Aston Villa – Everton 1-3

Mynd: Everton FC.

Everton mætti lánlausu liði Aston Villa í kvöld og unnu sannfærandi 1-3 sigur á útivelli þrátt fyrir að Everton liðið næði ekki að sýna sínar bestu hliðar. Maður fann hálfpartinn til með Villa liðinu, sem maður vill eiginlega alls ekki sjá fara niður um deild, en það er erfitt að sjá hvar þeir eiga að fá stigin því þeir eiga eftir að spila við 6 af 8 efstu liðunum í deildinni í síðustu 10 leikjum sínum. En á móti var gott að sjá Everton liðið vinna sigur þrátt fyrir að leika illa á köflum. Það er ekki síður mikilvægt að vinna þá leiki líka.

Uppstillingin: Robles, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Mirallas, Barkley, Lennon, Lukaku. Varamenn: Howard, Baines, Stones, Osman, Deulofeu, Kone, Niasse.

Everton liðið fékk óskabyrjun í leiknum þegar þeir fengu horn á 5. mínútu sem Oviedo tók og Mori skallaði inn óvaldaður. Einfalt og auðvelt og allt leit vel út til að byrja með. Everton með boltann 70% vs. 30% frá Villa eftir 15 mínútuna leik.

Everton fór þó aldrei úr 3. gír og Villa virtust um tíma vera að ná undirtökunum eftir þetta þar sem Everton liðið reyndist mistækt og menn lítið að vanda sig við sendingar sem hleypti Villa inn í leikinn og gaf þeim nokkur skot á á markið á milli 20. og 30. mínútu leiks. Robles þó vandanum vaxinn.

En besta ráðið við því er náttúrulega bara að setja mark á andstæðinginn og eftir eina sókn Villa gerði Everton liðið akkúrat það: náðu flottri skyndisókn og skoruðu. Barkley með glæsilega sendingu fram, sá hlaupið hjá Mirallas upp völlinn aðeins til vinstri við miðjupunktinn. Sá tók á sprettinn inn í vítateig, sendi lága sendingu fyrir mark þar sem Lennon kom á hlaupinu, óvaldaður af tveimur varnarmönnum Villa og skoraði auðveldlega í gegnum klofið á Guzan með smá breytingu á stefnu af Lescott. 0-2 Everton.

Everton liðið hefði getað bætt við marki á 32. mínútu eftir mistök frá Guzan en skotið frá Oviedo var hreinsað á línu (af Lescott að mér sýndist).

Everton 0-2 yfir í hálfleik, þrátt fyrir að hafa ekki sýnt sínar bestu hliðar.

Lítið að gerast í seinni hálfleik þangað til Lukaku hefði með réttu átt að skora á 60. mínútu. Fékk frían skalla á mark sem Brad Guzan varði með ótrúlegum hætti í horn. Einhvern veginn hafði maður þó á tilfinningunni að Lukaku myndi eftir allt saman skora upp úr horninu og það varð nákvæmlega raunin. Funes Mori fékk boltann frá Lennon upp hægra megin í vítateig þar sem sá fyrrnefndi var á algjörlega auðum sjó og hafði allan tímann í heiminum til að senda fyrir mark og gerði það frábærlega. Fastur bolti fyrir framan markvörð Villa sem Lukaku þurfti bara að pota inn með lærinu. Staðan 0-3 fyrir Everton og miðvörður okkar, Mori, þar með kominn með bæði stoðsendingu og mark í leiknum. Og hann var ekki langt frá því að bæta við síðar!

Stones var skipt inn á fyrir Coleman á 73. mínútu og maður hélt að hann færi í hægri bakvörðinn en Martinez breytti í staðinn úr fjórum varnarmönnum í þrjá plús „wingbacks“ (Oviedo og Lennon). Skipulagið riðlaðist hins vegar svolítið þegar Oviedo fór út af meiddur þegar rétt rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum og áður en Everton náðu að skipta Baines inn á fyrir hann þá náðu Villa menn manni fleiri að skora mark. Varamaður þeirra, Rudy Gestede, vann skallaeinvígi við bæði Jagielka og Stones og skallaði fyrirgjöf frá hægri í markið. Staðan þar með 1-3 fyrir Everton.

