Everton – Tottenham 2-2

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Keane, Godfrey, Allan, Davies, Gylfi (fyrirliði), Iwobi, Rodriguez, Richarlison.

Bekkurinn: Olsen, Virgínia, Broadhead, Nkounkou, Coleman, John, Price, Welch, King.

Ekkert lífsmark í sóknum liðanna tveggja fyrstu 20 mínúturnar og lítið reyndi á markverðina. Það er að segja þangað til Rodriguez tók til sinna ráða og setti Richarlison inn fyrir vörn Tottenham með stungusendingu. Rodriguez plataði þar varnarmann Tottenham með því að horfa út á kant og þykjast ætla að senda á vinstri kantinn en þegar varnarmaðurinn dottaði lagði Rodriguez í eina stungusendingu í staðinn framhjá honum og á Richarlison. En því miður varði Lloris skotið frá Richarlison út við stöng.

Fyrsta almennilega sókn Tottenham endaði hins vegar með marki. Há sending kom utan af vinstri kanti inn í teig. Keane reyndi að hreinsa frá með skalla en náði ekki almennilega. Boltinn breytti í staðinn stefnu (sem tók í leiðinni út Holgate) og boltinn beint á Harry Kane sem þurfti bara að ná góðri fyrstu snertingu og setja hann auðveldlega í hliðarnetið. 0-1 fyrir Tottenham.

Það lifnaði hins vegar aldeilis yfir Everton við að fá á sig mark, sem var gott að sjá og aðeins nokkrum mínútum síðar var staðan orðin jöfn. Gylfi hóf sóknina þegar hann sá að Tottenham menn voru fáliðaðir í vörninni og var snöggur að spretta upp auðan vinstri kantinn. Hann gaf til hliðar á Rodriguez sem var í miðjum teignum utarlega og ætlaði að þruma á mark en lenti í samstuði við Tottenham manninn Regullion, sem virtist sparka hann niður aftan frá og dómarinn dæmdi víti. Gylfi á punktinn og jafnaði metin af öryggi — sendi Lloris í vitlaust horn og skoraði út við stöng hægra megin. 1-1!

Everton átti tvö hálffæri sem fóru forgörðum í kjölfarið (skot frá Rodriguez af löngu færi og skot frá Iwobi innan teigs sem fór í Gylfa og út af). En svo setti Gylfi Rodriguez inn fyrir vörnina með flottri stungusendingu en Lloris vann fyrir kaupinu sínu þar og varði glæsilega frá Rodriguez af stuttu færi. Totteham heppnir að lenda ekki undir þar. 

Everton klárlega með undirtökin eftir mark Tottenham. Richarlison fékk svo skallatækifæri eftir hornspyrnu en skallaði beint á Lloris, sem varði auðveldlega.

Rétt fyrir lok hálfleiks sendi Rodriguez frábæra aukaspyrnu utan af vinstri kanti inn í teig. Boltinn barst alla leið á fjærstöng þar sem Godfrey var í smá þvögu og átti kannski ekki von á að fá boltann, sem endaði yfir markinu.

1-1 í hálfleik og Tottenham menn líklega mun sáttari en leikmenn Everton við stöðuna í hálfleik.

Everton byrjaði seinni hálfleik af sama krafti og sá fyrri endaði — höfðu undirtökin og lítið að gerast hjá Tottenham. Þeir fengu þó færi á 57. mínútu eftir hornspyrnu, sem þeir skölluðu í utanverða stöng og út af. Pickford samt mættur til að loka, þannig að hættan var lítil.

Á 59. mínútu skoraði Richarlison mark — fékk háa sendingu inn fyrir vörn Tottenham og skildi varnarmenn eftir í rykinu, tók boltann niður og skoraði auðveldlega framhjá Lloris — en dæmdur rangstæður (réttilega) enda hafði hann tímasett hlaupið aðeins of snemma.

Coleman kom inn á fyrir Iwobi strax í kjölfarið og sá tók aldeilis til sinna ráða og skapaði strax dauðafæri fyrir Gylfa. Tók fyrst þríhyrning við samherja sem skildi bakvörð Tottenham eftir að leika sér við sigti í sandkassanum og sendi inn í teig þar sem Gylfi var mættur og setti boltann í fyrstu snertingu í netið alveg út við fjærstöng. Geggjað mark og staðan orðin 2-1 fyrir Everton! Meira að segja Liverpool maðurinn Jamie Carragher (af hverju er alltaf einhver gallsúr púlari að lýsa Everton leikjum, skil það ekki?) gat ekki annað en viðurkennt að Everton væri búið að vera mikið sterkari aðilinn í leiknum.

Tvöföld skipting hjá Tottenham og blásið til sóknar! 

Á 68. mínútu náðu Tottenham aftur að jafna. Aftur var einhver misskilningur milli Keane og Holgate og boltinn endar á versta stað, beint á Harry Kane sem þrumaði inn óáreittur. Staðan orðin 2-2. Rán um hábjartan dag, verð ég að segja.

Bæði lið þurftu sigurmark í þessum leik, þrátt fyrir að þetta væri deildarleikur, því jafntefli gerði ekkert fyrir þessi lið, sem eru bæði í baráttunni um meistaradeildarsæti — sem fer dvínandi með hverjum leiknum.

