Crystal Palace – Everton 4-0 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að átta liða úrslitum (fjórðungsúrslitum) í FA bikarnum en hann er gegn Crystal Palace á þeirra heimavelli, Selhurst Park. Chelsea bókaði farseðilinn í undanúrslitin í gær með 0-2 sigri á Middlesbrough en Southampton mæta City seinna í dag og þar á eftir mætast Nottingham Forest og Liverpool.

Ég skal alveg viðurkenna að maður hefur svolítið blendnar tilfinningar gagnvart þessum leik, mestmegnis vegna núverandi stöðu Everton í deild. Auðvitað vill maður sjá liðið sitt vinna alla þá titla sem eru í boði, en sigurvegarinn í þessum leik mun væntanlega, ef úrslit verða eftir bókinni, mæta liði í einu af þremur efstu sætunum í Úrvalsdeildinni — ekki bara í undanúrslitum, sem er nógu erfitt — heldur í úrslitunum líka. En sjáum hvað setur.

Uppstillingin: Pickford, Kenny, Godfrey, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Doucouré, Gomes, Townsend, Richarlison, Gordon.

Varamenn: Lonergan, Tyrer, Mykolenko, Branthwaite, Patterson, Price, Gray, Iwobi, Calvert-Lewin.

Sýnist þetta vera þrír miðverðir, Kenny og Coleman sem wingbacks og Townsend og Gordon á köntunum með Richarlison fremstan. En þá að leiknum…

Everton átti algjörlega frábæra byrjun á leiknum, sýndu mikla ákefð og voru eins og vinnumaurar á vellinum, alls staðar að pressa alla bolta og Palace menn litu mjög illa út, komust hvorki lönd né strönd og misstu boltann í sífellu.

Everton fékk aukaspyrnu á fyrstu mínútu sem endaði með algjöru dauðafæri fyrir Keane, sem náði ekki góðu skoti á mark, og boltinn skoppaði framhjá hægri stöng. Godfrey næstum búinn að ná að renna sér á boltann og pota inn, en var aðeins of langt frá.

Örskömmu síðar áttu varnarmenn Palace sendingu aftur sem Richarlison var næstum búinn að stela af aftasta manni en var felldur í leiðinni inni í teig. Ekkert víti þó, og líklega réttur dómur. Varnarmaður rétt náði að pota í boltann áður en hann felldi Richarlison.

Nokkrum mínútum síðar var Richarlison aftur felldur inni í teig, en í þetta skiptið var hann dæmdur hárfínt rangstæður í aðdragandanum. Hann náði svo skoti á mark utarlega í teignum á 8. mínútu en hitti ekki markið.

Everton með algjör tök á leiknum og Palace menn komust varla út úr eigin vallarhelmingi.
En vendipunkturinn kom á 14. mínútu þegar Townsend var borinn út af vellinum meiddur. Hann hafði náð að stoppa hreinsun fram völlinn fram varnarmanni Palace upp við hornfána og virtist Townsend meiða sig illa í hnénu um leið. Alls ekki gott að missa Townsend í lokabaráttunni, enda markahæstur í liðinu og búinn að gefa fjórar stoðsendingar að auki. Gray kom inn á í staðinn fyrir hann.

Palace menn komust við þetta loks inn í leikinn og náðu meira að segja skoti á mark á 20. mínútu. Það kom frá Eze innan teigs, en var afar slakt skot sem Pickford var ekki í neinum vandræðum með að grípa.

En Palace menn unnu hornspyrnu á 25. mínútu og reyndu að skjóta á mark beint úr horni, sem Pickford varði í horn. Seinni hornspyrnan hins vegar vel útfærð hjá þeim, náðu að komast tveir á Keane, þar sem annar blokkeraði hann og hinn (Guéhi) stökk upp og skallaði inn. 1-0 fyrir Palace, þvert gegn gangi leiksins.

Gomes reyndi að svara með skoti á 28. mínútu en boltinn vel framhjá marki vinstra megin.
Zaha var ekki langt frá því að bæta við marki fyrir Palace á 33. mínútu eftir skyndisókn, var alveg upp við mark en setti skot sitt rétt framhjá hægri stöng.

Everton komst í fína skyndisókn á 39. mínútu þegar Colman vann boltann á hægri kanti og var fljótur að hugsa — sendi beint fram á Richarlison sem komst einn á móti markverði, en náði ekki með varnarmann í bakinu að lyfta yfir Butland í marki Palace, sem varði. 

