Burnley vs Everton

Mynd: Everton FC.

Í kvöld kl. 18:30 verður flautað til leiks í líklega einum mikilvægasta leik sem Everton hefur leikið í áraraðir, þegar liðið mætir á heimavöll Burnley. Þetta er algjör 6 stiga leikur í botnbaráttunni, sem mun líklega móta restina af tímabilinu fyrir bæði lið, alveg sama hvernig hann fer.

Ljóst er að Burnley menn munu þurfa að sækja, því þó þetta endi ekki nema með jafntefli, þá eru þeir enn fjórum stigum frá því að komast upp úr fallsæti. Tapi þeir, aftur á móti, þurfa þeir að vinna upp 7 stiga forskot Everton í 9 leikjum. Þriðji möguleikinn (sem við þorum varla að hugsa til enda) er ef þeir sigra, því þá minnkar forskot Everton niður í aðeins eitt stig. Það væri alls ekki gott, því næsti leikur Burnley er við botnlið Norwich, sem gæti þýtt að Everton væri í fallsæti eftir þann leik.

Allt sem maður les um þennan Burnley leik er svipaður tilfinningarússíbani. Það er alls ekki hughreystandi að lesa greiningu á gengi Everton á útivöllum (eða bara tímabilinu), við þekkjum það vel. En gleymum því samt ekki að gengi Burnley er enn verra, og á heimavelli hafa þeir aðeins náð tveimur sigrum í deild á öllu tímabilinu (gegn Brentford í október og mjög svo óvæntur 1-0 sigur á Tottenham, þar sem miðvörðurinn Ben Mee skoraði eina markið). Þeir standa öllu betur að vígi en Everton þegar kemur að meiðslum og leikbönnum og slíku, því hjá þeim eru þessir frá: Ben Mee (fyrirliði og miðvörður), Erik Pieters (vinstri bakvörður), Matej Vydra (framherji) og Jóhann Berg (kantmaður). Dale Stephens (miðjumaður) var jafnframt nýlega tekinn fyrir ölvunarakstur og ólíklegt að hann spili.

Hjá okkar mönnum eru bæði Allan og Keane í leikbanni og nokkrir þar að auki á meiðslalistanum: Yerry Mina, Andros Townsend, Donny van de Beek, Tom Davies og Nathan Patterson. Auk þess er Andre Gomes metinn tæpur í kvöld. Það er sérstaklega vont að vera án Andros Townsend og Yerri Mina í þessum leik, því vörnin stendur sig yfirleitt best með Mina í hjarta hennar og Andros Townsend er (naumlega reyndar) bæði markahæstur í liðinu og með flestar stoðsendingarnar. En, það þýðir lítið að fást um það.

Spáin á þessum bæ hljóðar upp á jafntefli við Burnley, þó maður voni mjög svo heitt eftir sigri. Burnley menn eru nefnilega jafntefliskóngar botnbaráttunnar með samtals 12 jafntefli í 28 leikjum. Ef þeir hefðu gert eitt jafntefli í viðbót væru þeir jafnframt jafntefliskóngar deildarinnar. Það virðist því skrifað í skýin að liðið sem getur varla unnið á heimavelli og liðið sem getur varla unnið á útivelli skipti með sér stigunum bróðurlega.

Kíkjum aðeins á uppfært leikjaplan hjá botnliðunum:

Búið er að finna leikdaga fyrir alla leikina sem frestað var og glöggir lesendur sjá líklega að Brentford er ekki lengur partur af vaktinni, en þeir virðast vera komnir á beinu brautina. Í staðinn kemur lið Newcastle inn (lengst til hægri) en með þremur töpum í röð voru þeir að stimpla sig inn í botnbaráttuna á ný. Það er því ekki úr vegi að fylgjast með þeim, þó þeir séu kannski ekki líklegasta liðið til að falla í augnablikinu. Þess ber að geta að þeir eiga styttra og erfiðara leikjaplan en Everton eftir en hafa 6 stiga forskot á Everton.

Hér er svo tölfræðin fyrir leikinn við Burnley:

Líkur á falli hjá Norwich og Watford, skv veðbankanum, standa í stað og eru áfram yfirgnæfandi líkur á falli þar. Líkur Leeds á falli minnkuðu nokkuð (úr 38% í 23%) og það er á kostnað Everton sem þykja nú líklegri en Leeds til að falla (fóru úr 25% up í 32%).

Skv. veðbankanum eru næstum 70% líkur á falli Burnley, en það veltur ansi mikið á leiknum á eftir. Burnley menn þurfa að sækja fleiri stig í jafn mörgum leikjum og Everton en hafa það sér til framdráttar að eiga færri leiki eftir við lið í efri hluta deildar.

Þetta verður eitthvað…

Uppstilling og leikskýrsla mun birtast á eftir (í annarri færslu). Leikurinn er í beinni á Ölveri og það er ákveðinn kjarni sem stefnir á mætingu þar á eftir.

Áfram Everton!

4 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    ef okkar menn koma ekki vel gíraðir í leikinn þá óttast ég að þetta sé akkúrat málið, að Lampard sé hálfviti—- https://www.goodisonnews.com/2022/04/06/frank-lampard-risks-losing-everton-dressing-room-same-as-at-chelsea-after-report-tuesday-night/

  2. Diddi skrifar:

    þetta dálæti sem hann hefur á Kenny og Iwobi á eftir að kosta okkur dýrt segi ég en þá skorar Kenny ábyggilega screamer eftir stoðsendingu frá Iwobi eða öfugt. Svona getur maður jinxað hlutina

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Burnley hefur ekki skorað mark í einhverjar 400 mínútur og stóri drullinn sem þeir keyptu í janúar hefur ekki átt snertingu í vítateig andstæðinganna í fimm leikjum, ef mér skjátlast ekki. Er þá ekki nokkuð augljóst hvað er að fara að gerast?
    Ég gerði það líka af forvitni að athuga hvað væri stærsti sigur Burnley í deildarkeppni, ( ég veit, ég hefði betur sleppt því), hann kom fyrir 130 árum gegn Darwen , 9-0. Ég vona að það verði ekki slegið í kvöld en óttast tap. Jafntefli væri vel sloppið.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þá er það búið 🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬🤬