Newcastle – Everton 1-0

Mynd: Everton FC.

Everton á leik við Newcastle á útivelli í 10. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar en flautað verður til leiks kl. 18:30.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Coady, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Onana, Iwobi, Gray, Gordon, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Keane, Davies, Garner, McNeil, Doucouré, Maupay.

Jafnræði með liðunum framan af. Newcastle með einhver 2-3 hálffæri en ekkert hættulegt. Þeir náðu hins vegar undirtökum eftir um 25 mínútna leik og kórónuðu þann kafla með marki. Almiron fékk boltann á 30. mínútu, utarlega í teig og smellhitti hann í sveig yfir Pickford og í netið vinstra megin. 1-0 fyrir Newcastle. Almiron aldeilis að eiga fínt tímabil með Newcastle en hann var að skora fjórða markið í fjórum leikjum fyrir þá (skv. þulinum). Ekki slæmt fyrir leikmann sem undanfarin tímabil hefur fengið mann til að hugsa hvort hann ætti ekki betur heima í liði sem er einni deild neðar. En svo stingur hann sokki upp í mann. Gaman að því (heh… eða þannig).

Markið gerði mikið fyrir Newcastle, sem komust tvisvar nær því að skora í kjölfarið, með skotum sem bæði sleiktu utanverða vinstri stöngina.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik, vildi Gordon fá víti. Vissulega var um bakhrindingu að ræða hjá varnarmanni Newcastle, en Gordon gerði kannski aðeins of mikið úr því. Maður hefur alveg séð svoleiðis víti gefið, en dómarinn ekki með áhuga á því. 

1-0 í hálfleik.

Everton voru líflegir frá upphafi fyrri hálfleiks og mun betra að sjá þá í seinni hálfleik. En samt fuðraði þetta upp alltaf við endamörkin.

Gray fór illa með Trippier snemma í hálfleiknum og komst aleinn upp vinstri kantinn og alla leið inn í teig. Reyndi stoðsendingu aftur í teiginn en fann ekki mann til að slútta færinu. Stuttu síðar komst Calvert-Lewin einn á móti markverði eftir stungusendingu í gegnum vörnina. Lét hins vegar verja frá sér — en var líklega hvort eð er rangstæður.

Restin af leiknum eiginlega hálfgerð pattstaða þar sem hvorugu liðinu tókst að skapa almennileg færi.

Maupay og Garner komu inn á fyrir Calvert-Lewin og Iwobi á 72. mínútu. Dwight McNeil inn á fyrir Gray á 79. mínútu. Svolítið skrýtið að skipta Gray en ekki Gordon út af, en sá síðarnefndi var kominn með gult og á allra síðasta séns hjá dómaranum. En það kom ekki að sök.

1-0 tap staðreynd. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Tarkowski (6), Onana (6), Calvert-Lewin (5), Gordon (5), Gray (5), Iwobi (5), Mykolenko (6), Coleman (6), Gueye (6), Coady (6). Varamenn: McNeil (6), Maupay (6), Garner (6).

4 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hræddur um að við fáum ekkert út úr þessum leik, staðan núna 1-0 og ég býst við að það sé bara byrjunin miðað við færin sem Newcastle er að fá. Ég kalla það gott ef við töpum bara 2-0, og það er jafn öruggt og amen í kirkju að helvítis Callum Wilson skorar.

  2. Diddi skrifar:

    Sendingargeta innan liðsins er hrikalega léleg og batnar ekki undir stjórn FL. Töpum bolta í 97% allra innkasta! Gray gefur aldrei boltann nema þegar hann á ekki að gera það. iwobi hleypur og hleypur og hleypur en veit ekkert af hverju. FL segist þurfa meiri tíma! Eddie Howe tók við newcastle nokkrum mánuðum á undan og hann þurfti ekki mikinn tíma til að láta lið sitt spila fótbolta! Þetta er að detta í að vera það ömurlegasta sem maður hefur séð og er þó af nógu að taka.

  3. Diddi skrifar:

    Því miður alveg átakanlegt að horfa á þetta, engin hreyfing á boltalausum mönnum, enginn að bjóða sig, vantar allt leikplan og hugmyndaflug

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Seinni hálfleikur aðeins skárri en sá fyrri en okkar menn ógnuðu þó marki Newcastle aldrei. Það væri synd að segja að sóknarleikur Everton sé tannlaus, Everton er ekki einu sinni með góm. Ég vona bara að okkar menn nái að halda hreinu í næstu leikjum því það er okkar eina von um stig því það eru engin mörk í þessu liði. Það er hinsvegar áhyggjuefni hversu mörg færi vörn Everton gefur í hverjum leik, hún er alls ekki jafn þétt og margir halda. Newcastle hefði hæglega getað skorað tvö eða þrjú mörk í fyrri hálfleik og Pickford og tréverkið hefur bjargað okkur ansi oft og svo er alveg óþolandi hvað menn eru seinir að koma sér út á móti mönnum sem eru í skotfæri og var markið sem skildi að í kvöld enn eitt dæmið um það.
    Það er alveg ljóst að Everton þarf að ná í sóknarmenn í janúar, striker kantmann og sóknarmiðjumann.
    Það sem kannski var pínu jákvætt í kvöld var að Gordon var mun betri en í síðustu tveimur eða þremur leikjum og DCL entist mun lengur en maður þorði að vona , eins fannst mér Gana og Onana ágætir.

    Crystal Palace í næsta leik og það verður ekkert grín því það er gott lið og ég get alveg séð menn eins og Eze, Olise og Zaha fara ansi illa með okkur.