Fulham vs. Everton

Everton mætir á erfiðan útvöll, Craven Cottage, kl. 15:00 í dag, laugardag til að mæta Fulham. Sú var tíðin að alltaf hægt var að stóla á sigur heimaliðs í þessum viðureignum. Skapaðist hefð fyrir þessu þegar Fulham komst upp í úrvalsdeildina tímabilið 2001/02 og hélst þessi hefð alveg þangað til í nóvember 2008 þegar Everton tók upp á því að vinna Fulham tvöfalt á tímabilinu en síðan þá hefur Everton aðeins tapað einum leik gegn Fulham og unnið fimm af síðustu 6 leikjum (einn endaði með jafntefli) með samanlagðri markatölu 13-4. Þrefaldur sigur náðist á síðasta tímabili þannig að Fulham menn koma örugglega mjög grimmir til leiks (myndin sýnir Cahill skora sitt síðasta mark fyrir Everton í síðasta leik okkar gegn þeim — 4-0 sigri á heimavelli). Þeir hafa farið vel af stað í ensku deildinni á tímabilinu og aðeins tapað einum af fjórum á heimavelli (unnu þrjá án þess að fá á sig mark) og geta með sigri komist einu stigi upp fyrir Everton. Okkar menn eru aftur á móti taplausir í 6 deildarleikjum í röð en síðustu þrír hafa endað með jafntefli. Executioner’s Bong fjallaði um Fulham mótherjana hér.

Everton þarf nauðsynlega að fara að breyta þessum sífelldu jafnteflum undanfarið í sigra til að heltast ekki úr lestinni á toppi deildarinnar en með jafnteflinu í derby leiknum hleypti Everton Tottenham upp fyrir sig (tóku af okkur 4. sætið). Maður hefur verið sáttur við spilamennskuna að mestu leyti í þessum jafnteflisleikjum og oft vantaði bara herslumuninn upp á að taka stigin þrjú. Frábært að sjá að aldrei hengja menn haus við að lenda undir né gefast upp við mótlæti heldur spýta í lófann og gera betur.

Mirallas, sem fyllti svo glæsilega í skarð Pienaars í derby leiknum var, eins og kunnugt er, skipt út af stuttu eftir að Suarez steig á fótinn á honum rétt fyrir hálfleik og kom ekki við sögu í þeim seinni. Þó Mirallas hafi yfirgefið Goodison Park á hækjum sýndi myndatakan hjá lækni að meiðslin væru ekki jafn slæm og óttast var í fyrstu. Moyes vonaðist því eftir því að geta nýtt hann í leiknum gegn Fulham. Spurning er jafnframt hvort Gibson sé orðinn nógu góður en ég er orðinn mjög langeygur að bíða eftir að hann komi til baka. Moyes sagði þó í viðtali fyrir leikinn að hann myndi ekki ná að spila. Fellaini og Neville eru báðir einu gulu spjaldi frá leikbanni í einn leik og þurfa að hafa sig hæga fram að áramótum þegar talningin hefst að nýju á núllinu. Pienaar hefur aftur á móti tekið út sitt leikbann og ef hann byrjar á morgun, sem fastlega má gera ráð fyrir, verður það 150. byrjunarleikur hans með Everton. Hjá Fulham er Berbatov að koma aftur úr meiðslum (rifbeinsbrot) og gæti náð leiknum en Simon Davies og Mickael Tavares eru meiddir.

Ef gert er ráð fyrir að Mirallas sé heill, eins og sagt er, tel ég að uppstillingin verði að mestu sú sama og gegn Liverpool: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman. Osman og Neville á miðjunni. Pienaar á vinstri kanti. Mirallas á hægri. Fellaini fyrir aftan Jelavic. Ef Mirallas er meiddur má eiga von á Naismith þar (uppstillingin alveg eins og gegn Liverpool).

Í öðrum fréttum er það helst að nokkuð var rætt um að samningurinn við Moyes rennur út eftir þetta tímabil en hann sagðist alveg sáttur við að bíða með að skrifa undir nýjan þangað til komið er í ljós hvert hann nær með Everton liðið á tímabilinu. Persónulega myndi ég vilja sjá hann skrifa undir 5 ár í viðbót.

Í lokin má geta þess að Coleman og Duffy voru valdir í 26 manna hóp Írlands sem mætur Grikkjum í vináttuleik þann 14. nóvember.

2 Athugasemdir

  1. Halli skrifar:

    1-2 Jelavic og Jagielka

  2. Finnur skrifar:

    Hey, bannað að endurnýta síðustu spá frá mér (Ev-Liv)!! 😉

    Spái 2-0, Jelly m. bæði.