Everton – Norwich 2-0

Mynd: Everton FC.

Everton lék við botnlið Úrvalsdeildarinnar, Norwich, í dag og þó að Everton náði ekki að smella almennilega þá gerðu þeir nóg til að setja tvö mörk og sigra Norwich í dag. 13 stig niðurstaðan eftir 6 leiki, sem er mjög ásættanlegt — sjötta sæti með jafnan stigafjölda og liðin fyrir ofan.

Maður var hóflega bjartsýnn á leikinn fyrir því lið Everton var nokkuð laskað. Andre Gomes meiddist í bikarleiknum í vikunni og jafnframt voru Dominic Calvert-Lewin, Richarlison, Seamus Coleman, Jean-Philippe Gbamin og Fabian Delph allir meiddir. James Rodriguez kláraði félagaskipti sín til liðs í Katar á dögunum og Gylfi er náttúrulega frá til að minnsta kosti áramóta. Góðu fréttirnar voru hins vegar þær að Digne og Pickford voru búnir að ná sér af sínum meiðslum.

Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Mina, Keane, Godrey, Allan, Doucouré, Iwobi, Townsend, Gray, Rondon.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Kenny, Branthwaite, Holgate, Davies, Gordon, Simms, Dobbin.

Sem sagt, fjögurra manna varnarlína og Rondon leiðir sóknina, mögulega með Gray, sjáum til. Ekki vekur bekkurinn hjá mann von í brjósti en hann inniheldur tvo markmenn og fimm kjúklinga (ef við teljum Kenny með) en aðeins Holgate og Davies hafa verið reglulega í aðalliðinu. Þetta verður eitthvað.

Fyrstu mínúturnar á leiknum voru rólegar. Everton aðeins meira með boltann og Norwich menn nokkuð mistækir í sínu upplagi. Fyrsta færið kom á 18. mínútu þegar Townsend fékk boltann hægra megin í teig en skotið frá honum á mark var slakt og Tim Krul í markinu ekki í neinum vandræðum.

Stuttu síðar lék Gray bakvörð Norwich grátt með gabbhreyfingu utan við teig hægra megin og sendi frábæran bolta fyrir mark sem sigldi framhjá markverði en enginn þar mættur til að pota inn.

Á 26. mínútu reyndi á VAR þegar Allan var að komast í gegnum vörn Norwich en fékk í leiðinni spark í lærið frá Ozan Kabak. Víti réttilega dæmt. Townsend á punktinn og Tim Krul reyndi sitt besta til að koma honum úr jafnvægi með því að segja eitthvað á meðan Townsend var að stilla boltanum upp. Það tókst ekki, því Townsend sendi hann bara í rangt horn og skoraði vinstra megin í markið. 1-0 fyrir Everton!

Þar með þurftu Norwich að skora allavega tvö mörk til að sigra, jafn mörg mörk og þeir höfðu skorað fram að því á tímabilinu.

Eftir markið var þetta hálf flatt og tvö langskot frá Norwich voru einu færin — það fyrra ekki á markið (engin hætta) það seinna lúmskt skot út við stöng sem Pickford varði vel.

1-0 í hálfleik.

Townsend reyndi skot utan teigs á 48. mínútu en rétt framhjá hægra megin. Norwich menn svöruðu þremur mínútum síðar með föstu skoti utan teigs sem Pickford varði vel í horn.

Þeir fengu svo gullið tækifæri til að jafna á 56. mínútu, eftir aukaspyrnu frá hægri — hár bolti inn í teig og leikmaður Norwich fékk frían skalla á mark en hitti ekki boltann. Sem betur fer.

Það var svolítið erfitt að horfa á síðari hluta seinni hálfleiks. Forysta Everton var bara eitt mark og Norwich menn sífellt að færast í aukana. Þeir reyndu nokkrar fyrirgjafir fyrir mark og alltaf einhver vandræðagangur fyrir varnarlínuna.  Sérstaklega þegar leit út fyrir að Pickford hefði meiðst og þeir að fara að taka aukaspyrnu nálægt marki. En þeir lúðruðu því langt framhjá, sem betur fer.

Annað mark Everton kom loks á 78. mínútu, rétt eftir að Townsend fór út af fyrir Gordon. Miðjumaður Norwich var með boltann en hrasaði nálægt miðjupunktinum og hleypti Everton í skyndisókn. Allan með boltann en felldur af leikmanni Norwich. Dómari lét leikinn halda áfram og Gray tók við boltanum og spretti fram á við og inn í teig. Sá þá Doucouré í „overlap-inu“ hægra megin við sig og sendi á hann og Doucouré brást aldeilis ekki bogalistin heldur setti hann í hliðarnetið framhjá Krul. 2-0 fyrir Everton!

