Brighton – Everton 0-0

Mynd: Everton FC.

Everton átti mánudagsleik á suðurströndinni þegar þeir tókust á við Brighton á þeirra heimavelli. Brighton menn voru aðeins 6 stigum frá fallsæti en áttu þó (eftir leikinn í kvöld) leik til góða á liðið í fallsætinu (Fulham). Everton er hins vegar í baráttu um Evrópusæti.

Nokkuð mikið var um meiðsli í herbúðum Everton, sérstaklega á miðjusvæðinu en Gomes og Gbamin bættust við þann lista fyrir leik. Jafnframt er Doucouré frá út tímabilið og James Rodriguez verið mikið til frá undanfarið. Hann (Rodriguez) var þó með í kvöld, en það er sorglegt að litast um bekkinn því enn fækkar aðalliðsmönnum — aðeins einn er þar í dag (Iwobi) og restin eru unglingaliðsmenn. Þær fréttir bárust svo að Calvert-Lewin hafi meiðst rétt fyrir leik og því náðist ekki einu sinni að fullmanna varamannabekkinn.

Uppstillingin: Olsen, Holgate, Keane, Mina, Godfrey, Digne, Coleman (fyrirliði), Davies, Gylfi, Rodriguez, Richarlison.

Varamenn: Virgínia, Tyrer, Iwobi, Nkounkou, Broadhead, John, Price, Welch.

Þriggja manna varnarlína hjá Everton, með þá Keane, Mina og Godfrey. Digne og Coleman wingbacks og Holgate fyrir framan vörn með Davies sér við hlið. Gylfi oft svolítið aftarlega á miðjunni, mikið til vinstra megin en stundum hægra megin líka. Rodriguez í holunni með Richarlison fremstan.

Everton örlítið meira með boltann en náðu ekki að setja neina pressu á Brighton menn fyrir en eftir um 15 mínútna leik. Engin færi framan af, mestmegnis vongóð skot frá Brighton af löngu færi. 

Þeir fengu svo færi eftir um hálftíma leik, þegar reyndu fyrirgjöf frá hægri en boltinn breytti um stefnu af Keane og þaðan til Maupay, sem var fyrir framan mark til hægri aðeins og reyndi skot en Mina kastaði sér fyrir og blokkerað skotið í horn. Stuttu síðar reyndu þeir bakfallsspyrnu utan úr teig vinstra megin en rétt yfir mark. 

0-0 í hálfleik, sem var líklega sanngjarnt gagnvart báðum liðum, enda engin almennileg færi. Everton ekki með skot sem rataði á mark í fyrri hálfleik. Brighton með tvö. Besta færi Everton aukaspyrna frá Rodriguez, sem fór yfir mark.

Svipað uppi á teningnum í seinni hálfleik. Sem sagt, ekkert að frétta. Mina meiddist svo á 57. mínútu og kom þá Iwobi inn á. Virtist ekki vera alvarleg meiðsli.

Fyrsta skot Everton á mark kom frá Rodriguez á 71. mínútu þegar hann stakk sér inn í teig og fékk boltann frá Coleman en skotið, úr þröngu færi, varið í horn.

Broadhead inn á fyrir Tom Davies á 87. mínútu. Hann þar með að spila sinn fyrsta Úrvalsdeildarleik.

Iwobi fékk gott skotfæri utan teigs á 90. mínútu, þegar vörn Brighton opnaðist fyrir hann, en skaut yfir.

Þetta reyndist síðasta færi Everton í leiknum, sem endaði 0-0.

Alls ekki nógu góð frammistaða.

Einkunnir Sky Sports: Everton: Olsen (6), Coleman (7), Holgate (7), Mina (6), Keane (6), Godfrey (7), Davies (7), Sigurdsson (6), Digne (7), James (6), Richarlison (6). Varamenn: Iwobi (6).

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Everton fer upp fyrir Tottenham með sigri, ég held að það sé því algjörlega augljóst að þessi leikur vinnst ekki. Þetta fer 2-0 fyrir Brighton

  2. Gestur skrifar:

    Þetta er mjög dauft hjá Everton

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

      Og dofnar nú ennþá meira, Iwobi er kominn inná.

  3. Ari S skrifar:

    Ég er næstum því vids im að bið binnum þennann leik.

