Everton – Crystal Palace 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton tók á móti Crystal Palace á heimavelli kl. 17:00 í dag og gat með sigri viðhaldið sterkri von um að komast í Meistaradeildina á næsta tímabili. Ef sigur hefði unnist hefði liðið verið aðeins tvö stig frá fjórða sæti (eftir að Chelsea menn misstigu sig í síðasta leik), sem hefði verið ákjósanlegt því Everton átti leik til góða á þá (og hin liðin) til góða. Þessi leikur í dag hins vegar heimaleikur, sem hefur ekki reynst okkar mönnum sterkur undanfarið og sama var uppi á teningnum í dag.

Crystal Palace menn voru að sigla lygnan sjó um miðja deild, þurtu aðeins einn sigur í síðustu 9 leikjum sínum til að ná 40 stigum, sem er stigafjöldinn sem liðin horfa yfirleitt til til merkis um að vera öruggir frá falli.

Uppstillingin: Olsen, Kean, Mina, Holgate, Digne, Coleman (fyrirliði), Davies, Gomes, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virgínia, Tyrer, Nkounkou, Broadhead, Godfrey, John, Gbamin, Gylfi, King.

Sem sagt, fjórar breytingar frá liðinu sem mætti Manchester City í bikarnum. Stóru fréttirnar þær að Rodriguez kemur aftur í liðið og Gylfi fer á bekkinn. Virgínia og Godfrey settir á bekkinn og Allan er ekki í hóp í dag en Gbamin er hins vegar á bekknum. Sýnist þetta stefna í 3-5-2 með Digne og Coleman sem wingbacks. En þá að leiknum…

Everton fékk dauðafæri strax á 6. mínútu þegar Milivojevic, varnarmaður Crystal Palace sem var einn af öftustu mönnum, lét Gomes stela af sér boltanum. Gomes sendi fljótt fram á Richarlison sem kom á hlaupinu og komst inn í teig og virtist bara eiga eftir að skjóta á mark, en reyndi sendingu til hliðar inn í teig á Calvert-Lewin sem tókst ekki. Var svo sjálfur dæmdur rangstæður í aðdragandanum (upphaflega sendingin frá Gomes).
Eze átti fyrsta skot Palace að marki, en auðveldlega varið hjá Olsen út við stöng og kastaði sér á boltann. En þá tók Everton við og skapaði nokkur dauðafæri í röð.

Tvisvar á um 20. mínútu áttu leikmenn Everton að setja mark — fyrst Calvert-Lewin þegar Holgate sendi frábæra langa sendingu fram þar sem Cahill, miðvörður Palace, var steinsofandi og hleypti Calvert-Lewin inn fyrir sig. Markvörður Palace kom hins vegar alla leið út að teiglínu og náði að blokkera skotið. Richarlison átti örskömmu síðar skalla eftir háa fyrirgjöf frá Coleman frá hægri en boltinn rétt yfir slána.

Richarlison komst svo einn inn fyrir vörnina stuttu síðar en lét markvörð verja frá sér í tvígang. Ótrúlegt að Everton væri ekki komið yfir.

Á 30. mínútu þurfti Andre Gomes að fara út af vegna meiðsla og kom Gylfi þá inn á fyrir hann.

Á 45. mínútu skapaði Rodriguez skallafæri fyrir Richarlison eftir háa aukaspyrnu inn í teig frá vinstri en Richarlison skallaði yfir. Ekkert að ganga hjá Richarlison í fyrri hálfleik en hann hafði stuttu áður tekið aukaspyrnu af Gylfa/Rodriguez og sett boltann í sveig, rétt framhjá samskeytum hægra megin.

0-0 í hálfleik — ótrúlegt en satt! Everton ætti líklega að vera svona tvö til þrjú núll yfir. Palace menn töluvert með boltann en ekki að skapa nein færi. Everton að skapa fullt af dauðafærum en fara afar illa með þau. Palace menn ekki með nægilega skapandi menn á miðjunni og þeirra plan að finna framherjana við hvert tækifæri og vona að þeir myndu galdra eitthvað upp úr hatti sínum.

Minna um færi í seinni hálfleik en Everton átti eitt skot á mark sem breytti um stefnu af varnarmanni og fór út af. Hefði getað endað hvar sem er.

Richarlison og Digne náðu vel saman með þríhyrningi vinstra megin, sem skildi bakvörð og miðjumann Palace eftir í rykinu. Digne komst inn í teig og sendi lágan bolta fyrir sem Gylfi, alveg upp við mark, náði að nýta til að skjóta á mark.