Gray fór svo út af fyrir Davies á 83. mínútu. 

Tim Krul kom í veg fyrir þriðja mark Everton rétt undir lokin, þegar hann varði skot frá Godfrey af point blank range eftir að hornspyrna hafði verið framlengd með skalla á þann síðarnefnda. Godfrey var á auðum sjó og hefði átt að setja hann í netið.

Lewis Dobbin kom svo inn á fyrir Iwobi rétt undir lokin. Þetta var fyrsti leikur Dobbin í aðalliði Everton en hann er enskur unglingaliðs-leikmaður sem hefur verið hjá Everton frá því hann var 11 ára.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (7), Mina (7), Keane (6), Digne (7), Townsend (7), Doucoure (8), Allan (7), Iwobi (7), Gray (7), Rondon (5). Varamenn: Gordon (6). Hjá Norwich voru þrír með sjö í einkunn, restin fékk lægri einkunn.

Doucouré var valinn maður leiksins.

11 Athugasemdir

  1. Hallur skrifar:

    Koma svo ég ættla vera bjartsýnn

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Norwich hefur tapað 15 úrvalsdeildarleikjum í röð, eru stigalausir á botninum og með markahlutfallið-12. Er þá ekki nokkuð augljóst hvað er að fara að gerast? Ég spái fyrsta tapinu á heimavelli á þessu tímabili 1-2, jafnvel þó svo það verði jafntefli þá er það sama og tap eiginlega.

    • Ari S skrifar:

      Eða að liðið okkar verði komið í 3-0 með 10 mín eftir og Rafa setur Dobbins og Simms inná og þeir gera sitthvort markið. 5-0.

      • Ari S skrifar:

        Flottur skyldusigur í dag. Doucoure var góður fannst mér. Gaman að sjá Godron spila og sennilega er byrjunarliðsleikur að nálgast hjá honum. Lewis Dobbins (18) átti fínar mínútur í sínum fyrsta leik. Til hamingju Dobbins!

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott að gamla aumingjagóða Everton hafði sigur í dag. Þeir reyndu samt sitt besta til að vera aumingjagóðir en Norwich eru bara svo hrikalega lélegir að þeir gátu ekki nýtt sér það.
    Evertonliðið var ekki gott í dag, eiginlega frekar slakt, en þó betri en Norwich svo þetta var þannig séð verðskuldað, en menn verða að girða sig í brók ef ekki á illa að fara í næstu leikjum. Ég reikna ekki með að manure tapi tveimur leikjum í röð, hvað þá á heimavelli, svo okkar menn verða að mæta einbeittari og ákveðnari í þann leik heldur en þeir gerðu í dag.
    Mér fannst Allan, Mina og Townsend bestir hjá okkur í dag en Iwobi og Rondon frekar slappir, sérstaklega Rondon sem er greinilega ekki ennþá í almennilegu leikformi. Iwobi hefur verið fínn í fyrstu leikjum tímabilsins en mér fannst í bikarleiknum í vikunni og í leiknum í dag að hann væri óðum að komast í sitt gamla form.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Og meðan ég man. Getur ekki þessi Ozan Kabak bara flakkað á milli og alltaf verið í vörninni hjá liðinu sem Everton spilar gegn hverju sinni? Það væri frábært,maðurinn er alveg einstaklega lélegur leikmaður.

      • Ari S skrifar:

        Aðalmálið er Ingvar að í dag unnum við leik sem við áttum að vinna. Hversu oft hefur það gerst að leikur sem átti að vinnast vannst ekki…?

  4. Arig skrifar:

    Þokkalegur leikur hjá Everton. Vörnin traust en mér fannst vanta meira flæði framávið. Rondon er skelfilegur leikmaður ef hann er ekki kominn í leikform þá á bara henda honum á bekkinn. Gray og Townsend eru frábærir leikmenn flott hjá Benetez að fá þá næstum frítt. Vill sjá Ellis Simms eða Lewis Dobbin taki stöðu Rondon svo getur hann komið til baka þegar hann er tilbúinn. Megum greinilega ekki vera fyrir fleirum meiðslum.

  5. Finnur skrifar:

    Doucouré valinn í lið vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/58694632