Sydney Super Cup: West Sydney Wanderers – Everton 1-5

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að seinni leik Everton í Sydney Super Cup í Ástralíu. Þetta er fyrsti leikur West Sydney Wanderers í keppninni og aðeins þriðji leikurinn samtals í þessari kepni en Everton bar sigurorð af Celtic í vítaspyrnukeppni í síðasta leik og Celtic töpuðu 2-1 gegn Sydney FC í leik þar á undan.

Uppstillingin: Begovic (fyrirliði), Vinagre, Holgate, Tarkowski, Patterson, Doucouré, Price, McNeil, Gray, Gordon, Maupay.

Varamenn: Lonergan, Crellin (markvörður), Mykolenko, Keane, Welch (miðvörður), Anderson (miðjumaður), Quirk (miðjumaður), Mills (framsækinn miðjumaður), Cannon (framherji).

Sömu menn voru frá vegna HM og áður (Onana, Gana, Coady, Pickford) og við meiðslalistann höfðu bæst við Davies og Mina þannig að menn eins og Begovic, Holgate, Doucouré og… miðjumaðurinn ungi Isaac Price (19 ára) fengu að spreyta sig. Ekki mörg household name á bekknum varð maður að viðurkenna. En þá að leiknum, sem var í beinni fyrir skráða stuðningsmenn Everton FC ytra og líklega hægt að horfa á upptöku á Everton FC síðunni, ef þið misstuð af honum…

Everton skoraði strax á 5. mínútu leiksins eftir hornspyrnu. Hár bolti inn í teig sem fór í lærið á Tarkowski og í áttina að marki, þar sem Gordon var óvaldaður og náði að sópa boltanum inn framhjá markverði. En hann var því miður dæmdur rangstæður (sem var réttur dómur). Vonandi verður þetta ekki eins og hjá Argentínu í gær, gegn Saudi-Arabíu, hugsaði maður, endalausar rangstæður og óvænt úrslit.

Everton komst í færi nokkrum mínútum síðar þegar Tarkowski fann Gray á auðum sjó við vítateiginn og sendi langan bolta á hann. Móttakan var ekki upp á 100% hjá Gray sem missti hann aðeins of langt til vinstri við markið og var ekki í jafnvægi þegar hann tók skotið innan teigs, og skotið endaði í hliðarnetinu utanverðu. Tarkowski átti svo skalla yfir úr hornspyrnu á 10. mínútu.

Fín byrjun á leiknum. Sydney liðið líflegt en Everton lét boltann ganga nokkuð hratt og vel og sköpuðu færi. Gordon líflegur á hægri kanti, sem var gott að sjá.

Fyrsta markið kom svo á 14. mínútu og það skoraði Maupay. Everton lét boltann ganga vel manna á milli frá vinstra (ytra) horni vítateigs yfir til hægra (ytra) horns með sendingum frá Gray yfir á Docouré og yfir á Patterson og hann sendi frábæran háan bolta inn í teig þar sem Maupay laumaði sér milli miðvarðanna og skallaði inn. 0-1 fyrir Everton!

Innan við mínútu síðar var Maupay næstum búinn að bæta við marki þegar hann fékk boltann inni í teig, náði að snúa og skjóta en boltinn rétt framhjá samskeytunum hægra megin. Sleikti tréverkið.

Sydney liðið jafnaði hins vegar upp úr engu á 18. mínútu, með sínu fyrsta skoti á mark og gegn gangi leiksins. Markið kom eftir að sóknarmaður hótaði skoti við D-ið en rakti hann aðeins lengra til vinstri og hamraði honum inn. Jafnt: 1-1.

Dwight McNeil átti flotta háa sendingu fyrir á 20. mínútu frá vinstri kanti, sem fann Gordon á fjærstöng en hann náði ekki góðu skoti á mark og setti boltann aftur fyrir endalínu. McNeil var ekki hættur, heldur átti hann fast skot á 23. mínútu frá hægi kanti en yfir mark. Maupay reyndi sömuleiðis fast skot langt utan af velli á 24. mínútu en rétt framhjá vinstra megin. Nokkur hætta har.

Sydney liðið var næstum búið að skora á 28. mínútu eftir aukapsyrnu. Boltinn barst inn í teig og þeir náðu skoti af stuttu færi en í neðanverða slána og út aftur. Tarkowski svo mættur til að hreinsa út úr teig. Heppnin með Everton þar og þetta reyndist algjör vendipunktur í fyrri hálfleik.