Ancelotti skipti Joshua King inn á fyrir Tom Davies á 84. mínútu. King tók þar með stöðu á vinstri kanti og Gylfi fór á miðjuna í stað Davies. Líkt og Coleman, beið King ekki boðanna heldur kom sér strax í mjög ákjósanlega stöðu og hefði getað gert út um leikinn þegar Rodriguez setti hann inn fyrir með stungusendingu… en skotið afar vel varið af Lloris.

Boltinn barst hins vegar út í teig til Richarlison, sem þurfti bara að ná almennilegu skoti á mark (seriously, you had one job!!?!) — vissulega þurfti hann að koma boltanum framhjá varnarmönnum en Lloris var úr stöðu og hefði ekki getað varið, en Richarlison skaut yfir markið. Besta tækifæri Everton til að komast aftur yfir, halda sér í baráttunni um Meistaradeildarsæti og nánst tryggja það að Mourinho yrði rekinn í lok tímabils.  

Þremur mínútum bætt við og Harry Kane var skipt út af vegna meiðsla. Rodriguez átti skotfæri í kjölfærið sem fór framhjá marki. Everton klárlega sterkari aðilinn, en bara alls ekki að ná að klára þetta. Ekkert að frétta hjá Tottenham. 

Niðurstaðan því 2-2 og líklega hvorugt liðið sátt við þá niðurstöðu (Tottenham þó klárlega sáttari), en við áhorfendurnir fengum allavega afar skemmtilegan leik. Mjög jákvætt að sjá Everton mun sterkara liðið en samkeppnisaðila um Meistaradeildarsætið en þetta féll ekki með okkar mönnum í kvöld. Þriðji jafnteflisleikurinn í röð og allavega tveir af þeim sem maður myndi flokka sem tvö töpuð stig.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Holgate (5), Keane (5), Godfrey (6), Digne (7), Davies (6), Allan (6), Gylfi (8), Iwobi (5), James (7), Richarlison (6). Varamenn: Coleman (7), King (6).

Markvörðurinn Hugo Lloris (var með 7 í einkunn) og Harry Kane (með 8) en þeir voru þeir einu sem risu yfir meðalmennskuna í einkunnagjöf meðal liðsmanna Tottenham sem fengu annars 5 og 6 á línuna. Maður leiksins var valinn Harry Kane, sem tryggði liði sínu óverðskuldað stig á Goodison Park í kvöld.

12 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Totteringham komið yfir, þá er þetta líklega game over.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Eða ekki. Flott spilamennska eins og er, vonandi að það haldi áfram.

  2. Ari S skrifar:

    Er Gylfi orðinn pabbi? Hann spilar svo vel. Besti maðurinn á vellinum gegn sínu gamla félagi í fyrri hálflek.

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Er hann ekki bara búinn að henda í annað? Hann er eitthvað svo léttur 😉

      • Finnur skrifar:

        Það er allavega ekki hægt að halda því fram að hann eigi í neinum erfiðleikum með að skora… 😀

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Held að næsta mark verði úrslitamarkið, vonandi skorar Everton það.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja! Verður það Kane eða Gylfi sem nær þrennu?
    Ég giska á Kane.

  5. Finnur skrifar:

    Þrír leikir gegn Tottenham á tímabilinu: einn sigur, einn bikarsigur og eitt jafntefli (sem Tottenham verðskuldaði engan veginn). Af hverju getum við ekki mætt Tottenham oftar… 🙂

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Takk Michael Keane, Mason Holgate, fyrir að forða okkur frá þeirri ógæfu að fagna sigri og taka sjöunda sætið. Það er alls ekki víst að við stuðningsmennirnir hefðum getað höndlað það.
    Þetta voru ekki einu sinni neitt sérstakar fyrirgjafir sem þeir voru að klaufast með.
    Bölvað svekkelsi!! Af hverju venst þetta aldrei?

  7. AriG skrifar:

    Mun betri leikur en leikurinn gegn Brighton. Holgate er því miður ekki nógu góður vonlaust að láta þá Keane saman saman aftur. Ég vill miklu frekar halda Yerri Mina en selja frekar Holgate góð skipti við Max Aaron hjá Norwich. Fannst Gylfi stórkostlegur í þessum leik eins Kólumbíumaðurinn. Richarlisson er ekki nógu góður í þessari stöðu vill fá hann aftur á vinstri vænginn. Everton voru miklu betri í þessum leik bara 2 klaufaleg mistök kostuðu Everton sigur. Iwobi má líka fara Coleman miklu betri í hægri vængnum. Joshua King kom mér á óvörum var mjög ferskur þennan stutta tíma. í sumar þarf Everton losa sig við nokkra leikmenn og kaupa fáa en góða í staðinn 3-4 leikmenn fer eftir hvernig gengur að selja leikmenn.

    • Ari S skrifar:

      Þetta var frábær leikur hjá okkar mönnum, sérstaklega miðað við leikina síðustu…

      Ég segi það sama og þú nafni mér fannst Richarlison ekki góuðr í þessum leik en það er samt einn þáttur sem er mjög stór í hans spilamennsku.

      Það er hversu mikið og stíft hann pressar á öftustu menn andstæðinga. Það er góður kostur fyrir framherja sem að nennir því.

      Gylfi var náttúrlega frábær í þessum leik og það er gaman að sjá hvað James hefur góð áhrif á hann stundum. Þeir ná vel saman.

  8. Finnur skrifar:

    Gylfi í liði vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/56849170

    Skemmtileg umsögnin um hann líka hjá þeim.