Everton – Aston Villa 1-2

Mynd: Everton FC.

Everton og Aston Villa áttust við í kvöld.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Godfrey, Coleman (fyrirliði), Allan, Gomes, Iwobi, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Olsen, Virgínia, Mina, Kean, Nkounkou, Delph, Bernard, Davies, King.

Þær fréttir bárust rétt fyrir leik að Rodriguez hefði meiðst í upphitun, þannig að Iwobi kom óvænt inn í byrjunarliðið.

Everton byrjaði leikinn af einbeitingu og settu pressu á vörn Villa, en færin létu á sér standa. Þangað til á 12. mínútu, þeas. þegar Holgate var ekki alveg með einbeitinguna í lagi. Var aðeins of seinn að gefa aftur á Pickford og Watkins náði að setja fótinn fyrir og þar með kominn laus bolti sem báðir áttu jafnan séns í. Þeir slógust og toguðu en Holgate reyndi tæklingu og náði aðeins í boltann en braut á Watkins (rétt utan teigs) en Watkins náði að standa það af sér og renna boltanum framhjá Pickford. 0-1 fyrir Aston Villa.

En á 19. mínútu jöfnuðu leikmenn Everton og þar var að verki enginn annar en Calvert-Lewin, á fjærstöng vinstra megin eftir hornspyrnu frá Digne. Skallaði yfir markvörð og í varnarmann og þaðan inn. Pínu sætt að sjá Barkley reyna að dekka Calvert-Lewin en missa hann frá sér.

Calvert-Lewin fékk annað skallafæri upp við mark skömmu síðar, og gerði vel að ná að kasta sér niður og ná skalla á mark, en markvörður Villa varði vel.

Traore hjá Villa fékk tvö færi á 28. mínútu í sömu sókninni en Pickford sá við honum jafn oft. Fyrst þegar hann reyndi að renna boltanum framhjá Pickford og svo strax á eftir þegar hann reyndi að vippa yfir hann. Pickford vel á verði.

Villa menn komust í dauðafæri á um 30. mínútu þegar þeir sendu háan bolta frá hægri inn í teig. Watkins (?) var upp við mark og setti hnéð í boltann og kom honum næstum framhjá Pickford en Pickford vel á verði. Boltinn barst þá til Barkley upp við mitt mark, sem reyndi (með bakið í mark) hælspyrnu af stuttu færi en sýndist hann sparka boltanum í eigin fót og út í teig þar sem annar Villa maður var mættur og átti þrumuskot í slána og út.

Gylfi svaraði með skoti utan teigs, rétt yfir mark. Stuttu síðar átti hann einnig skot innan teigs sem var blokkerað af varnarmanni.

Barkley átti svo flott skot af mjög löngu færi en í utanverða stöng og út. Pickford þó með það allan tímann ef boltinn hefði farið hinum megin stangar.

Watkins fékk svo stungu inn fyrir vinstra megin í teig, undir lok fyrri hálfleiks, og reyndi skot sem breytti um stefnu af varnarmanni og í horn.

Síðasta færi hálfleiksins þó Everton megin. Skot innan teigs frá Gylfa sem var blokkerað af varnarmanni.

Staðan 1-1 í hálfleik eftir frábæra skemmtun í fyrri hálfleik.

Seinni hálfleikur bragðdaufari en sá fyrri og mun færri færi.

Richarlison fékk fyrsta færi seinni hálfleiks þegar hár bolti barst inn í teig, sem varnarmaður reyndi að skalla frá, en tókst ekki betur en svo að hann lagði boltann aftur fyrir sig, beint fyrir Richarlison, sem skaut rétt framhjá fjærstöng.

Hann fékk svipað færi á 61. mínútu þegar hann fékk háa sendingu inn í teig en í það skiptið varði markvörður.

Gomes fór út af fyrir Delph á 69. mínútu og nokkrum mínútum síðar fór Iwobi út af fyrir Bernard. 