Mirallas fór út af fyrir sóknarmanninn Niasse, nýjasta leikmann Everton, undir lokin og sá síðarnefndi fékk þar sínar fyrstu (örfáu) mínútur í Úrvalsdeildinni. Markmiðið þar að koma honum í leikform og við hljótum að gefa honum nægan tíma til að sanna sig.

Guzan átti svo algjörlega frábæra vörslu frá Mori rétt undir lokin þar sem Everton hefði átt að bæta við marki en við kvörtum svo sem ekki. 1-3 sigur í höfn og Everton þar með komið í 10. sæti, og sendu þar með Liverpool í neðri hluta deildar. Þetta er fljótt að breytast í deildinni og Everton aðeins einum sigri frá því að stökkva upp í 7. sæti — upp fyrir Southampton, sem töpuðu í kvöld, en Everton á einmitt leik til góða á þá.

Einkunnir Sky Sports: Robles (7), Oviedo (7), Mori (8), Jagielka (7), Coleman (7), McCarthy (7), Barry (7), Lennon (9), Barkley (8), Mirallas (8), Lukaku (8). Varamenn: Baines (5), Stones (5), Niasse (5). Villa menn með fimmur og sexur á línuna, fyrir utan einn í byrjunarliðinu (Cissokho með 7).

Minnum jafnframt á Íslendingaferðina í lok apríl.

10 Athugasemdir

  1. Gestur skrifar:

    Þá vitum við hver kemur fyrst inná

  2. Elvar Örn skrifar:

    Enn einn útisigur hjá Everton og eru í 4 sæti ef útileikir eru eingöngu til stiga og eiga leik inni.
    Vel gert að skora 3 mörk og hefðum hæglega getað gert 2-3 til viðbótar en Guzan varði t.d. frábærlega frá Lukaku og Funes Mori í leiknum.
    Við slökuðum heldur mikið á þegar við vorum komnir í stöðuna 0-3 en ekki hægt að kvarta yfir úrslitunum.
    Mikilvægur heimaleikur næstu helgi gegn West Ham og með sigri þar erum við hættulega nærri Evrópusæti, maður lifir amk í voninni að hlutirnir séu á uppleið ekki síst í ljósi nýs eiganda Everton.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Funes Mori verður bara betri með hverjum leik, svakalega flottur í dag.
    Frábært að sjá Mirallas loksins byrja og kemur sterkur inn með tvær stoðsendingar og á alltaf flottar marktilraunir eða mörk.
    Lukaku ferskari en að undanförnu og Lennon mjög flottur sem og Barkley.

  4. Elvar Örn skrifar:

    Er ekki svolítið sérstakt að menn geta eytt fjölda kommenta til að gagnrýna og kvarta þegar það kemur pistill eftir tap hjá Everton en nú er einungis einn búinn að kommenta (fyrir utan mig) eftir ágætan sigurleik?

    Hefði haldið að það væri aðeins meiri drifkraftur í mönnum eftir þær svakalegu fréttir að álitlegur milli hefði verið að kaupa klúbbinn og stefndi á að setja góðan pening í klúbbinn og svo var Besic að framlengja.

    Everton með 3 sigra í seinustu 4 leikjum og eru enn inni í FA bikarnum. Mjög góð markatala en þó bara um miðja deild. Um að gera að enda þetta bara vel og halda í okkar bestu menn og bæta við fáum en hágæða leikmönnum í sumar.

    Koma svo elsku jákvæðu félagar.

    Já og ég og Georg ætlum í Everton ferðina í næsta mánuði, stefnum á að bóka okkur á morgun, verður svakalegt.

  5. Gestur skrifar:

    Já hvar eru allir?

  6. Ari G skrifar:

    Frábær sigur. Flottur leikur nema síðustu 20 mín. Flott að það er kominn nýr eigandi sem á peninga. Bjartir tímar framundan bikar í vor og toppbarátta hjá Everton næstu ár.

