Everton – Watford 2-5

Áður en við ræðum leikinn er rétt að minnast á að vefur everton.is lá niðri í aðdraganda leiksins og vefhýsingaraðilinn náði ekki að bregðast við fyrr en löngu eftir leik. Við biðjumst velvirðingar á þessu. En þá að leiknum…

Everton átti leik á heimavelli gegn Watford í dag í 9. umferð Úrvalsdeildarinnar. Watford menn voru í 16. sæti deildar, aðeins fjórum stigum fyrir ofan fallsæti, og höfðu tapað síðustu tveimur leikjum. Reyndar aðeins unnið tvo leiki á tímabilinu (Aston Villa í upphafi tímabils og Norwich um miðjan september). Þeir ráku þjálfara sinn í byrjun mánaðar eftir 1-0 tap gegn Leeds og réðu í hans stað Claudio Ranieri en fyrsti leikur undir hans stjórn byrjaði afar illa og endaði með 5-0 tapi. Bæði lið mættu því til leiks með tap á bakinu, en Everton tapaði, eins og við þekkjum, gegn West Ham í síðasta leik — sem reyndist fyrsta skiptið á tímabilinu sem Everton vinnur ekki á heimavelli. Richarlison var farinn að æfa aftur en var ekki orðinn nógu góður til að byrja þennan leik, þannig að hann byrjaði á bekknum. Doucouré meiddist í vikunni og er það aldeilis skarð fyrir skildi, enda búinn að vera einn besti maður Everton á tímabilinu. Tom Davies kom inn fyrir hann.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Godfrey, Kean, Coleman (fyrirliði), Allan, Davies, Gray, Townsend, Gordon, Rondon.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Holgate, Kenny, Gbamin, Iwobi, Richarlison, Dobbin.

Everton byrjaði leikinn frábærlega, komust í skyndisókn strax á 3. mínútu þegar Gordon náði boltanum við vítateig og brunaði fram. Gaf á Gray á vinstri kanti, sem fór með boltann inn í teig og gaf fyrir. Þar var Tom Davies mættur fremstur til að pota inn. 1-0 fyrir Everton!

Gordon var aftur líflegur á 10. mínútu þegar hann náði nokkrum þríhyrningum í röð við samherja þar sem hann vann sig framhjá leikmönnum Watford og í skotfæri rétt utan teigs en skotið kom ekki, því hann gaf á Andros Townsend sem náði föstu skoti á mark. Foster hins vegar sló það til hliðar þar sem Coleman var mættur og sendi háan bolta fyrir. Fann þar Gordon inni í teig fyrir framan mark en hann skallaði vel framhjá úr ákjósanlegu skallafæri. 

Watford menn jöfnuðu á 13. mínútu eftir aukaspyrnu. Enn eitt markið sem Everton fær á sig úr föstu leikatriði, sem er eiginlega undarlegt miðað við hvað Everton stendur sig venjulega vel í að afgreiða föstu leikatriðin hinum megin vallar. Joshua King átti markið en hann náði að pota inn af stuttu færi. Um tíma leit út fyrir að um rangstæðu væri að ræða, en VAR mat það svo (líklega réttilega) að ekki væri um rangstöðu væri að ræða þar sem Gray spilaði hann hárfínt réttstæðan.

Townsend átti fínt skot við jaðar vítateigs hægra megin stuttu síðar en boltinn sigldi rétt framhjá stönginni vinstra megin.

Watford menn svöruðu með fínni skyndisókn á 30. mínútu og aftur var Joshua King lykilmaðurinn. Hóf þá sókn og sendi á samherja og svo mættur fremstur og var hársbreidd frá því að pota inn.
Everton hefði getað fengið víti á 30. mínútu þegar Gordon var keyrður niður inni í teig upp við endalínu en dómari leiksins hafði engan áhuga. Áhorfendur brjálaðir í kjölfarið enda dómarinn búinn að slá feilpúst nokkrum sinnum, t.d. sleppa augljósum aukaspyrnum og dæma útspark þegar leikmaður Watford hreinsaði augljóslega í horn.
Fleiri urðu almennilegu færin ekki og staðan því 1-1 í hálfleik. 