  4. Finnur skrifar:

    Calvert-Lewin meiddist rétt fyrir leik og þess vegna voru aðeins 8 leikmenn (en ekki 9) á bekknum. Sem hefði kannski verið í lagi, ef ekki hefði verið fyrir þá staðreynd að hópurinn er orðinn svo þunnskipaður að aðeins tveir aðalliðsmenn áttu að verma bekkinn (og 7 kjúklingar). Það orsakaðist því þannig að hvorki fleiri né færri en sex varnarmenn (!) hófu leik — á móti liði í botnbaráttunni (!), þar af fjórir sem eru miðverðir að upplagi.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta var hræðilega léleg frammistaða hjá liðinu í gær. Mér fannst Evertonliðið spila eins og það hugsaði meira um að tapa ekki heldur en að reyna að vinna leikinn.
    Everton byrjaði auðvitað leikinn með sex varnarmenn í byrjunarliðinu og eiginlega bara þrjá sóknarþenkjandi leikmenn, en ég held samt ekki að það hafi verið vandamálið. Bæði Coleman og Digne eru mjög sóknarsinnaðir bakverðir og reyndar fannst mér Coleman vera okkar hættulegasti maður framávið og sá eini sem var að reyna að gera eitthvað til að skapa hættu. Ég held að vandamálið sé það að menn eru sprungnir. Meiðsli og þétt leikjaplan hafa tekið of stóran toll og nú blasir ekkert annað við en að reyna að halda liðinu í topp tíu.
    Ég tek venjulega ekki mikið mark á því þegar fyrrverandi leikmenn annara liða eru að tjá sig um Everton, en Gary Neville sagði eitthvað á þá leið að það væri ekki hægt að telja Everton með þegar væri verið að ræða baráttuna um Evrópusætin, því Everton skítur alltaf upp á bak þegar á reynir. Gary Neville er óþolandi apaköttur en þetta er bara því miður hárrétt hjá honum.
    Við hefðum getað hoppað upp fyrir Tottenham með sigri og síðan breikkað bilið á föstudaginn. Í staðinn erum við ennþá í áttunda sæti og ekki nóg með það, Arsenal er bara þremur stigum á eftir okkur og ég er ekki í nokkrum vafa um að eftir næstu umferð verða þeir komnir upp fyrir okkur.
    Vonandi tekst liðinu þó að hanga á þessum slóðum en miðað við spilamennsku liðsins í síðustu leikjum þá er það kannski að ætlast til of mikils.

    Það er nokkuð ljóst að Everton verður að styrkja sig verulega í sumarglugganum og vonandi verður slakað á FFP regluruglinu svo það verði hægt. Ancelotti hefur sagt að hann vilji fá tvo eða þrjá nýja menn fyrir næsta tímabil, ég vona að hann sé að grínast því okkur vantar amk fjóra, jafnvel fimm. Hægri bakvörð, hægri kantmann, sóknarmann, miðjumann og jafnvel markvörð. Þetta eru þær stöður sem ég vil sjá nýja menn keypta í fyrir næsta tímabil.
    Hvað finnst ykkur Evertonmenn og konur?

  6. AriG skrifar:

    Sammála Ingvari. Nýjasta slúðrið að Everton kaupi Koulibaly frá Napóli og Terri Mina fari sem hluti af kaupverðina. Finnst hann frekar gamall 29 ára en örugglega góður. Finnst Terri Mina hafa verið mjög góður undanfarið en er oft meiddur svo ég mundi alveg vilja þessi skipti ef það er ekki of dýrt. Finnst aðalatriðið að kaupa Max Aarons ungur og hentar Everton örugglega. Erum með nóg af varnarsinnuðum miðjumönnum þurfum að losa við einhverja áður en Everton kaupir einhvern. Hægri vængmann ekki spurning en hvern einhvern ungan? Sóknarmann já ef Moise Kean fer en hvern sé ekki tilganginn að halda Joshua King. Markvörð já ef Svíinn fer. Núna væri ráð að nota ungu strákanna meira tel Everton hafi enga burði að keppa um topp 6 núna nema eitthvað óvænt skeður.

  7. Gestur skrifar:

    Ingvar hefur margt til síns máls eins og alltaf. Miðjumanna kaup Everton síðustu ár hefur verið hörmung. Síðastur var keyptur í vetrarglugga King sem hefur ekki getað neitt. Í síðasta sumarglugga voru keyptir Doucouré sem er fínn en er meiddur eins og er, Rodriguez sem er ágætur á góðum degi en þeir eru of fáir og Allan sem er mikið meiddur og bara orðin af gamall. Í sumararglugganum 2019 voru keyptir Iwobi kemst yfirleitt ekki í byrjunarliðið, Gbamin við vitum nú allt um hann, Delph algjör mistök að fá hann, Gomes, heillar mig ekki mikið og Bernard sem kemst ekki í byrjunarliðið. 24.júli 2018 er svo keyptur Richarlison sem er afburðar-leikmaður í þessu lið, hefur samt verið í lagð í vetur þar á undan var keyptur Walcott sem er farinn. Fyrir alla þessa leikmenn var borgað 172m. punda. Við erum að tala um 11 leikmenn. Það hefur verið farið rosalega ílla með pundið og allir nema tveir mega fara. Einnig hafa verið seldir miðjumenn sem hafa ekki staðið sig á þessu tímabili. Ég vona að þetta fari að breytast.