Næstum búinn að jafna en í staðinn skoruðu Palace menn náttúrulega í næstu sókn. Eze komst upp vinstri kant, dró að sér tvo varnarmenn Everton og sendi á Zaha sem komst upp að endalínu vinstra megin og sendi lágan bolta fyrir, sem Mateta kláraði auðveldlega í netið.
Mateta komst aftur í dauðafæri stuttu síðar þegar Eze náði að skalla bolta yfir varnarlínuna og á Mateta. En hver var þar mættur eftir að hafa náð að hlaupa hann uppi og skriðtækla fyrir skotið… annar en Coleman. Yndislegt að sjá.

Gray náði skoti að marki djúpt í uppbótartíma fyrri hálfleiks en hafði ekki erindi sem erfiði og dómarinn flautaði til hálfleiks strax á eftir.

2-0 í hálfleik.

Calvert-Lewin kom inn á fyrir Kenny í hálfleik og Gordon var þar með færður í vinstri wingback. Annars var mun minna um færi í seinni. Palace menn sáttir við tveggja marka forystu og náðu að koma í veg fyrir tilraunir Everton.

Gray átti eina tilraun á mark á 65. mínútu, óvænt langskot frá hægri eftir flottan snúning sem losaði sig við varnarmann en boltinn fór framhjá marki. Richarlison átti svo skalla að marki á 71. mínútu en þetta reyndist aðeins of hár bolti á hann og hann náði engum krafti í átt að marki.

Iwobi var skipt inn á fyrir Coleman á 73. mínútu og þar með aðeins miðverðirnir eftir í liðinu af varnarmönnum. Allt kapp lagt á að jafna, enda skiptir litlu hvort lið endar veru sína í FA bikarkeppninni með eins marks tapi eða tíu.

Gordon og Gray náðu frábærlega saman við teiginn þegar Gordon setti Gray inn fyrir vinstra megin í teig. Gray reyndi lága fyrirgöf fyrir mark en boltinn því miður of nálægt markverði sem náði að kasta sér á boltann.

Það var ekki mikið að frétta í sóknarleik Palace í seinni hálfleik fram að því en skyndilega lifnaði yfir honum síðustu 25 mínúturnar. Það hófst þegar Zaha komst í dauðafæri og klúðraði því snyrtilega. Tók allt of langan tíma til að skjóta — fékk þrjár tilraunir fyrir framan mitt markið en hikaði alltaf og að lokum var Holgate mættur til að loka á hann þegar skotið kom loks. Honum (Zaha) brást þó ekki bogalistin þegar misheppnað skot frá Olsie endaði í stönginni og frákastið fór óvænt beint á Zaha sem lúrði á fjærstöng en þurfti allt í einu bara að setja boltann framhjá Pickford. 3-0. Smá heppnisstimpill á þessu.

Og þeir bættu við marki rétt fyrir lok venjulegs leiktíma, en það skipti litlu, leikurinn þegar búinn. 

Þátttöku Everton í bikarkeppninni lauk þar með og eiginlega ekki laust við að maður hefði frekar viljað að það gerðist í síðasta leik enda hefði það allavega forðað Townsend frá meiðslum.

En, nú er bara fyrir Everton að einbeita sér að því að ljúka tímabilinu með örfáum sigrum og tryggja þar með áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni og þá er hægt að gefa Lampard tíma til þess að byggja það lið og þann leikstíl sem hann vill.

8 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    Það er svo galið að horfa á liðið verjast föstum leikatriðum aaarrrtgggg

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þá er þetta líklega game over.

  3. albert skrifar:

    Er einhverstaðar hægt að horfa á þennan leik án þess að kaupa áskrift hjá Stöð2? Reyndi áðan, en tómt vesen að versla áskrift. Allt í fokki hjá þeim! heimta númmer á rauter, en ég ætlaði bara ða horfa á í tölvunni og símanum. Ekki í sjónvarpi!

  4. albert skrifar:

    Skiptir ekki máli lengur! Komð í 2-0 í hálfleik! Game over fyrir Everton!

  5. Halli skrifar:

    Er Englands nomber 1 endilega besti markvörður Everton ég er ekki viss

  6. Hallur skrifar:

    Jæja þetta var einstaklega dapurt
    Vörnnin er einstaklega léleg en það sem er verra er að sóknin tel ég vera mun lakari við sköpum ekkert og höfum varla skapað mark tækifæri marga leiki i röð
    annað sem er enþa verra er að við getum ekki lagað liðið þar sem það vill sennilega engin fá þeesa leikmenn nema hugsanlega fritt
    þetta er það við sitjum uppi með eftir 500 miljon punda eyðslu sem er ótrulegt

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Um leið og Palace komst yfir þá var þetta búið.
    Mesta furða að sigurinn varð ekki stærri.