Blackpool – Everton 2-4 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Everton heimsótti Blackpool, borg á Vesturströnd Englands, norður af Liverpool borg, til að eigast við fótboltalið bæjarins, Blackpool FC sem spila í ensku B deildinni (Championship). Þeir eru komnir örlítið lengra en Everton í sínum undirbúningi á æfingatímabilinu þar sem þeir hefja tímabilið eftir örfáa daga.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Mina, Godfrey, Tarkowski, Patterson, Doucouré, Davies, Doucouré, Dele Alli, Rondon.

Bekkurinn: Billy Crellin (mark), Nkounkou, Keane, Holgate, Allan, Iwobi og þó nokkrir kjúklingar.

Enginn Gray eða Calvert-Lewin í hóp en þeir voru að glíma við einhver smávægileg meiðsli. Þeir fengu hvíld svona til öryggis, að sagt var. En þá að leiknum (sem official meðlimir geta horft á hér.…

Everton átti flott færi strax á 4. mínútu þegar Godfrey sendi langan bolta fram á við á Mykolenko, sem var kominn alla leið inni í teig. Fyrsta snertingin hjá honum frábær, breytti stefnu boltans og náði þannig að snúa á bakvörðinn og koma sér í dauðafæri en markvörður varði frá honum.

Fyrsta markið kom aðeins tveimur mínútum (á 6. mín) síðar þegar Patterson tók sprettinn upp hægri kant og fékk langan bolta. Tók smá samspil við Gordon og fékk boltann aftur og sendi háan bolta fyrir, beint á Mykolenko, sem þrumaði inn í fyrstu snertingu.

Annað mark Everton kom á 10. mínútu þegar Ben Godfrey sendi (aftur) langa sendingu upp völlinn þar sem Rondon var einn og óvaldaður, leit út fyrir að vera rangstæður (endursýning staðfesti að línuvörður hafði aldeilis sofið á verðinum). Brunaði með boltann upp hægri kant og sendi miðlungsháa sendingu fyrir á Davies sem skallaði inn! 2-0 fyrir Everton!

Á 15. mínútu fór Anthony Gordon illa með bakvörð Blackpool þegar hann sólaði hann  upp úr skónum og komst í dauðafæri en var dæmdur brotlegur í kjölfarið. Endursýningu af því var hins vegar sleppt. Sýndist það vera eitthvað lítilvægt, en hvað um það.

Fyrstu 20 mínúturnar snerist allt um Everton, sem héldu bolta vel og létu hann ganga. Blackpool menn náðu ekki að gera neitt nema elta skugga og sköpuðu sér fyrir vikið engin færi fyrr en á 22. mínútu, sem var langskot utan af velli, sem fór beint á Pickford. Everton með fulla stjórn á leiknum.

Patterson og Mykolenko duglegir að spretta upp kantana og miðverðir greinilega hvattir til að prófa langar sendingar á þá, bæði Tarkowski og Godfrey. Eitthvað minna um það frá Mina.
Tarkowski sá Rondon að komast í skallafæri inni í teig og sendi einn langan háan bolta frá miðju á hann, en rétt utan seilingar fyrir Rondon að skalla.

Blackpool náðu loksins ágætis spili á 27. mínútu, upp vinstri kantinn en um leið og þeir komust inn í teig reyndu þeir skot sem fór hátt yfir og framhjá hægra megin.

Á 39. mínútu sendi Tarkowski geggjaðan bolta fram á Rondon, sem tók sprettinn inn í teig vinstra megin og upp að marki. Sendingarleiðin á Gordon, sem lúrði á fjærstöng, var lokuð þannig að hann reyndi skot sem varnarmaður náði að blokkera í horn á síðustu stundu.

Rétt fyrir hálfleik náðu Blackpool menn hins vegar að skora og átti þar Josh Bowler, fyrrum ungliði á mála Everton ansi stóran hlut að marki þegar hann náði að stíga út Mykolenko út við teig og skjóta föstu skoti á mark (enn utan teigs). Pickford aðþrengdur af Gary Medine, sóknarmanni Blackpool, sem var alveg upp við markið, og Pickford náði aðeins að slá í boltann sem fór í sveig upp á við. Sóknarmaður náði hins vegar að pota boltanum inn í annarri tilraun (hitta hann ekki með fætinum en eftir að boltinn skoppaði náði hann að skalla hann inn). Pickford líklega átt að gera betur þar, mögulega hefði hann getað slegið boltann til hliðar frekar, þar sem enginn sóknarmaður lúrði, eða aftur fyrir markið. En hvað um það, staðan orðin 1-2 fyrir Everton. Markið svolítið gegn gangi leiksins.

