Everton – Watford 1-0

Mynd: Everton FC.

Uppstillingin: Pickford, Digne, Mina, Keane, Coleman (fyrirliði), Gbamin, Gomes, Bernard, Gylfi, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Lössl, Holgate, Davies, Walcott, Iwobi, Tosun, Kean.

Everton mætti Watford á vindasömum degi á Goodison Park í dag, í fyrsta heimaleik Everton á tímabilinu.

Ritari missti af fyrstu fimm mínútum leiksins sökum bíls sem bilaði í Hvalfjarðargöngunum, en af lýsingu BBC lítur út fyrir að ekki hafi mikið markvert gerst.

Það dró þó til tíðinda á 10. mínútu þegar Everton komst í skyndisókn eftir langa sendingu fram á Bernard sem var á auðum sjó á vinstri kanti. Hann komst inn í teig, leit upp og sá að liðsauki myndi ekki berast nægilega fljótt og lét því vaða. Boltinn í gegnum klofið á einum varnarmanni, breytti um stefnu af öðrum og inn við nærstöng framhjá Forster í marki Watford. 1-0 Everton. Uppfært 22:50: Var ekki viss hver átti sendinguna fram á Bernard en að sjálfsögðu var það Digne. Sturluð sending.

Everton beittari eftir markið en Watford fengu þó gott færi á 24. mínútu, eiginlega gegn gangi leiksins, eftir hornspyrnu þar sem boltinn barst hár yfir á fjærstöng og leikmaður Watford skallaði í slána.

Calvert-Lewin vildi víti mínútu síðar, þegar hann féll við í teignum. Mér sýndist varnarmaður toga aðeins í hann þegar Calvert-Lewin sneri sér, sem gerði það að verkum að hann missti jafnvægið. Dómarinn í góðri aðstöðu til að sjá það en dæmdi ekkert. Þulirnir sammála honum.

Watford menn juku pressuna er á leið hálfleikinn og Deulofeu vildi fá víti á 36. mínútu þegar hann hrundi niður eftir viðskipti við Mina. Virkaði mjög lítil snerting,ef einhver, og dómarinn viss í sinni sök. VAR kerfið var sammála honum.

Richarlison fékk frábært færi upp við mark eftir aukaspyrnu frá Gylfa á 41. mínútu. Fékk frían skalla en náði ekki að stýra honum á mark — skallaði yfir.

Hinum megin áttu Watford færi eftir frábæra aukaspyrnu frá Deulofeo frá vinstri yfir á fjærstöng. Capou nálægt því að pota inn við fjærstöng en náði ekki til boltans.

Everton með eins marks forskot í hálfleik. 1-0.

Watford menn byrjuðu seinni hálfleik af miklum krafti og náðu að setja pressu á Everton. En vörn Everton hélt og ekkert kom út úr því.

Watford komust í skyndisókn á 56. mínútu sem endaði með stungusendingu frá Deolufeo á Troy Deeney sem komst einn á móti markverði en þrumaði boltanum beint í andlitið á Pickford og þaðan í innkast.

Richarlison komst aftur í flott skallafæri á 60. mínútu eftir aukaspyrnu frá Gylfa hægra megin en líkt og í fyrra skiptið þá skallaði hann yfir, óvaldur með frían skalla á mark. Hefði átt að gera betur þar og honum var skipt út af fyrir Walcott örfáum mínútum síðar. Ekki besti leikur Richarlison.

Tvöföld skipting á 72. mínútu: Moise Kean inn á fyrir Calvert-Lewin í sínum fyrsta leik fyrir framan áhorfendur á Goodison Park og Digne fór einnig út af meiddur fyrir Holgate. Holgate tók stöðu hægri bakvarðar og Coleman því vinstri.

