Everton – Tottenham 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti heimaleik við Tottenham í dag og enn var enginn Dominic Calvert-Lewin sjáanlegur, því miður.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Allan, Delph, Gray, Townsend, Gordon, Richarlison.

Varamenn: Begovic, Kenny, Holgate, Iwobi, Tosun, Gbamin, Davies, Branthwaite, Rondon.

Benitez stillti þessu upp svipað og í seinni hálfleik gegn Úlfunum, með Delph sem dýpsta miðjumanninn á milli fjögurra manna varnar og sóknar og Richarlison frammi. Restin með hefðbundnum hætti.

Everton átti fyrsta skotið á mark og þar var Godfrey að verki. Hann náði að komast inn í sendingu Tottenham manna (og stoppa þar með skyndisókn) og gáfu varnarmenn Tottenham honum færi á marki og hann lét bara vaða. Fastur lágur bolti á mitt mark sem Lloris kastaði sér á og varði.

Stuttu síðar fékk Townsend aukaspyrnu ekki langt utan teigs og það endaði með hárri sendingu frá Delph inn í teig yfir á stöngina hægra megin þar sem Keane reyndi skalla á mark en boltinn framhjá.

Tottenham menn áttu fyrsta færi sitt á 22. mínútu, skalli eftir háan bolta frá vinstri kanti en þeir skölluðu yfir. Þeir voru þéttir fyrir og duglegir að loka svæðum, sem gerði miðjumönnum Everton erfitt fyrir.

Besta færi fyrri hálfleiks kom rétt áður en dómari flautaði til lékhlés. Harry Kane átti þá sendingu frá hægri, á Reguilon, sem var á auðum sjó í teignum vinstra megin og þurfti bara að setja hann framhjá Pickford. Gerði það reyndar, en í leiðinni bæði framhjá marki og alltof hátt og beint upp í stúku.

0-0 í hálfleik. Tottenham með besta færið en áttu annars ekkert skot sem rataði á rammann. Ekkert að gera hjá Pickford í markinu. Tvö á rammann frá Everton.

Tottenham menn byrjuðu hálfleikinn betur, án þess að skapa neitt sérstakt en Everton vann sig smám saman inn í leikinn. Lítið um færi báðum megin. 

Fabian Delph fór út af fyrir Tom Davies á 60. mínútu. Delph búinn að spila vel, bæði eftir að hann kom inn á gegn Úlfunum í síðasta leik sem og í þessum leik, en hann er nýkominn úr meiðslum og Benitez ákvað að hann væri kominn með nóg af mínútum í bili.

Á 65. mínútu kom til kasta VAR þegar Lloris felldi Richarlison inni í teig. Það bjargaði Lloris hins vegar að hann náði að snerta boltann með fingurgómunum rétt áður en hann felldi Richarlison og VAR afturkallaði því dóminn. Tottenham menn stálheppnir þar, ef Lloris hefði verið millisekúndum seinni hefði hefði ekki verið svona heppinn. Goodison Park á suðupunkti — allt brjálað á pöllunum.

Everton var líklegri aðilinn eftir þetta og lítið að frétta hjá Tottenham, fyrir utan eina skyndisókn frá Son sem lúðraði boltanum framhjá vel marki. Líklega rangstæður hvort eð er í undirbúninginum.

Holgate kom inn á fyrir Allan á 81. mínútu og það reyndist mjög afdrifaríkt því Holgate tókst að gera eiginlega allt sem hann kom nálægt rangt. Tvisvar missti hann boltann á miðsvæðinu sem skapaði skyndisókn fyrir Tottenham. Ekkert markvert gerðist í þeirri fyrri, en sú síðari endaði með stórhættulegu skoti af löngu færi frá Lo Celso í stöngina og út.

Örskömmu síðar fékk Holgate svo beint rautt spjald fyrir að hreinsa boltann í burtu frá teig með miklum krafti — svo miklum að hann endaði með því að planta tökkunum í lærið á Höjberg sem var að reyna að blokka hreinsunina. Upphaflega gaf dómarinn gult, en var beðinn að skoða þetta í VAR sjánni. Þetta lítur alltaf mjög illa úr í endursýningu og rautt því dregið upp úr vasanum. Ég er ekki sannfærður um að það sé réttur dómur, en það breytir litlu.

Benitez kippti Gray strax út af fyrir Gbamin í kjölfarið til að stoppa í gatið sem Holgate skildi eftir sig og það virkaði. Everton virkaði meira að segja líklegri til að stela sigrinum undir lokin, manni færri.

0-0 niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Digne (7), Keane (7), Godfrey (7), Townsend (6), Delph (7), Allan (7), Gordon (6), Richarlison (7), Gray (7). Varamenn: Davies (7), Gbamin (6), Holgate (4).

Fabian Delph var svo valinn maður leiksins.

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Miklu betri frammistaða en í síðustu þremur leikjum, sem gerir það enn meira pirrandi hvað liðið var lélegt í þeim.
    Totteringham átti ekkert skilið úr þessum leik en þeir fengu stig sem dómarinn og samverkamenn hans rændu af Everton því þetta var klárlega víti.

  2. Ari S skrifar:

    Anthony gordon spilaði sinn fyrsta liek með enska U-21 liðinu í leik gegn Tékklandi U-21. England sigraði 3-1

    Skemmst er frá því að segja (eins og Bjarni Fel myndi segja) að Gordon skoraði tvö mörk í leiknum… átti stórleik sem sagt. Gott að fá svona birtu í Everton mennskuna þessa dagana… Greinilegt að hann er í hörku formi og á skilið að verqa byrjunarliðsmaður, ekki spurning!