Crystal Palace – Everton 3-1

Mynd: Everton FC.

Við vonuðum að Everton væri aftur komið á beinu brautina eftir sigurleik gegn Arsenal í síðasta leik en svo var ekki í þessum 16. leik Úrvalsdeildarinnar, á útivelli gegn Crystal Palace.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Holgate, Keane, Coleman (fyrirliði), Delph, Doucouré, Gomes, Gray, Townsend, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Kenny, Branthwaite, Gbamin, Onyango, Iwobi, Gordon, Rondón, Simms.

Töluvert um fjarveru leikmanna í þessum leik en Digne, Mina og Allan voru ekki einu sinni í hóp og Calvert-Lewin enn meiddur. Godfrey, Holgate, Delph og Gomes komu inn fyrir þá og Richarlison leiddi línuna.

Hálf dauflegur fyrri hálfleikur. Palace menn með boltann megnið af hálfleiknum en lítið að gerast. Einu tvö skot Everton á rammann framan af komu frá Gray utan teigs, svolítið eins og færin í sigurleiknum gegn Arsenal.

Godfrey átti frábæran sprett upp vinstri kant eftir um 30 mínútna leik þar sem hann stökk upp úr tveimur tæklingum og komst inn í teig og sendi fyrir. Gomes þar mættur fyrir framan mark og stýrði boltanum í átt að neti en markvörður varði vel. Besta færi fyrri hálfleiks.

Það voru hins vegar Palace menn sem komust yfir eftir mistök frá Gray. Boltinn barst til hans eftir hreinsun úr teig og hann ætlaði að senda aftur inn í teig á Keane/Holgate en of stutt. Palace maður komst inn í sendinguna og sendi fyrir. Beint á Gallagher, sem skoraði. 1-0 Palace og þannig var það í hálfleik.

Ekki mikið breyttist í seinni hálfleik og þetta var rólegt framan af. Á 58. mínútu kom svo skiptingin sem við áttum von á, þegar Delph fór út af fyrir Gordon. Sóknarþenkjandi skipting, fínt. Hin skiptingin olli smá heilabrotum, hins vegar, og áhorfendur (okkar) voru ekki sáttir þegar Richarlison fór á bekkinn og inn á í staðinn kom Rondon. Ekki endilega óvænt út af hinum síðarnefnda, þó að einhverjir kynnu að nefna það, heldur aðallega vegna þess að Gray og Richarlison eru þeir leikmenn sem manni finnst geta, upp á sitt einsdæmi, breytt leikjum, eins og sárlega þurfti í þessum leik. Samt kannski rétt, eftir á að hyggja, þar sem Richarlison hafði ekki náð sér á strik í leiknum og Rondon átti eftir að láta til sín taka. Eftir leik sagði Benitez reyndar að Richarlison hefði verið að spila leikinn meiddur á kálfa og ákvörðunin um skiptingu hefði tekið mið af því að hvíla hann, enda erfiðir leikir framundan.

Í kjölfarið fylgdu tvö mörk, sitt hvorum megin vallar. Palace menn skoruðu fyrst en Everton minnkaði muninn stuttu síðar. Varamaðurinn, Salomon Rondon, var þar að verki þegar hann náði að pota inn við stöng hægra megin eftir að skot Doucouré hafði verið blokkerað og boltinn féll vel fyrir hann. Gott að sjá Rondon ná marki. 

Townsend fékk svo gullið tækifæri til að jafna á 74. mínútu fyrir framan mark en boltinn í varnarmann og út af. Ekki hans dagur í dag, gegn fyrrum félögum. 

Þetta reyndist vendipunktur í leiknum, þar sem að í staðinn fyrir að Everton næði að jafna náðu Palace menn að tryggja sigrinn með marki í lokin og þar var að verki Gallagher — sá sami og skoraði fyrsta mark Palace. Kannski má segja að kappið hafið borið fegurðina ofurliði í aðdraganda marksins, því Coleman lá aðeins of mikið á að taka aukaspyrnu út við (eigin) hornfána og Palace menn unnu boltann við vítateig og markið fylgdi í kjölfarið.