Watford svöruðu með því að skipta inn tveimur sóknarmönnum og fara í 4-2-4. Þetta jók mikið á sóknarþunga Watford, en ekki náðu þeir að skapa sér færi. Þeir fengu hins vegar næstum því blauta tusku í andlitið þegar Everton sneri vörn í skyndisókn og Moise Kean komst upp vinstri kant, lék á varnarmann en skotið slakt og nokkuð framhjá.

Moise Kean var hársbreidd frá því að opna markareikninginn þegar hann fékk sendingu frá Bernard, sem hafði náð að vinna boltann af varnarmanni Watford. Kean tók í fyrstu snertingu flottan snúning við D-ið á vítateignum, sem lék á varnarmann, og náði skoti sem sleikti utanverða stöngina vinstra megin. Markvörðurinn hefði ekki átt séns ef boltinn hefði verið hinum megin við stöngina.

Engin færi eftir það og Everton sigldi þessu í höfn. 1-0 sigur á heimavelli. Eða eins og BBC orðuðu það: „It’s all over, and Everton win at home again!“

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (6), Keane (6), Mina (7), Digne (6), Gbamin (7), Gomes (6), Gylfi (7), Richarlison (5), Bernard (7), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Walcott (6), Kean (6), Holgate (6). Leikmenn Watford voru með ívið lægri einkunnir en enginn náði hærra en 6 hjá þeim (skiptist nokkuð jafn, fimmurnar og sexurnar). Bernard var valinn maður leiksins.

13 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Sigur í höfn og þrjú stig. Frábært að byrja tímabilið á sigri í fyrsta heimaleiknum. Og halda hreinu í annað sinn á tímabilinu. Vörnin fín og Keane og Mina góðir saman.

  Jean-Philippe Gbamin var fínn að mínu mati miðað við aðstæður hjá honum. Sérstaklega gaman að sjá hann vinna smá einvígi við Doucoure eitt sinn. Doucoure er frábær leikmaður sem að ég vona að komi til okkar á næstunni.

  Gylfi ekki alveg kominn í sinn gír en var mikilvægur síðustu mínúturnar þegar vi þurftum að halda boltanum. Eins var fallegt að sjá um leið og Moise Kean kom inná þá komst hann í færi… reyndar tvö svona næstum því dauðafæri sem er frábært finnst mér.

  Þetta er ekki umsögn um leikin heldur skrifa ég það sem mér dettur í hug svona strax eftir leik. En umfram allt annað þá er ég ánægður með stigin þrjú.

  • Ari S skrifar:

   Þriðja umferðin hefst á föstudaginn með leik Aston Villa og Everton. Orri vinur minn hringdi í mig áðann og við ræddum fram og til baka um Everton og meðal annars hversu mikilvægt það er að byrja mótið VEL…

   Við gleymdum að minnast á að EF að Everton vinnur Aston Villa þá erum við í efsta sæti allavega fram á næsta dag.

   Skemmtileg hugleiðing og nú má ekki slaka á og lenda í einhvers konar „fulham“ gír…

   kv. Ari.

   • Ari S skrifar:

    Eruð þið Zombies?

    Gestur, Ingvar, Diddi og hinir? Við vinnum fyrsta leik á tímabilinu og allir bara fu“#ing sofandi?

    Ef við hefðum tapað eða að Watford hefði jafnað í lokin þá hefðu verið komin svona 30 komment hérna. Mitt álit.

    kær kveðja, Ari.

    ps. Diddi meistari er náttúrulega með skoðun á þessu er það ekki?