Mark Aston Villa kom svo í kjölfarið eftir smá baráttu á miðjunni og erfitt að sjá hvort liðið hefði undirtökin. Boltinn barst svo skyndilega yfir á vinstri kant Villa manna þar sem El Ghazi lagði hann fyrir sig og setti hann framhjá bæði Coleman og Pickford af nokkuð löngu færi. 1-2 fyrir Aston Villa. 

King kom svo inn á fyrir Gylfa á 82. mínútu og hann átti skot framhjá af löngu færi á 86. mínútu. Og það reyndist lokatilraun Everton í leiknum. 

1-2 tap gegn Aston Villa staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Coleman (7), Digne (6), Godfrey (6), Holgate (5), Allan (7), Gomes (5), Gylfi (6), Iwobi (5), Richarlison (5), Calvert-Lewin (7). Varamen: Delph (5).

7 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Pickford er að vinna vel fyrir kaupinu sínu, aðrir ekki.

  2. Gestur skrifar:

    Þetta Everton lið á heimavelli!

  3. Eirikur skrifar:

    Everton er lið sem getur bara spilað sem litla liðið. Þetta sést vel á heimavelli á móti svokölluðum minni spámönnum. Hluti af því vandamáli er skortur á alvöru sóknarmönnum. Því að DCL er ekki alvöru sóknarmaður til þess er hann of einhæfur. Richarlison er síðan allt of óstöðugur og James er alltaf meiddur.
    Iwobi, Davis, Gomes,Bernard,King ofl þurfa að fara í sumar.

  4. AriG skrifar:

    Everton var til skammar í kvöld. Vörnin var hreinasta hörmung og fullt að leikmönnum sem mega fara mín vegna. Pickford var langbesti leikmaður Everton í leiknum og Everton hefði alveg geta tapað 5:1. Núna verða örugglega sumir hér hissa. Ég vill að Ancelotte fari í sumar og t.d. stjóri Leeds taki við. Héld að Ancelotte sé útbrunninn. Vill byggja Everton til framtíðar ekki kaupa endalaust fullt af gömlum meiðslaglöðum leikmönnum.

    • Elvar Örn Birgisson skrifar:

      Það er náttúrulega fáránlegt að víkja Ancelotti í burt. Ég skil ekki þessa skoðun þína.
      Þessi maður er sigurvegari og hann þarf amk 3 ár áður en maður metur hans framlag. Næsti sumar gluggi verður rosalega áhugaverður og næsta ár segir til um hvert hann stefnir með liðið.

      Ég vona að Everton komist í Evrópu deildina en það mun gera það að verkum að við kaupum fleiri menn og fleiri betri leikmenn hafa áhuga á að koma til liðsins. Ég skil ekki skoðun manna að vilja ekki komast í Evrópu deildina vegna of margra leikja. Ég er svo til í fleiri leiki næsta vetur og breiðari hóp.

      Sigur gegn West Ham á morgun gefur Everton ágætis möguleika að ná Evrópu sæti og sá leikur er líklega sá mikilvægasti af þeim leikjum sem eftir eru.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var algjör hörmung. Pickford klárlega langbesti maður Everton, þetta hefði orðið algjört rúst ef ekki hefði verið fyrir hann. Evrópusætið er núna endanlega gengið okkur úr greipum held ég.

  6. Arig skrifar:

    Elvar ég virði þína skoðun. En Ancelotte hefur valdið mér miklum vonbrigðum og hef miklar efasemdir að kaupa leikmenn sem eru meira og minna meiddir. Auðvitað hefur Ancelotte glæsilegan feril en ég horfi á daginn í dag og næstu ár. Kannski var ég of hvass að vilja láta Ancelotte fara í sumar en ég hef allt aðra sýn á leikmannakaup vill kaupa til framtíðar ekki kaupa eða semja við lekmenn sem eiga fá ár eftir og eru oft meiddir. Glæsilegur ferill er ekki alltaf ávísun að það haldi endalaust áfram samanber Mori fyrrverandi stjóri Tottenham. Everton hefur eytt svakalega miklu síðustu ár og mér finnst það bara krafa að liðið standi sig betur sum lið hefa eytt miklu minna og eru fyrir ofan Everton í deildinni.