Fulham – Everton 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton mætti til London í dag til að eigast við Fulham á þeirra heimavelli, klukkan 16:30, í 13. umferð Úrvalsdeildarinnar.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, Gordon, Gray, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Holgate, Keane, Patterson, Doucouré, Garner, McNeil, Davies, Maupay.

Sem sagt, sama byrjunarlið og í síðustu viku. En þá að framgangi leiks…

Fín byrjun hjá Everton á leiknum sem settu fljótt góða pressu á vörn Fulham. Gordon átti skot, snemma leiks, nálægt marki sem varnarmaður rétt náði að blokkera áður en reyndi á markvörð Fulham. Heppnir þar. Örskömmu síðar fékk Gray boltann hægra megin inni í teig og reyndi þrumuskot upp í samskeytin hægra megin en markvörður varði vel.

Fulham svöruðu með þremur tilraunum á mark í röð á stuttum tíma. Willian átti fyrst skot, nálægt marki, en Pickford varði vel í horn. Hornið gaf skallafæri fyrir Mitrovic sem Pickford varði aftur glæsilega en í horn. Þriðja skotið varði Pickford svo einnig í horn sem ekkert kom út úr.

Aldeilis líflegur hálfleikur! Þó nokkur horn og tilraunir á mark, á ekki meira en 10 mínútum og þetta hélt áfram allan fyrri hálfleik.

Calvert-Lewin fékk til dæmis algjört dauðafæri á 19. mínútu þegar Iwobi fann Gray á auðum sjó við hornið á vítateignum vinstra megin. Gray sendi frábæran bolta fyrir mark, í alveg réttri hæð til að pota inn, en Calvert-Lewin náði ekki að stýra boltanum í netið, sem fór rétt framhjá. 

Stuttu síðar átti Gray skot innan teigs, en ekki nægur kraftur í skotinu og beint á markvörð.
Færunum fækkaði eftir því sem leið á en hálfleikurinn enn líflegur samt sem áður. Reed átti til að mynda stórhættulegt skallafæri fyrir Fulham en skallaði sem betur fer rétt framhjá stöng af nokkuð löngu færi.

Tarkowski fékk sömuleiðis stórhættulegt skallafæri þegar há fyrirgjöf kom utan af hægri kanti inn í teig, eftir horn. Tarkowski, sem var óvaldaður, náði skalla á mark en þurfti bara að setja hann öðru hvoru megin við markvörð og þá hefði hann skorað, en því miður setti hann boltann beint á markvörð.

Gordon gerði svo vel stuttu síðar með því að komast framhjá bakverði Fulham og inn í teig vinstra megin. Hann náði skoti á mark, en skotið yfir mark.

0-0 í hálfleik. Staðan á þeim tímapunkti hefði auðveldlega getað verið 2-2 eða jafnvel meira.

Fulham menn vildu víti í upphafi seinni hálfleiks en hvorki dómari né VAR höfðu áhuga á því. Viðurkenni alveg að ég var með hjartað í buxunum. Willian átti svo, í kjölfarið, skot á mark frá vinstri sem Pickford varði vel. 

Allt annar leikur annars í seinni hálfleik og liðin hálfpartinn núlluðu hvort annað út. Fulham menn sterkari í seinni hálfleik þó að færin hafi látið á sér standa, enda var vörn Everton mjög vakandi og mjög kvikir og lokuðu á allt til að koma í veg fyrir að Fulham kæmust í dauðafæri. Sama má segja um Fulham.

Tvöföld skipting á 63. mínútu: Patterson inn á fyrir Coleman og Garner inn á fyrir Gana. McNeil kom svo inn á fyrir Gray á 75. mínútu. Gordon út af fyrir Maupay á 86. mínútu. 

En það hafði lítið að segja og 0-0 jafntefli því niðurstaðan á erfiðum útivelli. Þulurinn þreyttist ekki á því að minnast á það hversu sjaldan Fulham hafa ekki náð að skora á heimavelli undanfarið. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Mykolenko (7), Coleman (7), Tarkowski (7), Coady (7), Onana (6), Iwobi (6), Gueye (6), Gray (6), Gordon (6), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Patterson (6), Garner (6).

6 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    1-1 er mín spá. Vonum það besta. Ef maður getur sagt það, þá er yfirlitið eða hollningin á liðinu nokkuð góð. Iwobi búinnað vera bókstaflega geggjaður. Coady og Tarkowski gera manni vonir um hreint mark í hverjum einasta leik. Og þá er komið að sókninni. Að fá DCL aftur, hann kominn í stuð og nýbúinn að skora sitt fyrsta mark eftir meiðslin mun vonandi reynast okkur vel í dag. Og Gordon kominn í gang eftir smá fýlutímabil. (hann er svo ungur ennþá)

    Áfram Dominic Calwert-Lewin, áfram Everton!

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Jafntefli væri kannski alls ekki svo slæmt miðað við gengi Fulham upp á síðkastið og ekki ólíklegt að þetta endi þannig. Craven Cottage hefur reyndar ekki verið „á happy hunting ground“ fyrir Everton í gegnum árin en vonum bara það besta.

  2. Finnur skrifar:

    Ég er pínu hugsi yfir þessu gula spjaldi hjá Mitrovic. Mér fannst þetta (takki í fótlegginn) miklu meira rautt en t.d. rauða spjaldið sem Allan fékk gegn Newcastle á síðasta tímabili, fyrir að sparka í skóinn á Newcastle manninum. Just sayin’.

    • Ari S skrifar:

      Sammála þessu, maður sér þetta sagt víða. Vont þegar svona mismunandi dómar sjást. Vantar meiri samræmingu í þetta hjá dómurum.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Samkvæmt reglum þá hefði hann átt að fá rautt og gegn þessum svokölluðu toppliðum hefði hann trúlega fengið reisupassann. En það má auðvitað traðka og troða á leikmönnum annara liða eins og enginn sé morgundagurinn. Dómgæslan í þessari deild er fáránleg og það er ekki að fara að lagast held ég.
    Annars var þetta gott stig, óverðskuldað, en gott.

  4. AriG skrifar:

    Ekki góður leikur hjá Everton. Varnarleikurinn var mjög góður en sóknarleikurinn var algjörlega bitlaus. Mer fannst Onana mjög góður vill samt að hann taki meira þátt í sóknarleiknum fyrst Everton hefur Gana sem mér finnst ekki alveg náð sér á stig en vonandi lagast það. Gordan var algjörlega týndur í þessum leik og Calvert Lewin mjög óheppinn að skora ekki en hann er langbesti sóknrmaður Everton ekki spurning. Erfitt að velja besta mann leiksins vel Onana þótt vörnin öll var líka mjög góð. Mundi hvíla Gana í næsta leik breyta til spila jafnvel 4-4-2 2 sóknarmenn allavega gegn veikari liðunum bara pæling.