    • Einar Gunnar skrifar:

     Sá ekki leikinn hér á Tene en frábær úrslit og verður gaman að sjá liðið safna enn fleirum stigum 🙂

    • Ingvar Bæringsson skrifar:

     Rólegur Ari, fáðu ekki hnút á brókina😉
     Ég var ekki sattur með hvað við hleyptum Watford inn í leikinn svona seinustu 20 mínúturnar í fyrri hálfleik og eins í seinni hálfleik. Mér fannst við ekki hafa nógu góða stjórn á leiknum og máttum þakka Pickford fyrir að við hirtum 3 stig í dag.
     Hins vegar var ég mjög sáttur með nýju mennina okkar í leiknum og vörnin var góð. Mér fannst við ekki hafa nógu góða stjórn á miðsvæðinu en ég er viss um að það mun breytast eftir því sem Gbamin aðlagast betur. Kean var mjög öflugur þegar hann kom inná og var óheppinn að skora ekki. Hann á eftir að reynast kjarakaup.
     Gylfi var slappur í dag en þó betri en í síðasta leik, hef ekki áhyggjur af honum. Richarlison var hræðilegur, kannski þarf hann bara að ná að skora og þá hrekkur hann í gang. DCL gerði það sem hann gerir best, því miður er það ekki að skora mörk en hann var sívinnandi en hann þarf að fara að setj’ann.
     Ég er ánægður með sigurinn en hann hefði mátt vera stærri og spilamennskan betri, finnst menn enn hálf ryðgaðir eftir sumarfríið.

     • Ari S skrifar:

      Ég bið alla afsökunar á leiðinlegum ummælum mínum … leiddist bara hvað allir voru rólegir hérna.. kær kveðja, Ari… 🙂

    • Gestur Rafnsson skrifar:

     Já það gæti verið rétt hjá þér Ari. En ég hef ekki verið heima og ekkert gert fyllst með en nú er ég mættur.

 2. Georg skrifar:

  Mikilvægt að vinna fyrsta heimaleikinn og að halda aftur hreinu. Mina er að byrja tímabilið frábærlega verður að segjast. Markið okkar var glæsilegt, frábær sending hjá Digne og Bernard með gott mark, vonandi skorar hann meira í vetur en í fyrra.

  Mosie Kean kom inn á fyrir DCL á 72. mín og var ansi líflegur, fékk 2 góð færi á þessum ca. 20 mín sem hann var inn á, DCL átti ekki skot í leiknum sem verður að teljast áhyggjuefni. Kæmi mér ekki á óvart að Kean byrji næsta leik.

  Gbamin í fyrsta sinn í byrjunarliðinu, kom betur frá þessum leik en þeim fyrsta, hann á bara eftir að verða betri.

  Gylfi var frekar rólegur í leiknum, átti þó 2 glæsilegar aukaspyrnur sem Richarlison skallaði yfir í bæði skiptin.

  Útileikur gegn Villa næsta föstudag, 3 stig þar væru vel þegin 🙂

 3. þorri skrifar:

  flottur sigur.En sá ekki leikinn nema hluta til en sá markið og það var flott. Nú er þetta bara upp á við ég held það bara.Þetta lítur betur út en í fyrra þá á ég við liðið og breidina nú er meiri barátta um sæti í liðinu.Þetta er bara jákvætt og skemmtilegt.Er að fara til noregs og vonandi get ég sé leikinn þar og sjá góðan sigur á Astonvilla.Ég er bjarsínn en þú ÁFRAM EVERTON

 4. Finnur skrifar:

  Pickford og Bernard í liði vikunnar að mati BBC:
  https://www.bbc.com/sport/football/49388521

 5. Georg skrifar:

  Everton hefur ekki fengið á sig mark síðan 6. febrúar á Goodison Park. Ansi mögnuð tölfræði. Þarna inni eru t.d. leikir á móti Liverpool, Chelsea, Arsenal og Man Utd.
  Everton hefur haldið markinu hreinu í 10 af síðustu 13 deildarleikjum.

 6. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Jæja!!
  Aston Villa á útivelli í kvöld og við getum komist á toppinn með sigri.
  Það vita allir hvað það þýðir……….tap eða í besta falli jafntefli.
  Ég spái Villa sigri 3-1.

  • Ari S skrifar:

   En ef við vinnum Ingvar ætlar þú þá að vera bjartsýnn í næsta leik á eftir?

   Ég spái 0-3 og DCL verður í stuði og gerir 3 mörk.