Watford menn fengu upplagt tækifæri á 57. mínútu þegar Sarr sendi lágan bolta fyrir og Joshua King hefði átt að skora þar, potaði í áttina að marki en Pickford átti geðveika vörslu með fætinum. Vann aldeilis fyrir kaupinu sínu þar.

Richarlison kom inn á fyrir Gordon á 59. mínútu og áhorfendur ekki sáttir við þá skiptingu, enda Gordon búinn að standa sig fantavel í leiknum. Kannski líklega haldið að Richarlison hefði átt að fara á kantinn (þar sem Gordon var) en Richarlison fór á toppinn Everton því komið í 4-4-2. 

Richarlison beið aldeilis ekki boðana og þegar Michael Kean sendi háan bolta inn í teig frá hægri kanti var Richarlison mættur á réttan stað til að skalla inn. Innan við þremur mínútum eftir að hafa komið inn á!

Watford svöruðu með langskoti utan af miðjum velli en Pickford vel á verði.

Michael Keane átti frábæran skalla eftir aukaspyrnu á 74. mínútu frá Digne utan af vinstri kanti en rétt framhjá marki.

Iwobi inn á fyrir Gray á 77. mínútu.

Watford menn jöfnuðu á 78. mínútu og aftur var það eftir fast leikatriði sem fellir Everton — í þetta skipti eftir hornspyrnu. Kutscher með öflugan skalla í netið eftir að Godfrey hafði rétt misst af því að skalla frá eftir samstuð við Watford mann. Og 88 sekúndum síðar komust Watford menn í skyndisókn og komust yfir þegar Joshua King renndi boltanum framhjá Pickford.

Pickford reddaði svo sínum mönnum aftur með fingertip save til að verja fast skot á mark af nokkuð stuttu færi.

Digne fékk fínt tækifæri til að jafna á 83. mínútu þegar Richarlison sendi háa sendingu fyrir mark sem enginn náði. Digne kom á siglingunni vinstra megin inni í teig, algjörlega óvaldaður og þurfti bara að hitta boltann vel til að ná skoti á mark en tókst það ekki.

Þetta reyndist síðasta tækifæri Everton en leikur liðsins eiginlega hrundi í kjölfarið og Watford menn gengu á lagið og virtust ná að galopna vörn Everton alltof auðveldlega. Joshua King fullkomnaði þrennuna á 86. mínútu, eftir vandræðagang í vörn Everton og, þegar maður hélt að þetta gæti ekki versnað, þá leit fimmta mark Watford dagsins ljós.  Ekki beint svarið sem maður átti von á eftir tapleik gegn West Ham í síðasta leik. 

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (5), Keane (5), Godfrey (4), Digne (5), Townsend (5), Allan (5), Davies (6), Gordon (6), Gray (6), Rondon (4). Varamenn: Richarlison (6).