Markvörður Palace varði vel, hins vegar, en boltinn barst til Coleman sem var hægra megin, upp við endalínu. Hann leit upp og sá Rodriguez koma á hlaupinu og sendi út í teig á hann. Rodriguez brást ekki bogalistin heldur þrumaði inn með einhverjum ótrúlegum hætti — virtist ómögulegt að skora en samt tókst honum að smeygja boltanum alveg inn við stöng. 1-0 fyrir Everton!

Á 57. mínútu setti Richarlison svo Calvert-Lewin inn fyrir vörnina með flottri stungusendingu en aftur varði markvörður Palace ótrúlega.

En Palace menn gerðust áræðnari eftir því sem á leið. Þeir náðu fyrsta almennilega skoti sínu á mark á 62. mínútu — fast skot af löngu færi (við horn teigs) frá Eze sem Olsen varði með því að slá út til hliðar til vinstri.

Palace menn komust í skyndisókn eftir smá misskilning á milli Tom Davies og Rodriguez þegar sá fyrrnefndi reyndi sendingu á þann síðarnefnda en tókst ekki (líklega reyndar brotið á Rodriguez). Zaha komst inn í sendinguna og brunaði inn í teig. Reyndi að komast í skotfæri en umkringdur af varnarmönnum Everton sem höfðu gert vel að hlaupa til baka og blokkera skotið.

Coleman fór út af á 75. mínútu fyrir Ben Godfrey og skömmu síðar fór Rodriguez út af fyrir Gbamin.

Á 80. mínútu fékk Richarlison enn eitt dauðafærið upp við mark. Há sending utan af kanti hægra megin frá Calvert-Lewin, beint á Digne sem var á auðum sjó vinstra megin í teignum. Digne sendi stutt á Richarlison sem var nálægt marki en hitti boltann illa. Ekki nógu illa þó, var næstum búinn að fara í sveig yfir markvörð sem þurfti að taka á honum stóra sínum til að verja í horn, sem hann náttúrulega gerði.

Öll þessi dauðafæri sem fóru forgörðum reyndust okkar mönnum ansi dýrkeypt því Batshuuyai kom inn á og, stuttu síðar, komst inn fyrir vinstra megin og skoraði jöfnunarmarkið í hliðarnetið á 87. mínútu.

Calvert-Lewin setti Richarlison inn fyrir hægra megin á 88. mínútu en skotið, yfir á fjærstöng vinstra megin, ekki nógu fast og markvörður varði vel. Enn á ný.

1-1 því lokastaðan.

Ömurleg úrslit og frábært tækifæri til að saxa á forskot Chelsea fór forgörðum. Ótrúlegt að vinna ekki þennan leik — algjört rán um hábjartan dag hjá Palace. 

Einkunnir Sky Sports: Olsen (6), Coleman (7), Holgate (7), Keane (6), Mina (7), Digne (7), Davies (6), Andre Gomes (6), James (7), Calvert-Lewin (7), Richarlison (7). Varamenn: Sigurdsson (7), Godfrey (6), Gbamin (6).

Maður leiksins var markvörður Crystal Palace, með 8 í einkunn.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Af fenginni reynslu þá ráðast úrslitin af því hvort liðið skorar fyrst. Ef Everton skorar fyrst þá vinnum við þetta líklega, en skori Palace á undan þá töpum við. Ég held reyndar að þetta fari 1-1.

  2. Ari S skrifar:

    Vel gert hjá Gomes að ná bolranum en ekki alveg nógu vel gert að sjá ekki að Richarlison var rangstæður. Á 6. Min

  3. Gestur skrifar:

    Annar drulluleikur hjá Everton

  4. Eirikur skrifar:

    Framherjarnir okkar tveir, okkar lélegustu menn í dag.

  5. Gestur skrifar:

    Það tekst aldrei að ná í 19stig með svona frammistöðu

  6. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Týpískt Everton!!😤🤬 DCL og Richarlison gætu fjandinn hafi það ekki skorað í rauða hverfinu. Þetta var algjör skita. Djöfull er ég ógeðslega pirraður yfir þessu, en þetta er víst bara það sem við þurfum að þola meðan verið er að byggja upp lið sem getur eitthvað.

  7. AriG skrifar:

    Furðulegur leikur. Hef aldrei séð leikmenn Everton klúðra svona mörgum dauðafærum. Fannst Terri Mina bestur fyrir utan markvörð Crystal Palace. Ótrúlegt að vinna ekki þennan leik. Til hvers var samið við Joshua King spilar næstum ekkert og versti leikur Calvert Lewin í vetur. Tom Davids var ekki góður átti fullt að misheppnuðum sendingum. Richarlison hefði getað skorað 3 mörk en hann reyndi þó að skora var hættulegasti leikmaður Everton. Er Allen aftur meiddur?

  8. Finnur skrifar:

    Þú sólar ekki Ben Godfrey:
    https://twitter.com/FIVE__YARDS/status/1380159112294629378

    Skemmtileg tölfræði.