Everton vs. Dynamo Kiev

Mynd: Everton FC.

Everton mætir Dynamo Kiev í 16 liða úrslitum Europa League en þetta mun vera í fyrsta skipti sem þessi tvö lið mætast. Fyrri leikurinn er á Goodison Park annað kvöld (fimmtudagskvöld) kl. 20:05 en sá síðari viku síðar í Úkraínu.

Dynamo Kiev unnu sinn riðil auðveldlega með því að vinna alla sína leiki (nema einn) með tveimur mörkum eða meira, bæði heima og heiman. Þeir mættu svo franska liðinu Guincamp í 32ja liða úrslitunum og töpuðu útileiknum 2-1. Komust 2-0 yfir heima og fengu svo á sig mark sem þýddi að staðan var jöfn 3-3 samanlagt. En víti sem þeir fengu (og skoruðu úr) á 75. mín réði úrslitum og þeir komust áfram í 16 liða úrslit og mæta nú Everton.

Þeir eru langstærsti klúbbur Úkraínu og gengur vel í úkraínsku deildinni — ósigraðir síðan deildin hófst (í 14 leikjum) — með fimm stiga forskot á næsta lið. Þeir eru jafnframt með 7 úr landsliði Úkraínu sem og knattspyrnumenn frá öðrum löndum. Stjóri þeirra, Serhiy Rebrov, tók við árið 2014 og hefur þegar gert þá að úkraínskum bikarmeisturum.

Eitthvað er að rofa til í meiðsladeildinni en Osman og Kone eru farnir að taka þátt í keppnisleikjum aftur. Baines og Atsu ættu jafnframt að vera orðnir góðir eftir að hafa verið frá í síðustu leikjum og John Stones hefur tekið út sína refsingu eftir rauða spjaldið sem hann fékk gegn Young Boys. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Barkley, Mirallas, Naismith, Lukaku.

Hjá Dynamo Kiev eru Yevhen Selin, Jeremain Lens og Yevhen Makarenko meiddir, en Andriy Yarmolenko og Younes Belhanda sagðir í banni.

Everton hefur einu sinni áður mætt liði frá Úkraínu en það var tímabilið 2007/08 (Metalist Kharkiv) en Everton vann þær viðureignir samanlagt 4-3. Dynamo Kiev hafa aftur á móti ekki unnið í 11 tilraunum á útivelli gegn enskum liðum (tvö jafntefli og níu töp).

Lukaku er sá leikmaður keppninnar sem hefur átt flest skot sem rötuðu á markið og er hann næst-markahæsti leikmaður Europa League keppninnar með 6 mörk, tveimur færri en Alan hjá Salzburg (sem þegar eru dottnir út). Andriy Yarmolenko hjá Dynamo er í 6. sæti yfir flestar stoðsendingar í keppninni en hann mun vera í banni í leiknum vegna rauðs spjalds sem hann fékk í 32ja liða úrslitunum, eins og áður sagði en hann verður ekki í banni eins og talið var, því UEFA stytti bannið úr þremur leikjum yfir í einn.

Það verður mikilvægt að ná hagstæðum úrslitum úr fyrri leiknum, því útileikurinn verður afar erfiður og ekki gott að þurfa að vinna upp mörk á útivelli. Gengið í Europa League hefur verið draumi líkast hingað til og maður getur varla beðið eftir að sjá meira. Enda birti klúbburinn mjög svo skemmtilegt myndband yfir mörk Everton í keppninni hingað til sem gott er að rifja upp. Ítarleg greining Executioner’s Bong á Dynamo Kiev er hér.

Í öðrum fréttum er það helst að gamla kempan, John Ebbrell, var ráðinn þjálfari í akademíunni á dögunum en hann var, eins og kunnugt er, í Everton liðinu sem vann FA bikarinn árið 1995.

Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 liðið virtist vera á leið út úr Premier League International Cup keppninni þar sem þeir þurftu sigur á Sunderland U21 til að komast áfram í útsláttakeppnina. En þeir gerðu sér bara lítið fyrir og unnu 1-0 (sjá vídeó) með skallamarki frá Distin. Þeir mæta því Leicester í næsta leik í þeirri bikarkeppni. En stuttu síðar léku þeir svo við Liverpool U21 og töpuðu naumlega 1-2 á útivelli (sjá vídeó). Everton komust yfir með algjöru glæsilegu marki frá Ryan Ledson eftir að hafa opnað vörn Liverpool illa. Liverpool jöfnuðu með skalla eftir aukaspyrnu en Everton voru næstum búnir að svara að bragði með því að (aftur) opna vörn Liverpool illa. En markvörður þeirra bjargaði þeim vel með því að slengja fæti í boltann og Liverpool náðu svo að komast yfir rétt í blálokin.

En, það er Europa League leikur sem er næstur á dagskrá! Ekki missa af honum.

5 Athugasemdir

  1. þorri skrifar:

    Sælir félagar nú fer að líða á leik EVERTON.DYNAMO KIEV. Þetta verður án efa hörkuleikur.Og nú verðum við að nýta okkur heima völinn okkar.Þeir virðast nokkuð sterkir.Miða við gengi hjá þeim í deildinni.Ég held að martínes eigi að taka haward út og setja Joel inn þetta er mín skoðun orðuleiti er er sáttur með liði fyrir leikinn á morgun.Verð að vinna á morgun svo ég kemst ekki að hitta ykkur skemmti ykkur vel ég segi að við vinnum 2-0 fyrir okkar mönum

  2. Orri skrifar:

    Það er ekkert annað en sigur sem kemur til greina í þessum leik.

  3. Halli skrifar:

    Við Evertonmenn erum að verða stolt Englands í evrópukeppnum mér sýnist eins og öll önnur lið séu við það að detta út. 2-0 heimasigur þetta er okkar keppni.

  4. Ari G skrifar:

    Algjör skylda að vinna þennan leik helst með minnst 2 marka mun. Everton er sennilega eina liðið af ensku liðunum sem hefur góðan sjens að halda áfram keppni. Spái 3:1 fyrir Everton Lukaku, Naismith og Barkley með mörkin.

  5. Finnur skrifar:

    Uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=9032