki.

  2. Gestur skrifar:

    Nú er kominn tími að láta hann fara

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Algjör hörmung eins og við mátti búast. Af hverju er maður að pína sig á þessu? Ef ekki gerast kraftaverk í janúar þá er þetta síðasta tímabil Everton í efstu deild í laaannngan tíma því þetta lið er algjört rusl.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Everton eru búnir að kalla Ellis Simms tilbaka úr láni frá Sunderland. Við vitum hvað það þýðir, enginn nýr framherji keyptur í janúar.