  7. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gott að fá 3 stig, en frammistaðan hefði gjarnan mátt vera betri. Mér fannst Villa ná fullmikilli pressu á okkur á köflum þar sem okkar menn bökkuðu heldur mikið. Betra lið hefði refsað okkur fyrir það.
    Okkar bestu menn í gær fannst mér vera Móri, Lennon, Robles og Barry. Mirallas líka fínn með tvær stoðsendingar.
    West Ham næst og ef menn ætla að vinna þann leik þá verða þeir að spila betur en í gær. Vonandi gera þeir það.

  8. Gestur skrifar:

    Það var gott að fá 3 stig úr þessum leik, Oviedo var mjög sprækur í leiknum sótti mikið fram sem þarf að fá frá bakverði. En hvað var það að skipta Stones fyrir Coleman? Mér fannst allt skipulag hrynja við það. Lennon sprækur og líka Mirallas, skil ekki afhverju hann hefur ekki verið notaður meira í vetur? Þó að Everton sé að sigra eitthverja leiki núna hækkar liðið ekkert á töfluni og Chelsea komið fram úr okkur. Everton þarf að fara að eiga etthvert rönn ef við eigum ekki að enda á seinni töflunni annað árið í röð.

  9. Georg skrifar:

    Mjög flottur sigur, hinsvegar gáfum við óþarflega mikið eftir síðustu 20 mín í stað þess að halda áfram að hamra á þeim. 3 mjög góð mörk og hefðu getað verið fleiri.

    Það er gaman að glugga í tölfræðina þegar skoðað er hvaða miðvarðarpar og hvaða miðvörður er að standa sig best í vetur. Funes Mori er að koma nýr inn í þessa gríðarlega sterku deild en er smám saman að verða einn af manns uppáhalds leikmönnum. Hann gefur ekki tommu eftir, gríðarlega harður af sér, mjög öflugur varnarlega og mjög öflugur í loftinu bæði í vörn og sókn. Þessi fína grein frá liverpoolecho ber þarna saman miðverðina okkar og kemur Mori í flestum tilvikum best út og Jagielka og Mori mynda sterkasta miðvarðarparið.
    http://www.liverpoolecho.co.uk/sport/football/football-news/ramiro-funes-mori-evertons-best-10987386

    Samkeppni er klárlega af hinu góða og gerir menn bara betri. Mori var aldrei ætlað að spila svona stóra rullu strax á fyrsta tímabili og eflaust ætlaður sem arftaki Jagielka í vörninni á næstu 2-3 tímabilum en þar sem bæði Jageilka og Stones hafa verið meiddir hefur hann fengið sénsinn og heldur betur nýtt hann vel. Nú er Martínez með þann mikla hausverk að þurfa halda Stones á bekknum.

    Samkeppnin hefur líka komið af hinu góða frá Joel Robles í markinu og svo Lennon. Báðir þurftu þeir að vera á bekknum meira og minna framan af tímabili og fengu lítinn séns, hinsvegar hafa þeir báðir heldur betur staðið sig vel í síðustu leikjum og slegið Howard og Deulofeu úr liðinu. Oviedo hefur líka haldið Baines úr liðinu í síðustu leikjum, en Martínez gaf það þó út að Baines er ekki ennþá búinn að jafna sig nógu vel eftir aðgerð á ökkla og er ennþá að finna sársauka þegar hann spilar sem er ekki gott.

    Við eigum gríðarlega mikilvægan leik næstu helgi gegn West Ham og þurfum við sárlega að vinna þann leik til að eiga einhvern möguleika að ná evrópusæti, 6. sæti er nú orðið evrópusæti eftir að Man City vann úrslitaleikinn í Carling Cup. Eigum einnig inni leik gegn Liverpool og sigur í þessum 2 leikjum myndi heldur betur koma okkur í þessa baráttu.

  10. ólafur már skrifar:

    flottur sigur á Aston Villa og vonandi höldum við áfram á sigurbraut og flott að fá þennan milla sem að keypti hluta í klúbbnum það var kominn tími til og verður gaman að sjá framhaldið en COYB