Því að í staðinn fyrir að lenda undir þá skoraði Everton í næstu sókn. Gray gerði frábærlega við horn vítateigs vinstra megin með að fara í átt að D-inu og hóta skoti og ná þannig að draga að sér tvo varnarmenn. Sendi svo flotta sendingu á Doucouré, sem tók sprettinn inn í teig óvaldaður og komst upp að endalínu. Þaðan sendi hann fyrir markið og Gordon setti boltann framhjá markverði. 1-2 fyrir Everton!

Gray skapaði næsta dauðafæri Everton með háum bolta inn í teig þar sem bæði McNeil og Gordon voru á fjærstöng en hvorugur náði að tengja til að pota inn.

Rétt fyrir lok hálfleiks skapaði Gray flott færi þegar hann komst inn í teig vinstra megin og reyndi lágt skot á fjærstöng. En stefna skotsins tók boltann milli stangar og Gordon og fór því hvorki inn né var nægilega nálægt Gordon til að hann næði að skjóta — og því rúllaði hann framhjá stöng.

Everton betra liðið í fyrri hálfleik, meira með boltann, beittari, ákafari og áttu betri færi. 1-2 fyrir Everton verðskulduð staða í hálfleik.

Ein breyting í hálfleik: Lonergan kom inn á fyrir Begovic í markinu.

Á 50. mínútu náði Sydney liðið boltanum rétt utan teigs hægra megin. Boltinn skoppaði heppilega fyrir sóknarmann þeirra, sem smellhitti boltann og þaðan fór hann í neðanverða slána vinstra megin og endaði í innkasti. Everton slapp aldeilis með skrekkinn þar.

Anthony Gordon gerði frábærlega á 59. mínútu þegar hann brunaði upp hægri kantinn og komst að teignum. Sá þá að Gray var á auðum sjó hinum megin og fann hann með góðum bolta. Gray náði skoti sem markvörður varði en beint á Gordon sem þrumaði inn í autt markið. 1-3 fyrir Everton!

Lampard skipti inn tveimur ungliðum í kjölfarið: miðumaðurinn Mills og sóknarmaðurinn Cannon komu inn á í stað Maupay og Gray. En Everton hélt bara uppteknum hætti og fjórða mark þeirra kom stuttu síðar (á 66. mínútu). Það kom þegar Price fann Mills með sendingu og sá Mills tók sprettinn upp völlinn og reyndi skot þegar hann komst inn í teig hægra megin. Skotið ekkert spes, beint á markvörð, sem… bara missti boltann undir sig! Tom Cannon var fyrstur að átta sig á að boltinn væri laus og þrumaði honum inn. 1-4 fyrir Everton. Fyrsta mark Cannon með aðal-liðinu. Vel gert!

Welch (miðvörður) kom inn á fyrir Holgate strax í kjölfarið og á 75. mínútu kom önnur tvöföld ungliðaskipting: Quirk (miðjumaður) inn á fyrir Doucouré og Anderson (einnig miðjumaður) inn á fyrir Vinagre.

Á 76. mínútu gerði Gordon vel í að komast inn í teig vinstra megin og ná skoti. Skotið hins vegar blokkerað en barst til ungliðans Stanley Mills, sem reyndi snöggt skot en greinilega of stressaður og skotið hátt yfir.  Strax í næstu sókn reyndi Tom Cannon skot á 77. mínútu sem markvörður rétt náði fingurgómi í til að stýra í horn. Ekkert kom úr því.

Sydney menn reyndu langskot á 84. mínútu en rétt framhjá stönginni. Lítið hafði verið um lífsmark í sókn þeirra í seinni hálfleik fram að því. Patterson svaraði með skoti á mark innan teigs hægra megin en í hliðarnetið.

Gordon átti eftir að ná að klára þrennuna á 90. mínútu þegar hann komst í skyndisókn með McNeil og fékk boltann frá honum. Gordon gerði vel utarlega í teig vinstra megin, kom á hlaupinu í átt að marki en tók snögga hreyfingu til hægri. Áður en varnarmaður náði að átta sig á stefnubreytingunni hafði Gordon náð flottu lágu skoti sem endaði í hliðarnetinu innanverðu. Staðan þar með orðin 1-5 fyrir Everton og þrennan komin hjá Gordon! Frábær leikur hjá honum!

Þetta reyndist síðasta markverða atvikið í leiknum því dómarinn flautaði leikinn af strax eftir miðjuna. Fjögurra marka sigur í dag staðreynd!

Everton þar með búið að vinna báða sína leiki í mótinu og heldur aftur til Bretlandseyja núna í kjölfarið. 

Comments are closed.