Everton – Southampton 3-1

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að fyrsta leiknum á tímabilinu 2021/22 en hann er á heimavelli Everton, Goodison Park, gegn Southampton. Þetta er jafnframt fyrsti keppnisleikur Everton undir stjórn Rafael Benitez og það verður fróðlegt að sjá hvort nýju mennirnir (Gray og Townsend) fái að spreyta sig — ólíklegt að sá þriðji nýi, Begovic, taki markvarðarstöðuna af Pickford í bráð.

Fimm leikmenn Everton eru í einangrun/sóttkví vegna Covid19, þar á meðal James Rodriguez, Andre Gomes, Phillippe Gbamin, Moise Kean og einn ónefndur. Richarlison er hins vegar í byrjunarliðinu og Calvert-Lewin sömuleiðis, en sá síðarnefndi hefur jafnað sig af meiðslum, sem er afar gott.

Talandi um framherja, þá eru Southampton menn án Danny Ings, sem hefur oft gert okkar mönnum skráveifu í gegnum tíðina, en þeir seldu hann til Aston Villa fyrir tímabilið.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Allan, Doucouré, Gray, Townsend, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Begovic, Kenny, Mina, Branthwaite, Delph, Davies, Iwobi, Gordon, Broadhead.

4-4-2 með Gray og Townsend á köntunum.

Fyrsta færið féll í skaut Allan á 3. mínútu þegar boltinn barst óvænt til hans út í teig Southampton og Allan reyndi skot í fyrstu snertingu, lágt og í átt að nærstöng hægra megin en markvörður Southampton kastaði sér niður og varði.

Gray fann Calvert-Lewin með flottri hárri sendingu utan af kanti á 10. mínútu en Calvert-Lewin skallaði yfir.

Richarlison og Calvert-Lewin komust í skyndisókn á 17. mínútu þar sem Richarlison sendi aftur fyrir vörnina en Calvert-Lewin var hársbreidd frá því að pota inn.

Fín byrjun frá Everton, meira með boltann (66% fyrstu 12 mínúturnar) og líklegri til að gera eitthvað. Lítil ógnun í Southampton.

Andros Townsend svo átti flottan kross utan af hægri kanti inn í teig en McCarthy í marki Southampton náði að loka á það áður en Richarlison komst í boltann.

Southampton menn komust hins vegar yfir á 23. mínútu eftir skelfileg mistök í vörn Everton. Keane var aftastur að dóla með boltann alltof lengi og lét leikmann Southampton stela honum af sér og senda á Adam Armstrong, nýliða Southampton, sem komst einn á móti Pickford og skoraði örugglega upp í samskeytin hægra megin. Óverðskulduð forysta miðað við hvernig leikurinn hafði spilast.

Það tók Everton rúmar 10 mínútur að finna næsta færi — og aftur var það hættulegur kross af hægri kanti. Calvert-Lewin náði betri skalla í þetta skiptið en aftur rataði boltinn ekki á markið.

Keane var næstum búinn að skora sjálfsmark stuttu síðar þegar hann náði að pota tá í boltann og komast þannig inn í sendingu framherja Southampton en var fyrir vikið næstum búinn að setja hann framhjá Pickford í markinu. Pickford hins vegar vel á verði og kastaði sér niður og varði.

Southampton menn komust loks í færi á 41. mínútu, færi sem þeir fengu ekki á silfurfati eins og eina færi þeirra fyrr í hálfleiknum, og náðu flottu skoti á mark vinstra megin í teignum en Pickford varði í horn sem ekkert kom út úr.

Staðan 0-1 fyrir Southampton í hálfleik.

Ekki veit ég hvað Benitez sagði í klefanum í hálfleik, en svei mér þá það virkaði aldeilis. Everton byrjaði seinni hálfleik með frábærum hætti, settu sterka pressu á vörn Southampton og uppskáru horn. Hár bolti fyrir mark var skallaður í burtu af varnarmanni en Andros Townsend, sem var rétt utan við D-ið, skallaði boltann beint inn í teig aftur að marki. Boltinn endaði hjá Richarlison sem setti boltann í fyrstu snertingu í neðanverða slána og inn, beint yfir höfuðið á markverði. 1-1! Fyrsta stoðsending Townsend fyrir Everton komin.

Pressa Everton hélt áfram og hornin héldu áfram að koma. Eftir eitt slíkt komst Michael Keane í dauðafæri alveg upp við mark og náði skoti á mark en varnarmaður Southampton náði að kasta sér fyrir boltann. Boltinn barst til Calvert-Lewin en hann náði ekki nema að slengja fæti í boltann og markvörður varði.

Doucouré var næstur til að komast í færi á 53. mínútu eftir háa sendingu frá Townsend af hægri kanti en skallinn frá honum fór í bakið á Richarlison. 
Darmian Gray komst í skyndisókn upp vinstri kant og sýndi hraðann sem hann hefur, tók sprettinn upp kantinn og reyndi stórhættulega fyrirgjöf á Calvert-Lewin en markvörður náði að kasta sér á boltann og verja áður en Calvert-Lewin komst í boltann. 

Iwobi var skipt inn á fyrir Andros Townsend á 70. mínútu og hann var kominn með stoðsendingu eftir aðeins 6 mínútna leik. Coleman sendi þá háan bolta á hann inn í teig sem Iwobi skallaði út til Doucouré. Doucouré tók þrjár snertingar til að snúa sér í 360 gráður með boltann og þrumaði svo bara upp í samskeytin hægra megin. Everton komið yfir í leiknum, 2-1!

Og það stoppaði ekki þar, því stuttu síðar skallaði Calvert-Lewin inn af stuttu færi!! Í aðdragandanum hafði Iwobi sent á Richarlison djúpt úti á hægri kanti og hann eiginlega sneri bara og sendi strax fyrir, beint á kollinn á Calvert-Lewin. 3-1 fyrir Everton!

Mina var skipt inn á fyrir Dermian Gray á 83. mínútu og Everton skiptu þar með úr fjórum yfir í þrjá í öftustu línu (Digne og Coleman sem wingbacks).

Everton komst í álitlega skyndisókn á 87. mínútu þegar Richarlison fékk boltann á vinstri kanti og sá hlaup frá Iwobi upp miðjuna og sendi á hann. Iwobi komst þannig á sprettinum inn í teig með varnarmenn á harða hlaupum á eftir sér, en skotið frá honum úr þröngu færi of slakt og markvörður varði.

Þetta reyndist síðasta markverða í leiknum og Everton því með sigurleik í fyrsta leik undir stjórn Benitez. Frábær byrjun!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7) , Coleman (7), Holgate (6), Keane (5), Digne (7), Doucoure (7), Allan (7), Townsend (7), Gray (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Varamenn: Iwobi (7), Mina (6).

Richarlison var valinn maður leiksins.

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta er hörmung! Ég fæ ekki séð hvernig Everton á að ná stigi, hvað þá stigum út úr þessum leik. Vonandi gerist kraftaverk í seinni hálfleik.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vel gert Everton, ráku allt ofan í mig aftur. Ánægður með seinni hálfleikinn en sá fyrri var hræðilegur.

  3. Hallur skrifar:

    Mikill munur milli hálfleika hjá okkar liði
    Ættlar samt ekkert að vera springa úr bjartsýni en nú eru bara 37 stig eftir til að forðast fall

  4. þorri skrifar:

    eru menn eitthvað ósættir við nýja stjóran okkar. Er sammála fyrri hálfleikur var ekki góður. En seinni vara betri hann var algjör snild.ÉG SEGI ÁFRAM EVERTON.

  5. Finnur skrifar:

    Richarlison í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/58224395