Minnesota Utd – Everton 4-0 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að öðrum leik Everton á undirbúningstímabilinu, gegn Minnesota United, en flautað verður til leiks á miðnætti að íslenskum tíma.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Keane, Tarkowski, Patterson, Doucouré, Davies, Iwobi, Gordon, Gray, Calvert-Lewin.

Fín byrjun á leiknum, gott tempó enda aðstæður betri (lesist: kaldara) en í síðasta leik (í Washington) á dögunum. Keane og Tarkowski í hjarta varnarinnar (Keane vinstra megin, Keane hægra megin) og Davies að spila sem djúpur miðjumaður (Doucouré framar). Eiginlega 4-1-4-1 með Gray á vinstri kanti, Doucouré og Iwobi á miðjunni og Gordon hægra megin með Calvert-Lewin frammi.

Everton fékk dauðafæri strax á þriðju mínútu þegar Gordon sendi lágan bolta frá hægri inn í teig og það vantaði bara að Iwobi potaði inn við færstöng, en hann átti ekki von á boltanum og var aðeins of seinn.

Tveimur mínútum síðar komst Calvert-Lewin í skyndisókn upp hægri kant og átti flotta háa sendingu fyrir mark en sendingin aðeins of há til að nokkur næði að skalla. Gray reyndi svo skot af löngu færi en ekki nóg til að ógna markverðinum.

Everton mun sterkari í byrjun en Minnesota áttu einnig færi, eins og þegar þeir náðu hárri sendingu á 11. mínútu frá vinstri inn fyrir vörnina og sóknarmaður þeirra náði að stýra boltanum á mark en Pickford vel á verði og náði að loka á það.

Stuttu síðar var Keane næstum búinn að missa sóknarmann inn fyrir vörnina með „stoðsendingu“ en Tarkowski mættur til að redda honum.

Strax í kjölfarið átti Calvert-Lewin skot beint á markvörð úr ákjósanlegu færi.

Á 18. mínútu kom ákveðinn vendipunktur þegar Minnesota menn fengu víti eftir að hafa skotið í höndina á Davies af mjög stuttu færi. Svolítið ósanngjarnt (ekki víti samkvæmt gömlu reglunum), en líklega rétt að dæma víti eftir nýju reglunum. Sóknarmaður þeirra skoraði örugglega úr færinu og staðan orðin 1-0 fyrir Minnesota.

Á 24. mínútu sendi Tarkowski flotta langa sendingu inn í teig þar sem Gordon var mættur og þurfti bara eina snertingu til að lyfta boltanum yfir markvörð (í fyrstu snertingu) en áttaði sig ekki á því eða skipti um skoðun á síðustu stundu og færið fór forgörðum.

Calvert-Lewin fékk svo flott skallafæri á 28. mínútu eftir aukaspyrnu frá Gordon utan af vinstri kanti en náði ekki að stýra boltanum á mark.

Á 32. mínútu kom lág sending frá vinstri kanti inn í teig Everton og Keane renndi sér á boltann til að hreinsa og náði því (með hægri fæti) en boltinn fór beint í hans eigið vinstra hné og þaðan fór boltinn í netið. Sjálfsmark og staðan orðin 2-0.

Gray átti svo skot á 35. mínútu en rétt framhjá.

Á 36. mínútu bættu Minnesota menn við marki og það var (enn á ný) mikill heppnisstimpill á því. Skot í teig utarlega hægra megin fór í fótinn á Mykolenko og breytti stefnu svo að Pickford gat lítið annað en að slá til boltans, sem var á leið í markið en boltinn féll heppilega fyrir sóknarmann Minnesota sem setti boltann í autt netið. Staðan orðin 3-0 sem var engan veginn eftir gangi leiksins. 

3-0 í hálfleik. Glötuð staða hvað markatölu varðar en pínu ósanngjarnt miðað við frammistöðuna. Sem betur fer skiptir hún meira máli á undirbúningstímabilinu. 🙂

Eiginlega nýtt lið í seinni hálfleik, öllum skipti út nema Gray og Gordon.

Uppstilling: Crellin, Nkounkou, Godfrey, Mina, Holgate, Warrington, Gbamin, Deli Alli, Gray, Gordon, Rondon. 

Rondon einn frammi með Gray og Gordon sér til stuðnings (eins og Calvert-Lewin í fyrri hálfleik). Athyglisvert að sjá að Allan fékk engar mínútur.

Talandi um mínútur… Á 53. mínútu gerði Gbamin vel upp við jaðar vítateigs vinstra megin, fann Gray sem sendi á Gordon inni í um miðjum teig. Gordon náði skoti á mark, sem hefði farið í hliðarnetið innanvert hægra megin ef varnarmaður hefði ekki náð að bjarga á síðustu stundu. Minnesota menn heppnir, markvörður líklega ekki náð að verja.

Gordon og Gray skipt út af í kjölfarið fyrir Stanley Mills og Lewis Dobbin.

Minnesota menn fengu fínt skotfæri á 68. mínútu eftir að hafa farið illa með Nkounkou og komist upp hægra megin en skot frá þeim utarlega í teig blokkerað í horn af Godfrey.

Isac Price inn á fyrir Warrington á 70. mínútu.

Á 74. mínútu fékk Deli Alli dauðafæri upp við mark, eftir fasta lága sendingu frá hægri, en varnarmaður náði að breyta stefnu boltans lítillega sem gerði það að verkum að Deli Alli brenndi af fyrir opnu marki. Enn á ný, Minnesota menn stálheppnir. 

Minnesota menn bættu svo við marki á 77. mínútu þegar þeir komust upp hægri kant. Nkounkou var allt of langt miðsvæðis (frá hliðarlínunni) sem gaf kantmanni andstæðinganna nægt pláss á kantinum og þegar sendingin kom hélt maður að hann væri augljóslega rangstæður en Holgate hafði spilað hann réttstæðan. Einföld sending inn í teig og ein snerting kom boltanum framhjá markverði og í netið. 4-0 fyrir Minnesota.

Á 89. mínútu sá Deli Alli svo að Nkounkou var á auðum sjó á vinstri kanti og sendi á hann. Nkounkou átt frábæran bolta fyrir mark sem skoppaði framhjá öllum. Enginn sóknarmaður mættur á staðinn og úrvals færi fór forgörðum…

Þetta reyndist síðasta færi leiksins. Tap staðreynd og margt áhugavert, bæði jákvætt og neikvætt, eins og vill vera á undirbúningstímabilinu. Blackpool næstir á sunnudaginn.

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Veit vel að þetta er bara æfingaleikur……en þvílíkt drasl sem þetta lið er.

  2. Gestur skrifar:

    Ekki byrjar þetta vel.