Skiptir svo sem ekki öllu máli hvort leikurinn tapaðist 2-1 eða 3-1, en samt vont að fá á sig mark í lokin.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (7), Holgate (6), Keane (6), Godfrey (7), Delph (6), Doucoure (7), Gomes (6), Gray (7), Townsend (6), Richarlison (5). Varamenn: Gordon (7), Rondon (6).

9 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Fróðlegt að sjá hvort okkar menn mæti klárir eða hvort síðasti leikur var bara undantekning, ég ætla amk ekki að voga mér að spá „hvaða Evertonlið“ mætir.

  2. Gestur skrifar:

    Hversu lengi er hægt að nota þennan Randón? Það er alveg ótrúlegt

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Game over!! Erum aldrei að fara að skora tvö mörk, hvað þá þrjú.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Og þá er allt dottið í sama gamla farið aftur. Gomes sem átti flotta innkomu gegn Arsenal, gerði ekkert í dag, Townsend gat ekki blautan og hefði átt að fara út af í hálfleik í staðinn fyrir Gordon, Doucoure var ekki skugginn af sjálfum sér og virtist vera að spila full aftarlega á miðjunni og var ekki að taka sín venjulegu hlaup framávið, svo hafði greinilega gleymst að setja Richarlison í hleðslu fyrir þennan leik því hann komst aldrei í gang.
    Svo var aftur orðið allt of mikið um hliðar og afturábak sendingar sem engu skila.
    Hræðleg mistök hjá Gray í fyrsta markinu og Coleman hálfviti í þriðja markinu.
    Skil heldur ekkert í þessum skiptingum. Ég hefði viljað fá Townsend út af fyrir Gordon og svo hefði nú kannski hjálpað að hafa tvo framherja inni á vellinum, sérstaklega þar sem Everton var tveimur mörkum undir þegar skiptingarnar voru gerðar.
    Ég skil ekki hvers vegna Richarlison var tekinn útaf fyrir Rondon en það hlýtur að hafa verið öryggisráðstöfun vegna meiðsla, nema Benitez ætli að leika sama leik og hann virðist vera að gera með Digne og ætli sér að setja Richarlison líka út í kuldann til að geta selt báða í janúar eða næsta sumar. Ef svo er, þá er Benitez vitlausari en ég hélt, Richarlison var amk ekki par sáttur við að vera tekinn útaf.
    Næsti leikur gegn Chelski á þeirra heimavelli og ef mér skjátlast ekki þá hefur Everton ekki unnið þar síðan 1995, og það er enginn séns að það breytist á fimmtudaginn, verður örugglega þetta árlega fimm marka burst eins og síðustu ár.

  5. AriG skrifar:

    Svakalega var ég fyrir miklum vonbrigðum með leik Everton. Varnarleikurinn var í tómu tjóni og ekkert skipulag. Er Allan meiddur eða í banni. Mér fannst einn standa framúr Ben Godfrey allavega sóknarlega. Aðrir spiluðu undir getu sérstaklega Gray og Richarlison. Ég stend ennþá við mín orð að ráða Benetez voru mistök þótt ég hafði meiri trú á honum í byrjun. Vonandi fer Calvin Lewin að spila aftur þá gjörbreytist liðið allavega sóknarlega. Allavega er eitthvað slæmt í gangi þarna og með þennan mannskap á Everton að vera ca 4-8 sætinu 3 lið bera af núna í deildinni. Núna þarf eigandinn að hugsa sinn gang með framtíðina hefur tekið margar rangar ákvarðanir og eyðslan hefur engu skilað ennþá. Ég vill hrósa Ingvari hvað hann er duglegur að skrifa hérna.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Takk Ari 🙂

      • Ari S skrifar:

        … ekkert að þakka… (jók)

        Ég er sammála nafna mínum, fínt að fá skrifin frá þér Ingvar. Takk fyrir að halda þessu lifandi þó að illa gangi núna 🙂

  6. þorri skrifar:

    Sælir félagar égum við að senda liði okkar baráttu kveðju fyrir leikinn í kvöld ÁFRAM EVERTON