2 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvað getur maður sagt??
    Þetta var klárlega versta frammistaða liðsins á þessu tímabili og ég held svei mér þá sú versta sem ég hef orðið vitni að.
    Strax í byrjun fannst mér eitthvað óöryggi í vörninni og það jókst bara eftir því sem leið á leikinn. Keane og Godfrey virðast bara ekki virka sem miðvarðapar, þeir eru mest í því að flækjast hvor fyrir öðrum. Digne hefur ekki verið upp á marga fiska síðan hann meiddist á EM í sumar og það bætir ekki úr skák að hann hefur enga samkeppni, Coleman var manna skástur af varnarmönnunum og það verður ekki við Pickford sakast, hann gat ekkert gert við þessum mörkum og eiginlega sá til þess að þetta yrði ekki verra því hann átti amk þrjár góðar vörslur í leiknum. Vörnin virðist hreinlega ekki virka þegar Mina er ekki með, enda virðist hann algjörlega vera heilinn í varnarleik liðsins og góður í að segja öðrum hvar þeir eiga að vera.
    Á síðasta tímabili var Evertonliðið mjög gott í að verjast föstum leikatriðum, Benitez er búinn að gjörsamlega rústa því með þessu fáránlega svæðisvarnar kjaftæði. Í fyrra hafði maður engar sérstakar áhyggjur af horn eða aukaspyrnum andstæðinganna en núna er maður nagandi neglur og við það að skíta á sig í hvert skipti sem mótherjarnir fá fast leikatriði á vallarhelmingi Everton, þó ekki sé nema innkast. Eins var Evertonliðið nokkuð hættulegt þegar það fékk fast leikatriði en það er ekki lengur þannig.
    Miðjan er hreinlega ekki til staðar þegar Doucoure er ekki með.
    Ég hélt, þegar Davies skoraði strax eftir tvær mínútur að nú myndi hann heldur betur taka þetta tækifæri tveimur höndum og spila vel það sem eftir væri leiksins. En ég hefði mátt vita betur. Davies klúðraði þessu tækifæri algjörlega og var gjörsamlega hræðilegur í leiknum. Allan átti heldur ekki sérlega góðan dag en var þó örlítið skárri en ekki nálægt því jafn góður og hann er búinn að vera hingað til á tímabilinu.
    Gray náði sér ekki almennilega á strik en var þó einn af fáum sem komast skítsæmilega frá þessum leik og það sama má segja um Gordon, hann var fínn og ég skil ekki hvers vegna hann var tekinn af velli fyrir Richarlison. Townsend var slakur í gær og það hlaut að koma að því en ég held að hann hrökkvi í gang aftur í næsta leik.
    Það er alveg ljóst að lið sem er með Rondon í byrjunarliðinu, byrjar leikinn manni færri, hann gerir ekki neitt fyrir liðið. Hann pressar ekki á varnarmenn andstæðinganna, hann vinnur ekkert í loftinu því hann stekkur ekki, hann er aldrei mættur í teiginn til að taka við fyrirgjöfum eins og sást vel í leiknum gegn West Ham um síðustu helgi þegar hann var bara á léttu skokki rétt hjá vítapunktinum þegar fyrirgjöfin frá Gray kom inn í markteiginn. Hann er í einu orði sagt gagnslaus. Enda tók það Richarlison ekki nema tvær mínútur að sýna honum hvernig alvöru sóknarmaður ber sig að. Richarlison átti ágæta innkomu og hefði átt að byrja leikinn á kostnað spýtukarlsins Rondon.
    Ég skil ekki hvers vegna Iwobi var síðan skipt inn á í staðinn fyrir Gray. Þar með voru Everton orðnir tveimur færri því hann gerir jafnmikið og Rondon.
    Betra hefði verið að setja Gbamin eða Holgate inn á til að þétta miðjuna sem var hriplek allan leikinn. Annars velti ég því fyrir mér hvort Gbamin sé hreinlega ekki heill eða hvort hann sé bara svona hrikalega lélegur að honum er ekki treyst því hann situr bara á bekknum allan leikinn og ég minnist þess ekki að hafa séð hann svo mikið sem hita upp á hliðarlínunni.
    Það er ansi margt sem Benitez þarf að svara fyrir eftir þessa hörmung og nóg af hlutum sem þarf að laga fyrir næsta leik.
    Ég er ansi hræddur um að nú sé illa komið fyrir okkar mönnum og ég efast um að það safnist mörg stig í hús í næstu leikjum en þeir eru allir gegn liðum sem eru á pari við okkar besta mögulega lið eða betri.
    Vonandi verða DCL og Doucoure ekki frá mjög lengi enn því það er enginn sem kemur í þeirra stað.

  2. AriG skrifar:

    Ég dáist að skrifum Ingvars. Alveg sammála honum. Lýst illa á framhaldið og Everton þarf að hugsa um botnbaráttu ef þeir spila svona hörmulega aftur þá fá þeir ekki einasta stig í deildinni. Ég mundi henda Randon út í hafshauga vonandi sé ég hann aldrei aftur í Everton búningi. Er Benetez gjörsamlega blindur kannski er hann að bíða eftir samtali frá Newcastle sumir eltast við peninga kannski ekki hann kemur í ljós. Núna þurfa leikmenn Everton bretta upp ermarnar og sýna hvað þeir geta. Ég sem hafði mikla trú á Benetez í byrjun en núna er ég farinn að efast um hann samanber Randon sennilega væri best að hann mundi meidast það yrði gæfa Everton.