Örskömmu síðar flautaði dómari til loka fyrri hálfleiks og stuðningsmenn Everton klöppuðu vel fyrir frammistöðu síns liðs.

Miðvörðunum Mina og Godfrey skipt út af í hálfleik, fyrir Michael Keane og Mason Holgate. Engar breytingar hjá Blackpool.

Það tók Everton hins vegar ekki langan tíma að komast tveimur mörkum yfir aftur því Patterson sá flott hlaup Holgate upp hægri kantinn („bíddu, er Holgate ekki að spila sem miðvörður?“, hugsaði maður). Holgate átti ekki sína bestu fyrirgjöf frá hægri en hún fann Rondon fyrir framan mark, sem náði ágætis skoti, en markvörður rétt náði að kasta sér á og slá til hliðar með fingurgómunum. Þar var hins vegar Mykolenko mættur vinsta megin í teig og sendi boltann fyrir mark aftur, beint á Deli Alli sem skoraði þriðja mark Everton! Staðan orðin 1-3!

Blackpool menn höfðu mætt einbeittir til seinni hálfleiks og var allt annað að sjá þeirra leik og þeir náðu fyrir vikið loks að loka betur á spil Everton og skapa eitthvað.

Þeir voru snöggir að uppskera mark í blábyrjun seinni hálfleiks og ná að minka muninn og enn á ný voru þar fyrrum Everton leikmenn að verki. Vinstri bakvörðurinn Luke Garbutt tók hornspyrnu og Callum Connolly stökk upp á milli Rondon og Tarkowski og skallaði inn. Allt of auðvelt.

Staðan orðin 2-3 fyrir Everton.

Á 55. mínútu átti Josh Bowler skot utan teigs sem stefndi í neðanverða slána aðeins til vinstri, en Pickford varði glæsilega í horn. Blackpool menn að gera sig líklegri til að skora. 

Á 61. mínútu skipti Lampard Iwobi inn á fyrir Rondon. Iwobi fékk strax færi eftir háa sendingu frá Gordon út við teiglínuna vinstra megin, en sendingin erfið og endaði í útsparki án þess að skapa hættu. 

Það var erfitt að sjá hver tæki við framherjastöðunni af Rondon við skiptinguna, því þeir virtust skipta þessu með sér bróðurlega, að vera fremstir, bæði Iwobi og Dele Alli. Og örskömmu síðar hafði Dele Alli náð að skora. Tarkowski fann Gordon upp við teig hægra megin og hann sendi stuttan bolta á Patterson sem reyndi fyrirgjöf inn í teig. Boltinn fór í varnarmann Blackpool og breytti um stefnu beint í átt að nærstöng þar sem Dele Alli komst fram fyrir þann sem var að dekka hann og gerði vel að ná að stýra boltanum í netið. 2-4 fyrir Everton eftir 64. mínútna leik og bakverðirnir okkar, Mykolenko og Patterson þar með komnir með samtals þrjár stoðsendingar í leiknum!

Allan kom svo inn á fyrir Tom Davies á 72. mínútu.

Það var nokkuð jafnræði með liðum á þeim kafla og hvorugt liðið náði að smella í framlínunni en þá skipti Lampard nánast út hálfu liðinu. „Hér koma táningarnir“, sögðu þulirnir, þegar Lampard gerði fjórfalda skiptingu þegar aðeins 10 mínútu voru eftir af venjulegum leiktíma: Welch tók við miðvarðarstöðunni af Tarkowski, Price fór í stöðu Gordon, Warrington fyrir Doucouré, Mills sýndist mér fara á hægri kant fyrir Patterson.

Dele Alli fór svo út af á 85. mínútu fyrir Dobbin, sem fór beint í framlínuna.

Blackpool menn fengu tvö skotfæri inni í teig á lokamínútunum, annað var skot framhjá fyrir framan miðju marki og hitt skot í varnarmann, vinstra megin inni í teig.

Niðurstaðan því 2-4 sigur og frammistaðan á köflum mjög flott. Næsti leikur er vináttuleikur gegn Dynamo Kiev að kvöldi 29. júlí (á föstudaginn).

2 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Vel gert Dele Alli. Frábært að sjá fríska bakverði sem hlaupa fram og til baka eins og ekkert sé. Frískandi að sjá Patterson svona góðan og náttúrulega frábært að sjá Mykolenko skora svona geggjað mark. Segi ekki meira í bili en það er næsta víst að við þurfum sterkari leikmenn í hópinn. Enþetta var betra heldur en í USA ferðinni.

  2. Finnur skrifar:

    Nokkrir punktar…

    Ánægjulegt að sjá liðið halda bolta vel og leysa pressuna vel. Um leið og boltinn tapaðist var farið í að pressa. Vonandi gengur sú forskrift upp á tímabilinu og ekki þarf að fara í einhverja neyðaruppstillingu eins og svo oft á síðasta tímabili.

    Mér sýnist Tarkowski vera að stimpla sig inn í liðið af krafti og held hann verði fyrstur af miðvörðunum á blað hjá Lampard á tímabilinu. Hann er ekki meiðslagjarn og gefur liðinu því stöðugleika sem sárlega vantaði í hryggjarsúluna á liðinu á síðasta tímabil. Það var líka frábært að sjá Tarkowski og Godfrey dreifa spilinu með löngum boltum upp völlinn á menn á köntunum eins og að drekka vatn. Greinilega búið að innprenta það í þá að reyna þetta.

    Mykolenko virkar í fantaformi og mér sýnist hann og Patterson muni eiga fínt tímabil í sitt hvorum bakverðinum. Það gæti verið komið að því að Coleman fái minni spilatíma núna í kjölfarið.

    Allan og Gbamin hafa ekki verið að spila stóra rullu á undirbúningstímabilinu hingað til og það kæmi mér ekkert á óvart þó annar yrði seldur og hinn bara notaður til að koma inn á og „loka“ leikjum. Það eru alltaf einhver casualities þegar nýr stjóri kemur inn og breytir um stíl og kannski draga þeir stutta stráið í þetta skiptið…

    Mér fannst athyglisvert að skoða líka hverjir komu ekki við sögu í þessum leik. Til dæmis var Billy Crellin varamarkvörðurinn á bekknum, en Andy Lonergan og Asimir Begovic (númer tvö og þrjú) voru ekki í hóp. Sérstaka athygli mína vakti að Andre Gomes var einnig hvergi sjáanlegur, frekar en í hinum tveimur leikjunum. Mig grunar að hann gæti verið á leiðinni burt.

    Þó mörkin hafi verið mörg í dag hafa þau verið fá undanfarið og ég hef smá áhyggjur af markaskorun á komandi tímabili. Everton má ekki við því að Calvert-Lewin sé lengi frá aftur, en hann missti af þessum leik. Hann á að vera markahæsti maður liðsins en Richarlison endaði á að vera það á síðasta tímabili, með 11 mörk — og hann er farinn. Calvert-Lewin var ekki einu sinni nr. 2 á markalistanum, það var Townsend, sem er líklega enn langt í að við sjáum á velli út af meiðslum. Breiddin í markaskorun er því minni í augnablikinu en hún var á síðasta tímabili (og var hún ekki nægileg þá) og mig grunar því að við sjáum styrkingu í framlínunni áður en langt um líður.

    Enn sér maður líka veikleika í varnarlínunni — fyrra markið skrifaðist á Pickford og það seinna á lélega hreinsun úr föstu leikatriði, en föstu leikatriðin sérstaklega voru akkilesarhæll liðsins á síðasta tímabili. Þeir hafa samt enn tíma á undirbúningstímabilinu til að vinna í þessu.

    Gordon virkar jafnvel hungraðari en á síðasta tímabili og Iwobi sýnist mér vera í afar góðu hlaupaformi. Þeir tveir náðu oft mjög vel saman í sendingum með Dele Alli, en hann er stóra spurningarmerkið fyrir næsta tímabil. Nær hann að sýna það sem allir hafa verið að bíða eftir? Þetta er svolítið stórt gamble, vonandi gengur það upp. Hann virtist allavega tilbúinn í slaginn í þessum leik…